Yfirvegun lífsins

Ræða við brautskráningu í Háskóla Íslands 24. júní 2000

Ráðuneytisstjóri, kandídatar, deildarforsetar, aðrir góðir gestir.

Ég óska ykkur, ágætu kandídatar, fjölskyldum ykkar og aðstandendum til hamingju með prófgráðuna. Þetta er mikilvæg stund í lífi ykkar og hún skiptir líka miklu fyrir Háskóla Íslands og okkur öll. Markmið Háskólans er að efla menntun landsmanna, bæta þekkingu þeirra og skilning og styrkja með því líf og framtíð þjóðarinnar. Og nú skipið þið flokk þeirra sem bera merki Háskóla Íslands fram á vettvang íslenskrar og alþjóðlegrar menningar. Þið eruð merkisberar háskólamenningar, en sú menning skiptir sköpum fyrir þróun þess þekkingarþjóðfélags sem nú er að mótast í heiminum. Háskóli Íslands er hreykinn af árangri ykkar. Hann veit að þið vinnið af heilindum að þeim verkefnum sem ykkur eru falin og þið sjálf kjósið að sinna. Hann treystir því að þið verðið ávallt réttsýn og eigið frumkvæðið í lífi ykkar og starfi.


Undur tilverunnar

Háskóli Íslands veit líka að hann hefur ekki mótað ykkur nema að takmörkuðu leyti og að sérhvert ykkar er einstök mannvera sem stefnir á sinn persónulega hátt til móts við óræða framtíð. Eins og við öll eruð þið íbúar í dularfullum heimi þar sem ófyrirsjáanlegir atburðir og ævintýri gerast. Tilveran er sannarlega undarleg; það þarf engum að segja. En undarlegast af öllu er að við skulum vera til og geta komið hér saman, hver einstök manneskja með vonir sínar og væntingar, meðvituð um þá óvissu sem býr í veröldinni - frá einum degi til annars, frá fæðingu til dauða. Enginn veit hvað ber við næst, veruleikinn er viðburður og við erum vitni að því sem á sér stað og einnig þolendur þess, eins og jarðskjálftahrinunnar á Suðurlandi þessa dagana. Oft erum við líka vitorðsmenn, því að með ákvörðunum okkar og athöfnum eigum við sannarlega þátt í því sem gerist og kann að gerast. Stundum erum við það óafvitandi, eins og leiksoppar lífsafla, sem enginn veit hver ræður - afla sem vefa örlög manna og þjóða. En stundum erum við það líka vitandi vits eins og skapandi, frjálsar verur er ákveða sjálfar hvað þær gera til að móta lífið og breyta heiminum í samræmi við það sem þær sjálfar telja mestu skipta.

Fyrir sérhverja lífveru, manneskjur sem skordýr, virðist mestu skipta að lifa af og að megintilgangur lífsins sé sá að viðhalda lífinu - á hverju sem gengur. Þetta virðast sjálfsögð sannindi, en fyrir okkur mannfólkið er þetta fjarri því að vera einfalt mál, því að lífið er okkur óþrjótandi umhugsunarefni. Við lifum í rauninni ekki aðeins náttúrulegu lífi, heldur einnig andlegu lífi, lífi sem fólgið er í því að skoða hug sinn, hugsa um lífið og taka afstöðu til þess, spyrja um tilgang þess og þróun, möguleikana sem í því búa og hvernig við sjálf fáum mótað það og metið. Hið náttúrulega líf er okkur gefið, við erum ekki höfundar þess. Hið andlega eða mannlega líf okkar sem hugsandi vera er hins vegar ekki gefið með sama hætti, heldur verðum við sjálf að móta það með hugsunum okkar, ákvörðunum og gerðum.

Birtingarmyndir lífsins

Hvernig ber að hugsa tengslin á milli hins náttúrulega lífs sem lifir í okkur, ef svo má orði komast, og hins andlega lífs, sem við lifum með því að leggja mat á hlutina og skapa það sem við nefnum einu orði menningu? Hversu skörp eru skilin á milli hins náttúrulega lífs og hins andlega eða menningarlega lífs? Er hér um að ræða líf í tvenns konar skilningi? Eða er menningarlífið aðeins ein birtingarmynd hins náttúrulega lífs?

Spurningar af þessum toga og raunar margar fleiri um lífið og tilveruna bar nýlega á góma á málþingi í háskólanum um réttlæti og hið góða líf, en frummælendur og helstu þátttakendur þingsins voru börn á aldrinum sjö til fjórtán ára. Sjö ára börnin rökræddu meðal annars hvort leyfilegt væri að drepa dýr og komust að þeirri niðurstöðu að það mætti ekki gera sér til gamans, heldur einungis til að afla sér matar. Þá vaknaði sú spurning hvort rétt væri að leggja sér mannakjöt til munns. Áheyrendum til mikillar undrunar - ef ekki skelfingar - voru börnin á einu máli um að slíkt ætti líka að vera leyfilegt. Forsendan sem þau gáfu sér var sú að mennirnir væru sjálfir dýr og þess vegna mætti nýta sér þá til matar. Rétt er að taka fram að mörg þeirra höfnuðu mannáti af þeirri ástæðu að mannakjöt væri líklega bragðvont!

Eldri börnin leiddu þessa spurningu hjá sér, en fjölluðu þeim mun meir um það hvað gæfi lífinu gildi og hvað skipti mestu til að geta lifað góðu lífi. Hér bar vináttuna hæst og einnig nauðsyn þess að búa í samfélagi þar sem réttlæti og sanngirni ríktu í samskiptum fólks. Við ættum sífellt að stefna að fullkomnun, en börnin töldu einnig að fullkomleikinn væri samt ekki á mannlegu valdi; enginn gæti verið algóður; réttlæti okkar væri ábótavant og við gerðum iðulega skissur í samskiptum. En þau voru líka sammála um að það væri ekki aðeins hollt að hugleiða og ræða þessi efni, heldur bókstaflega lífsnauðsyn, því annars væri hættan sú að við skeyttum ekki lengur um þessi mikilvægu gildi lífsins og þá gætum við ekki framar vænst þess að lifa góðu lífi.

Vangaveltur þessara ungu hugsuða voru athyglisverðar og viðfangsefni þeirra eiga erindi við okkur öll og ekki síst ykkur, ágætu kandídatar, sem eigið lífið framundan. Þess vegna hvet ég ykkur að gefa sjálfum ykkur tíma til að yfirvega og ræða við aðra hvað það er sem gefur lífinu gildi, bæði ykkar persónulega lífi og mannlífinu öllu.

Ófullnægja

Eitt vil ég sérstaklega biðja ykkur að staldra við, en það er visst einkenni á mannskepnunni sem greinir hana skýrt frá öðrum lifandi verum. Hugsun og hegðun manna bera gjarnan merki djúpstæðrar ófullnægju. Maðurinn hefur ekki fyrr satt hungur sitt en hann þráir annan og betri mat. Hann hefur ekki fyrr fengið nýtt tæki í hendur en hann leitast við að finna enn öflugra tæki. Hann hefur ekki fyrr náð völdum en hann vill enn meiri völd. Hann er ekki fyrr orðinn frægur en hann sækist eftir enn meiri frægð. Hann hefur ekki fyrr auðgast en hann keppir eftir enn meiri auðæfum.

Í fæstum orðum sagt, virðast manneskjurnar óseðjandi, aldrei fyllilega ánægðar með það sem þær eru, hafa eða geta. Þær vilja sífellt meira og virðast vera knúnar áfram af taumlausri þrá eftir því sem gæti fullnægt löngunum þeirra. Lífsþrá þeirra virðist gædd þeirri náttúru að ala sífellt af sér nýjar og nýjar langanir, nýjar og nýjar hvatir til að eignast eða leggja undir sig heiminn. Líkt og tilgangur lífsins sé sá að vera allsráðandi og alsæll - vera sem sagt eins og almáttugur guð sem öllu ræður, á allt og nýtur aðdáunar og virðingar allra.

Þetta lýsir hinu andlega eðli mannsins. Andinn er opinn fyrir hinu óendanlega; hann er óendanleikinn sjálfur; þess vegna virðist ekkert geta fullnægt honum nema ef vera skyldi annar óendanlegur andi. Og þessi óseðjandi andi er fjötraður við þetta hverfula og viðkvæma fyrirbæri sem er hinn flókni líkami okkar sjálfra, örsmátt brot af ríki náttúrunnar þar sem allt molnar og eyðist, þar sem sífellt koma fram ný form og nýjar myndir sem er umsvifalaust svipt á braut fyrir enn nýjum myndum og formum.

Líf í skauti náttúrunnar er sífelld endurnýjun og eyðing, fæðing og dauði - og við, hinar andlegu, hugsandi verur erum vitni að þessum sístarfandi sköpunar- og eyðingarmætti sem er hið náttúrulega líf eins og það þróast á jörðinni og líka í okkur sjálfum, í líkama okkar sem vex, dafnar og hrörnar, óvarinn fyrir ótal sjúkdómum og slysum eins og aðrar náttúruverur, ofurseldur veðri og vindum, eldgosum og jarðskjálftum sem skelfa okkur og storka öllum vísindum okkar og valdi.

Andinn og gift hans

En mannsandinn lætur seint bugast, heldur safnar reynslu okkar allra saman og heldur öllu til haga. Saga íslensku þjóðarinnar er til vitnis um það. Andinn lifir í sögum og við Íslendingar erum söguþjóð, þjóð sem sumir segja að hafi fátt kunnað betur en segja sögur. Vera má að þeirri kunnáttu sé ógnað núna um stundarsakir vegna þess hve upptekin við erum við að læra á tölvur og leika okkur með hlutabréf sem eru ávísanir á völd og velgengni í alþjóðavæddum heimi. En vitund okkar verður aldrei södd af veraldargæðum, heldur leitar sífellt þess sem hefur varanlegt gildi. Hún leitar andlegra verðmæta þar sem hugurinn getur fundið frið til að finna sjálfan sig í stað þess að vera í endalausum eltingarleik við hluti sem eru fyrirfram dæmdir til að glatast.

Hvar er að finna þau gæði sem satt geta andann? Þau er að finna í vísindum, listum og leikjum þar sem andinn getur hafið sig til flugs, lyft sér yfir aðstæðurnar og skoðað þær og skilið, umskapað þær og aðlagað að draumum sínum og vonum. Stundum erum við vissulega andlaus og úrkula vonar. En fyrr en varir njótum við líka nýrra gjafa andans sem - rétt eins og náttúran - tekur sífellt á sig nýjar myndir og ný form, brýtur niður og byggir upp í menningu okkar.

Andinn og gift hans ráða sannarlega yfir okkur öllum. Líka ykkur, kandídatar góðir. Lærimeistarar ykkar eru sömuleiðis á valdi þeirri andagiftar sem fræðin hafa blásið þeim í brjóst. Háskóli Íslands er sjálfur helgaður þeim óseðjandi anda sem hefur gagntekið þjóðfélagið allt, þránni eftir æ meiri þekkingu, nýjum hugmyndum og kenningum, skapandi hugviti sem leggur sífellt til nýrrar atlögu við veruleikann. Stærsta verkefnið, sem reynir mest á hugvit okkar og hugdirfsku, er í því fólgið að takast á við okkur sjálf, þau bönd sem við bindum við heiminn og þá andlegu fjötra sem við sjálf hnýtum í æðibunugangi eftir veraldlegri fullnægingu eða fullkomnun.

Börnin höfðu sannarlega rétt fyrir sér. Fullkomleikinn er ekki á mannlegu valdi. Þaðan af síður fullnæging allra okkar langana og hvata. Þess vegna skiptir svo miklu, kandídatar góðir, að við kunnum að staldra við, yfirvega andartakið sem okkur er gefið til að taka þátt í tilverunni og læra að takast á við sjálf okkur, þann náttúrulega og andlega lífskraft sem í okkur býr. Og um leið ber okkur að þakka fyrir að fá að vera þátttakendur í þessu stórkostlega ævintýri sem tilveran er, lífið með öllum sínum undrum sem við mótum líka sjálf með hugsunum okkar og ákvörðunum.

Háskóli Íslands þakkar ykkur, ágætu kandídatar, fyrir ykkar þátt í því að gera hann að góðum skóla þar sem fólk reynir sífellt að gera betur og nema ný lönd í heimi andans.

Megi gæfan fylgja ykkur.

Páll Skúlason


Back to top