„Við þurfum að læra að axla ábyrgð“

Páll Skúlason heimspekingur ræðir um eðli stjórnmála, stöðuna á Íslandi fimm árum eftir hrun og hvað sé til ráða.

Ef einhver íslensk rödd á tilkall til þess að kallast rödd skynseminnar gæti það verið sú sem tilheyrir Páli Skúlasyni, prófessor í heimspeki og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands. Raddblærinn sem hefur í rúm 40 ár leikið um ganga Háskólans og á stundum hljómað úr útvarpstækjum landsmanna kveikir hugrenningatengsl við visku forfeðranna, í henni er endurómur aldanna, sambland íslenskrar menningar og vesturevrópskrar heimspekihefðar.

Páll Skúlason fæddist árið 1945 á Akureyri og ólst þar upp fram til tvítugs. Snemma kynntist hann heimspeki og eftir stúdentspróf við Menntaskólann á Akureyri hélt Páll til náms við Kaþólska háskólann í Louvain (Leuven) í Belgíu. Frá árinu 1971 hefur Páll starfað innan veggja Háskóla Íslands, þar sem hann var rektor á árunum 1997 til 2005. Fyrir utan að leiðbeina heimspekinemum, flytja fyrirlestra í útvarpi og sitja í siðanefndum, stjórnum stofnana og ráða, hefur hann kennt ótal nemendum úr öllum deildum háskólans heimspekileg forspjallsvísindi.

Rétt fyrir síðustu jól gaf Páll út sína tólftu heimspekibók, Ríkið og rökvísi stjórnmálanna. Bókin er safn níu ritgerða sem eru skrifaðar á tímabilinu 1993 til 2013, en allar eiga þær það sameiginlegt að fjalla um eðli stjórnmála. Ég mælti mér mót við Pál til að ræða um efni bókarinnar, stöðu samfélagsins fimm árum eftir hrun og hvað sé til ráða.

Uppeldisfræði og frönsk heimspeki

Áhugi Páls á heimspeki kviknaði í æsku. „Það fyrsta sem ég man eftir að hafa verið að pæla tengdist uppeldi og kennslu. Þegar ég var lítill þá rakst ég á Uppeldið eftir Bertrand Russell og var að reyna að skilja þetta,“ segir hann og hlær. „Á menntaskólaárunum kynnist ég frönskum höfundum – ég sökkti mér ofan í verk Alberts Camus og einnig Jean-Pauls Sartre – og svo verkum Sigurðar Nordals sem höfðu mikil áhrif á mig. Hann opnaði augu mín fyrir því að okkur skortir raunverulega heimspeki hér á Íslandi. Ef við ætluðum að móta nútímasamfélag þá yrðum við að tileinka okkur heimspekilega hugsun.“

Páll telur þörfina á því hugsa heimspekilega ekki síst mikilvæga í stjórnmálum. „Menn þurfa heimspeki til að móta góða stjórnmálastefnu. Einn helsti vandinn við íslensk stjórnmál er að þau hvíla ekki á nægilega almennum og skýrum skilningi á samfélaginu og þeim samfélagsvanda sem við stöndum frammi fyrir.“ Hann viðurkennir að heimspekingar hafi sjaldan verið áberandi í íslenskri umræðu; „það tengist því að heimspekingar eru taldir eiga að fjalla um grundvallaratriði og í hinu daglega lífi eru menn ekkert að hugsa um þau. Menn eru bara á bólakafi í tilteknum málum sem eru efst á baugi á hverjum tíma. Það er þá helst þegar mikil áföll dynja yfir sem fólk fer að spyrja slíkra grundvallarspurninga eins og var áberandi í kjölfar bankahrunsins.“

Einstaklingar hugsa um hag samfélagsins

Heimspekileg hugsun Páls hefur snúist mikið um siðfræði og stjórnmál og hann hefur með ýmsum hætti lagt sig fram við að efla heimspekilegar samræður meðal Íslendinga. Hann hefur fengist við að greina eðli ríkis og stjórnmála svo við getum áttað okkur betur á þessum viðfangsefnum. Ein þeirra hugmynda sem hefur verið leiðarstef í skrifum Páls í gegnum tíðina er að mikilvægt sé að líta á ríkið sem skynsamlega leið samfélagsins til að taka ákvarðanir um sameiginleg málefni – þetta kallar hann skynsemisviðhorf til ríkisins – en ekki einungis sem tæki sem valdamiklir einstaklingar eða stéttir berjast um til að beita í þágu ýmissa sérhagsmuna – það sem hann kallar tæknilegt viðhorf til ríkisins.

„Ríkið sem stofnun hefur tvær hliðar, það er ákveðið form eða skipulag sem heldur utan um samskipti okkar, og það er einnig vald eða afl til að koma hlutum í framkvæmd. Formið felst í lögum og reglum sem eiga að halda utan um samfélagið og gera okkur kleift að taka ákvarðanir í okkar sameiginlegu málum. Aflið er fyrst og fremst fólgið í opinberum stofnunum sem hafa burði til að framfylgja ákvörðununum. Svona kerfi hefur þróast í öllum samfélögum í einni eða annarri mynd. Þetta sýnir okkur náttúrlega eitt um manneskjuna, eða okkur sjálf, en það er að við hugsum ekki bara fyrir sjálf okkur sem einstaklinga heldur sem eina heild.“ segir Páll. „Síðan þróast allt samfélag í átökum – það er barátta milli hópa og stétta um margvísleg gæði og við sem borgarar í tilteknu ríki þurfum að sjá til þess að þessi barátta fari ekki úr böndunum. Þannig er hlutverk ríkisins og þar með okkar sjálfra sem ríkisborgara að vinna markvisst að því að réttlæti ríki í samfélaginu.“

Rökvísi markaðarins

Í nýju bókinni sinni setur Páll fram þekkta greiningu sína á mannlífinu í þrjú mismunandi svið: hið andlega, hið stjórnmálalega og hið efnahagslega. Hvert þessara sviða hefur sín eigin lögmál og innri rökvísi en kenning Páls er að ójafnvægi eigi til að myndast milli þessara sviða, en þá er rökvísi eins sviðs þröngvað yfir á hin sviðin. Í slíkum tilvikum verður samfélagið óskynsamlegt. Þetta hefur oft átt sér stað í gegnum söguna, til dæmis breiddu trúarlegar hugmyndir kirkjunnar úr sér á miðöldum, stjórnmálaleg hugmynd um þjóðina varð allsráðandi á fyrri hluta 20. aldarinnar, en í dag er það efnahagsleg rökvísi markaðarins og hagfræðinnar sem er talin geta útskýrt virkni hluta á öllum sviðum mannlífsins. Þetta telur Páll vera varhugaverða þróun. „Í efnahagslífinu erum við sífellt að reyna að efla ákveðnar leiðir í framleiðslu og sölu, og svo keppa auðvitað sumir að því að verða ríkari og ríkari. Við hrærumst að sjálfsögðu öll á einn eða annan hátt í efnahagslífinu. En ef við hugsum bara eftir brautum þeirrar rökvísi sem þar er um að ræða þá skiljum við ekki samfélagið, hvorki stjórnmálin né hið andlega líf sem að endingu skiptir okkur mestu sem hugsandi verur. Það er því mjög hættulegt ef sá hugsunarháttur verður ríkjandi að efnahagsleg gæði séu það eina sem máli skipti, eins og þegar fólk hugsar „Ég læri bara til þess að fá gráðu sem að gefur mér góða vinnu og há laun.“ Líka sú vafasama hugsun að öll menntun eigi að vera í þágu efnahagslífsins eða atvinnulífsins. Þetta er afskaplega þröngur hugsunarháttur og veldur því að menn misskilja, mér liggur við að segja, bæði sjálfa sig og samfélagið.“

Verkefni stjórnmálanna

„Verkefni stjórnmálanna er að setja lög og reglur til að halda utan um samfélagið og sjá til þess að það fari ekki úr böndunum. Oft myndast spenna milli viðskiptalífsins og stjórnmálanna, löggjafans. Í viðskiptalífinu vilja menn hafa sem minnst af reglum og höftum, en löggjafinn vill tryggja með viðeigandi lögum og reglum að ekki sé haft rangt við. Í efnahagslífinu verða oft til ákveðin öfl sem reyna að hafa áhrif á stjórnmálin og stjórnmál hafa að miklu leyti verið sérhagsmunabarátta. Flestir stjórnmálaflokkar voru upphaflega stofnaðir til að verja hagsmuni ákveðinna stétta, eins og bændastéttar, verkafólks eða verslunarmanna. Við vissar aðstæður getur sérhagsmunabarátta haft verulega spillandi áhrif á stjórnmálin, vegna þess að þá er ekki verið að hugsa um heildarhag. Stjórnmálin eiga að snúast um ákvarðanir sem varða hagsmuni allra – þau eiga að vera skynsamleg umræða um hvað samfélaginu sem heild er fyrir bestu. En um leið þarf að sjálfsögðu að taka tillit til sérhagsmuna af ýmsu tagi, en gæta þess þó umfram allt að sérhagsmunir skaði ekki almannaheill,“ segir Páll.

„Sem dæmi um sameiginleg grunngæði, þá eru stofnanir samfélagsins eitthvað sem við eigum öll aðild að, það eru dómstólarnir, lögregla, heilbrigðiskerfið, skólarnir og svo framvegis. Góðar grunnstofnanir, sem vel er hugsað um, eru forsenda fyrir góðu samfélagi. Sú hætta er sífellt fyrir hendi, eins og við höfum fengið að reyna, að tiltekin sérhagsmunaöfl komi máli sínu þannig fyrir borð að stjórnvöld skeyti ekki sem skyldi um opinberar stofnanir og almannaheill.“

Nýja-Ísland

Páll hefur talað um að í kjölfar áfalls gerist það oft að heimspekin blómstri, en hefur sú orðið raunin á Íslandi í kjölfar umróts síðustu fimm ára? „Já og nei. Mér fannst eins og mörgum strax eftir hrun að þjóðin hefði orðið fyrir andlegu áfalli, reynslu sem myndi taka mörg mörg ár að vinna úr. Nánast allir þjóðfélagsþegnar urðu fyrir umtalsverðu efnahagslegu tjóni og gerðu sér jafnframt grein fyrir því að þjóðarbúið hafði orðið fyrir skaða sem tæki langan tíma að bæta. Um leið blasti við þjóðinni að stjórnvöld höfðu ekki hugsað sem skyldi um þjóðarhag og í raun brugðist grundvallarhlutverki sínu – að gæta almannaheillar. En við vorum engan veginn í stakk búin til að horfast í augu við þennan pólitíska vanda. Stærsta verkefni okkar í dag er að endurnýja svið stjórnmálanna og í þeim efnum eigum við langt í land. Hér þurfum við nýja hugsun um samfélagið og nýjar leiðir til að virkja okkur sjálf sem borgara til að taka þátt í stjórnmálunum. Það var alls ekki við því að búast að okkur tækist að gera þetta strax eftir hrunið. Þá voru alls konar hlutir sem varð að bregðast við samstundis til þess að þjóðfélagsvélin næði að virka, fólk fengi launin sín, fyrirtækin héldu rekstrinum áfram, opinberar stofnanir sinntu þjónustu sinni o.s.frv. Viðleitni stjórnvalda strax eftir hrun og fyrstu árin beindist nánast öll að því að halda efnahagsmaskínunni gangandi. Við þessar aðstæður er mjög erfitt að hugsa til langs tíma. Stjórnvöld og einstaklingar eru uppteknir af tilteknum áhyggjuefnum sem kalla á úrlausn hér og nú. Okkur dreymir oft um skyndilausnir á lífsvandamálum okkar, en í þessu tilviki þá er engri slíkri lausn til að dreifa. Við eigum engan kost annan en mennta sjálf okkur, horfast í augu við blekkingar fortíðar og leita skilnings og þekkingar á raunverulegum aðstæðum okkar og möguleikum,“ segir Páll.

Aðspurður út í hinar ýmsu tilraunir sem hafa verið gerðar á sviði stjórnmálanna á undanförnum árum, segir Páll: „Skemmtilegasta tilraunin var vafalaust Besti flokkurinn. Hann kom með jákvæða hugsun sem lýsir sér kannski best í orðum Jóns Gnarr, þegar hann sagði „við tölum ekki illa um annað fólk.“ En margar þessara tilrauna hafa einkennst af óþolinmæði og óraunsæi.“ Páll hefur lengi talað fyrir því að stjórnarskráin yrði endurskoðuð, en hann telur að það hefði þurft að undirbúa það miklu betur en gert var. „Þetta var gert í fljótheitum og menn ætluðu sér um of. Hins vegar hefur heilmikil vinna verið unnin sem vafalaust mun koma sér vel þegar málið kemst aftur á dagskrá.“

Raunveruleg reiði

Ég spyr hvernig hann upplifir þjóðarsálina nú í dag, sjálfur segist ég greina þar aukna reiði og hörku í hugmyndafræðilegum deilum manna. „Ég held að þetta sé rétt hjá þér, að fjöldi fólks sé undir niðri mjög reiður og ósáttur við hlutskipti sitt: „Af hverju þurfa mín laun að vera skorin niður á sama tíma og lánin mín hækka?“ Svo sjáum við aðra sem eru farnir að maka krókinn með óeðlilega háum launum miðað við aðra launþega,“ segir Páll. Við erum sammála um að þjóðfélagsumræðan eigi oft meira skylt við skotgrafahernað en skynsamlega rökræðu. „Það eru tvenns konar forsendur fyrir skynsamlegri umræðu,“ segir Páll: „Í fyrra lagi þarf fólk að hafa skilning á almennum hugmyndum og hugtökum um úrlausnarefnin og geta gert þau öðrum skiljanleg. Í öðru lagi þurfa að vera til fjölmiðlar sem halda uppi vönduðum umræðuþáttum og vönduðum skrifum um þjóðfélagsmál. Því miður skortir mikið á skilning okkar á ýmsum lykilhugtökum sem eru forsenda skynsamlegra umræðna. Menn tala til dæmis stundum um réttlæti eins og það sé bara það að fá vilja sínum framgengt. Slíkt gengur ekki.“

Jöfnuður, jafnrétti og jafnræði

Í nýjustu ritgerð bókarinnar Réttlæti og samfélagsmyndun setur Páll fram kenningu um þrjár mismunandi gerðir réttlætis á hinum þremur ólíku sviðum mannlífsins: jöfnuður er efnahagslegt réttlæti, jafnræði er stjórnmálalegt hugtak um jafna möguleika ólíkra hópa til að hafa áhrif á landsmálin, og jafnrétti varðar hið andlega svið, það er jöfn tækifæri fólks til að uppgötva og tjá hvað þau telja rétt og satt og færa rök fyrir máli sínu. Allt er þetta nauðsynlegt ef við ætlum að mynda réttlátt samfélag. „Nú á dögum beinist athyglin langmest að jöfnuðinum, sem er að mörgu leyti mjög skiljanlegt, en þar með er ekki tekið nægilegt tillit til jafnréttisins og jafnræðisins. Það er ekki mikið jafnræði í stjórnmálum á Íslandi. Það er rétt eins og stjórnmálunum hafi verið stolið frá almenningi og gerð að leikvelli örfárra einstaklinga. Almenningi er haldið frá stjórnmálum með kerfi sem býður upp á það að örfáir aðilar fara með öll völd í landinu. Svo dæmi sé tekið þá er sjálfstætt ákvörðunarvald ráðherra hér alltof mikið og miklu meira en í nágrannalöndum okkar. Það er mjög erfitt í þessu stjórnkerfi sem við búum við að koma á nokkurri vitiborinni umræðu um sameiginlega hagsmuni. Kerfið eins og það er kallar á fólk sem hefur unun af valdi og þráir að beita völdum, en hefur ekki að sama skapi áhuga á skynsamlegri umræðu.“

Borgaranefndir og lýðræði

Í bókinni setur Páll ekki fram fastmótaðar hugmyndir um hvernig samfélaginu sé best stjórnað, en hann telur mikilvægt að þorri almennings taki beinan eða óbeinan þátt í umræðum um sameiginleg hagsmunamál. „Til þess að vera virkur þátttakandi í stjórnmálum þarf almenningur að hafa aðgang að réttum upplýsingum um það sem hefur gerst og er að gerast í þjóðfélaginu. Hann þarf að geta treyst því að forystumenn þjóðarinnar fari með satt og rétt mál og þeir sæti vandaðri gagnrýni fjölmiðla ef og þegar þeir hugsa fyrst og fremst um að fegra eigin ímynd og afstöðu. Og hann þarf að hafa leiðir til að mótmæla þegar hann er ósáttur við ákvarðanir stjórnvalda og telur þær ekki samræmast almannahag.“ Ég spyr Pál um skoðun hans á beinu lýðræði sem fælist í því að almenningur geti kosið um margvísleg hagsmunamál sín. Páll hefur vissar efasemdir um slíkt fyrirkomulag. „Lýðræði er fyrst og fremst fólgið í því að lýðurinn, almenningur, ræði sín mál og leiði til lykta með aðferðum sem þorri fólks er sáttur við. Kosningar eru ein af slíkum leiðum sem geta hentað við vissar aðstæður. En kosningar einar og sér tryggja ekkert lýðræði, heldur geta þvert á móti gefið lýðskrumurum, sem kæfa alla skynsamlega umræðu, gullið tækifæri til að blekkja almenning. Við slíkar aðstæður er tómt mál að tala um lýðræði.“

Páll telur að borgaranefndir sem fólk veljist í með hlutkesti sé líklega hentugasta leiðin til að framkvæma raunverulegt lýðræði. „Ég sé fyrir mér að við setjum á laggirnar kerfi borgaranefnda þar sem hver nefnd hefði tiltekinn mikilvægan málaflokk til umfjöllunar, svo sem skattamál, heilbrigðismál eða skólamál. Valið yrði í nefndirnar úr þjóðskrá samkvæmt ákveðnum reglum sem myndu tryggja sem mest jafnræði meðal ólíkra þjóðfélagshópa. Nefndirnar hefðu raunveruleg völd til að fjalla um mál og móta stefnu sem Alþingi og sveitarstjórnir yrðu að taka mið af. Þær hefðu trygga stöðu í stjórnkerfinu og yrðu endurnýjaðar reglubundið. Með hverri nefnd störfuðu embættismenn og fólk gæti fylgst með störfum nefndanna. Fámenn þjóð eins og við Íslendingar er í einstaklega góðri aðstöðu til að virkja borgarar landsins með þessum hætti til þátttöku í stjórnmálum. Það yrði mikið verkefni að skipuleggja kerfi slíkra borgaranefnda, ákveða viðfangsefni þeirra, vinnulag og valdsvið. En ég tel að með þessum hætti myndum við smám saman læra að axla pólitíska ábyrgð okkar sem borgarar í hinu íslenska ríki.“

Viðtalið birtist fyrst í DV 7.febrúar 2014. Birt með góðfúslegu leyfi DV.

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson


Back to top