Fordómar og fullveldi
Forseti Íslands, góðir hátíðargestir
Efnið sem stúdentar hafa valið til umræðu og íhugunar á þessari fullveldishátíð stendur sannarlega nærri hugsun og starfi háskólafólks. Fræðileg, gagnrýnin hugsun er endalaus barátta við fordóma og starf Háskóla Íslands er órofa tengt baráttu fyrir fullveldi Íslendinga. Hvernig tengist þetta tvennt – baráttan við fordómana og barátta fyrir fullveldinu?
Leiðum fyrst hugann að fullveldinu. Fullveldi merkir að hafa fullt vald á eigin málum, lúta ekki framandi valdi, heldur hafa sjálfur eða sjálf forsendur og möguleika til að taka ákvarðanir um eigið líf og lífsstefnu. Í lífi einstaklings er skynsemi hans og þekking helsta forsenda þess að hann geti verið fullvalda, haft tök á eigin málum. Möguleikar hans til þess eru á hinn bóginn háðir ytri aðstæðum sem óvíst er hversu miklu hann fær ráðið um eða getur haft áhrif á. Í lífi þjóðar gegna tilteknar stofnanir hlutverki skynseminnar í lífi einstaklingsins, stofnanir sem gera þjóðinni kleift að hafa tök á eigin málum og leggja á ráðin um stefnu sína og markmið. Og möguleikar hennar ráðast með hliðstæðum hætti af náttúrulegum og sögulegum aðstæðum sem óvíst er hvernig hún fær unnið úr eða getur nýtt sér í lífsbaráttu sinni. Fullveldið, hvort heldur í lífi einstaklings eða þjóðar, er takmarkað eða afstætt, háð annars vegar innri skilyrðum, andlegum forsendum hans eða hennar til að hugsa mál sín af skynsemi með sálargáfum sínum eða stofnunum og hins vegar ytri skilyrðum, efnislegum aðstæðum, náttúrulegum og sögulegum sem hann eða hún þurfa að takast á við.
Einstaklingur eða þjóð geta haft allar innri forsendur til fullveldis, en verið sviptar möguleikum á að nýta þær af ytri aðstæðum. Eins geta þær haft allar ytri aðstæður til að vera fullvalda, en verið ófærar sökum andlegs ósjálfstæðis eða vanþroska til að nýta sér möguleikana sem þær hafa. – Og nú má spyrja: Hversu fullvalda erum við Íslendingar – sem einstaklingar og sem þjóð? Höfum við skynsemi og stofnanir til að vera fullvalda? Gefa náttúrulegar og sögulegar aðstæður okkur möguleika til að vera fullvalda í framtíðinni að svo miklu leyti sem við getum séð hana fyrir okkur? Framhjá þessum spurningum komumst við ekki viljum við takast á við þann vanda og þá vegsemd að vera fullvalda þjóð.
Áður en ég sný mér að fordómum og tengslum þeirri við fullveldið er eitt þýðingarmikið atriði sem ég vil biðja ykkur að hugleiða. Þegar ég segi “við” – þegar við segjum “við” – getur verið átt annars vegar við okkur sem einstaklinga eða hins vegar við okkur sem hópinn eða þjóðina “Íslendingar”. Er “ég” og erum “við” einstakar mannverur, einstaklingar, sem tilheyra af náttúrulegri eða sögulegri tilviljun hópnum “Íslendingar”? Eða er “ég” og erum “við” Íslendingar af náttúrulegri og sögulegri nauðsyn eða örlögum? Með öðrum orðum, er ég sá sem ég er af því ég er fæddur á Íslandi, af íslenskum foreldrum o.s.frv. eða er ég sá sem ég er af því ég er hugsandi vera sem er endalaust að pæla í því hver ég er og hver hann er þessi undarlegi heimur sem umlykur mig? Hvað er það sem gerir mig að mér og þig að þér? – Má ég biðja ykkur að hugleiða þetta? Ég spyr vegna þess að ég óttast að ég sé að ofbjóða ykkur með spurningum sem kunna að virðast fjarstæðukenndar. Rektor Háskóla Íslands hlýtur að vita hver hann er ef hann er með öllum mjalla! En “ég” sem hér tala og embættið, þjónustuhlutverkið sem “ég” gegni eru sitt hvað. Ein mesta heimska okkar mannanna er að rugla saman félagslegum hlutverkum og heilbrigðri sjálfsvitund okkar sem einstaklinga.
Snúum okkur nú að fordómum og því hvernig þeir tengjast viðleitni okkar til að vera í senn fullveðja hugsandi einstaklingar og fullvalda þjóð sem kann að ráða ráðum sínum og byggja upp stofnanir til að halda utan um sameiginleg mál sín. Skjótt frá að segja eru fordómar til marks um ósjálfstæða eða ófullveðja hugsun. Fordómar eru dómar sem felldir eru að óathuguðu máli, það er áður en athugun eða rannsókn hefur farið fram á því hvort þeir fái staðist og þar með áður en við höfum skilið til fulls efnið, veruleikann, sem þeir beinast að eða snúast um.
Hér er að tvennu að hyggja sem skiptir máli til að átta sig á tengslum fullveldis og fordóma. Að leitast við að hugsa á fræðilegan, gagnrýninn hátt byggist á því að við viðurkennum fyrir sjálfum okkur og öðrum, að við höfum ekki enn náð fullum tökum á því sem við erum að reyna að hugsa og skilja. Þessi játning er forsenda viðleitninnar sjálfrar til að átta sig á sjálfum sér og veruleikanum í sínum mörgu og flóknu myndum. Þetta er fyrra atriðið sem ég vildi benda á. Hið síðara leiðir sjálfkrafa af þessari afdrifaríku játningu: Fordómar eru hlutskipti okkar, þeir eru órofa hluti af sögulegum, félagslegum og menningarlegum aðstæðum sem við tökum í arf. Þessar aðstæður setja hugsun okkar, samskiptum og orðræðum ákveðinn ramma, umgjörð sem við hljótum sífellt vitandi vits og óafvitandi að taka mið af. Heimurinn steðjar að okkur, umlykur okkur, orkar sífellt á okkur með dómum sem aðrir hafa þegar fellt um allt sem hefur þegar gerst. Allar frásagnir eru fullar af dómum um menn og málefni, dómum sem við sjálf endurtökum ósjálfrátt með því að hlýða á það sem þegar hefur verið sagt. Og svo segjum við sjálf sögur af því sem við lifum og kynnumst og bergmálum for-dómana sem fest hafa rætur í huga okkar og menningu. Getum við einhvern tíma upprætt þá að öllu leyti? Er hugsanlegt að verða einn góðan veðurdag algerlega fordómalaus? Ég efast um það og ég efast líka um að það væri æskilegt. Við getum ekki skapað heiminn að nýju, en við getum breytt heiminum, reynt að bæta hann og fegra, gera hann réttlátari og vinsamlegri manneskjunum sem hann byggja. Og það gerum við meðal annars með því að reyna að leiðrétta og lagfæra það sem aflaga hefur farið í þeim fordómum sem kynda undir mismunun, ranglæti og kúgun sem viðgengst í heiminum.
Vitundarvakningin um fordóma sem stúdentar efna hér til á að vera og getur orðið mikilvægur liður í baráttunni gegn því sem sundrar okkur og spillir samskiptum okkar. Þeirri baráttu mun seint ef nokkurn tíma ljúka. En viðleitnin sjálf til að verða frjáls og fullvalda nægir til að gefa lífi okkar sem hugsandi einstaklinga og sem þjóðar tilgang og stefnu í átt til þess sem mestu skiptir.
Páll Skúlason