Að nýta eða njóta auðlinda landsins

Náttúrupælingar eru safn greina eftir Pál Skúlason, heimspeking og fyrrverandi háskólarektor, en Páll hefur á áralöngum heimspekiferli sínum hugsað og skrifað mikið um samband manns og náttúru. Í greinunum pælir Páll í mikilvægi þess að tengjast landinu og í ábyrgð okkar gagnvart náttúrunni. Greinarnar í fyrri hluta bókarinnar tengjast allar hugleiðingum hans um eldstöðina Öskju og þeirri andlega reynslu sem hann upplifði við komuna þangað. Í síðari hluta bókarinnar eru greinar sem tengjast því sem Páll kallar siðfræði náttúrunnar. Sjálfur segist Páll lengi vel hafa forðast það að fara í Öskju vegna margmennis.

 

París og Askja

„Þegar ég kom til Öskju í fyrsta sinn voru þar engir og þetta var miklu magnaðari staður en ég hafði nokkurn tíma ímyndað mér. Ég var reyndar upptekinn við allt aðra hugsun því ég var á leið til Parísar og var því með hugann þar. En á leiðinni til baka þá vaknaði spurningin hvað sé líkt með Öskju og París. Þegar ég kom fyrst til Parísar fyrir mörgum árum varð ég fyrir þeirri reynslu að finnast ég vera kominn að miðju heimsins. Eins og ég þyrfti ekki að fara lengra, eins og ég væri kominn á endastöð. Það var sama tilfinningin sem ég upplifði við Öskju, að ég þyrfti ekki að fara neitt lengra, kominn að þungamiðju jarðarinnar sem tengdi okkur beint við öfl hennar.“

 

Við eigum ekki landið, landið á okkur

Askja og París eru mjög ólíkir staðir.

„Já, en það er samt eitthvað skylt með þeim. Þetta eru heildir sem eru heillandi. Annars vegar manngerð heild, borgin París, og hins vegar náttúruleg heild, eldstöðin Askja. Mér finnst ég aldrei hafa skynjað gífurlega krafta náttúrunnar jafn sterkt og í Öskju. Ég varð hugfanginn“

Hvað segir þessi reynsla okkur?

„Það er oft talað um að við eigum landið en mér finnst miklu frekar að Ísland eigi okkur. Það sem gerir okkur að Íslendingum er landið. Við erum Íslendingar fyrst og fremst af því að við búum á Íslandi. Og þannig geta útlendingar komið til landsins og orðið Íslendingar. Það sem ég hef verið að reyna að opna augu fólks fyrir er það að samband okkar við landið er af andlegum toga. Ég held þér að segja að þessi andlega reynsla sé miklu algengari en við gerum okkur grein fyrir. Fólk er sífellt að verða fyrir áhrifum frá náttúrunni. Hún er alltaf að snerta okkur og virkja tilfinningar okkar. Líkt og veðrið gerir. Það hefur allt áhrif á það hvernig við hugsum.“

 

Best að hugsa undir berum himni

Þú byrjaðir mjög snemma á þínum ferli, löngu áður en þú kemur í Öskju og verður fyrir þessari andlegu upplifun, að velta fyrir þér sambandi mannsins við náttúruna.

„Já, mér hefur alltaf fundist að maður hugsi best undir berum himni. Þá verða hlutföllin í veruleikanum réttari en þegar maður er lokaður inni í húsum. Það er eitthvað mjög spennandi við náttúruna. Náttúran er það sem við erum að hugsa um strax og við vöknum til lífs og tilveru og öll heimspeki og hugsun kemst ekki hjá því að glíma við hana. En það má ekki gleyma því að náttúran getur líka verið óhugnanleg og við Íslendingar höfum alla tíð óttast hana, sem er fullkomlega eðlilegt. Það væri óskynsamlegt að óttast ekki náttúruöflin því þau eru óútreiknanleg þrátt fyrir alla okkar þekkingu.“

 

Hálendið breytir hugsuninni

Í greininni „Náttúran í andlegum skilningi“ segir þú að eitt helsta hlutverk siðmenningar okkar sé að standa vörð um þau verðmæti sem náttúran felur í sér. Hvernig stöndum við Íslendingar okkur í því?

„Ég held að við höfum því miður ekki staðið okkur nógu vel í því. Við höfum stundum farið offari í því að umskapa og breyta náttúrunni og við ættum að fara mun varlegar í umgengni við náttúruna, t.d. virkjanaframkvæmdir. Okkar mikilvægasta auðlegð eru víðernin og það þarf svo lítið til að spilla þeim. Það þarf ekki nema einn rafmagnsstaur til að þessar óbyggðir hætti að vera óbyggðir.“

Stundum hefur maður á tilfinningunni að það verði að vera eitthvað fagurfræðilega viðurkennt fyrirbæri á svæðinu til að það sé metið að verðleikum. Að hálendið gjaldi fyrir það að þar sé „ekkert”?

„Já, og ég held að þetta sé mikill misskilningur. Náttúran er stórkostleg hvar og hvernig sem á hana er litið. Menn hugsa öðruvísi á hálendinu, allavega þeir sem leyfa sér að skynja hálendið. Það breytir hugsuninni og þegar þú kemur aftur til byggða þá ertu kannski dálítið önnur manneskja, með óbyggðirnar í þér.“

„Það er mjög auðvelt að halda því fram að við höfum siðferðilegar skyldur gagnvart dýrum en ég held því fram að við höfum líka siðferðilegar skyldur gagnvart landi. Landið leggur grunninn að lífinu og það væri ekkert líf ef ekki væri fyrir moldina, grjótið, eldfjöllin og öskuna. Þess vegna á maður aldrei að skemma land. Það er umgjörð og forsenda lífsins. Hér má nefna efnistöku sem hefur víða stórspillt landinu“

 

Að nýta eða njóta

Í greininni „Að nýta og að njóta“ hugleiðir þú afstöðu okkar til náttúrunnar og segir meðal annars að skilningur okkar á náttúrunni og öflum hennar eigi að ráða því hvernig við nýtum okkur gæði hennar.

„Við byrjum á því að skynja náttúruna og nema hana og leggjum þannig grunn að því hvernig við nýtum hana. Áður en við nýtum náttúruna verðum við að rannsaka hana og leggja mat á gildi hennar. Þetta er grundvallaratriði. Við megum ekki festast í harðri nýtingarafstöðu sem iðulega ræðst af skammtímahagsmunum. En eftir að við fórum að nýta okkur auðlindir náttúrunnar í ríkari mæli þá hefur þessi afstaða því miður fengið of mikið vægi. Sem betur fer eru margir Íslendingar að vakna til vitundar um það hvað þessi afstaða er skaðleg.“

Er það? Það virðast ansi margir telja það vera hagkvæmara að nýta landið frekar en að njóta þess?

„Verkefni okkar er að samræma þessi sjónarmið. Sem dæmi eigum við að nýta víðerni hálendisins fyrir ferðalanga sem sækjast umfram allt eftir að kynnast óbyggðunum og töfrum þeirra. En við höfum að mínum dómi skyldur gagnvart landinu sjálfu og við eigum alls ekki að breyta því nema við höfum mjög ríka ástæðu til þess. Við höfum ekki leyfi til að nýta allar þær auðlindir sem landið býður upp á vegna komandi kynslóða. Verndun hálendisins er vafalaust eitt almikilvægasta verkefni sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir.“

 

Verðum að leggja rækt við samúðargáfuna

Í greininni um anda og óbyggðir veltir þú upp mögulegri gagnrýni á þessar vangaveltur þínar um náttúruna, um þinn andlega skilning á henni sem tengist dulvitund, töfrum og trúarbrögðum miklu frekar en vísindum. Einhverjum kunni af finnst þessar pælingar um andlega upplifun af náttúrunni vera „rómantískar röksemdarfærslur gegn hinum mengaða siðmenntaða heimi”?

„Við höfum í reynd tvenns konar skilning á náttúrunni. Annars vegar þennan vísindalega og tæknilega skilning. En sá skilningur veitir okkur ekki innsýn í raunverulegt samband okkar við náttúruna. Hins vegar er hinn andlegi skilningur þar sem við tengjumst náttúrunni tilfinningalega. Okkar verkefni er að rækta þennan andlegan skilning.“

Hver ætli sé besta leiðin til þess?

„Aristóteles kallaði andann sem tekur á móti veruleikanum „nous pathetikos“, sem á við hug okkar að svo miklu leyti sem hann er móttækilegur fyrir því að skynja. Á íslensku hefur þetta verið þýtt sem samúðargáfa. Samúðargáfan ásamt sköpunargáfunni, nous poetikos, eru okkar grundvallargáfur. Maður nemur veruleikann, fær hann inn í sig, og svo þarf að vinna úr þeirri skynjun til að skapa.

Sköpunargáfunni hefur verið gert mjög hátt undir höfði undanfarið og það er allt gott og blessað, en ég tel að nú þurfum við að leggja meiri rækt við samúðargáfuna. Það gerum við með því að leggja miklu meiri rækt við það að kynna náttúruna og undur hennar fyrir börnum okkar.“

Halla Harðardóttir
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Uppruni: Helgarblað Fréttatímans 12.- 14. desember 2014

Að nýta eða njóta auðlinda landsins

 


Back to top