Lífsgildi þjóðar

Fátt kann að vera okkur Íslendingum hollara um þessi jól og áramót en að íhuga þau verðmæti og gildi sem mestu skipta í lífinu. Mikil og skjót umskipti hafa orðið á þjóðfélaginu og ekki verður undan því komist að endurskoða það gildismat og þann hugsunarhátt sem ríkt hefur að undanförnu. Með þessu erindi vil ég leggja lóð á vogarskálar þess endurmats sem nú mun fara fram. Hugmyndir þær sem ég mun ræða lúta að þeim verðmætum sem í húfi eru í sameiginlegu lífi okkar og hvernig okkur mætti ef til vill takast að gæta þeirra betur en við höfum gert að undanförnu. Vandinn sem við okkur blasir er órofa tengdur þeirri spurningu hvernig við viljum sjá okkur sjálf sem þjóð, hvernig við skiljum sögu okkar og hyggjumst móta samfélag okkar í framtíðinni. Þess vegna kalla ég erindi þetta „lífsgildi þjóðar“.

Lífsgildi þjóðar

Erindi flutt í Ríkisútvarpinu á jóladag 2008.

Birtist sem grein í Skírni vor 2009.


Back to top