Menntun er barátta gegn böli

Ræða háskólarektors við brautskráningu í Háskólabíói 27. október 2001

Forseti Íslands, kandídatar, deildarforsetar, aðrir góðir gestir.

Ég óska ykkur, ágætu kandídatar, fjölskyldum ykkar og aðstandendum til hamingju með prófgráðuna. Von mín er sú að nám ykkar við Háskóla Íslands hafi veitt ykkur lærdóm, þroska og þjálfun sem reynist ykkur heilladrjúg á lífsleiðinni. Nú hljótið þið að ákveða hvert fyrir sig hvernig þið hyggist móta eigið líf og taka um leið þátt í að skapa okkur sameiginlega framtíð. Hver sem starfs- eða lífsvettvangur ykkar verður þá munuð þið öll hafa áhrif á umhverfi ykkar með hugsun ykkar, skoðunum og ákvörðunum.

Á þessum haustdögum hrökk heimurinn við þegar hryðjuverkin í New York voru framin. Nýjar ógnir steðja að heimsbyggðinni. Stórveldi heimsins eru felmtri slegin og finna til vanmáttar við að tryggja öryggi þegna sinna. Og sjálf virðumst við sem einstaklingar vera öldungis áhrifalaus um gang mála. Hildarleikurinn fer fyrir flest okkar fram í sjónvarpinu, okkur hryllir við og við hugsum hve lánsöm við erum að vera bara áhorfendur.

En erum við bara áhorfendur?

Ég held ekki. Ég held að með hverri hugsun, ákvörðun og athöfn séum við sem einstaklingar virkir þátttakendur í að skapa veröldina og móta lífið og tilveruna við sífellt nýjar og óvæntar aðstæður. Hin óvænta árás 11. september krefst þess af okkur öllum, kandídatar góðir, að við hugsum af enn meiri ábyrgð og fyrirhyggju um það, hvers konar veröld við viljum skapa. Hvernig förum við að því?

Þetta er spurningin sem ég vil biðja ykkur að hugleiða.

Árásin 11. september var einstakt og ólýsanlegt voðaverk sem snart heiminn allan. Á hverjum degi eru raunar framin í heiminum skemmdarverk, glæpir og árásir á fólk, fyrirtæki þess eða stofnanir sem eru óréttlætanleg og þjóna þeim tilgangi einum að eyðileggja og spilla lífi manna. Sumir sem fremja þessi verk telja sig vinna í þágu göfugs málsstaðar, aðrir eru að hefna sín eða einfaldlega að sýna vald sitt. Enn aðrir vinna þessi verk af sjúklegri nautn af því að valda kvöl og pínu. Hverjar sem hvatirnar eru virðist rót þeirra ávallt af sama toga – afneitun lífsins í einhverri tiltekinni mynd þess, afneitun sem birtist í hroka og yfirgangi og afhjúpar um leið minnimáttarkennd og vanhæfni til uppbyggilegra mannlegra samskipta. Þar með er verið að ráðast gegn verðmætamati annarra og hafna því að lífið geti haft óendanlega fjölbreytt gildi og verið metið og skoðað frá ótal ólíkum hliðum.

Mig langar til að benda ykkur á nokkur atriði, ágætu kandídatar, sem kunna að hjálpa ykkur að hugleiða þetta óhugnarlega viðfangsefni.

Ég vil fyrst nefna eitt sem ég tel afar mikilvægt að átta sig á og viðurkenna, en það er vanþekking okkar á því sem gefur lífinu gildi. Því miður eru ýmsar leiðir til að loka augunum fyrir þessari fávisku í stað þess að læra að lifa með henni og reyna sífellt að bæta úr henni eins og kostur er.

Ég ætla að greina ykkur frá þremur ólíkum leiðum sem við höfum tilhneigingu til að fara til að afneita vanþekkingu okkar og horfa þar með framhjá þeim verkefnum sem af henni spretta.

Fyrstu leiðina má kenna við öfgakennda kreddutrú. Hún felst í að telja sér trú um að maður hafi fundið í eitt skipti fyrir öll hin æðstu sannindi um það sem gefi tilverunni gildi og fengið umboð almættisins til að flytja öðrum þessi sannindi með góðu eða illu. Þeir sem fremja hryðjuverk og valda öðrum óbætanlegu böli telja sig vera í fullum rétti; þeir viti hvað það er sem gefi lífinu gildi og þeim leyfist að gera það sem þeim sýnist til að fylgja sannfæringu sinni eftir. Hrokinn og óbilgirnin spretta þá af því að þeir eru blindir á eigin fávisku, telja sig hafa höndlað “sannleikann um lífið” og svífast einskis við að koma sannfæringu sinni á framfæri.

Aðra leiðina má kenna við róttæka tómhyggju um öll gildi og verðmæti. Hún felst í að hafna því að það sé yfirleitt nokkuð sem skipti máli í tilverunni. Samkvæmt henni stafar vanþekking okkar á því sem gefur lífinu gildi af því að það sé ekkert sem gefi því gildi í sjálfu sér. Þar af leiðandi sé það vonlaus viðleitni að reyna að ráða bót á fávisku okkar; hún sé óumflýjanlegt hlutskipti. Ekkert skipti í sjálfu sér máli, lífið sé ekki annað en botnlaus og marklaus barátta lífvera til að viðhalda sér. Og því sé allt réttlætanlegt.

Þriðju leiðina nefni ég bölhyggju, sem boðar að lífið sé í sjálfu sér böl, líkt og Kristján fjallaskáld orti: “Lífið allt er blóðrás og logandi und, sem læknast ekki fyrr en á aldurstilastund”. Þessi hugsunarháttur sækir iðulega að okkur þegar ofbeldið í heiminum virðist yfirþyrmandi og við sjáum engin ráð til að stemma stigu við því. Heimurinn sé á valdi illra afla og örlög okkar séu að þreyja þorrann. Fáfræði okkar um það sem gefur lífinu gildi víkur hér algerlega fyrir vitund okkar um það sem ógnar lífinu og skaðar það.

Hér er hvorki stund né staður til að rökræða að gagni þessar þrjár ólíku leiðir til að bregðast við vanþekkingu okkar á gildum lífsins, þaðan af síður til að hrekja þær með afgerandi hætti. En ég vil leyfa mér, kandídatar góðir, að vara ykkur við þeim af einni mikilvægri ástæðu: Þær útiloka allar skynsamlega rökræðu um það hvað máli skipti í lífinu og hvað gefi því gildi. Þar með hindra þær okkur í því að takast á við okkar eigin fávisku og reyna að bæta úr henni.

Kreddutrúin býður heim blóðugri baráttu í stað skynsamlegrar viðleitni til að vega og meta ólíkar kenningar, hugmyndir og skoðanir fólks á gildum lífsins og gæðum. Sagan er full af dæmum um baráttu þar sem ólíkir félagshópar, smáir eða stórir eftir atvikum, berjast fyrir því að gildismat þeirra og trúarviðhorf séu viðurkennd og verði helst allsráðandi í hugum fjöldans. Og þessi barátta hefur iðulega leitt miklar hörmungar yfir mannkynið.

Tómhyggjan, sem virðist vera rökrétt andsvar við kreddutrúnni, býður heim annarri hættu sem kann að leiða til sömu niðurstöðu. Úr því að ekkert skipti máli þá sé hverjum og einum í sjálfsvald sett að skapa sér það gildismat sem henta þykir hverju sinni. Þar með er litið svo á að gott og illt í hegðun okkar og hugsun sé algerlega afstætt eða breytilegt eftir þeim forsendum sem við gefum okkur. Öll rökræða um gott og illt í mannlífinu er þar með fyrirfram dæmd til að mistakast. Bölið sem við teljum illvirkja valda geta þá aðrir talið blessun fyrir mannkynið. Og aftur virðist málið einungis snúast um baráttu á milli ólíkra hópa eða trúfélaga um hvaða gildismat á að ríkja í heiminum.

Bölhyggja felur einnig í sér höfnun á rökræðu og jafnframt uppgjöf andspænis þeim vanda sem við er að etja sem er yfirgangur illra afla í heiminum. Vonleysi, jafnvel örvænting vegna þess ástands sem ríkir í heiminum, kann að sækja á okkur öll, ekki síst þegar við finnum hve vanmáttug og veikburða við erum. Og þá erum við líka auðveld bráð kreddutrúar eða tómhyggju sem þykjast hvor um sig hafa höndlað “sannleikann” þótt með ólíkum formerkjum sé.

Hvernig getum við varist öfgum kreddutrúar, tómhyggju eða bölhyggju? Með því að yfirvega og skoða það sem ég hef kallað “fávisku” okkar eða vanþekkingu á því hvað gefi lífinu gildi. Hér vil ég benda ykkur á einn þýðingarmikinn greinarmun. Eitt er það sem hugsanlega gefur lífinu sitt lokagildi og annað er það sem kann að gefa lífinu gildi hér og nú eða við tilteknar aðstæður. Ef við leiðum andartak hugann að þessu, þá eigum við að átta okkur á því að vanþekking okkar á því sem gefur lífinu gildi er alls ekki algjör. Við vitum að það er margt sem gefur lífinu gildi, hvað svo sem líður skoðunum okkar á því hvað það er að endingu sem skapar æðsta eða hinsta gildi lífsins. Vel má vera að fáfræði okkar í þeim efnum sé algjör. En fáfræði um það sem gefur lífinu sitt lokagildi merkir ekki að okkur sé ókleift að komast að réttum niðurstöðum um fjölmargt sem sannarlega gefur lífinu gildi umfram sitthvað annað.

Með því að viðurkenna fávisku okkar um það sem gefur lífinu gildi höfnum við kreddutrú. En þar með er ekki sagt að við þurfum við að gangast undir tómhyggju eða bölhyggju. Öðru nær: Játning okkar á fáviskunni á að fela í sér þá heitstrengingu að við ætlum að leggja okkur öll fram um að bæta úr henni eins og okkur er framast unnt. Og það á ekki að draga úr okkur kjark að viðurkenna að okkur mun aldrei takast það fyllilega. Við höfum ekki höndlað og munum aldrei höndla hinn æðsta sannleika.

Ég vona, kandídatar góðir, að ykkur takist að forðast víti kreddutrúar, tómhyggju og bölhyggju. Og ég skal kenna ykkur tvö ráð sem að gagni mega koma í því skyni.

Hið fyrra er þetta: Treystið á mátt ykkar eigin skynsemi! Skynsemi ykkar byggist á tvennu: Annars vegar skilningi á almennum lögmálum tilverunnar á einhverju tilteknu sviði, hins vegar á þekkingu á tilteknum aðstæðum í heiminum. Nám ykkar í Háskóla Íslands á að hafa auðgað skilning ykkar og veitt ykkur margvíslega þekkingu. En gleymið því aldrei að það er undir hverjum og einum komið hvort eða hvernig hann eða hún beitir skynsemi sinni og nýtir sér skilning sinn og þekkingu til að rökræða það sem máli skiptir í heiminum. Það er til fjöldi fólks sem kann ekki eða vill ekki beita skynseminni, heldur fellir alls kyns dóma um gang mála í heiminum án þess að kynna sér þau, reyna að skilja um hvað þau snúast eða öðlast þekkingu á þeim. Veröldina skortir hins vegar skynsamt fólk eða réttara sagt: Veröldin er full af skynsömu fólki sem gerir ekki nægilega mikið af því að berjast gegn ofbeldinu sem brýst iðulega fram í líki hleypidóma og sleggjudóma sem dafna best í skjóli kreddutrúar, tómhyggju og bölhyggju. – Látið aldrei undan ofbeldinu, heldur beitið skynsemi ykkar og rökræðið eins og þið eigið lífið að leysa! Treystið skynsemi ykkar, vegna þess að hún ein getur leyst ykkur úr viðjum fordómanna og vísað ykkur á það sem máli skiptir í tilverunni. Hún gerir það með því að tengja saman skilning ykkar á hinu almenna í lífinu og þekkingu ykkar á hinum sérstöku aðstæðum sem þið búið við. Þetta var fyrra ráðið: Treystið eigin dómgreind, ræktið hana! 

Síðara ráðið er þetta: Hlustið á heiminn! Sjónin er afar takmarkað skilningarvit. Hugurinn nærist ekki síður á heyrn og öðrum hæfileikum til að nema tákn. Heimurinn sendir til sérhverrar manneskju óendanlegan fjölda boða sem hún nemur að langmestu leyti án þess að gera sér grein fyrir því. Hún hefur ekki heldur minnstu hugmynd um það hvernig hún vinnur úr þessum aragrúa skilaboða og hún hefur ekki hugboð um þann fjölda boða sem hún sendir frá sér. Þekking okkar á boðskiptakerfum heimsins er enn í molum og skilningur á táknmálum manna og annarra lífvera er á frumstigi. Nám ykkar í Háskóla Íslands á samt að hafa fleytt fram skilningi ykkar og hæfni til að greina fjölda boða sem ykkur berast frá öðru fólki og umhverfinu almennt. En fyrir alla muni ímyndið ykkur ekki að þar með hafið þið fengið til umráða tæki til að nema öll boð sem ykkur berast og greina þau skýrt og skilmerkilega í sundur. – Hlustið eftir því sem er öðruvísi. Reynið að nema röddina sem þið hafið aldrei heyrt áður og átta ykkur á því sem hún hefur að segja. Hlustið eftir því sem truflar skilning ykkar og dómgreind. Leyfið heiminum að raska ró ykkar. Sjálfsöryggi getur verið veikleiki, ávísun á hroka. Hlustið líka á rödd ykkar eigin langana og hvata hversu óraunsæjar eða fáránlegar sem þær kunna að virðast. Hlustið á ofbeldið sem bærist innra með ykkur sjálfum, raddir reiðinnar sem ólga í brjósti ykkar þegar þið hafið verið ranglæti beitt. Hlustið líka eftir hinu góða sem aðrir vilja gefa ykkur og þið vitið kannski ekki hvernig þið eigið að taka á móti.

Heimurinn er hlaðinn illsku og heimsku, en líka góðmennsku og visku. Athygli fólks beinist fyrst og fremst að hinu fyrrnefnda vegna þess að það ógnar lífinu. Hið síðarnefnda, góðmennskan og viskan, fær merkingu sína andspænis hinu illa, í stöðugri  viðleitni manna til að draga úr böli og bæta lífið. Í því er sönn menntun fólgin.

Um leið og Háskóli Íslands þakkar ykkur fyrir samfylgdina, ágætu kandídatar, óskar hann þess að þið megið taka virkan þátt í að skapa  veröld framtíðarinnar af ábyrgð og fyrirhyggju – með opnum huga fyrir undrum lífsins.

Megi gæfa fylgja ykkur.

Páll Skúlason


Back to top