Lifandi þekking

Ræða við brautskráningu í Háskóla Íslands 6. febrúar 1999

Ég óska ykkur, ágætu kandídatar, og fjölskyldum ykkar innilega til hamingju með prófgráðuna. Hún er fagnaðarefni fyrir ykkur sem hafið um árabil stefnt að þessu marki og einnig fyrir Háskólann sem sér árangur af starfi sínu í menntun ykkar og lærdómi. Nú bíður framtíðin þess að þið takið til hendinni á nýjum vettvangi, nýtið kunnáttu ykkar og atorku til að móta veröldina í anda þeirra hugsjóna og drauma, sem þið sjálf eigið, um gott og farsælt mannlíf. Megi sú þekking sem þið hafið öðlast í Háskólanum vera ykkur traustur grunnur til að taka skynsamlegar ákvarðanir í þeim margvíslegu málum sem bíða ykkar. Til að svo megi verða þurfið þið sjálf að vera sívakandi fyrir nýjum hugmyndum, aðferðum og tilgátum. Það er hin lifandi þekking, þekking sem veitir nýja og ferska sýn á viðfangsefnin og heiminn, sem máli skiptir. Og hún lifir ekki með ykkur nema þið sjálf hlúið að henni af alúð og áhuga, haldið áfram að spyrja og efast og draga ályktanir í því skyni að uppgötva áður óþekkt sannindi. Sá sem býr yfir lifandi þekkingu, þekkir líka takmörk sín, veit og viðurkennir að þekking hans fyrnist og deyr, ef hún fær ekki næringu frá nýjum rannsóknum og spurningum. Lifandi þekking er leiðarvísir inn í land hins óþekkta. Hún vísar okkur á viðfangsefni sem enn hafa ekki hlotið verðskuldaða athygli, hún vekur okkur hugboð um áður ókannaðar lendur veruleikans, og hún kyndir undir þeirri þrá sem öðru fremur knýr og eflir mannlega vitund, lönguninni til að kynnast leyndardómum tilverunnar.

I. Ögun hugans

Þessi sígildu sannindi eiga brýnt erindi við samtíma okkar og ekki síst ykkar, ágætu kandídatar. Þið þurfið sífellt að aga hugann og temja ykkur að taka öll viðfangsefni tökum kunnáttu og skilnings. Og þá ríður á að þið ræktið eftir föngum þann garð þekkingar sem þið hafið þegar plægt með námi ykkar í Háskólanum. Þess vegna skuluð þið varast að hugsa eingöngu sem svo að nú sé lokið námi ykkar í tiltekinni grein. Miklu fremur skuluð þið hugsa á þá leið að nýja prófgráðan sé staðfesting þess að þið hafið náð nokkrum tökum á ákveðnum fræðum og nú skipti mestu að auka þau og treysta – hvort heldur þið farið í framhaldsnám eða sinnið öðrum verkefnum í þjóðfélaginu. Ég hef haldið einni lífsreglu að nemendum mínum í heimspeki. Hún er þessi: „Lesið á hverjum degi eitthvað í heimspeki, þó ekki sé nema örfáar setningar." Sama ráð vil ég gefa ykkur: Lesið hvern dag, þótt ekki sé nema örlítið, í þeim fræðum sem ykkur eru hugleikin. Þá gefið þið huga ykkur ofurlitla næringu sem getur virkað eins og andleg vítamínsprauta. Við erum sífellt, meðvitað eða ómeðvitað, að vinna úr þeim hugmyndum og upplýsingum sem okkur berast. Við eigum ekki að láta okkur duga þann efnivið sem borin er á borð fyrir okkur, heldur eigum við sjálf að sækja okkur andlegt eldsneyti til fagbókmennta og vísinda og einnig fagurbókmennta og lista. Þar er ótæmandi uppspretta hugmynda sem geta opnað fyrir nýrri sýn á líf okkar og tilveruna og nýjum möguleikum og tækifærum til að breyta heiminum til hins betra.

Mörgum stendur stuggur af heimi vísinda og fræða og finnst hann svo flókinn og fjarlægur að það sé eins víst að þar ruglist fólk í ríminu og missi jafnvel jarðsamband við heilbrigða skynsemi. Vissulega hafa margir fræðimenn farið ótroðnar slóðir og sett fram tilgátur og kenningar sem enginn fótur hefur virst fyrir í hversdagslegri reynslu, hvað sem síðar kom á daginn. En hættan á því að fólk ruglist í ríminu og glati heilbrigðri skynsemi sinni er mest þegar það er ekki á varðbergi gagnvart einföldunum, alhæfingum og áróðri sem sífellt dynur á því í erli dagsins. Það er engin öruggari leið til að halda sjó í sýndarmenningu samtímans en sú að rækta með sér gagnrýna hugsun. Slíkt gerist ekki sjálfkrafa, heldur einungis með reglubundinni íhugun þar sem hugurinn fær tækifæri til að spreyta sig og takast ótruflaður á við viðfangsefni sín.

Nú þurfið þið, kandídatar góðir, að spyrja – hver fyrir sig – hver þau viðfangsefni eru sem þið viljið glíma við í framtíðinni. Þeirri spurningu getur enginn svarað fyrir ykkur. Þið hljótið sjálf að ákveða lífsstefnu ykkar og leiðir til að takast á við verkefni lífsins. Og því frelsi fylgir líka ábyrgð sem enginn fær skotið sér undan nema með óheilindum eða sjálfsblekkingu.

II. Hver er ábyrgð ykkar?

Mig langar til að ræða nánar þá ábyrgð sem ykkur er lögð á herðar með því að varpa til ykkar tveimur spurningum. Fyrir hverju eruð þið ábyrg? Og gagnvart hverjum eruð þið ábyrg? Lítum á fyrri spurninguna: Á hverju berið þið ábyrgð? Fyrst kemur upp í hugann allt það sem þið hafið tekið að ykkur að annast og hlúa að, börn ykkar, starf eða tiltekin verkefni. Í raun getur manneskja einungis talist bera ábyrgð á því sem er á hennar valdi. Hvað skyldi það vera? Sígilt svar er að vísa til eigin hugsana. Þið berið ábyrgð á hugsunum ykkar og sjálfum ykkur sem hugsandi verum; og þar með á þekkingu ykkar og ákvörðunum, framkomu og breytni. Þessari ábyrgð getur engin manneskja varpað frá sér svo fremi hún sé komin til vits og ára – nema þá með því að afneita sjálfri sér sem frjálsri og hugsandi veru. Þess eru því miður ótal dæmi að fólk neiti að bera ábyrgð á sjálfu sér eða reyni að fela ábyrgðina fyrir sjálfu sér. Slíkt getur fólk gert með ýmsu móti, til dæmis með því að telja sjálft sig öldungis áhrifalaust um gang mála í heiminum, ef ekki leiksoppa örlaga og aðstæðna sem það geti engu ráðið um. Slík afstaða er alltof algeng í þjóðfélagi okkar og þar með lokar fólk augunum fyrir því sem það gæti gert til að breyta heiminum, ef það kysi að beita sér, – hvað þá heldur að fólk leitist við að skilja þau öfl sem eru að verki í þjóðfélaginu og ráðskast með líf þess.

Sú manneskja, sem vill axla ábyrgð á sjálfri sér, eigin hugsunum og ákvörðunum, hlýtur að spyrja sig hver séu þau öfl og kerfi sem hafa áhrif á líf hennar og hvernig hún sjálf geti haft áhrif á þau. Það eru vissulega margir kraftar að verki í tilveru okkar sem við höfum lítinn eða engan skilning á, að minnsta kosti ekki enn sem komið er. Og það eru til voldug félagsleg kerfi sem setja lífi okkar skorður og stýra okkur eftir brautum sínum, bæði leynt og ljóst. Þetta vitum við öll og líka að frelsi okkar verður aldrei algjört, heldur er háð ýmsum takmörkunum og áhrifavöldum. Þessi vitneskja er lykill að því að vera frjáls og ábyrg! Við getum því aðeins verið frjáls og ábyrg að við reynum að skilja eftir föngum þau öfl sem við erum undirorpin og þau kerfi sem við búum við. Þessi áhrifavaldar eru í senn af náttúrulegum og félagslegum toga, og það er hlutverk náttúru- og félagsvísinda að brjóta þá til mergjar og auka þar með frelsi okkar og möguleika á að bera ábyrgð á eigin lífi. Þess vegna þurfum við að vera læs á mál vísindanna, þótt það segi sig sjálft að við verðum ekki öll sérfræðingar í hinum ýmsu greinum þeirra. Slíkt læsi á mál vísindanna er forsenda þess að við getum skilið menninguna sem við tilheyrum og ýmis flókin og mikilvæg málefni sem ræða þarf á vettvangi stjórnmála.

Svo undarlegt sem það er, þá virðast ýmis áhrifamikil fyrirtæki og stofnanir ekki enn hafa gert sér grein fyrir þeim ævafornu sannindum sem hér hefur verið drepið á. Eða þá að þau sjá sér ekki hag í því að halda þeim á lofti, heldur þvert á móti að breiða yfir þau og hylja. Hér eiga fjölmiðlar með sjónvarpsstöðvar í broddi fylkingar stóran hlut að máli. Þeir virðast iðulega starfa á þeirri forsendu að fólk hafi engan áhuga á því að komið sé fram við það sem hugsandi verur sem vilja skilja sjálfar sig og aðstæður sínar, heldur einungis sem óvirka neytendur sem gera engar kröfur um að mál séu skýrð með skilmerkilegum hætti. Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN er vafalaust eitt gleggsta dæmið um slíkt. En evrópskar sjónvarpsstöðvar virðast taka sér vinnubrögð hennar til fyrirmyndar. Fréttatímarnir fyllast smám saman af sundurlausum samtíningi viðburða sem áhorfendur hafa litla eða enga möguleika á að meta hvaða þýðingu hafa vegna þess að þeir eru slitnir úr öllu samhengi.

Hverjir skyldu hafa hag af því að fólk öðlist ekki skilning á því sem er að gerast í heiminum? Hvaða öfl eru það sem vilja halda fólki í ánauð ólæsis og skilningsskorts og hindra um leið að það beri ábyrgð á eigin lífi, öðlist sjálfsvirðingu og metnað til að breyta heiminum til hins betra? Hvers vegna skyldu einhverjir standa gegn því að fólk standi á eigin fótum sem sjálfstæðar, hugsandi verur?

Við skulum varast öll skyndisvör við þessum spurningum. Slík svör fela vísast í sér sleggjudóma sem ógna mannlegri skynsemi og rökræðum. En það telst vonandi ekki vera óréttmæt krafa til fjölmiðla að þar séu stundaðar vandaðar umræður um hagsmunamál þjóðarinnar. Ábyrgð fjölmiðla hlýtur að felast í þeirri skyldu að upplýsa landsmenn sem best um málefni sem snerta almannaheill. Ef á þessu eru alvarlegir misbrestir, þá vaknar sú spurning hvort unnið sé í anda þess lýðræðis sem á að gegnsýra þjóðfélagið.

Ef þið viljið stjórna lífi ykkar, kandídatar góðir, þá komist þið ekki hjá því að takast á við spurningar um þjóðfélag okkar, af þeim toga sem hér er vikið að.

III. Hlutverk og dómgreind

Þá kem ég að síðari spurningunni um ábyrgðina. Gagnvart hverjum eruð þið ábyrg? Áður en ég svara þeirri spurningu vil ég benda á að forsenda þess að manneskja sé ábyrg gagnvart öðrum er sú að hún beri ábyrgð á sjálfri sér. Sá sem ber ábyrgð á sjálfum sér er um leið ábyrgur gagnvart sjálfum sér og öðrum. Hverjir eru þessi aðrir? Þið eruð ábyrg gagnvart þeim sem geta með réttu ef tilefni gefast sakað ykkur um að hafa brugðist sér. Hverjir eru í þeirri stöðu? Bersýnilega ykkar nánustu aðstandendur og vinir, starfsfélagar og fólk sem þið vinnið fyrir – og raunar allir sem þið hafið skyldur við eða eruð skuldbundin með einum eða öðrum hætti. Hér blasir við ábyrgð ykkar gagnvart mannfélaginu í heild sinni sem gerir réttmætar kröfur um að þið vinnið störf ykkar af heilindum og vandvirkni. Ábyrgð ykkar getur líka náð til genginna forfeðra og þá ekki síður komandi kynslóða sem munu dæma þá, sem nú lifa, af ákvörðunum sem skipt hafa sköpum fyrir líf þeirra og lífsskilyrði.

Hvers vegna berið þið ábyrgð gagnvart þeim aðilum sem hér hafa verið taldir? Við því er ekkert einfalt svar, heldur ræðst svarið hverju sinni af þeim hlutverkum sem þið gegnið í lífi viðkomandi og hvaða þýðingu þau hafa. Ábyrgð foreldra gagnvart ungu barni sínu á sér svo augljósar ástæður að það þarf naumast að nefna þær; barnið á allt sitt undir forsjá foreldranna. Ábyrgð borgara gagnvart ríkinu er álíka augljós; ef hún væri ekki til staðar myndi ríkið umsvifalaust hrynja. Ábyrgð kennara gagnvart nemenda er einnig deginum ljósari; ef hún er ekki fyrir hendi verður kennsla marklaus og námi nemendans ógnað.

Hvað skiptir mestu til þess að þið getið borið þá ábyrgð sem fylgir hlutverkunum sem þið takið að ykkur? Í fæstum orðum, dómgreind ykkar og skilningur á því sem gera skal. Hvort tveggja hefur vonandi eflst í námi ykkar við Háskóla Íslands.

Nú hef ég varpað til ykkar, ágætu kandídatar, þeirri spurningu hvernig þið hyggist axla ykkar ábyrgð. Þið getið vissulega spurt á móti hvernig Háskólinn og kennarar hans hafi axlað sína ábyrgð gagnvart ykkur. Þið skuluð ekki hika við að segja okkur til syndanna og benda á það sem betur má fara í starfi Háskólans. Háskólinn og deildir hans þurfa – ekki síður en aðrar stofnanir og fyrirtæki – á réttsýnni og réttlátri gagnrýni að halda.

Um leið og Háskólinn þakkar ykkur fyrir samfylgdina til þessa og óskar ykkur til hamingju með prófgráðuna, þá vonast hann til þess að þið fylgist áfram með starfi hans og takið þátt í því af áhuga. Fólk á ævinlega að láta eftir sér að læra það sem það langar til!

Megi gæfan fylgja ykkur.

Páll Skúlason


Back to top