Mótun menntaríkis

Ræða háskólarektors við brautskráningu í Laugardalshöll 22. júní 2002

Ég hef mál mitt á tilvitnun: “Milli háskóla heimsins er náið samband, eins og eðlilegt er, þar sem þeir vinna allir að hinu sama marki í flestum greinum. Eftirleitin eftir hinum huldu sannindum vísindanna er þeim öllum sameiginleg. Því eru háskólarnir kosmopolitiskar stofnanir, um leið og þeir eru þjóðlegar stofnanir, og hefur reynslan sýnt, að þetta tvent fer ekki í bága hvort við annað. Þetta band milli háskóla heimsins verður æ sterkara og sterkara.” Þetta mælti Björn M. Ólsen, fyrsti rektor Háskóla Íslands, í ræðu sinni við stofnun Háskólans 17. júní 1911. Og hann bætti við: “Þetta samband milli háskóla heimsins er eitt af þeim táknum tímanna, sem benda í þá átt, að þess sje ef til vill ekki langt að bíða, að upp muni renna nýr ‘Fróðafriður’ og að róstur og styrjaldir hverfi úr sögunni. Enn hvernig sem það nú fer, þá er það víst, að háskólarnir eru einn helsti frömuður alheimsmenningarinnar.”

Þótt margar styrjaldir séu að baki er boðskapur þessara orða í fullu gildi núna tæpri öld eftir að þau voru sögð. Háskólar eru alþjóðlegustu stofnanir heimsins, vegna þess að leitin að sannleikanum eftir leiðum vísinda og fræða sameinar mannkynið ofar öllu sem greinir það sundur í þjóðir og ótal ólíka hópa. Um leið er það sú menntun sem fólk öðlast fyrir tilstyrk vísindanna sem gerir því kleift að leggja rækt við sérkenni sín og endurskapa eigin þjóðlegu menningu. Þannig hefur Háskóli Íslands verið mikilvægasta tæki íslensku þjóðarinnar til að tileinka sér og nýta alþjóðleg vísindi og tækni til að byggja upp íslenskt þjóðfélag á síðustu öld og endurnýja þar með íslenska menningu.

Allt þetta hafið þið, ágætu kandídatar, áður heyrt af vörum kennara ykkar eða ráðamanna þjóðarinnar á hátíðarstundum. Þið vitið, að hin vísindalega og tæknilega menntun er aflið sem Íslendingar nýttu sér til að byggja upp íslenskt þjóðfélag á síðustu öld. Þið vitið, að þetta afl mun ráða úrslitum um hvernig til tekst að leysa lífsvandamál mannkyns á þeirri öld sem nú er að hefjast. Þið vitið, að einungis með aukinni menntun og eflingu rannsókna og nýsköpunar í vísindum og tækni getum við Íslendingar eygt von um að lifa af sem sjálfstæð þjóð og taka þátt í heimsmenningunni. Og þið vitið líka, að menntun ykkar, kunnátta, skýr hugsun og góðvild, skiptir sköpum fyrir ykkur sjálf og fjölskyldur ykkar. 

Kandídatar góðir, um leið og ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar til hamingju með prófgráðuna vil ég biðja ykkur að velta fyrir ykkur þessari hugsun um gildi vísinda og menntunar. Ég bið ykkur að hugleiða hana vegna þess að hún virðist svo augljóslega sönn og sjálfsögð að það jaðrar við að vera þreytandi og óþörf endurtekning að nefna hana. “Menntun er það sem mestu skiptir”, “vísindi og tækni bera uppi þjóðfélagið”, “samfélagið er að verða þekkingarþjóðfélag” og svo framvegis. Eru þetta ekki bara innantóm, falleg orð eða setningar sem breiða yfir þá staðreynd að veröldin stjórnast í reynd af allt öðrum öflum en þeim sem kenna má við menntun, vísindi og þekkingu?

Ég skal játa fyrir ykkur að sá grunur læðist æ oftar að mér að þau öfl, sem mestu ráða í heiminum, hafi í reynd lítinn skilning á því hvað hér er raunverulega í húfi og enn minni áhuga á því um hvað málið snýst. Fyrir þeim eru menntun, vísindi og þekking fyrst og fremst hentug tæki til að tryggja völd og áhrif. Fyrir þeim vakir að verja auðlegð og yfirburðastöðu gagnvart fjöldanum sem krefst síaukinnar hlutdeildar í gæðum veraldarinnar. Hér standa alþjóðleg stórfyrirtæki og auðugar stéttir hinna ríku þjóða andspænis almenningi og fátæklingum heimsins. Hinir ríku eiga þann draum að treysta og auka auð sinn með því að framleiða og selja enn meira. Alveg eins og valdhafa dreymir um að verja og styrkja völd sín með því að sigra í næstu kosningum. Alveg eins og íþróttamenn dreymir um frægð og frama með því að vinna næstu keppni, eða listamenn með því að að skapa ódauðleg verk. Ekkert annað skipti meira máli. Eru ekki auður, völd og frægð sannarlega þau veraldargæði sem líf mannfólksins snýst um öllu öðru fremur? Og er þá ekki lærdómsgráða ykkar, kandídatar góðir, fyrst og fremst liður í því að efla stöðu ykkar og möguleika í baráttunni fyrir þessum gæðum?

Ég efast ekki um að svo sé. Lífsbaráttan er barátta um auð, völd og frama – fyrir einstaklinga, fjölskyldur, stéttir og starfshópa, fyrirtæki, stofnanir og ríki. Og eitt mikilvægasta ef ekki almikilvægasta vopnið í þeirri baráttu er menntun, fræðileg kunnátta, sem einungis fæst með strangri þjálfun og lærdómi. En um leið og þetta er sagt má ekki heldur gleyma því að forsenda alls þessa er að við eigum öflugan hóp fólks sem helgar sig því hlutverki að þroska okkur og efla sem manneskjur, vitibornar hugsandi verur.

Við eigum slíkan hóp. Þetta eru kennararnir í skólum landsins frá leikskóla til háskóla. Kennarastéttin á sér óslitna sögu aftur til miðalda. Hólaskóli og Skálholtsskóli eru mestu kraftaverkastofnanir Íslandssögunnar. Á arfi þeirra byggjum við í dag.

Hugsjónin um sanna menntastofnun, góðan skóla, er einföld og skýr: Skólar eiga að vera skýli fyrir vindum veraldar. Skjól til að hugsa, vera einn með sjálfum sér og um leið í samfélagi við aðra þar sem hið sanna og rétta skiptir mestu máli. Ekki auður annar en sá sem þroskar okkur og styrkir. Ekki völd önnur en þau sem leiða okkur í ríki sannleikans. Ekki frami annar en sá að fá að uppgötva mikilvæg sannindi um sjálf okkur og heiminn.

Það er ekki áhlaupaverk að byggja upp skólakerfi í anda þessarar hugsjónar. Raunar þarf sífellt að blása nýju lífi í hugsjónina sjálfa og móta nýjar leiðir til að vinna að framgangi hennar. Á liðnum vetri átti ég þess kost að ræða við fjölmarga skólastjóra grunnskóla, skólameistara framhaldsskóla og rektora annarra háskóla. Af þessum viðræðum lærði ég margt um skólakerfi landsins. Ég nefni tvennt. Í fyrsta lagi að það skortir samfellu og tengsl á milli hinni ólíku skólastiga sem veldur því að skólakerfi okkar er fjarri því að vera eins heilsteypt og skilvirkt og það ætti að vera; hér er brýn þörf fyrir stóraukin samráð og sameiginlega stefnumótun. Í öðru lagi lærðist mér að skólarnir eru að verða æ þýðingarmeiri sem uppeldisstofnanir sem móta hugsunarhátt, gildismat og lífsstíl nemenda sinna; allt skólastarf í landinu verður að taka mið af þessari staðreynd og þessari auknu ábyrgð.

Þetta tvennt segir okkur að stærsta og mikilvægasta verkefnið í skólamálum landsins er að gera okkur skýra grein fyrir því hvers konar manneskjur við viljum ala upp frá leikskóla til háskóla og þar með hvers konar þjóð við viljum að búi í þessu landi í framtíðinni. Hér skiptir mestu hvaða fyrirmyndir, hæfileika og verðmæti menntakerfi okkar heldur fram og boðar börnum okkar og komandi kynslóðum.

Til að átta okkur betur á því um hvað málið snýst er nauðsynlegt að huga að sögunni. Mótun íslenska skólakerfisins er órofa tengd stjórnmálasögu landsins og hugmyndum um það ríki sem við, Íslendingar, höfum viljað móta frá upphafi sjálfstæðisbaráttu okkar á 19. öld. Meginhugmyndin var og er einföld og skýr: Við vildum ráða sjálf okkar málum, ekki lúta erlendu valdi, heldur skapa ríki sem íslenska þjóðin lítur á sem sitt eigið. Til að gera íslenska þjóðríkið að veruleika þurfti að setja á laggirnar skóla til að mennta þær stéttir embættismanna sem gætu borið hitann og þungann af því að halda uppi sjálfstæðu þjóðríki. Stofnun Háskóla Íslands var árangur af langri og strangri baráttu fyrir sjálfstæði, baráttu sem lýkur aldrei á meðan íslensk þjóð vill vera hún sjálf og taka þátt í heimsmenningunni á eigin forsendum. Allt íslenska skólakerfið hefur gegnt og gegnir því lykilhlutverki að ala upp og mennta fólk sem er og vill vera Íslendingar og byggja upp ríki þjóðarinnar.

Hugsjónin um þjóðríkið fæddist á 19. öld og er enn í fullu gildi. En á 20. öld kom önnur hugsjón til skjalanna sem hefur ekki síður sett mót sitt á stjórnmálin og  skólakerfið. Þetta er hugsjónin um velferðarríkið, ríki sem er ætlað að skapa öllum einstaklingum og félagshópum skilyrði til sómasamlegra lífskjara. Forsenda þess er sú að móta öflugt og blómlegt efnahagslíf með fjölda sérhæfðra fyrirtækja og stofnana sem eru rekin af velmenntuðu starfsfólki í ótal greinum. Segja má að skólakerfi landsins hafi ekki haft undan við að stórauka fræðslu af margvíslegum toga til að mæta hinum nýju þörfum þjóðfélagsins fyrir sérfræðinga og kunnáttufólk. Sem dæmi um þetta má nefna þá byltingu sem varð í Háskóla Íslands um og uppúr 1970 þegar fjöldi nýrra greina var tekinn upp bæði í raunvísindum og einnig hug- og félagsvísindum. Annað dæmi er fjölgun skóla á háskólastigi á síðustu árum sem hafa einkum lagt sig eftir að veita fræðslu í greinum sem tengjast verslun og viðskiptum og hagnýtingu tölvutækninnar. Þriðja dæmið er sívaxandi þörf fyrir endurmenntun eða símenntun í fjölmörgum greinum.

Allt er þetta í takt við þær öru breytingar í uppbyggingu og rekstri þjóðfélagsins sem eiga rætur sínar að rekja til nýrra uppfinninga og uppgötvana í vísindum og tækni. En samhliða þessu er heimurinn allur að breytast og hann gerir í vaxandi mæli þá kröfu til okkar að við séum virkir þátttakendur, ekki aðeins í eigin menningu og þjóðfélagi, heldur menningu alls heimsins. Og þetta felur í sér að við þurfum að temja okkur hugsunarhátt og móta menntakerfi sem tekur ekki aðeins mið af því hvernig menntun fólks þarf að vera til að skapa þjóðríki og byggja upp velferðarríki, heldur einnig af því hvernig menntun fólks þarf að vera í ríki sem vill takan fullan þátt í þeirri alheimsmenningu sem háskólar heimsins eiga drýgstan þátt í að móta.

Til að skýra hvað hér er í húfi vitna ég til orða franska hugsuðarins og rithöfundarins Montesquieu sem uppi var á fyrrihluta 18. aldar. Hann var frjór í hugsun og sífellt að velta vöngum yfir sjálfum sér, starfi sínu og þjóð sinni eins og nútímafólki er líka tamt að gera, og ég vona svo sannarlega að þið, kandídatar góðir, gerið af krafti:

“Byggi ég yfir vitneskju um eitthvað sem gæti nýst mér vel, en gæti reynst fjölskyldu minni skaðlegt, gerði ég hana brottræka úr huga mér. Hefði ég vitneskju sem gæti verið fjölskyldu minni heilladrjúg, en skaðað gæti ættjörð mína, myndi ég reyna að gleyma henni. Vissi ég eitthvað sem nýst gæti ættjörð minni, en gæti reynst Evrópu skaðlegt, eða heilladrjúgt fyrir Evrópu en skaðlegt mannkyninu, liti ég á það sem glæp, því að ég er maður í eðli mínu en franskur einungis af hendingu.”[1]

Þetta er sá hugsunarháttur sem öllu skiptir fyrir framtíðina og við eigum að leggja til grundvallar í uppeldi barna okkar af því að hann er í anda sannrar menntunar og vísinda. Þetta er sú hugsun sem innleiða þarf í alla skóla landsins og einnig í íslensk stjórnmál. Íslenska ríkið á vissulega að vera þjóðríki og velferðarríki, en það verður hvorugt ef því tekst ekki að verða það sem mestu skiptir, nefnilega menntaríki, ríki sem setur mennskuna í öndvegi og byggir á þeim verðmætum og réttindum sem varða allar þjóðir, alla félagshópa og alla einstaklinga jafnt.

Ágætu kandídatar! Um leið og ég endurtek hamingjuóskir mínar til ykkar minni ég ykkur á að menntun ykkar, kunnátta, skýr hugsun og góðvild, er það afl sem úrslitum ræður um mótun þess menntaríkis sem Ísland þarf á að haldi svo að hér megi blómstra með börnum okkar, barnabörnum og komandi kynslóðum samfélag lýðræðis og réttlætis, vináttu og frelsis.

 Megi gæfa fylgja ykkur.

Páll Skúlason




[1]Tilvitnun er sótt í ritið Siðfræði handa Amador eftir Fernando Savater, Siðfræðistofnun – Háskólaútgáfan, Reykjavík 2000, bls. 186-187.

Back to top