Forvitni, þroski, auðmýkt


Ræða við brautskráningu í Háskóla Íslands 19. júní 1999

Ég óska ykkur, ágætu kandídatar, fjölskyldum ykkar og aðstandendum hjartanlega til hamingju með daginn. Nú standið þið á tímamótum og því er vel til fallið að horfa í senn yfir farinn veg og skyggnast fyrir um hið ókomna. Ég hvet ykkur til að nýta þessa hátíðarstund til að hugleiða og ræða hvað gefur lífinu gildi. Hér er af mörgu að taka: Auður, völd og frægð eru oft nefnd sem eftirsótt veraldargæði. Vísindi, listir og leikir eru huglæg gæði sem fólk sækist eftir. Réttlæti, vinátta og frelsi eru meðal þeirra siðferðisgilda sem mest eru lofuð. Í dagsins önn getur einn einasti kaffibolli eða hlýlegt bros bláókunnugrar manneskju gefið lífinu gildi. Þessi ólíku dæmi sýna okkur að það er ekki til neinn einfaldur, sameiginlegur mælikvarði á þau gæði sem gefa lífinu gildi.

Hér á þessari hátíðarstundu eru það prófskírteini ykkar, kandídatar góðar, sem mestu skipta. Við, kennarar ykkar og aðstandendur, njótum þess að sjá ykkur uppskera laun erfiðis ykkar og ástundunar. En hver er ávinningur ykkar? Hverju skilar prófgráðan ykkur?

Því hlýtur hvert og eitt ykkar að svara fyrir sig. En mig langar til að ræða við ykkur um þrennt sem kann að skipta máli þegar þið íhugið þetta. Um leið vil ég leyfa mér að gefa ykkur heilræði sem ég bið ykkur að hugleiða og gagnrýna.

Fyrsta atriðið er þetta: Háskólagráður eru að verða með svipuðum hætti hvarvetna í heiminum og um leið kemur alþjóðlegt eðli háskólanna æ betur í ljós. Sjálf heiti háskólagráðanna bera því líka órækt vitni – B.A. og B.S., M.A. og M.S.-gráða – en þessi heiti eiga rætur að rekja til háskólanáms á miðöldum sem háskólar síðari tíma byggjast á. Háskólagráða ykkar hefur því alþjóðlegt gildi enda eru prófgráður háskóla óspart bornar saman og mat lagt á skóla, meðal annars eftir því hvernig nemendur þeirra standa sig í öðrum skólum eða á öðrum vettvangi að námi loknu. Nemendur frá Háskóla Íslands hafa staðið sig vel í námi og starfi víða um heim og sumir hafa jafnvel náð framúrskarandi árangri. Til að svo megi áfram verða þurfa háskólakennarar sífellt að hyggja vandlega að inntaki hverrar prófgráðu og jafnframt að afstöðu, hugsun og frumkvæði nemenda sinna, íhuga hversu gagnrýnin og skapandi þið, nemendur góðir, eruð að námi loknu, hversu opin og órög þið eruð að fást við ný og óvænt viðfangsefni. Í vísindaskáldsögu, sem ég las nýlega, spyr mjög fullkomið vélmenni manneskju hvað forvitni sé. Maðurinn svarar: „Forvitni er þörf til að auka þekkingu sína." Og vélmennið bregst við þessari skilgreiningu með því að segja: „Slík þörf er til staðar í mér þegar aukin þekking er nauðsynleg til að ljúka ákveðnu verki."

Heilræði mitt er þetta: Látið ekkert hefta forvitni ykkar og frumkvæði við að afla þekkingar og skilnings! Leitist ævinlega við að svala þörf ykkar fyrir að fræðast um það sem ykkur langar til að vita og látið þekkingarþörfina ekki stjórnast, eins og vélmennið gerir, einungis af þeim verkum sem þið þurfið að vinna.

Annað atriði sem ég vil nefna lýtur að sjálfsmati ykkar nú þegar þið hafið náð þessum áfanga. Ég gleymi því aldrei hvílíkur léttir það var mér þegar ég tók við prófskírteini mínu eftir fjögurra ára nám. Ég man að ég hugsaði með mér að ég skyldi aldrei fara aftur ótilneyddur í próf! Aðalatriðið var samt fögnuður yfir að hafa náð settu marki. Fyrr en varði hafði ég svo sett markið á annað próf sem átti eftir að kosta mig meiri sjálfsbaráttu en mig óraði fyrir. Persónuleg reynsla af þessum toga getur verið í senn dýrmæt og dýrkeypt. Hún er dýrmæt vegna þeirrar þjálfunar sem hún getur veitt og þeirrar gleði sem því fylgir að ná þeim árangri sem maður ætlar sér. En hún getur líka verið keypt dýru verði, kannski of dýru, ef við gáum ekki að okkur. Nú er ég ekki að tala um efnisleg gæði, þótt þau skipti vissulega máli, heldur hef ég í huga hvað það kann að kosta okkur, ef við verðum algjörlega upptekin við að ná þeim markmiðum sem við sjálf höfum sett okkur – og skeytum lítt eða ekki um aðra eða gleymum að taka nægilegt tillit til þeirra. Sú „gleymska" þarf ekki að vera af ráðnum hug heldur getur hún stafað af því að við erum með hugann bundinn við annað: Okkur sjálf, okkar eigin frammistöðu eða árangur sem okkur finnst skipta öllu máli í lífinu.

En hvaða lífi? Ég vil nefna við ykkur eina einfalda greiningu á daglegu lífi: Við – og nú á ég við okkur dæmigert fullorðið fólk – lifum í heimi sem skipta má í þrennt: svið einkalífs og fjölskyldu, svið vinnunnar og starfsins sem við gegnum og loks svið þjóðlífsins eða þjóðfélagsins í heild sinni. Við lifum í senn einkalífi, starfslífi og þjóðlífi. Þannig bindum við tilgang hins daglega lífs fjölskyldu og vinum; við bindum hann störfum okkar á vinnustað; og við bindum hann enn fremur við þjóðlífið allt. Þetta sést best á því að þegar alvarleg áföll verða í fjölskyldu, á vinnustað eða í þjóðfélaginu stöndum við öll saman.

Staðreyndin er raunar sú að gildi háskólaprófa hefur löngum verið tengt störfum manna fyrst og fremst: Gráðan sé ávísun á ákveðið starfsheiti. Þetta er vissulega rétt. Sama prófgráðan getur reyndar verið ávísun á mörg ólík störf. En þetta á ekki og má ekki vera eini mælikvarðinn á gildi hennar: Hún á líka að hafa gildi fyrir ykkur til að eiga gott einkalíf og jafnframt til þess að verða virkir þátttakendur í þjóðlífinu, eins og það mótast og birtist með ýmsum hætti á opinberum vettvangi, í fjölmiðlum eða á mannamótum og í menningar- og atvinnulífi. Barátta kvenna fyrir jafnrétti, sem minnst er á þessum degi, hefur ekki síst verið barátta fyrir aukinni menntun kvenna svo að konur geti orðið sjálfstæðari í einkalífi og áhrifameiri í þjóðlífinu.

Heilræðið sem ég vil gefa ykkur hér er þetta: Lítið á prófgráðu ykkar sem áfanga á þroskabraut sem gerir ykkur kleift að gefa meira af sjálfum ykkur í einkalífi og þjóðlífi, ekki síður en í starfslífi ykkar. Eiginleg menntun á að fela í sér þroska til að taka æ dýpri og víðari þátt í undrum tilverunnar sem við erum vitni að á hverjum degi.

Hér kem ég að síðasta atriðinu sem mig langar til að gera að umtalsefni og tengist beint því sem ég hef áður nefnt. Í þetta sinn skal ég nefna heilræðið strax: Hreykið ykkur aldrei af prófgráðum ykkar eða háskólanámi. Þið megið sannarlega vera stolt og ánægð yfir því sem þið hafið vel gert, en þegar ykkur tekst vel þá skuluð þið líka muna að það er mörgu öðru og öðrum að þakka en einungis ykkur sjálfum. Þekkingin á að kenna okkur auðmýkt og þakklæti gagnvart þeim öflum sem hafa líf okkar allt í hendi sér. En því miður sést okkur alltof oft yfir takmarkanir okkar og smæð og teljum okkur sjálf uppsprettu allra gæða. Í merku miðaldariti um dygðir og lesti stendur: „Fyrir þær sakir er ofmetnaður hverjum lesti verri, því að hann gerist oft af góðum verkum, þá er maður drambar í góðum verkum sínum og glatar því fyrir ofmetnað er hann hafði eignast fyrir ást. Allra lasta verstur er ofmetnaður, þá er maður prýðist í kröftum og tekur að dramba í þeim."

Ég skal nefna dæmi um þetta. Háskólanám – eins og raunar margs konar iðnnám – veitir fólki yfirleitt sérþekkingu í tilteknum greinum og þar með vissa yfirburði umfram þá sem ekki hafa slíkt nám að baki. Af ástæðum sem ég kann ekki fyllilega að skýra virðist mér sú skoðun vera furðu algeng meðal Íslendinga að háskólafólk sé í meiri hættu en aðrir að ofmetnast og telja sérstöðu sína, yfirburði eða sérréttindi vera svo merkileg að það hljóti sjálft að njóta virðingar og viðurkenningar umfram annað fólk. Þess vegna hljómar það ekki alltaf sem lofsyrði að segja um einhvern að hann sé „menntamaður", þótt allir séu sammála um að menntun sé eftirsóknarverð. Hér blasir við umhugsunarverð þverstæða. Annars vegar hvetja foreldrar og uppalendur börn sín óspart til mennta en hins vegar er þetta sama fólk iðulega á varðbergi gagnvart þeim sem eiga langt háskólanám að baki og finnst það jafnvel vera yfir sig hafið. Hvernig á að skýra þetta?

Tilgáta mín er sú að þetta eigi sér rætur í þeirri ævafornu trú að þekkingin færi okkur nær æðri sviðum tilverunnar og komi okkur að endingu í tengsl við uppsprettur allrar visku og dýrðar. Hvern dreymir ekki að komast þangað? Og hver óttast ekki þau ósýnilegu og óskiljanlegu öfl sem þar kunna að leynast – og einnig þá sem hafa snert þau með huga sínum? Hver hvetur samt ekki börn sín til að halda á vit viskunnar, þangað sem hann sjálfur hefur þráð að komast?

Að skilja þá undrakrafta sem halda veröldinni saman, þau lögmál sem veruleikinn lýtur, er vafalaust eitt æðsta markmið mannsandans. Háskólar eru meðal annars til þess að gera okkur mannfólkinu kleift að stefna skipulega að þessu marki sem þó er tæpast á mannlegu valdi að ná. Háskólagráður staðfesta að þið, kandídatar góðir, hafið sannað hæfni ykkar til að taka þátt í skipulagðri og um leið óendanlegri þekkingarleit mannsandans. Prófgráðan á að veita ykkur þá vissu að þið hafið náð valdi á hugmyndum, kenningum og aðferðum sem duga ykkur til að standa á eigin fótum andspænis nýjum og óvæntum viðfangsefnum. En gleymið því aldrei að bilið á milli heilbrigðs sjálfstrausts og hrokafullrar sjálfumgleði getur á köflum orðið hverfandi lítið. Verið því aldrei of viss í ykkar sök. Spyrjið, leitið og þakkið. Þá mun ykkar farnast vel.

Háskóli Íslands þakkar ykkur samfylgdina og vonar að hann eigi eftir að njóta vináttu ykkar og stuðnings um ókomin ár.

Megi gæfan fylgja ykkur

Páll Skúlason


Back to top