Háskólahátíð 3. september 1999

Háskólahátíð 3. september 1999
Ávarp Páls Skúlasonar rektors

Oft hefur verið sagt að háskólastarf felist í öflun, varðveislu og miðlun þekkingar og skilnings á heiminum og sjálfum okkur. Í hversdagslegri merkingu er þekking uppsöfnuð reynsla sem hjálpar okkur til að átta okkur á veruleikanum, leysa ýmis verk af hendi og ekki síst að forðast mistök, sem þó henda okkur iðulega. Það er ekki aðeins í háskólum sem þekking er í hávegum höfð. Hvarvetna í störfum sínum aflar fólk sér þekkingar, varðveitir hana og miðlar henni með ýmsum hætti. En hvað sérkennir starf háskóla í þessu tilliti?

Í háskóla er athyglinni beint að þekkingunni sjálfri, hinni uppsöfnuðu reynslu, sem vekur sífellt nýjar spurningar og álitamál sem þarf að brjóta til mergjar. Háskólastarf felst í nákvæmu og skipulögðu endurmati þekkingarinnar sem felur í sér stöðuga viðleitni til að ná fyllri tökum á viðfangsefnunum. Þetta endurmat felur jafnframt í sér viðleitni til að öðlast skilning á því hvernig þekking mannfólksins kemur fram í því sem það gerir, gæti gert eða ætti að gera fyrir tilstyrk hennar. Svo dæmi sé tekið þá er hagfræðin ekki aðeins rannsókn á ólíkum hagkerfum og staðreyndum efnahagslífsins. Hún fjallar líka um hugmyndir manna og skoðanir í þessum efnum og leggur á ráðin um lausn ýmissa úrlausnarefna.

Samkvæmt þessu snýst háskólastarf um að gera sér ljóst hvað mannfólkið hugsar og gerir og hvað það gæti hugsað og gert eða jafnvel hvað það ætti að hugsa og gera – í öllum greinum lífsins. Háskólafólk, fræðimenn, kennarar og nemendur, fæst sífellt við að yfirvega reynslu og þekkingu á öllum sviðum þjóðfélagsins. Slíkt kann að hafa meiri og dýpri áhrif á þróun þjóðfélagsins og viðgang en nokkurn grunar, vegna þess að hér er þýðing þekkingarinnar og gildi hennar fyrir mannlífið í húfi.

Það er margt í þjóðfélaginu nú á dögum sem hvetur háskólafólk til að leggja enn meiri rækt við yfirvegun þekkingarinnar og gera þennan þátt í starfi sínu augljósari en verið hefur. Þróun nýrrar tækni í flestum störfum fólks og samskiptum skiptir hér mestu ásamt þeim breytingum á skipulagi, stjórnun og rekstri sem koma í kjölfar hinnar nýju tækni.

Hin nýju lög um Háskóla Íslands, sem gengu í gildi 1. maí s.l., kalla eftir auknu frumkvæði háskólakennara og stúdenta og raunar alls starfsfólks Háskólans við mótun háskólastarfsins. Framkvæmd laganna byggist á því að háskólakennarar og aðrir háskólaþegnar séu fúsir til að taka virkari þátt í því að móta stefnu og starf skólans en verið hefur og þá jafnframt í því að skoða og ræða stöðu fræðanna í þjóðfélaginu, gildi þeirra og áhrifamátt. Háskólafundurinn, sem fyrirhugaður er í fyrsta skipti dagana 4. og 5. nóvember næstkomandi, gefur okkur mikilvægt tækifæri til að móta framtíðarstefnu Háskólans og þar með háskólamenntunar í landinu. Til að nýta það tækifæri þurfum við að endurmeta okkar eigin starfsemi og gera þjóðinni jafnframt grein fyrir því hvernig við teljum að Háskólinn geti sem best unnið í hennar þágu.

Hér er ástæða til að minna á nokkrar staðreyndir. Háskóli Íslands er ekki stór skóli á alþjóðlegan mælikvarða, einungis með rúmlega 6 þúsund nemendur, um 400 fasta kennara, um 80 sérfræðinga, yfir 1200 stundakennara og um 150 manns í öðrum störfum við stjórnun og rekstur. Erlendir háskólamenn tala oft um þetta sem lágmarksstærð á fullgildum háskóla svo að þar geti skapast það andrúmsloft samræðna, samstarfs og samkeppni sem þarf til að kynda undir blómlegu fræðastarfi, rannsóknum og nýsköpun sem krefst bæði mikillar sérhæfingar og víðsýni fræðimanna. Skólar með 6 til 12 þúsund nemendur eru taldir standa vel að vígi, því þar er svigrúm fyrir mikla fjölbreytni í námi og rannsóknum, en fjölmennið er ekki farið að valda vandræðum. Hérlendis er Háskóli Íslands eina háskólastofnunin sem býr yfir þeirri fjölbreytni og þeim fjölda kennara og nemenda sem getur staðið undir öflugu og auðugu rannsóknar- og fræðastarfi á borð við viðurkennda evrópska og norður-ameríska háskóla.

Sú staða Háskóla Íslands meðal annarra háskólastofnana í landinu, sem hér er bent á, skapar honum einnig sérstöðu á alþjóðavettvangi og sérstakar skyldur umfram flesta aðra erlenda háskóla. Háskóli Íslands hefur skyldur við landið og þjóðina sem á hann og þá einnig við aðra skóla í landinu, þar sem fram fer háskólakennsla. Meginskyldan er sú að tryggja bæði almennt og í einstökum greinum viðgang og þróun vísindalegrar þekkingar í þágu íslensku þjóðarinnar. Þar með er starfsemi Háskóla Íslands forsendan og bakgrunnurinn fyrir margvíslega fræða- og rannsóknarstarfsemi og þá jafnframt uppbyggingu annarra háskólastofnana í landinu. Svipað má segja um Þjóðarbókhlöðuna sem hýsir Landsbókasafn-Háskólabókasafn og stendur á háskólalóðinni.

Umræða um þróun alls háskólastarfs á Íslandi hlýtur að taka mið af þessum staðreyndum. Uppbygging háskólamenntunar hérlendis hvílir á þeirri forsendu að við eigum alþjóðlega viðurkenndan háskóla sem á í nánu samstarfi við marga erlenda háskóla og stendur í harðri samkeppni við þá um góða fræðimenn, góða nemendur og fé úr alþjóðasjóðum til rannsókna og kennslu. Háskóli Íslands er slíkur skóli og þjóðin má vera stolt af því að eiga hann. Þess vegna er líka brýnt að hún geri sér ljósa grein fyrir þessari eign sinni, skynji og skilji að sú eign er jafn mikilvæg og náttúrulegar orkulindir lands og sjávar og jafnvel enn dýrmætari en hlutabréfasjóðir landsmanna.

Hér er rétt að minna á að Háskóli Íslands er ekki fyrirtæki sem stefnir að því að hámarka efnahagslegan hagnað hluthafa sinna. Háskóli Íslands stefnir að því að hámarka þekkingu íslenskrar þjóðar og efla fræðilegan hugsanagang hvarvetna í þjóðfélaginu. Þetta felur í sér að fræðimenn hans hljóta sífellt að spyrja sig hvernig þeir geti miðlað fræðunum enn betur bæði til nemenda sinna og til þjóðfélagsins alls. Þetta felur einnig í sér að Háskóli Íslands hlýtur að vera í sífelldri sjálfsskoðun, sífellt að yfirvega sitt eigið starf bæði í einstökum atriðum og í heild. Og hann þarf líka að grandskoða atvinnulíf þjóðarinnar og leggja á ráðin um að styrkja innviði þess og uppbyggingu á öldinni sem senn fer í hönd.

Þörfin fyrir háskólamenntað starfsfólk vex sífellt og því vaknar ein spurning sem nauðsynlegt er að ræða. Á að stefna að því að nýjungar í háskólakennslu og rannsóknum verði flestar innan vébanda Háskóla Íslands eða á að fjölga sérskólum á háskólastigi? Forsvarsmenn Háskóla Íslands hafa aldrei talað fyrir því að allt háskólanám í landinu fari fram undir merki hans. Öll hagkvæmnisrök mæla samt með því að kraftar Háskóla Íslands séu nýttir sem best og að allar háskólastofnanir í landinu vinni sem mest saman og hafi skynsamlega verkaskiptingu eftir því sem við verður komið. Það er nú þegar ýmis konar samkeppni á milli hinna ýmsu háskólastofnana í landinu – samkeppni um góða nemendur, kennara og fjármuni bæði frá hinu opinbera og einkaaðilum. Stofnanir þessar eru ekki aðeins í samkeppni sín á milli, heldur líka við ýmis fyrirtæki og opinberar stofnanir sem skortir menntað vinnuafl. Þá fer samkeppnin við erlenda háskóla vaxandi með hverju ári. Til að geta tekið fullan þátt í þessari margvíslegu samkeppni þarf Háskóli Íslands annars vegar að geta boðið starfsfólki sínu viðunandi kjör og hins vegar að hafa svigrúm til að gera tilraunir og takast á við ný verkefni í kennslu og rannsóknum. Við þær aðstæður, sem nú ríkja, þarf Háskóli Íslands að marka skýra framtíðarstefnu og leita eftir stuðningi við hana. Slík stefna verður einungis að veruleika með því að háskólakennarar, stúdentar og starfsfólk taki virkan þátt í því að móta hana með rektor og þeim sem stýra starfi deilda, námsbrauta og stofnana Háskólans.

Háskóli Íslands hefur á þeirri öld sem er að líða verið töfraafl í íslensku þjóðfélagi. Hann hefur galdrað fram afburðafólk í ótal greinum sem hefur með störfum sínum átt drjúgan þátt í að skapa þau efnahagslegu, stjórnmálalegu og menningarlegu skilyrði sem þjóðin býr við nú undir aldarlok. Háskólinn hefur gefið af sér margfalt það sem hann hefur tekið til sín, enda er vafamál að nokkur sambærileg stofnun í heiminum sé rekin með jafn litlum tilkostnaði miðað við það sem hún skilar til þjóðar sinnar. Á þeirri öld sem senn gengur í garð þarf Háskóli Íslands að gefa enn meira af sér til að styrkja íslenska þjóð.

Meginmarkmið alls háskólastarfs á Íslandi er að standa undir fræðslu, rannsóknum og þjónustu við landsmenn sem er með því besta sem gerist í heiminum. Háskólakennarar, stúdentar og allt starfsfólk Háskóla Íslands vinnur ötullega og af fullum heilindum að því marki. Og Háskólinn á líka marga hollvini sem vilja leggja sitt af mörkum svo hann megi blómstra og auka enn margfeldisáhrif sín í íslensku þjóðfélagi. Hollvinir Háskólans eru hluti af honum og sama á við alla þá sem láta sig varða öflun, varðveislu og miðlun þekkingar í þágu lands og þjóðar. Í þeim skilningi er Háskólinn ekki afmörkuð stofnun, heldur samfélag allra þeirra sem vilja að þekking og skilningur setji mark sitt á menningu okkar og þjóðlíf.

Páll Skúlason


Back to top