Ásýnd Eyjafjarðar

Ásýnd Eyjafjarðar

Erindi til flutnings á 70 ára afmæli Skógræktarfélags Eyfirðinga, 13. maí 2000

Í dagbók Jónasar Hallgrímssonar 10. júlí árið 1839 segir frá því er hann leggur upp frá Steinstöðum í Öxnadal  og heldur til Skriðu í Hörgárdal þar sem hann gistir sama kvöld. Mig langar til að lesa hér brot af því sem Jónas skrifar í dagbók sína af þessu tilefni:

"Á þeim snotra bæ býr Þorlákur Hallgrímsson dannebrogsmaður, kunnur mjög fyrir happadrjúga viðleitni til þess að efla garðyrkju. Hann er nú öldungur, hálfníræður, en manna kátastur og ern. Hann leiddi mig afar áhugasamur fram og aftur um alla garða sína og sýndi mér þá; meðal annars var hann sérstaklega ánægður með fáein reynitré sem standa í mesta laufskrúði; öll sprotar af hinni kunnu Möðrufellshríslu. Hún er ævagamall, stór og sjálfsprottinn reynir í Möðrufellshrauni í Eyjafirði, og ganga af henni nokkrar þjóðsögur.

...

Yfirhöfuð er ánægjulegt að sjá með hversu mikilli elsku, mikilli umhyggju, reglusemi og smekkvísi þessi aðdáunarverði öldungur annast garða sína; hann gengur í því ekki einungis á undan öðrum með lofsverðu eftirdæmi, heldur hefur hann einnig fullsannað með mörgum tilraunum að garðyrkju má hæglega stunda á Íslandi, að hún getur verið til fegrunar, til yndis, til verulegra hagsbóta í reynd, og loks að garðyrkjustörf hafa hin heillavænlegustu áhrif á bændur, hvort heldur er til líkama eða sálar. Þorlákur ræddi, þótt háaldraður sé, af miklum áhuga um þá ætlun sína að breyta í skógarlund plægðri og girtri landspildu, ríflega 4000 ferálnum er áður var kartöfluakur. Hann kvaðst glaður yfir því að geta orðið hinum yngri mönnum til gagnsemdar enda þótt hann sjálfur, vitanlega, gæti ekki vænst þess að sjá ávöxt verka sinna, þar sem hann efaðist ekki um að gróskuríkur lundur af því tagi sem hann taldi víst að hægt yrði að koma upp, hefði í för með sér að aðrir gjörðu fyrr en ella nýjar ræktunartilraunir stærri í sniðum sem gengju miklu skár þar eð reynslan, besti kennarinn, og aukin fræðileg þekking myndi leiða til þess að þær yrðu gjörðar af meira viti en hann sjálfur treysti sér til. – Það er sálubót að hitta stöku sinnum fyrir mann sem þennan, er iðjar hugglaður og trúir á betri tíma." (bls. 338-341...)

Þessi tilvitnun minnir okkur á að viðleitnin til trjáræktar á sér langa og merka sögu í Eyjafirði sem vert er að hafa í huga þegar ásýnd Eyjafjarðar er tekin til umræðu. Sú saga hefur mér vitanlega ekki verið skráð og ég kann ekki að rekja hana, en minningin um viðleitni forfeðra okkar á að vera okkur sem nú lifum orkugjafi og hvatning til að hugsa um það sem við getum komið til leiðar við þær aðstæður sem nú ríkja - "til fegrunar, til yndis, til hagsbóta" og til að hafa "hin heillavænlegustu áhrif" á fólk "hvort heldur er til líkama eða sálar", svo ég vitni aftur til orða Jónasar.

Aðstæður okkar eru sannarlega æði ólíkar þeim sem Þorlákur Hallgrímsson bjó við þegar hann gróðursetti reynitréin í Skriðu og lagði á ráðin um skógarlundi fyrir 160 árum sem hann vonaðist til að komandi kynslóðir myndu rækta öllu mannlífi til yndis og hagsbóta í Eyjafirði. Menning okkar og þjóðfélag hefur tekið stakkaskiptum. Stakkurinn er ekki lengur sniðinn eftir vexti og viðhorfum bænda og búaliðs þeirra, heldur eftir vexti og viðhorfum borgarbúa. Nútímamenning er ekki bændamenning, heldur borgarmenning - og sú menning horfir með öðrum augum til landsins og náttúrunnar.

Borgarbúinn horfir á landið úr fjarlægð sem er framandi þeim sem lifir á landinu, lifir af því að rækta það og umbreyta því svo það nýtist í viðleitninni til að afla þeirra gæða sem þarf til að lifa af. Sá sem er alinn upp í borg eða hefur tileinkað sér þau gildi sem þar ríkja lítur á náttúruna og fyrirbæri hennar utanfrá. Sá sem er alinn upp í sveit eða hefur tileinkað sér gildi þeirra sem þar búa horfir ekki á náttúruna eða fyrirbæri hennar utanfrá, heldur skynjar þau sem hluta af sjálfum sér, finnur til hinna náttúrulega aðstæðna innanfrá. Hið sama á við með öfugum formerkjum um afstöðu borgarbúans og sveitamannsins til borgarinnar: Borgarbúinn skynjar hana innanfrá, sveitamaðurinn utanfrá. Svo dæmi sé tekið þá er Reykjavík og höfuðborgarsvæðið allt að miklu leyti hugsað og hannað af gildum og þankagangi sveitamanna sem þangað hafa hópast saman á síðustu áratugum. (Vesturbæingar í Reykjavík hafa raunar líka verið um áratuga skeið meðal mestu sveitamanna landsins, einangraðir frá öðrum landshlutum.) Af þessum sökum er stórborgin okkar "fyrir sunnan" dreifð, ruglingsleg, eiginlega hvorki borg né sveit, og gengur þess vegna undir nafninu "suðvesturhornið". Hröð uppbygging þessa "horns" á landinu stafar af nýrri tækni á öllum sviðum framleiðslu, verslunar og viðskipta sem krefst æ meiri hraða, tíðari samskipta í daglegu lífi, sneggri viðbragða en áður. Og hér stendur "borgin" miklu sterkar að vígi en sveitin: Þar gefst færi á þeim öru, mér liggur við að segja óþolandi öru samskiptum sem nútímatækni krefst. Síminn og öll upplýsingatæknin, sem siglt hefur í kjölfarið (og nú síðast með tölvunetinu), hafa síður en svo dregið úr þörfinni fyrir daglegt samneyti og náin tengsl, öðru nær. Fólkið, sem engist í tölvueinveru sinni daginn langan, dreymir um líkamlega nærveru við aðrar manneskjur, iðandi fjölbreytt mannlíf. Fjölskyldan nægir því engan veginn. Fjölskyldan er orðin fyrirbæri út af fyrir sig, aðgreind frá heiminum þar sem "hlutirnir gerast"; hún er annars vegar "hvíldar- og frístundastaður", hins vegar "hátíðarstaður", þar sem fólk heldur upp á jól, afmæli og fermingar. - Í bændamenningunni var fjölskyldan "framleiðslustaðurinn"; þar "gerðust hlutirnir" sem máli skiptu fyrir samfélagið.

Hvaða máli skipta þessar athugasemdir um nútímann fyrir umræðuefnið "ásýnd Eyjafjarðar"? Þær skipta máli ef við viljum átta okkur á þeim viðhorfum og gildum sem búa á bak við sýn okkar til náttúrunnar og kaupstaðarins og hvernig við metum ásýnd landsins. Fyrir nokkrum árum vann ég að rannsókn á afstöðu fólks og viðhorfum til náttúru og umhverfis í Svíþjóð, Danmörku og á Íslandi. Einn liður í þeirri rannsókn voru viðtöl við íbúa í Eyjafirði um náttúruna og umhverfi þeirra. Við fengum til liðs við okkur reyndan franskan blaðamann til að taka þessi viðtöl og var ég túlkur hans. Við völdum Eyjafjörð vegna sérstöðu hans og þeirrar fjölbreytni í búsetu sem þar er að finna: Fremst búa bændur sem rækta frjósamt land, um miðju hans er bær með margvíslega þjónustu, iðnað og verslun og yst eru sjávarþorp. Náttúrusýn viðmælenda okkar bar keim af því hvar þeir höfðu alið aldur sinn og flestir vildu ekki hrófla við ásýnd landsins og náttúrunnar; það voru einkum borgarbúarnir á Akureyri sem höfðu áhuga á skógræktinni. Við ræddum um hugsanlegt álver við Eyjafjörð og fæstir viðmælenda okkar höfðu hugleitt hvaða breytingu það myndi hafa í för með sér á ásýnd fjarðarins. Þetta kom mér satt að segja á óvart vegna þess að viðhorf fólks almennt til umhverfis og náttúru einkennist af vissri íhaldssemi. Fólk virtist einfaldlega ekki hafa hugsað útí þær gífurlegu breytingar á umhverfinu sem slíkt mannvirki myndi valda.

Þetta tengist raunar þeirri staðreynd að við Íslendingar höfum ekki enn yfirvegað að neinu ráði þýðingu náttúrunnar fyrir okkur og fyrir þróun mannlífs í landinu í framtíðinni. Við höfum verið upptekin af því að tileinka okkur alls kyns nýja tækni en ekki hugsað út í það að sama skapa hvaða áhrif ýmsar framkvæmdir okkar hafa á umhverfið og náttúruna. Og þetta tengist að sjálfsögðu beint þeim breytingum í búsetu sem eru að eiga sér stað og þá um leið þeirri staðreynd að við erum ef svo má segja á milli vita í menningarlegum efnum, höfum ekki enn mótað heilsteypta borgarmenningu og erum þar af leiðandi ekki farin að meta sem skyldi gildi þess að lifa í nánum tengslum við landið og náttúruna. Eða svo ég orði svipaða hugsun með öðrum hætti: Tengsl okkar við náttúruna eru svo náin og okkur svo sjálfsögð og eðlileg að við veltum þeim ekki enn skipulega fyrir okkur - en um leið eru þau að breytast vegna þess að við erum á bólakafi í að tileinka okkur gildi og hugsunarhátt borgarbúans.

Sjálft efnið sem er til umræðu hér í dag - "ásýnd Eyjafjarðar" - er sprottið af hugsunarhætti þess sem horfir úr fjarlægð til landsins og náttúrunnar, ekki bara líkamlegri fjarlægð, heldur andlegri fjarlægð sem gerir þá kröfu til okkar að við tökum afstöðu í huganum til þess sem máli skiptir fyrir skynjun okkar. Umræðan hér í dag er því merki um þá breytingu sem er að verða á afstöðu okkar sjálfra til landsins og um nauðsyn þess að við sjálf yfirvegum þessa breytingu, tökum virkan þátt í að endurmóta okkar eigin þankagang og gildismat, en látum ekki stjórnast af þeim öflum sem eru undirrót þess umbyltingarskeiðs sem við erum að lifa. Þau öfl eru af meið tækninnar, eins og ég nefndi áðan, og tæknin segir okkur hvað við getum gert, ekki hvað við eigum að gera. Vandi okkar er því sá að læra að nýta okkur tæknina í samræmi við þau gildi og verðmæti sem við sjálf kjósum að leggja rækt við. Hér veltur allt á því hvernig við ögum okkar eigin hugsun, öflum okkur þekkingar og skilnings og stuðlum að því að börn okkar og barnabörn hljóti þá menntun og þjálfun sem þeim dugar best til að átta sig á veruleikanum. Ef við viljum af fullum heilindum og alvöru hugsa um "ásýnd Eyjafjarðar", þá eigum við núna að setja fjármunina í að efla allt skólastarf í Eyjafirði. Svo dæmi sé tekið þá ætti að setja um einn milljarð króna til viðbótar til Háskólans á Akureyri og kynda með því undir rannsóknum og fræðastarfi sem mun skila sér margfalt til baka í eflingu mannlífs í Eyjafirði og víðar á Íslandi. Eitt ævintýralegt verkefni væri að fela Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands að setja sameiginlega á laggirnar rannsóknarhóp sem hefði það verkefni næstu fimm árin að gera grein fyrir "ásýnd Eyjafjarðar" og möguleikum okkar á að gera fjörðinn enn byggilegri og margfalda fjölda ferðamanna bæði innlendra og erlendra.

"Ásýnd Eyjafjarðar" er frá náttúrunnar hendi stórkostleg og þeir tæknilegu möguleikar, sem við höfum yfir að ráða í dag, til þess að njóta þeirra náttúrugæða sem Eyjafjörður býður upp á, hlúa að þessum gæðum og auka við þau með margvíslegum hætti, eru einnig stórkostlegir. Hér er ekki aðeins verk að vinna fyrir Eyfirðinga, heldur líka fyrir fólkið sem býr á suðvesturhorninu. Ef sú veikburða borgarmenning, sem þar er að finna, nær að þroskast og dafna, mun áhugi borgarbúa á náttúru landsins og fjarlægari byggðum fara sífellt vaxandi. Samgöngur nútímans gera tvöfalda búsetu líka að raunhæfum kosti fyrir fólk. Sjálfur tel ég mig eiga heima hér í Eyjafirði raunar ekki síður en fyrir sunnan, og ég er sannfærður um að fjöldi fólks mun í framtíðinni kjósa að eiga sér athvarf og vinnuaðstöðu hér fyrir norðan svo fremi að það finni sig velkomið meðal annarra íbúa á svæðinu. Með tvöfaldri búsetu skapar fólk sér miklu fjölbreyttari lífsmöguleika og tækifæri til að vera skapandi - í lifandi tengslum bæði við borgarlífið og náttúru landsins.

Borgin og sveitin veita okkur tvo kosti á að skynja okkar eigið frelsi og þessir tveir kostir bæta hvorn annan upp, styðja og styrkja hvorn annan. Og land okkar gefur okkur einstakt tækifæri á að nýta báða þessa kosti í senn. Ég trúi því að framtíð íslenskrar menningar sé öðru fremur komin undir því að okkur takist að byggja landið með þessum hætti, vera borgarbúar og sveitafólk í senn, skynja borgina og landið bæði innanfrá og utanfrá eftir því sem við sjálf kjósum hverju sinni.

Ein öflug leið til þess er að sameinast um efla skógrækt þar sem hún hentar fyrst og fremst í því skyni að gera landið byggilegra og aðlaðandi til búsetu. Tré og skógar hafa alla tíð haft sérstaka þýðingu fyrir fólk; yfir þeim hvílir viss leynd og helgi sem ef til vill stafar af því að þessar dularfullu lífverur eiga sér rætur í móðurmoldinni. Við, manneskjurnar, erum kannski þegar öll kurl koma til grafar ekki annað en rótlaus tré; við þurfum sjálf að velja okkur staði á landinu og festa þar rætur til að vera í sambandi við veruleikann. Rætur okkar eru af andlegum toga, þær eru tilfinningar sem þarfnast nærgætni og umhyggju, eigi þær að geta safnað í sig orku, þroskast og orðið heilsteyptar. Og þær bera uppi andlegt líf, líf okkar sem hugsandi vera. Og við tengjumst veröldinni ekki síður í huganum en með skilningarvitunum. Ég sé ásýnd Eyjafjarðar fyrir mér í huganum hvar sem er og hvenær sem ég vil finna frið og ró í sálinni.

Ég óska Skógræktarfélagi Eyfirðinga hjartanlega til hamingju með afmælið og alls hins besta í því ræktunarstarfi sem framundan er.

 

Páll Skúlason

Ásýnd Eyjafjarðar

 


Back to top