Efling Háskóla Íslands

Ræða háskólarektors við brautskráningu í Háskólabíói 2. febrúar 2002

Forseti Íslands, ráðuneytisstjóri, kandídatar, deildarforsetar, aðrir góðir gestir.

Stúdentaráð kynnti fyrir stuttu árangur af þjóðarátaki í þágu Háskólans sem stúdentar beittu sér fyrir í tilefni af 90 ára afmæli skólans á síðasta ári, en verndari átaksins var forseti Íslands. Markmið þess var að efla rannsóknir stúdenta víðs vegar um landið, styrkja samstarf Háskólans við atvinnulífið og skora á almenning að sameinast um það verkefni að efla Háskóla Íslands. Átakið hefur skilað umtalsverðum árangri, meðal annars styrktarsjóði sem ber heitið “Þekking stúdenta í þágu þjóðar” og hefur þegar 5 milljónir króna til ráðstöfunar auk þess sem margvísleg kynning á starfi Háskólans hefur farið fram í tengslum við það. Stúdentar hafa fengið til liðs við sig fjölda sveitarfélaga, stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka sem eru reiðubúin að styðja við starf Háskólans og taka þátt í því að byggja hann upp.

Sá jákvæði andi og hugur sem fram kemur hjá stúdentum og samherjum þeirra er Háskólanum mikið fagnaðarefni og á að vera öllu háskólafólki hvatning og innblástur í daglegu starfi. Þess vegna er mér ljúft að þakka stúdentum og þeim fjölmörgu aðilum sem tekið hafa þátt í þessu gefandi og skapandi átaki í þágu Háskóla Íslands á 90 ára afmæli hans. Það afmælisár er að baki og nú horfum við fram á veginn til næstu tíu ára – fram til 100 ára afmælis skólans árið 2011. Ég skynja þetta þjóðarátak sem upphaf markvissrar baráttu við að byggja upp Háskólann næstu tíu árin svo að hann megni að leggja enn meira af mörkum til að skapa blómlegt atvinnu- og menningarlíf í landinu í framtíðinni. Ég efast ekki um að þjóðin gerir sér ljósa grein fyrir því lykilhlutverki sem Háskóli Íslands hefur gegnt við uppbyggingu íslensks þjóðfélags síðustu 90 árin.

  Árangurinn af starfi Háskólans blasir við í íslensku þjóðfélagi.  Kandídatar frá skólanum hafa haslað sér völl á flestum sviðum þjóðlífsins.  Í Háskóla Íslands hafa þeir fengið menntun sem stenst alþjóðlegan samanburð en byggir jafnframt á íslenskum veruleika.  Á Íslandi hefur því þróast þjóðfélag sem er alþjóðlegt og íslenskt í senn.  Með rannsóknum sínum leggja starfsmenn Háskólans sitt af mörkum til þess að hið íslenska samfélag þróist á eigin forsendum.  Kandídatar frá Háskóla Íslands hafa komið að mótun og rekstri grunngerðar þjóðfélagsins, stjórnsýslunnar, skólakerfisins og heilbrigðiskerfisins svo nokkur dæmi séu nefnd.  Ekki er unnt að opna dagblað eða hlusta á ljósvakamiðil án þess að sjónarmið fyrrum nemenda Háskólans komi þar fram.  Það hvílir því mikil ábyrgð á Háskóla Íslands, því starf hans hefur meiri áhrif á þróun íslensks þjóðfélags en starf nokkurrar annarrar stofnunar.

Ágætu kandídatar! Um leið og ég árna ykkur heilla með árangur ykkar, bið ég að íhuga þá ábyrgð sem þið axlið með prófgráðunni sem skírteinin ykkar votta. Prófgráðan á að vera ykkur ávísun á ýmsa möguleika, framhaldsnám og ábyrgðarstörf, því að hún staðfestir að þið hafið öðlast menntun sem sýnir heiminum hvers þið eruð megnug. Háskóli Íslands veit að þið hafið unnið hörðum höndum fyrir þessari prófgráðu og verðskuldið hana. Og hann er ykkur þakklátur fyrir ástundun, einbeitingu og dugnað. Góður háskóli á allt sitt undir góðum nemendum og góðum kennurum.

Gæfa Háskóla Íslands er sú að hafa eignast marga úrvalskennara og úrvalsnemendur sem hafa ekkert látið sér fyrir brjósti brenna í því skyni að byggja upp námsgreinar og ryðja rannsóknum braut. Þannig hefur nafn Háskóla Íslands öðlast viðurkenningu og virðingu vegna frammistöðu nemenda hans og kennara á alþjóðavettvangi. Slík viðurkenning er ekkert hégómamál háskólamanna, heldur varðar sjálfsmynd og sjálfsvirðingu þjóðarinnar ekki síður en frammistaða listamanna okkar eða íþróttamanna. Í vísindum og fræðum skiptir samleikurinn miklu alveg eins og í handboltanum. Það er andinn í liðsheildinni sem skapar þá stemningu, gleði og samstillta kraft sem þarf til að gera góða hluti.

Sú liðsheild sem ber uppi Háskóla Íslands er ekki aðeins núverandi starfsfólk og stúdentar. Fyrrverandi nemendur og allir velunnarar skólans eru hluti af Háskólanum og geta verið virkir í starfi hans.

Þótt athöfn þessi heiti “brautskráning” þá merkir hún ekki, kandídatar góðir, að þið hljótið að hverfa á braut frá Háskólanum. Miklu fremur á hún að tákna að nú ætlið þið sjálf að ryðja braut Háskólans með því að starfa í anda þeirrar menntunar sem þið hlutuð með námi ykkar við skólann. Ég hvet ykkur líka til að halda áfram að sækja námskeið og fyrirlestra í skólanum eftir því sem aðstæður leyfa. Styrkur Háskóla Íslands er ekki síst fólginn í þeirri miklu fjölbreytni fræðagreina sem þar hafa fengið að blómstra og gefið kennurum í ólíkum greinum kost á að kynnast og læra hver af öðrum. Að sjálfsögðu er hverjum nemanda nauðsyn að ná góðum tökum á einhverri tiltekinni fræðigrein, en að því búnu getur það orðið þeim mikill menntunarauki að kynnast öðrum greinum.

Einn fyrrverandi rektor Háskóla Íslands ávarpaði eitt sinn kandídata með þessum orðum:
“Hvort sem þið ljúkið formlegu námi nú eða síðar, þá er námsferli ykkar ekki lokið. Það skiptir litlu hver námsgreinin er og hver störfin verða. Þörfin fyrir stöðuga endurnýjun þekkingar vex.

Þarfir þjóðfélagsins breytast nú örar en nokkru sinni, er við færumst hröðum skrefum nær upplýsingaþjóðfélaginu. Hinn nýi auður upplýsingaþjóðfélagsins er þekking sem endurspeglast í afurðum hátækniiðnaðar, svo sem hugbúnaði og tölvutækni, í líftækni og efnistækni og í öðrum hliðstæðum greinum.

Þessi öra þróun í þekkingariðnaði og tilsvarandi breytingar í atvinnulífinu gera auknar kröfur til háskóla en jafnframt auknar kröfur til ykkar og annarra þjóðfélagsþegna. Við erum nauðug viljug þátttakendur í þessum leik. Þið verðið knúin til símenntunar eða endurmenntunar, því ört er aðstreymi nýrrar þekkingar. Háskólaprófin ykkar eru því áfangapróf í skóla lífsins.”

Þessi orð eru úr ræðu Sigmundar Guðbjarnasonar, prófessors, við fyrstu brautskráningu kandídata í rektorstíð hans haustið 1985. Og þau eiga ekki síður erindi til ykkar, kandídatar góðir, en þeirra sem brautskráðust fyrir 17 árum. Við höfum á þeim árum, sem liðin eru frá því Sigmundur lét þessi orð falla, færst miklu nær því “upplýsingaþjóðfélagi” sem hann vísaði til. Sá þekkingariðnaður, sem hann benti á, hafði ekki á þeim tíma öðlast viðurkenndan sess í atvinnulífi þjóðarinnar. Sennilega hafa fáir áttað sig á framsýni Sigmundar um þróunina og kannski hefur hún jafnvel verið hraðari og meiri en hann sjálfan óraði fyrir.

Á næsta áratug mun hagnýting fræðilegrar og tæknilegrar þekkingar fara sívaxandi í öllum greinum íslensks atvinnu- og efnahagslífs. Og það er deginum ljósara að efling rannsókna og vísindastarfs í Háskóla Íslands er ein mikilvægasta forsenda þess að skapandi þekkingariðnaður fái byr undir báða vængi á Íslandi.

Háskóli Íslands hefur alla burði til að stóreflast sem rannsóknarháskóli sem skapar æ fleiri nemendum, kennurum og sérfræðingum skilyrði til að ná árangri í sínu rannsókna- og fræðastarfi. Til þess að svo megi verða þurfa háskólaráð, deildir og stofnanir skólans að leggjast á eitt og fá til liðs við sig alla þá sem deila þessari framtíðarsýn með okkur.

Svo dæmi sé tekið þá er sameining helstu sjúkrahúsa landsins í einn hátæknispítala – Landspítala-háskólasjúkrahús – mikilvægur liður í því að efla ennfrekar kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum. Háskóli Íslands og Landspítalinn hafa unnið síðustu misseri markvisst að því að að tengja þessar tvær stofnanir enn nánari böndum. Heilbrigðisráðherra skipaði fyrr á þessu ári nefnd til að gera tillögu um framtíðaruppbyggingu Landspítala-háskólasjúkrahúss. Í þessari viku tilkynnti heilbrigðisráðherra þá eindregnu tillögu nefndarinnar að framtíðaruppbygging Landspítalans verði við Hringbraut í sem nánustum tengslum við starfsemi Háskólans og  þar með talið fyrirhugaða vísindagarða í Vatnsmýrinni, en undirbúningur þeirra hefur gengið samkvæmt áætlun. Reykjavíkurborg hefur þegar samþykkt nýtt deiliskipulag fyrir þá, en óvíst er á þessari stundu hvort framkvæmdir hefjist á þessu ári. Þá stendur undirbúningur að lokaáfanga Náttúrufræðahúss nú sem hæst og er stefnt að því að jarðfræði og líffræði flytji þangað haustið 2003.

Þessi áform og framkvæmdir marka skýran sjóndeildarhring fyrir uppbyggingu Háskóla Íslands á næstu árum. Hér gildir nákvæmlega það sama og um þjóðarátakið sem stúdentar efndu til í haust: Það þarf samstillt átak fjölda fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka og opinberra aðila til að gera drauminn um íslenskt þekkingarþjóðfélag að veruleika – samfélag sem byggist á því að skapa fræðilega og tæknilega þekkingu og færa sér hana í nyt með skynsamlegum hætti.

Einn mikilvægast þátturinn í því að byggja upp rannsóknarháskóla er að stórauka og styrkja meistara- og doktorsnám við Háskólann og gera ungu vísindafólki kleift að helga sig rannsóknarnámi á sem flestum fræðasviðum. Fjölgun nemenda í slíku námi hefur verið ótrúleg á allra síðustu árum. Nú eru skráður um 750 nemendur í framhaldsnámið (þar af eru um 70 í doktorsnámi), en fyrir aðeins þremur árum voru þeirum 280 (þar af um 20 í doktorsnámi). Á árinu 1998 voru brautskráðir 40 kandídatar með meistaragráðu, en á síðasta ári voru þeir orðnir um 100. Ef svo fer fram sem horfir verður áætlun Háskólans um að 1000 nemendur verði skráðir í framhaldsnám við skólann árið 2005 orðin að veruleika fyrr en varir – og þótti víst sumum sú áætlun glannaleg þegar hún var sett fram fyrir tæpum tveimur árum.

Nýgerður rannsóknasamningur við menntamálaráðuneytið er mikilvægur áfangi í eflingu rannsókna og rannsóknarnáms við Háskólinn. Meginmarkmið samningsins er að auka rannsóknarvirkni og tryggja að gæði rannsókna og framhaldsnáms uppfylli sambærilegar kröfur og gerðar eru í viðurkenndum erlendum háskólum. Eitt höfuðatriði samningsins er að tengja fjárveitingar til Háskólans vegna rannsókna við mat á árangri og gæðum rannsóknarstarfsins og rannsóknarnámsins. Fyrir mitt þetta ár eiga samningsaðilar að hafa komið sér saman um mælikvarða sem nota skal í því skyni. Til þess að sú framtíðarsýn Háskólans að verða öflugur alþjóðlegur rannsóknarháskóli geti orðið að veruleika verðum við að ná því yfirlýsta markmiði í áföngum að fjárveitingar til rannsókna verði jafnháar fjárveitingum til kennslu.

Fyrir tveimur vikum sat ég fund nýstofnaðra samtaka evrópskra háskóla sem haldinn var í Vínarborg, en eitt meginefni hans var einmitt hvernig háskólarnir þurfa að vinna saman að því að auka og bæta gæði starfsemi sinnar, ekki síst í rannsóknum og rannsóknarnámi. Forsenda þess að háskóli sé meðlimur í þessum samtökum er að hann bjóði upp á vandað doktorsnám, og efling þess er talin meginliðurinn í því að móta eiginlega rannsóknarháskóla.

Háskóli Íslands hefur ekki tök á að bjóða upp á doktorsnám í öllum greinum, enda hefur megináherslan hjá okkur verið sú að móta og þróa meistaranámið eftir föngum. Eigi Háskóli Íslands að standast þær kröfur sem gerðar eru í alþjóðlega viðurkenndum háskólum, segir sig sjálft að við verðum fyrst og fremst að hugsa um gæði rannsóknarnámsins. Margar námsgreinar og deildir Háskólans hafa að undanförnu lagt mikla áherslu á aukið samstarf við virta og viðurkennda háskóla bæði austan hafs og vestan. Þetta samstarf þarf enn að stórauka. Ég nefni nokkur atriði sem hér skipta máli:  Tryggja þarf, svo sem nú er gert í mörgum greinum, að nemendur okkar, einkum í meistaranámi, taki hluta af námi sínu við erlenda háskóla. Fjölga þarf heimsóknum erlendra gistikennara um lengri og skemmri tíma. Kennara okkar þarf að styrkja til mun meiri þátttöku í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi, og við þurfum líka að fá fleiri erlenda stúdenta til náms við Háskólann, ekki síst í meistaranám, en nú eru 464 erlendir nemendur frá 63 þjóðlöndum skráðir við skólann.

Háskóli Íslands hefur svo sannarlega verið að auka alþjóðasamskipti sín á síðustu árum, en til þess að tryggja það að hann vaxi og verði fullburða rannsóknarháskóli verðum við enn efla og styrkja alþjóðasamstarf okkar. Þetta þýðir meðal annars að við verðum að fjölga námskeiðum á ensku, en þau eru núna um 85 að tölu eða um 6% af heildarfjölda námskeiða.

Góðir hátíðargestir! Íslensku háskólaborgararnir í Kaupmannahöfn á 19. öld létu sig ekki einungis dreyma um íslenskt fullveldi, heldur börðust þeir fyrir því af einurð og alvöru og lögðu allt í sölurnar. Þeir voru íslenskir heimsborgarar í hugsun og hegðun. Sköpun Háskóla Íslands var þeirra verk. Og arftakar þeirra hafa verið að verki og eru enn í samfélagi okkar. Eins og íslensku heimsborgararnir í Kaupmannahöfn forðum er ég sannfærður um að íslensk menning og tunga muni lifa af í þeirri holskeflu erlendra áhrifa sem á okkur skellur með sívaxandi afli.

Uppruni Háskóla Íslands í sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga á að vera okkur leiðarljós við það verk sem nú þarf að vinna. Háskóli Íslands er og á að vera þjóðlegasta stofnun Íslands, þjóðskóli, helgaður því markmiði að þjóna íslenskri þjóð með kröftugri sköpun og miðlun fræðilegrar og tæknilegrar þekkingar og endurnýja þar með íslenska menningu. Þessu markmiði fær Háskóli Íslands einungis náð með því að vera jafnframt alþjóðlegasta stofnun Íslands, opinn fyrir andlegum straumum og stefnum vísinda og fræða hvaðanæva að úr veröldinni; og um leið andleg uppspretta og auðlind fyrir umheiminn.

Ágætu kandídatar! Háskóli Íslands óskar ykkur til hamingju með prófgráðurnar og væntir þess að þið verðið brautryðjendur í baráttunni fyrir betri heimi handa okkur öllum og komandi kynslóðum á Íslandi.

Megi gæfa fylgja ykkur.

                                                                                                                                                    Páll Skúlason


Back to top