Straumhvörf í starfi háskóla (Háskólahátíð 1998)

Ræða rektors Háskóla Íslands á Háskólahátíð 5. september 1998

Inngangsorð

Um þessar mundir fer fram mikil umræða í heiminum um stöðu háskóla, hlut-verk þeirra og mikilvægi fyrir þróun þjóðfélags og þroska einstaklinga og ríkja. Ástæður þessa eru deginum ljósari: Á örfáum áratugum hefur vísindaleg og tæknileg þekking valdið djúpstæðum og víðtækum breytingum á þjóðfélagi og mannlífi. Hvarvetna er leitast við að afla þekkingar og nýta hana til að byggja upp þjóðfélagið, finna nýjar leiðir til að framleiða og skapa hvers kyns gæði, auka við-skipti og bæta lífsskilyrði manna og þjóða. Í þessari þróun gegna háskólar lykil-hlutverki. Þess vegna eru nú að verða straumhvörf í starfi þeirra víða um heim. Sumir vilja kalla háskóla „þekkingarverksmiðjur" sem framleiða nýjar aðferðir til að breyta heiminum og lífsskilyrðum fólks, væntanlega til hins betra, þótt um það sé líka deilt. Um leið hefur eftirspurnin eftir svokallaðri „æðri menntun" stóraukist og þá jafnframt aðsókn í háskóla. Verkefni mitt hér í dag er að gera nokkra grein fyrir því hvernig háskólar almennt – og Háskóli Íslands sérstaklega – taka þátt í því að móta þekkingarþjóðfélag samtímans og framtíðarinnar. Fyrst mun ég ræða um einkenni háskólastarfs og þær kröfur sem gera skal í háskólum og til háskóla. Í öðru lagi mun ég fjalla um þróun Háskóla Íslands og gera grein fyrir breytingum sem unnið er að á skipulagi hans. Í þriðja lagi mun ég greina frá nokkrum nýmælum og þróunarverkefnum sem miða að því að efla í senn rannsóknir, kennslu og þjónustu Háskólans við landsmenn. Í fjórða og síðasta lagi mun ég víkja að starfi háskólakennara og þeim skyldum og væntingum sem við það eru bundnar.

Einkenni háskóla

Þegar málefni háskóla ber á góma er nauðsynlegt að hafa vissar staðreyndir í huga. Háskólar eru meðal elstu stofnana í heiminum. Þeir eiga rætur að rekja til miðalda og jafnvel til enn eldri stofnana sem Grikkir og Arabar komu á fót áður en menntastofnanir voru reistar í Evrópu. Elstu háskólar Evrópu eru frá 12. og 13. öld. Þeir voru lærdómssetur þar sem menn stunduðu hin ýmsu fræði, kenndu upprennandi fræðimönnum og menntuðu lækna, lögfræðinga og kennimenn. Síðan þá hefur verið stofnað til háskóla við margvíslegar aðstæður um víða veröld. En kjarninn í starfsemi þeirra er og hefur alla tíð verið hinn sami: Skipuleg leit að þekkingu á staðreyndum og lögmálum og viðleitni til að skilja þýðingu þeirra og samhengi. Niðurstöður þessarar viðleitni skulu settar fram og ræddar í hópi fræðimanna sem leitast við að meta sannleiksgildi þeirra og þar með gildi aðferða og röksemda sem eiga að sýna réttmæti kenninga eða skoðana. Frumreglan er virðingin fyrir hinu sanna og rétta. Enginn skal trúa því að eitthvað sé satt og rétt nema hann hafi rök sem sýna að svo sé. Hér skipta samræður fræðimanna öllu máli. Tilgangur þeirra er að leiða í ljós hvort við höfum gild rök fyrir tilteknum niðurstöðum eða kenningum. Í þessu felst viss skilgreining á háskóla: Háskóli er samfélag þar sem hópur fólks vinnur að öflun þekkingar og skilnings og ræðir með reglubundnum hætti um niðurstöður sínar og aðferðir í þeirri von að komast nær hinu sanna og rétta. Ég segi „samfélag" en við getum líka sagt „stofnun" eða „staður", en mestu skiptir að þar fari fram agaðar samræður sem þjóna þeim tilgangi að færa okkur dýpri og öruggari skilning á viðfangsefnum okkar. Háskólar eru ekki einu stofnanirnar eða staðirnir þar sem menn stunda reglubundnar samræður. Nærtæk samlíking er Alþingi Íslendinga. Það er líka ævaforn stofnun sem heldur uppi skipulegum samræðum í ákveðnu skyni. En tilgangur þeirra er annar en samræðna í háskólum. Hann er sá að ræða hagsmunamál samfélagsins, leysa deilur, setja lög og taka ákvarðanir fyrir samfélagið í heild. Slíkar samræður gera að sjálfsögðu ráð fyrir því að menn hafi skilning á málefnunum sem um er að ræða og geri sér ljósa grein fyrir þeim hagsmunum sem í húfi eru. Þess vegna tekur hin pólitíska samræða gjarnan mið af niðurstöðum og rökum þeirra fræða sem iðkuð eru í háskóla og meðal háskólamanna úti í þjóðfélaginu.

Skoðum aðeins nánar eðli hinnar fræðilegu samræðu. Slík iðja þjónar ekki öðrum tilgangi en þeim að leita sannleikans og leiða hann í ljós. Þar eru menn ekki knúnir til að taka ákvarðanir með sama hætti og á Alþingi eða sætta sig við niðurstöður meirihlutans. Þetta stafar af eðli fræðastarfsins: Við greiðum ekki atkvæði um sannleikann; enginn verður neyddur til að samþykkja að eitthvað sé satt nema skynsemi hans segi honum að svo sé. Háskólar hafa stundum verið kallaðir fílabeinsturnar, þar sem fræðimenn sitja á rökstólum án þess að taka mið af því sem gerist í umhverfi þeirra. Þessi samlíking á vissan rétt á sér: Fræðileg iðja krefst næðis og einbeitingar ef hún á að bera árangur. Öll eiginleg samræða kallar líka á vissan frið ef hún á að fá að þróast og skila viðmælendum því sem þeir stefna að. Eiginleg samræða hvílir einnig á því að viðmælendurnir séu frjálsir til að mynda sér skoðun og taka afstöðu. Við þurfum líka sífellt að vera á varðbergi gagnvart eigin fordómum og annarra, rökvillum og ruglanda sem um okkur sitja, ekki síst ef við reynum að sannfæra okkur sjálf og aðra um að eitthvað sé satt eða rétt án þess að hafa gild rök fyrir því. Þá er eins víst að vit okkar allt og viska fjúki út í veður og vind, ofbeldi haldi innreið sína og við skeytum ekki lengur um það sem er satt og rétt, heldur einungis það sem tryggt getur völd okkar og yfirráð. Slík forherðing hugans ógnar ekki aðeins fræðilegri starfsemi, heldur líka hinu mannlega samfélagi því að virðing fyrir sannleika og réttlæti er grundvöllur vitrænna, mannlegra samskipta. Það er kunnara en frá þurfi að segja að í sumum þjóðfélögum hafa stjórnvöld tekið sér það vald að ákveða fyrir fólk hverju það skuli trúa og hvaða skoðanir það skuli hafa. Ekki þarf að orðlengja það að slíkir alræðistilburðir hafa leitt hinar mestu hörmungar yfir menn og þjóðir. Af því sem ég hef nú sagt blasa við þær kröfur sem gerðar eru í háskólum: Þar leggi allir sig fram um að afla sér þekkingar og skilnings og taki virkan þátt í samræðu sem þokar okkur nær hinu sanna og rétta. En hvað um þær kröfur sem gera má til háskóla? Háskólar eru ekki stofnaðir í tómarúmi, heldur við tilteknar sögulegar aðstæður. Fyrsta krafan – og að mínum dómi eina réttmæta krafan – sem gera ber til háskóla er sú að þar stundi kenn-arar og nemendur fræði sín af heilindum og alvöru og leggi sig fram um að auka þekkingu okkar og skilning á heiminum og sjálfum okkur. Nú á dögum er talað um að halda uppi skipulögðu og skilvirku mati á gæðum rannsókna og kennslu, mati sem er öllum opinbert og knýr hvern háskóla til að standa sig vel í saman-burði við aðra háskóla. Auk þessarar almennu og alþjóðlegu kröfu eru gerðar ýmsar sérstakar kröfur til háskóla sem eru breytilegar eftir aðstæðum og ólíkum væntingum þjóðfélagsins. Þessar kröfur eru bæði um að háskólar mennti fólk til hinna ýmsu starfa og að þeir veiti fræðilegan skilning á lífskilyrðum fólks og möguleikum þess á því að bæta þjóðfélagið á ýmsa vegu. Hér er iðulega rætt um gildi háskólastarfsemi fyrir atvinnulíf þjóðar og sköpun nýrra atvinnutækifæra, eins og við höfum mörg dæmi um í okkar þjóðfélagi, núna síðast með stofnun nýrra fyrirtækja á sviði erfða- og líftækni. Það dæmi kann að virðast einstakt, ekki síst vegna þess að það hefur valdið miklu umróti í opinberri umræðu á Íslandi en sannleikurinn er sá að öll skapandi atvinnustarfsemi byggist á virkri þekkingarleit sem háskólar standa fyrir. Eftir því sem störf fólks gera meiri kröfur um fræðilega hugsun og þekkingu verður þörfin fyrir víðtæka og vandaða háskólastarfsemi brýnni í þjóðfélaginu. Þess vegna verður almenningur að geta treyst því að háskólar veiti góða mennt-un, hún sé fjölbreytt og eftirsóknarverð og umfram allt eins aðgengileg og kostur er – án þess þó að slakað sé á fræðilegum kröfum. Af þessu leiðir að háskólar hljóta sífellt að reyna að finna nýjar leiðir til að gera fólki kleift að stunda háskóla-nám í samræmi við óskir þess og þarfir þjóðfélagsins. Oft hefur komið til árekstra og togstreitu á milli sjónarmiða háskólamanna sem er einkum í mun að efla fræði sín og ná sem allra lengst í fræðilegum skilningi á viðfangsefnum sínum annars vegar og hins vegar sjónarmiða þeirra sem standa utan háskólanna og vilja að fræðin gagnist sem allra flestum í þjóðfélaginu. Þessi togstreita hefur tekið á sig ýmsar myndir víða um heim. Stundum hafa menn jafnvel gengið svo langt að gera greinarmun á tvenns konar háskólum: Annars vegar lærdómssetrum sem stefna að því einu að efla veg vísinda og hreinnar fræðilegrar menntunar – hins vegar fagháskólum þar sem rannsóknir og kennsla eiga einkum að þjóna þeim tilgangi að efla tilteknar greinar í atvinnulífi eða ákveðna starfsemi í þjóðfélaginu.

Þessi greinarmunur á ekki við Háskóla Íslands. Hann er fræðasetur með þann megintilgang að afla bóklegrar, faglegrar og siðferðilegrar þekkingar, varðveita hana og miðla henni eftir því sem kostur er svo að hún nýtist sem flestum í lífi og starfi. Skylda Háskólans við fræðin og skylda hans við þjóðfélagið verða hér ekki sundurgreindar. Þetta tel ég að stjórnendur og starfsmenn Háskóla Íslands hafi alla tíð gert sér ljósa grein fyrir og því ævinlega leitast við að vinna sem mest og best í þágu lands og þjóðar með því að efla veg vísinda og fræða eftir megni. Þetta er megin-verkefnið sem við okkur blasir: Að tryggja að Háskóli Íslands verði blómlegt lær-dómssetur sem ber birtu vísindanna sem víðast um íslenskt þjóðfélag.

Breytingar á Háskóla Íslands

Lítum nú til Háskóla Íslands og skoðum hvernig hann hefur þróast á öldinni sem senn er á enda runnin. Háskóli Íslands er ríkisstofnun sem gegndi í upphafi tveimur meginhlutverkum: Annars vegar var honum ætlað að mennta helstu em-bættismenn þjóðarinnar – lögfræðinga, lækna og presta – og hins vegar að vera miðstöð fræðilegra rannsókna, einkum í norrænum fræðum þar sem íslensk menning og saga voru meginviðfangsefnin. Háskóli Íslands er þannig frá upphafi þjóðskóli, miðstöð fræðilegrar menntunar fyrir landsmenn og stofnun sem vinnur í þágu þjóðarinnar til að mennta hana og styrkja í menningarlegu, pólitísku og efnahagslegu tilliti. Það væri verðugt viðfangsefni að rannsaka þátt Háskóla Íslands í uppbyggingu íslensks þjóðfélags og íslenskrar menningar á þessari öld. Þó yrði það ærið vandasamt verk og flókið því að starfsmenn og nemendur Háskólans hafa hvar-vetna verið að verki í íslensku þjóðlífi og lagt meira af mörkum en nokkur kostur er að meta eða mæla í tölum. Það er trú mín að það sem mestu skiptir um fram-lag háskólamanna til íslensku þjóðarinnar hafi verið ásetningur þeirra að gera Háskólann að menntasetri á alþjóðlegan mælikvarða, þar sem fræðileg hugsun er leidd til öndvegis. Í þessu hefur alla tíð birst einlægur vilji háskólamanna til að vinna þjóðinni gagn, tryggja hagsmuni hennar og sjálfstæði um ókomna tíð. Ef litið er yfir þróun Háskólans má segja að hann hafi í áranna rás breyst úr til-tölulega einfaldri ríkisstofnun með skýrt hlutverk í margbrotið fyrirtæki eða fyrir-tækjasamsteypu sem lætur til sín taka á æ fleiri sviðum og í sífellt fleiri greinum. Námsgreinum skólans hefur smám saman fjölgað og jafnframt hafa sprottið upp margar rannsókna- og þjónustustofnanir sem hafa hver sitt verksvið og stefna hver að sínum markmiðum. Eins og vera ber í háskólum hafa starfsmenn frelsi til að velja sjálfir viðfangsefni sín og móta aðferðir til að ná þeim markmiðum sem þeir stefna að í rannsóknum, kennslu og þjónustu við þjóðfélagið. Þróunin hefur verið mjög ör og umfangsmikil á íslenskan mælikvarða og fræðastarfið hefur að sama skapi orðið blómlegra og öflugra – um leið og nemendum hefur sífellt fjölgað og þeir orðið virkari í starfi skólans, ekki síst með þátttöku í hvers kyns rannsóknarverkefnum. Þessi þróun kallar á ný vinnubrögð við stjórn og rekstur Háskólans sem ég ætla nú að lýsa í fáeinum orðum. Vík ég fyrst að tveimur mikilvægum atriðum sem tengjast rekstrinum en kem síðan að stjórnun skólans. Á undanförnum árum hefur verið beitt líkani að erlendri fyrirmynd til að reikna út kostnað við kennslu og rannsóknir. Á grundvelli þessa reiknilíkans hefur verið unnið að þjónustu-samningi við ríkisvaldið um kennslu, sem felur í sér að fjárveitingar til skólans muni smám saman aukast þar til þær verða í fullu samræmi við starfsemi skól-ans og þarfir samkvæmt umræddu líkani. Í kjölfarið verður svo gerður sambæri-legur samningur um rannsóknir. Við fjárveitingu tveggja síðustu ára hafa verið stigin fyrstu skrefin í þessa átt og markinu verður væntanlega náð árið 2001 á sviði kennslu en lengri tími mun líða þar til fjárveitingar vegna rannsókna verða sambærilegar við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Samningurinn felur jafnframt í sér ýmsar kröfur til Háskólans og háskólakennara. Ég nefni nokkur atriði: nýtingu nýrrar tækni í kennslustarfi, breytingu á kennsluháttum til sam-ræmis við norræna háskóla, kerfisbundið mat á hæfni kennara við nýráðningu, þjálfun og endurmenntun kennara á starfstíma þeirra, gæðakerfi til að tryggja skilvirkni í stjórnsýslu og reglulegar úttektir á starfi deilda. Hitt atriðið er að nú er stjórn Háskólans beinn þátttakandi í kjarasamningum við Félag háskólakennara og þarf að raða starfsfólki sínu í launastiga eftir verðleik-um og frammistöðu. Þetta gerir miklar kröfur bæði til stjórnar skólans og starfs-fólks og um samstarf þeirra, meðal annars við mat á vinnuframlagi. Þessu teng-ist svo úrskurður kjaranefndar um laun prófessora, þar sem gert er ráð fyrir nýju framgangskerfi og nýrri vinnutilhögun, sem gerir enn auknar kröfur um hagræð-ingu og sveigjanleika við kennslu og rannsóknir í Háskólanum. Þetta tvennt – þjónustusamningur og ný launakerfi – felur í sér verulega breyt-ingu á starfi Háskólans og færir honum stóraukið sjálfræði um allt hans innra starf. Nú fer að ljúka endurskoðun laga um Háskólann þar sem meðal annars er lagð-ur grunnur að breyttu stjórnskipulagi sem tryggja á skólanum aukið sjálfstæði og möguleika á að rækja hlutverk sitt enn betur í þágu fræða og þjóðfélags. Megin-markmið þessarar endurskoðunar er í mínum huga að auka frumkvæði, skil-virkni og ábyrgð í Háskólanum. Í þeim frumvarpsdrögum sem verið er að ganga frá er gert ráð fyrir verulegri breytingu á æðstu stjórn skólans sem á að miða að þessu marki. Í stað núverandi háskólaráðs, sem er í senn fulltrúaráð og framkvæmdavald, komi fámennara há-skólaráð, sem fari með framkvæmdavaldið, og fjölmennur háskólafundur, þar sem kjörnir fulltrúar móta stefnu skólans. Með þessu móti á að tryggja í fyrsta lagi lýðræðislega samstöðu í Háskólanum um meginstefnumið sem rædd verða og ákveðin á háskólafundi og í öðru lagi skilvirkari afgreiðslu ýmissa fram-kvæmdamála í hinu nýja háskólaráði. Um leið fær Háskólinn stóraukið vald til að endurskoða og breyta ýmsu í starfsemi sinni sem hingað til hefur verið bundið í lögum eða reglugerðum stjórnvalda. Þar með fær Háskólinn möguleika á því að bregðast skjótar við nýjum aðstæðum og tækifærum til að fara ótroðnar slóðir í starfsemi sinni.

Nýmæli í starfsemi Háskólans

Breytingum þeim á rekstri og stjórn Háskólans sem ég hef nú stuttlega rakið fylgir um leið aukin ábyrgð sem Háskólinn og háskólastarfsmenn allir verða að gangast undir. Jafnframt er hætt við því að fastmótaðar hefðir og siðir við skipu-lag og rekstur riðlist og fólki finnist upplausnartími í garð genginn, fyllist óöryggi og óvissu um framtíðina og spyrji hvort við séum að stefna starfsemi skólans til betri vegar. Þessa áhættu verðum við að taka og við skulum taka henni fagnandi. Háskólar eru vissulega ævafornar og íhaldssamar stofnanir en eðli sínu samkvæmt eru þeir einnig síung fyrirtæki þar sem fólk leitast við að uppgötva nýjar hliðar á veru-leikanum og takast á við óvænt og spennandi verkefni sem koma upp í starfi þeirra. Auk þess liggur það í eðli vísindalegrar hugsunar að vera sífellt að endur-skoða aðferðir sínar og kenningar og segja skilið við það sem á undan er gengið. Skapandi gagnrýnisandi vísindanna þarf að ná til allrar starfsemi okkar, ekki að-eins þekkingarleitarinnar sjálfrar, heldur líka til þess hvernig við skipuleggjum fræðastarfið og tökum ákvarðanir um uppbyggingu Háskólans. Skipulagsbreytingar eru aldrei markmið í sjálfu sér, heldur er tilgangur þeirra sá að leysa úr læðingi öfl til að skapa og uppgötva nýjar hliðar á lífinu og tilverunni. Markmiðið er að gera innihald háskólastarfsins, sköpun og miðlun þekkingar, rannsóknir og nám, æ fjölbreyttari og auðugri. Þróunarstarf Háskólans, deilda, stofnana og einstakra háskólakennara í þessum efnum er miklu meira og fjöl-breyttara en unnt er að rekja í stuttu máli. Ég nefni einungis uppbyggingu fram-haldsnámsins sem er einn mikilvægasti vaxtarbroddurinn í starfi okkar. Meðal nýmæla er meistaranám í tölvunarfræði og í hjúkrunarfræði, sem hefst á þessu misseri, og vonir standa til að meistaranám í umhverfisfræðum geti hafist á næsta ári. Því er ekki að leyna að Háskólinn þarf verulega aukinn stuðning við framhaldsnámið og þar með rannsóknastarfsemina. Um leið og Háskólinn stefnir að því að efla rannsóknartengt nám, þarf hann að huga að nýjum leiðum til að mæta síauknum þörfum og óskum almennings eftir margvíslegu háskólanámi. Grunnnám Háskólans er nú þriggja ára B.A.- eða B.S.-nám í flestum deildum skólans. Frá því árið 1969, þegar út kom skýrsla háskóla-nefndar, sem þáverandi menntamálaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, skipaði, hefur verið rætt um nauðsyn styttri námsleiða sem veiti sérmenntun á tilteknum svið-um, svo sem í ferðamálum, viðskiptum og ýmiss konar tækni. Háskólaráð hefur nú samþykkt að boðnar verði námsleiðir í Háskólanum sem ljúki með prófgráðu eftir eins eða tveggja ára nám. Á næstunni verður undirbúið að slíkar námsleiðir verði settar á laggirnar og mun tekið mið af tillögum starfshóps sem vann að þessu máli síðastliðinn vetur. Við stofnun slíkra námsleiða tel ég nauðsynlegt að deildir Háskólans skipuleggi kennslu á kvöldin, um helgar og á sumrin fyrir fólk sem ekki á þess kost að sækja kennslustundir á hefðbundnum tímum. Slíkt námsfyrirkomulag nýtur mik-illa vinsælda í mörgum erlendum háskólum og kemur til móts við þarfir fólks og þjóðfélagsins í heild fyrir símenntun. Hér má Háskóli Íslands ekki láta sitt eftir liggja. Þegar rætt er um uppbyggingu Háskólans, breytingar á starfsháttum og skipu-lagi, nýmæli og þróunarstarf verður að nefna eitt hagsmunamál allra sem vilja auka veg Háskólans og möguleika á að bæta þjónustu og samskipti bæði innan skólans og við almenning. Á háskólalóðinni þarf að rísa vegleg þjónustu- og félagsmiðstöð sem gefur tækifæri og tilefni til stóraukinna samskipta stúdenta, kennara og annars starfsfólks, svo og allra sem til Háskólans koma. Ég kalla þennan þjónustukjarna „Háskólatorgið", því að þangað ætti daglegt erindi stór hluti þeirra sex til sjö þúsund manna sem á svæðinu starfa og hann þyrfti því að vera miðsvæðis á háskólalóðinni. Meðal starfsemi í umræddum þjónustukjarna yrði: (1) bóksala og fjölritunarþjón-usta; (2) banki; (3) veitingasala (kaffihús; matsalir); (4) fundaaðstaða fyrir félög stúdenta og starfsfólks; (5) verslun eða litlar verslanir með nauðsynjavörum; (6) þjónusta við nemendur, svo sem vegna skráningar og námsráðgjafar; (7) loks þarf að vera í þessum kjarna sýningaraðstaða fyrir verk nemenda og kennara. Á næstunni verður skipaður starfshópur í samvinnu við Félagsstofnun stúdenta til að vinna að framgangi þessa máls. Við fjármögnun Háskólatorgsins verður einnig að fara nýjar leiðir því að fé Happdrættisins dugar ekki lengur til að standa undir viðhaldi bygginga og þeim framkvæmdum sem hafa þegar verið hafnar. Þessi samkomustaður á að vera til marks um að Háskólinn er ekki aðeins sundurleit og margbrotin ríkisstofnun eða samsteypa ýmiss konar mennta- og rannsóknar-fyrirtækja, heldur samfélag sem fólk leitar til hvaðanæva úr þjóðfélaginu til að fræðast og endurnærast af nýjum hugmyndum, kenningum, uppgötvunum og uppfinningum. Á Háskólatorginu á ekki aðeins háskólafólk að hittast, heldur allir sem áhuga hafa á því sem fram fer í Háskólanum og vilja leggja sitt af mörkum til hans. Skráðir hollvinir Háskólans eru nú á annað þúsund en hinir óskráðu eru mörgum sinnum fleiri. Háskólinn þarf á húsi að halda sem stendur öllum opið sem til hans vilja koma. Þá fyrst þegar allur almenningur finnur að Háskólinn stendur honum opinn verður hann réttnefndur þjóðskóli, skóli sem þjóðin finnur að hún á og getur notið að eiga. En Háskólinn þarf ekki aðeins að vera aðgengilegur og opinn almenningi hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef vel á að vera þarf hann að eiga útibú í hverjum lands-fjórðungi svo að engum dyljist að hann á erindi við landsmenn alla. Ég vona að þess verði ekki langt að bíða að svo verði en til að opna Háskólann og gera hann aðgengilegan sem flestum verður nú á þessu haustmisseri hafin skipuleg fjar-kennsla sem mun væntanlega stóraukast á næstu árum. Þessi kennsla verður með þrennum hætti: • Ýmis námskeið Endurmenntunarstofnunar verða boðin í fjarkennslu. • Háskólinn mun bjóða almenningi fjarkennslunámskeið sem hafa almennt fræðslu- og menntunargildi. • Nám á vegum deilda Háskólans verður boðið í fjarkennslu eftir því sem tilefni og tækifæri gefast. Kennslan, sem hefst nú í haust, er skipulögð í samvinnu við fjölmarga aðila. Þeirra á meðal eru Landssími Íslands, skólar og samtök sveitarfélaga á Vest-fjörðum, Fræðslunet Austurlands, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Háskól-inn á Akureyri og svonefnd „Byggðabrú" Byggðastofnunar sem hefur fjarfunda-búnað á fjórtán stöðum á landinu. Hér er ekki unnt að telja upp allt það nám sem boðið verður upp á í fjarkennslu nú í haust en ljóst er að með þeirri nýju tækni sem við höfum nú yfir að ráða mun nemendum um land allt smám saman opnast víður aðgangur að námi við Háskóla Íslands. Þegar rætt er um nýmæli í starfi Háskólans ber sérstaklega að geta stóraukinna samskipta við erlenda háskóla auk vaxandi samstarfs við innlendar háskóla- og rannsóknarstofnanir. Um 200 nemendur Háskólans sækja nú nám árlega við há-skóla í Evrópu í tengslum við stúdentaskiptaáætlanir Evrópu og Norðurlanda. Nú í haust tekur Háskólinn á móti um 250 erlendum stúdentum og til að mæta þörfum þeirra hefur verið fjölgað námskeiðum sem haldin eru á ensku. Þá hafa kennara-skipti við erlenda háskóla einnig aukist verulega.

Þótt alþjóðlegt rannsóknarsamstarf háskólakennara teljist ekki til nýmæla, þá verður vægi þess í starfi Háskólans sífellt meira. Einn mikilvægasti þáttur í þeirri viðleitni að styrkja Háskóla Íslands sem þjóðskóla er að efla stöðu hans í alþjóð-legu samfélagi háskóla. Á vegum háskólaráðs er nú unnið að því að móta tillögur um hvernig Háskólinn eigi að auka samstarf sitt við erlenda háskóla og tryggja að hann standist þær kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra fræðasetra.

Lokaorð: Hlutverk háskólakennara

Nú hef ég rætt um einkenni háskóla almennt og gert nokkra grein fyrir breyting-um og nýmælum sem unnið er að við Háskóla Íslands. Af því má ráða að síaukn-ar kröfur eru gerðar til kennara og alls starfsfólks Háskólans. Þess vegna er brýnt að stjórn skólans reyni eftir föngum að skapa starfsfólki betri starfsskilyrði og veita kennurum og nemendum aukna þjónustu af ýmsu tagi. Markmiðið er að gera Háskóla Íslands að eftirsóttum og gefandi vinnustað. Hafið verður skipulegt átak í þessa veru á næstu mánuðum. Einn liður í þessu átaki er mótun starfs-mannastefnu ásamt skýrum leiðbeiningum til starfsmanna um réttindi þeirra og skyldur, sem og ýmsa þætti í starfi skólans. Verður stefnan kynnt starfsfólki á næstunni og óskað eftir athugasemdum við hana og ábendingum um það sem betur má fara í starfi Háskólans. Í kjölfarið fylgja skipulögð viðtöl við starfsfólk og áætlun um fræðslu þess og þjálfun. Um leið og rætt er um starfsmannastefnu í háskóla er nauðsynlegt að hafa hug-fast um hvað starfið snýst. Kjarninn í háskólastarfi felst í skipulegri þekkingarleit sem borin er uppi af fræðilegum rannsóknum og kennslu háskólakennara. Þetta er þungamiðja háskólastarfsins sem aldrei má gleymast þegar fjallað er um mál-efni háskóla. Ég er samt ekki viss um að heitið „þekkingarverksmiðja" sé rétt-nefni fyrir háskóla. Orðið „verksmiðja" gefur í skyn að hér sé um tæknilega fram-leiðslu að ræða. En starf háskólakennarans er ekki tæknilegt nema að hluta. Hann þarf vissulega að kunna að rannsaka og kenna en hann getur aldrei vitað fyrirfram niðurstöðuna eða árangurinn af starfi sínu – hvort honum tekst að upp-götva ný sannindi eða kveikja í huga nemendanna svo að þeir læri af lífi og sál. Að þessu leyti er starf háskólakennarans ekki óskylt sköpunarstarfi skálds eða listamanns sem ekki getur heldur vitað fyrirfram um ágæti eigin verka og fær kannski aldrei að vita það. En um leið hvíla á háskólakennurum margvíslegar skyldur og kröfur sem þeir hljóta sífellt að bregðast við í starfi sínu. Fyrst ber að nefna skylduna við fræðin sjálf – sem er af sama toga og skylda listamannsins við listina. En samofin skyldunni við fræðin er skyldan við nemendur og starfs-félaga: Að leiðbeina öðrum og gagnrýna aðra um leið og leitast er við að aga sjálfan sig og þjálfa í þekkingarleitinni. Auk þessarar tvíþættu skyldu við fræðin og nemendur eða starfsfélaga er svo skyldan við þjóðfélagið sem fræðimaðurinn tilheyrir. Háskólakennurum ber að kynna fræði sín fyrir almenningi og sjá til þess að þau nýtist í þjóðfélaginu eftir því sem kostur er. Hér hvílir á þeim sú krafa að hlusta á það sem aðrir hafa að segja og gera sér far um að flytja boðskap fræðanna á skýran og skilmerkilegan hátt. Þau straumhvörf í starfi háskóla, sem nú eru að verða, tengjast sívaxandi þörf alls almennings fyrir að kynnast fræðum af öllu tagi. Sú þörf sprettur ekki aðeins af hagnýtingu fræðanna við hvers kyns störf, heldur líka af breyttu gildis-mati, nýjum hugsunarhætti og lífsstíl meðal almennings. Fólk vill fræðast um alla skapaða hluti til þess að geta yfirvegað lífið og tilveruna, skoðað heiminn og kynnst veruleikanum á dýpri og fyllri hátt en ella. Ég held ekki að vísindi og fræði munu nokkru sinni leysa trúarbrögðin af hólmi eða gera stjórnmálaskoðanir óþarfar og þaðan af síður koma í stað heilbrigðrar skynsemi. En trúar- og stjórn-málaskoðanir sem ganga í berhögg við fræðilega, gagnrýna hugsun eiga sér von-andi ekki lengur viðreisnar von. Bæði í trúariðkun og stjórnmálum og raunar á öllum sviðum tekur heilbrigð skynsemi almennings mið af því sem fræðimenn hafa að segja. Þess vegna er brýnt að háskólar og háskólakennarar ræki skyldur sínar við almenning af enn meiri krafti en áður. Að sama skapi þurfa háskóla-kennarar á því að halda að fólk sé gagnrýnið á störf þeirra og fylgist gjörla með því sem þeir gera og segja. Háskólar hafa frá fornu fari verið miðstöðvar opinberrar og málefnalegrar um-ræðu um þjóðþrifamál. Í anda þeirrar hefðar hyggst ég efna til málþinga um mál-efni sem krefjast gagnrýninnar, fræðilegrar umræðu og mun skýra nánar frá því á næstunni hvernig að því verður staðið. Málefnaleg og uppbyggileg gagnrýni er ekki aðeins lífæð vísinda og fræða og þar með kennslu og rannsókna í háskólum. Hún er líka kjölfestan í lýðræðisþjóðfélagi þar sem virðingin fyrir hinu sanna og rétta er lögð til grundvallar og tillit er tekið til ólíkra sjónarmiða og hagsmuna. Án málefnalegrar og gagnrýninnar umræðu er raunar tómt mál að tala um lýðræði. Þá ríkir ekki lýðræði, heldur sérhags-munabarátta sem miðar að því að kveða aðra í kútinn og fá aðra á sitt band – án þess að hugað sé að skynsamlegum rökum. Voldugir hagsmunaaðilar vilja iðulega segja fólki hvað máli skiptir, hverju það skuli trúa og hvernig það eigi að hugsa um hlutina. Svo hefur jafnan verið og svo mun jafnan verða. Fulltrúar og talsmenn háskóla ættu að forðast að taka þátt í slíkum leik. Frelsi þeirra er frelsi til að tala máli þess sem þeir vita sannast og réttast – hvar sem tilefni gefst. Með því móti stuðla þeir að þroska manneskj-unnar og þjóna þörf hennar fyrir sannleika og réttlæti. Þetta er í mínum huga réttlæting fræðastarfsins og þar með rök fyrir því að efla og styrkja rannsóknir og kennslu í Háskóla Íslands.

Páll Skúlason


Back to top