„Háskóli er og á að vera samfélag nemenda og kennara”

„Háskóli er og á að vera samfélag nemenda og kennara og þetta samfélag þarf að rækta sérstaklega,‟ segir Páll Skúlason, prófessor í heimspeki og fyrrum rektor Háskóla Íslands.

Páll segir þetta viðhorf hafa átt ríkan þátt í því að hann lét til sín taka í stjórnsýslu háskólans. „Það þarf að stuðla að því að samgangur sé á milli ólíkra greina, fólk úr ólíkum fræðigreinum kynnist og háskólamenn læri hverjir af öðrum. Það má segja að það hafi verið meginhvöt mín til að taka þátt í stjórnun háskólans, að reyna að stuðla að því að gera háskólasamfélagið öflugra og betra.‟

Á 40 ára starfsafmæli í ár
Páll hóf fyrst störf við Háskóla Íslands haustið 1971 og á því 40 ára starfsafmæli í ár. Páll segir árin í kringum 1970 marka miklar breytingar á háskólastarfinu. Þá voru stofnaðar margar nýjar greinar við skólann, til dæmis sálfræði, bókmenntafræði og heimspeki, og raunvísindin voru einnig að stóreflast í háskólanum. Páll tók virkan þátt í þessari uppbyggingu, bæði sem kennari og einnig sem deildarforseti heimspekideildar árin 1977 til 1979, 1985 til 1987 og aftur 1995 til 1997.

Páll varð síðar rektor Háskóla Íslands og gegndi því embætti á árunum 1997 til 2005. Páll hefur skrifað fjölda bóka um heimspeki og siðfræði. Sú þekktasta er bókin Pælingar, sem hefur verið notuð sem kennslubók í heimspeki um árabil. Páll segir bókina þó ekki beinlínis hafa verið samda sem kennslugagn, heldur hefði bókin verið tilraun til að koma skrifum um heimspeki á framfæri fyrir almenning. „Við vildum ekki aðeins kenna heimspeki sem fag í háskólanum, heldur einnig reyna að auka veg heimspekinnar í íslenskri menningu og stuðla að umræðu um heimspekileg málefni meðal almennings,‟ segir Páll. 

Félag áhugamanna um heimpeki

Samhliða kennslunni stofnaði Páll með öðrum kennurum og nemendum í heimspeki Félag áhugamanna um heimspeki og stóð fyrir því að haldin voru málþing og fyrirlestrar. „Við fengum erlenda heimspekinga til að koma og halda fyrirlestra og það myndaðist hér blómlegur hópur áhugafólks um heimspeki.‟

Margt af skrifum Páls tengdist fyrirlestrum fyrir almenning sem voru jafnframt tengdir því sem hann var að kenna í forspjallsvísindum. „Við lögðum áherslu á að kenna gagnrýna hugsun og siðfræði en slíkt efni á erindi til alls almennings, ekki bara til háskólanema og háskólasamfélags.‟

Páll segist gjarnan líta á háskóla í fyrsta lagi sem samfélag, en einnig sem flókna stofnun sem er háð ákveðnum lögum, reglum, siðum og venjum. Stofnun þar sem menn þurfa að stilla saman strengi sína og taka sameiginlegar ákvarðanir. „Samfélagið og stofnunin eru náttúrulega nátengd, samfélagið blómstrar í skjóli þess að stofnunin virki vel og hafi góðar reglur,‟ segir Páll og bætir við að þriðja sjónarhornið sé að líta á háskólann sem margbrotið fyrirtæki.

„Háskólamenn standa sjálfir í rekstri að verulegu leyti. Það þarf að semja við ríkið um fjárframlög, afla stuðnings í samfélaginu og vinna með fyrirtækjum í landinu. Þetta er heilmikill rekstur og Háskóli íslands er þannig séð í rauninni fjölmennasta fyrirtæki landsins, þegar litið er á alla sem þar starfa, ekki bara kennara heldur líka nemendur.‟ Páll segir virkilega spennandi að taka þátt í því að móta háskóla, bæði sem samfélag, stofnun og sem fyrirtæki. „Það sem gerir háskólann mjög spennandi sem vinnustað eru þessi fjölþættu tengsl, að kynnast fólki úr hinum ýmsu fræðigreinum sem hugsar kannski allt öðru vísi um hlutina en maður sjálfur.‟

Breytingar háskólasamfélagsins

Margt hefur breyst á þeim árum sem Páll hefur starfað við skólann. Í kringum aldamótin voru samin ný lög um háskóla. Einn mikilvægasti þátturinn í þeim var að reyna að auka lýðræðið í skólanum með þeim hætti að hafa háskólafundi, sem núna kallast háskólaþing. Þar koma fulltrúar allra hópa og deilda saman og vinna að stefnumótun háskólans. Fyrsta eiginlega alhliða stefnumótun háskólans verður eftir þetta, um aldamótin 2000. Allt fram að því einkenndist Háskóli Íslands af miklu sjálfstæði deildanna, sem jafnvel voru hver fyrir sig í sínu húsi.

„Þessi stefna í byggingum háskólans stuðlaði að því að gera hverja einingu eins og eyju útaf fyrir sig. Ég hef alla tíð verið mjög andsnúinn þessu. Sem rektor lagði ég áherslu á að háskólinn væri hugsaður sem samfélag og þá þyrftum við að eiga einhverja sameiginlega byggingu, fyrir utan Aðalbygginguna, sem er okkar sameiginlega tákn.‟ Páll kom með þá hugmynd strax um 1980 að í háskólanum væri háskólatorg, þar sem allir ættu erindi og sem yrði samkomustaður háskólans.

Háskólatorg og tölvuvæðing

„Ég reyndi að tala fyrir því í mörg ár, en þetta sjónarmið átti ekki uppá pallborðið hjá deildunum.‟ Þar sem hver deild var með húsnæði fyrir sig og margar deildir vantaði meira rými, var vandi háskólans að forgangsraða, hvaða deild ætti að fá byggingu næst. „Meðal stærstu verkefna minna var að reyna að sannfæra menn um að við þyrftum að reisa þetta háskólatorg og tengja betur saman byggingar skólans. Eitt það ánægjulegasta á mínum ferli, fyrir utan að stuðla að lýðræðislegra stjórnkerfi, var að koma á þessu torgi, sem reyndar var ekki tekið í notkun fyrr en eftir að ég hætti sem rektor.‟

Páli telur tækni- og tölvuvæðinguna ekki hafa breytt grundvallaratriðum í kennslu eða námsháttum. Hann segir þó aukna tölvu- og netnotkun hafa opnað fyrir fjölbreyttari tengsl nemenda og kennara og bjóða uppá önnur samskipti. Eitt það mikilvægasta í því sambandi sé Uglan, sem var hönnuð meðan Páll var rektor. „Uglan er gífurlega mikilvægt náms- og kennslutæki, sem miðill. Hún gefur möguleika á að setja inn efni og senda skilaboð í einu vetfangi, sem var miklu flóknara áður. Þetta hefur að mörgu leyti létt og aukið samskipti kennara og nemenda. Ég held þó ekki að þetta hafi breytt eðli námsins eða kennslunnar í sjálfu sér, sem er í grundvallaratriðum alltaf það sama.‟

Mestu breytinguna á háskólanum telur Páll felast í gífurlegri fjölgun háskólanema og um leið miklu fjölbreyttari hópi nemenda en áður. „Eftir því sem nemendahópurinn er fjölbreyttari hafa nemendurnir ólíkari þarfir, þannig að kennari þarf að reyna að aðlaga sig að meiri breytileika,‟ segir Páll.

Hann bendir einnig á breytingar á háskólanum úr því að vera fyrst og fremst grunnnámsskóli, þar sem kennt var til BA- og BS-gráðu í skóla sem kennir til meistara- og doktorsprófs. „Það má segja að með því höfum við breytt honum í alhliða rannsóknaháskóla,‟ segir hann, og á þá við að komið var á meistaranámi og doktorsnámi við skólann, en helsta breytingin með stefnumótuninni um aldamótin var að stuðla að því að byggja upp meistara- og doktorsnám á sem flestum sviðum og í sem flestum greinum.

Þetta tengdist einnig því að reyna að efla og styrkja rannsóknir kennaranna og um leið að gera háskólann alþjóðlegri, auka samskiptin við erlenda háskóla og gera nemendum kleift að sækja námskeið erlendis. Svipuð þróun átti sér stað um þetta leyti í Evrópu og þannig komu til Erasmus og Sókrates skiptinemakerfin.

Stækkun háskólasamfélagsins

Páll telur stækkun nemendahópsins geta valdið því að það geti verið erfiðara fyrir kennara að sinna hverjum og einum. Hann segir það vera eðli og megineinkenni háskólanáms að gera þá kröfu til nemenda að þeir séu býsna sjálfstæðir í náminu, háskólanám sé alltaf öðrum þræði sjálfsnám. Hugsanlega sé viss tilhneiging til að líta á grunnnámið sem hliðstætt menntaskólanámi en meira sjálfstæði sé í framhaldsnáminu. „Það hefur stundum verið talað um að BA- og BS-prófið sé að verða eins og stúdentsprófið var áður og það kann að vera að nemendahópurinn hafi tekið mið af því,‟ segir Páll.

„Mér virðist sem nemendur ætlist til að það sé tilreitt meira efni ofan í þá en áður, nemendurnir eru orðnir tilætlunarsamari og búast við meiri þjónustu af hálfu kennaranna.‟ Páll telur þetta haldast í hendur við þá hugmyndafræði að nemendur séu viðskiptavinir. Þetta finnst honum afar slæm hugmyndafræði og fráleitt að líta á nemendur sem viðskiptavini sem kennarinn eigi að þjóna.

„Þetta er spillandi og vond hugmynd vegna þess að góð kennsla byggist á því að nemandinn sé að taka þátt lærdómsstarfi, sé að læra á virkan hátt og vinna með kennaranum. Samband nemenda og kennara í háskóla er samstarfsverkefni. Nemandinn er þátttakandi í þekkingarstarfi og kennari lærir alltaf af nemendum sínum. Kennari getur ekki verið góður kennari nema hann sé sjálfur að læra.‟

Oft hefur verið rætt um hvort Háskóli Íslands geti komist á lista yfir hundrað bestu háskóla í heimi. Páll er ekki viss um að það sé skynsamlegt eða raunhæft markmið, hins vegar þurfi skólinn sífellt að bera sig saman við sambærilega skóla erlendis hvað varðar frammistöðu bæði kennara og nemenda.

„Þegar nemendur okkar fara í framhaldsnám og doktorsnám erlendis verða þeir að sýna að þeir standist samanburð við það besta sem gerist í heiminum, þannig við erum stöðugt í samanburði og samkeppni í þessum alþjóðlega heimi sem er í dag orðinn að veruleika. Um leið verður góður háskóli að vera í nánum tengslum við sitt samfélag og þjóna því. Háskólar þurfa því að vera bæði alþjóðlegir og þjóðlegir.‟

Páll telur mikilvægt fyrir háskóla að finna jafnvægi á milli alþjóðasamkeppni og þess að vinna að því að byggja upp samfélagið. „Það eru tvær stofnanir sem hafa mest áhrif í heiminum í dag. Háskólarnir, sem snúast um þekkinguna, og bankarnir sem bera ábyrgð á peningakerfinu. Með sama hætti og bankarnir bera ábyrgð á peningunum, þá bera háskólarnir ábyrgð á þekkingunni. Peningar og þekking eru mikilvægustu öflin í heiminum í dag,‟ segir Páll. 

Páll hefur lengi gagnrýnt að of mikil áhersla sé lögð á hina efnahagslegu vídd í samfélaginu. „Við, manneskjurnar, erum andlega hugsandi verur og háskólar snúast um þessa staðreynd. Við erum hugsandi verur og fræðileg, tæknileg og siðferðileg þekking er það sem skólastarfið snýst um. Öfluga varðveislu og miðlun þekkingar á öllum sviðum. Menn hafa haft tilhneigingu til að líta á háskóla sem stofnanir sem eigi að vinna í þágu efnahagskerfisins. Efnahagskerfið getur auðvitað ekki þrifist án háskóla, en efnahagskerfið á um leið að skapa skilyrði fyrir betra mannlífi, til að við þroskumst sem andlegar verur, bæði í einkalífi og í starfi. Ég þreytist aldrei á að prédika þetta.‟

„Heimspekikennsla og kennsla í siðfræði á erindi“

Páll telur að heimspekikennsla og kennsla í siðfræði eigi erindi við alla nemendur háskólans. Slík námskeið voru áður fyrr skylda í öllum deildum háskólanna í formi forspjallsvísinda sem hafa verið fellt niður víðast hvar. Páll telur að háskólafólk muni aldrei geta axlað ábyrgð sína í samfélaginu nema það hafi hlotið þjálfun í siðfræði og beitingu gagnrýninnar hugsunar, ekki bara í sinni sérgrein heldur almennt varðandi málefni þjóðfélagsins.

Páll hefur hugsað sér að halda áfram kennslu eins lengi og hann getur. Það sem helst togar í hann að halda áfram kennslu er fyrst og fremst samneytið við nemendur. Að fá að deila hugsunum sínum með öðrum og taka þátt í hugsandi samræðum, finnst honum mjög gefandi. „Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri, þó það sé ekki alltaf létt, þá er það samt mjög gefandi. Hver manneskja er einstök og talar og hugsar á sinn hátt. Það að kynnast nýrri manneskju, þó maður kynnist henni ekki mjög náið, er eins og að kynnast nýrri veröld.‟

Greinarhöfundur: Alma Ómarsdóttir, nemandi í blaða- og fréttamennsku við HÍ.
Viðtalið birtist á aldarafmælisvef Háskóla Íslands (aldarafmaeli.hi.is/) þann 3. ágúst 2011.

Háskóli er og á að á að vera samfélag nemenda og kennara


Back to top