Ræða við brautskráningu kandídata 17. júní 1998
Forseti Íslands og frú, menntamálaráðherra og frú, biskup Íslands og frú, ráðneytisstjóri, kandídatar, aðrir góðir gestir.
Verið öll hjartanlega velkomin til þessarar hátíðar. Og einkum þið, ágætu kandídatar, sem nú munuð taka við skírteinum til staðfestingar þeirri lærdómsgráðu, sem þið hljótið eftir nám um árabil í Háskóla Íslands. Ég árna ykkur og fjölskyldum ykkar allra heilla með þennan áfanga í lífi ykkar. Ég óska líka íslensku þjóðinni til hamingju með ykkur. Þekking sú, sem þið hafið öðlast, mun hafa meiri áhrif á íslenskt mannlíf en ykkur kann að gruna. Ástæðan til þess er ofureinföld: Þekking skiptir sköpum um þróun og þroska þess mannlega máttar sem í okkur býr. Þess vegna er framtíð Íslands öllu öðru fremur fólgin í hugum og verkum þeirra sem helga líf sitt þekkingarleit og vilja nýta hana til að bæta heiminn.
Skilningur, kunnátta, viska
Hver einasta manneskja er undraverk, einstök í sinni röð. Hún býr yfir mætti til afreksverka sem enginn veit hver verða. Flest slík verk eru unnin í kyrrþey, án þess að vera blásin út á opinberum vettvangi. Tilviljun og tíska ráða trúlega mestu um það hvaða afrek verða á allra vitorði. En afreksverk unnin í leynum kunna að skipta meira máli. Lífið - þetta vitum við öll - er óútreiknanlegt ævintýri. Enginn hefur heildarsýn yfir sviðið - að minnsta kosti ekki á okkar mannlega vettvangi. Vera má að alsjáandi auga Guðs fylgist með öllu, en vitneskju okkar þar að lútandi eru takmörk sett. Þaðan af síður eru vísindi okkar alsjáandi; þau eru hverful eins og öll mannanna verk. Samt eru vonir okkar og væntingar öðru fremur bundnar vísindum og fræðum: Þau eiga að færa okkur skilninginn sem við þörfnumst til að átta okkur á veruleikanum, kunnáttuna til að ráða fram úr aðsteðjandi vanda og viskuna til að finna fótum okkar forráð og skapa betri heim.
Sá, sem vill breyta heiminum til hins betra, getur hvergi byrjað nema á sjálfum sér. Hann er verkfærið sem á að koma hinu góða til leiðar. Vísindi okkar eru “vonarsnauð viska" ef þau gera okkur ekki hæfari til að bæta heiminn. Þess vegna er það frumskylda vísindamannsins og allra þeirra sem unna vísindum að spyrja sjálfa sig hvaða áhrif vísindin hafa á þá sjálfa, samskipti þeirra og samfélag. Þess vegna spyr ég ykkur, kandídatar góðir: Hefur þekkingin sem þið hafið öðlast, vísindin sem þið hafið stundað, gert ykkur að betri manneskjum, hæfari til að láta gott af ykkur leiða og axla þá ábyrgð sem aukin kunnátta og skilningur leggur ykkur á herðar? - Ég bið ykkur að hugleiða þetta vandlega.
Kjörorð Háskólans
Kjörorð Háskóla Íslands er hin alkunna hending “Vísindin efla alla dáð" úr ljóði Jónasar Hallgrímssonar “Til herra Páls Gaimard":
Vísindin efla alla dáð
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð.
Rís starf okkar í Háskóla Íslands undir þeirri hugsjón og þeirri helgun sem þessi orð fela í sér? Vefja vísindi okkar farsældum lýð og láð? Hafa þau ofið ykkur, ágætu kandídatar, þann vef vísindalegrar menntunar sem mun duga ykkur til að takast á við þau verkefni sem ykkur verður ætlað að leysa af hendi? Einnig má spyrja: Hafa þau ofið þann vef farsældar sem íslenska þjóðin ætlaðist til með því að stofna það vísinda- og fræðasetur sem er Háskóli Íslands? Og enn má spyrja: Er Háskóli Íslands hæfur til að vefja þjóðina þeim farsældum sem hún þráir?
Við þessum spurningum hef ég engin fullgild svör. En vilji Háskóli Íslands vera trúr köllun sinni, þá ber honum og öllum, sem unna honum og gera kröfur til hans, að leitast við að svara þeim. Svör okkar þurfa að vera fræðileg og verkleg í senn.
Fræðileg svör er fólgin í rökræðu um gildi vísinda og áhrifamátt, verklegu svörin eru fólgin í því að nýta tilteknar vísindalegar kenningar eða niðurstöður til að framkvæma ákveðnar hugmyndir. Ég nefni þennan greinarmun á fræðilegum og verklegum svörum af tvennum ástæðum. Fyrri ástæðan tengist viðteknum skoðunum okkar Íslendinga á því hvað er fræðilegt og hvað er verklegt. Síðari ástæðan tengist viðteknum aðferðum Háskólans og háskólafólks við að réttlæta og rökstyðja tilvist sína og störf.
Lítum fyrst á síðarnefndu ástæðuna. Háskólinn og háskólafólk hafa frá stofnun Háskólans sífellt réttlætt tilvist sína og starfsemi með því að skírskota til gagnseminnar sem af starfsemi þeirra hljótist - fyrir skólakerfið, fyrir heilbrigðisþjónustuna, fyrir uppbyggingu orkuvera, vegakerfisins, fyrir viðhald og þróun íslenskrar tungu, varðveislu fornra handrita, fyrir verndun og skynsamlega nýtingu fiskistofna og nú síðast: þróun og gerð hugbúnaðar í tölvum og uppgötvanir fyrir atbeina erfðatækni.
Nú spyr ég ykkur, kandídatar og aðrir góðir áheyrendur, er þetta það eina sem réttlætir tilvist menntastofnunarinnar “Háskóli Íslands"? Með öðrum orðum, er Háskóli Íslands til þess eins að þjóna tilteknum markmiðum utan hans sjálfs, mennta embættismenn og ýmiskonar sérfræðinga, lækna, lögfræðinga, presta, verkfræðinga, viðskiptafræðinga, tölvunarfræðinga, kennara og heimspekinga?
Uppeldishlutverk Háskólans
Ég tel svo ekki vera. Meginhlutverk Háskóla Íslands er og á að vera að ala upp þroskaða og sjálfstæða einstaklinga sem eru reiðubúnir að leggja sjálfa sig að veði í þeim verkefnum sem þeir takast á hendur - hver sem þau eru. Uppeldishlutverk Háskóla Íslands er fólgið í því að rækta með öllu starfsfólki sínu, kennurum sem nemendum, frjálsa, fræðilega hugsun til að takast á við öll viðfangsefni með opinni, gagnrýninni umræðu.
Þetta mikilvæga uppeldishlutverk Háskólans byggist á því að lagt sé rétt mat á gildi hins fræðilega og verklega í hugsun okkar og lífi. Okkur Íslendingum hefur löngum hætt til þess að vanmeta sjálfstætt gildi fræðilegrar hugsunar í mannlífinu og telja fræðin vera úr tengslum við hið verklega eða hagnýta í lífinu. Af þessum lífseiga hleypidómi leiðir vanmat á gildi almennrar, fræðilegrar umræðu þegar við glímum við ýmis mál í hversdagslegu lífi og starfi. Af þessu leiðir jafnframt vanmat á gildi almennrar, fræðilegrar menntunar fyrir opinbera umræðu, þróun þjóðfélagsins og þar með allt mannlíf í landinu.
Þessu verðum við að breyta. Allur heimurinn í dag kallar eftir opinberri, fræðilegri umræðu, þar sem viðfangsefni og vandamál jafnt í þjóðlífi sem einkalífi fólks, eru brotin til mergjar og rætt með skynsamlegum rökum um það hvernig skapa megi komandi kynslóðum skilyrði til farsældar og frelsis. Allur heimurinn í dag kallar eftir aukinni fræðilegri menntun, ekki einungis til þess að hraða tæknilegri uppbyggingu, auka framleiðni og framkvæmdir, heldur til þess að efla skilning og þroska okkar sjálfra, bæta samskipti okkar og siðferði að öllu leyti. Hvað er hagnýtara en einmitt þetta?
Þess vegna þurfum við spyrja um gildi og getu vísindanna sjálfra til að hafa áhrif á okkur, breyta okkur, gera okkur hæfari til að lifa sem sjálfstæðar, hugsandi manneskjur. Spurningin er þessi: “Efla vísindin alla dáð?"
Viska og vísindi
Ég veit og við vitum öll að Háskóli Íslands hefur alið upp fjölda karla og kvenna sem hafa nýtt þekkingu sína og hugvit til að skapa sér og samfélaginu öllu einstök skilyrði til að hér megi dafna blómlegt mannlíf. Í þeim hópi eru margir samviskusamir og ábyrgir embættismenn og ekki síður dugmiklir og frjóir athafnamenn og konur sem lagt hafa grunn að nýjum atvinnugreinum. Í þeim hópi eru líka forystumenn í þjóðmálum, leiðtogar í stjórnmálum og skapandi listamenn og fræðimenn, menntafrömuðir og menningarvitar, sem fara hver sína leið við að auðga og styrkja íslenskt mannlíf.
Vissulega virðist svarið við spurningunni “efla vísindin alla dáð?" blasa við og ástæðulaust að draga það í efa. Samt brestur mig rök til að vísa henni frá og ég vil segja ykkur hvers vegna.
Hlýðum aftur á vísubrot Jónasar:
Vísindin efla alla dáð
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð.
Vísindin styrkja orkuna, hvessa viljann, glæða vonina, hressa hugann - en hafa þau fært okkur viskuna sem við þörfnumst öllu öðru fremur til að bæta sjálf okkur og samlíf okkar? Hafa þau gert okkur að betri manneskjum, hæfari til að skilja og meta þau verðmæti sem öllu skipta, réttlæti, vináttu og frelsi?
Ég er ekki viss hverju nú skal svara. En ég heiti á ykkur, kandídatar góðir, og ég heiti á okkur öll, sem unnum vísindum og fræðum og viljum veg þeirra sem mestan og bestan í íslensku þjóðlífi, að glíma við þessar spurningar af heilindum og alvöru. Ef til vill er sú viska, sem vísindin færa okkur, fólgin í því að spyrja með opnum og gagnrýnum huga um gildi allra skapaðra hluta - einnig vísindanna sjálfra.
Það er ósk mín til ykkar, ágætu kandídatar, að sú frjálsa, gagnrýna hugsun, sem þið hafið tamið ykkur við nám í Háskóla Íslands, hjálpi ykkur til að feta braut viskunnar og hafa hugsjónir hennar að leiðarljósi í lífi og starfi.
Megi gæfan fylgja ykkur.
Páll Skúlason