Um erfiðleika í siðferði og forsendur ákvarðana
Í siðfræði er tekist á við siðferðilegar spurningar á borð við: Hvað eigum við að gera? Hvers konar líf er þess virði að því sé lifað? Hvernig getum við tekist á við spillinguna í heiminum?
Bókin greinist í þrjá hluta. Í fyrsta hluta vakir fyrir höfundi bókarinnar, Páli Skúlasyni rektor Háskóla Íslands og prófessor í heimspeki, að skýra nokkur frumatriði siðferðisins eins og það blasir við honum og að greina erfiðleika sem hann telur steðja að siðferði okkar.
Í öðrum hluta er leitast við að skýra nokkur frumatriði siðfræðinnar og að varpa ljósi á vandkvæði hennar sem sjálfstæðrar fræðigreinar.
Í þriðja hluta bókarinnar er glímt við gátu siðferðisins eins og það horfir við einstaklingi sem finnur sig knúinn til að taka ákvarðanir á siðferðilegum forsendum. Höfuðverkefnið í þriðja hluta er að leita svars við spurningunni á hvaða forsendum unnt er að taka siðferðilegar ákvarðanir.