Þekking og þjóðfélag framtíðar

Ræða við brautskráningu í Háskóla Íslands 5. febrúar 2000

Forseti Íslands, ráðuneytisstjóri, kandídatar, deildarforsetar, aðrir góðir gestir.

Ég óska ykkur, ágætu kandídatar, fjölskyldum ykkar og aðstandendum einlæglega til hamingju með prófgráðuna. Þið hafið unnið til hennar og nú er hún í ykkar hendi mikilvæg ávísun á framtíðina. Hvernig hyggist þið innleysa hana? Hvernig ætlið þið að nýta menntunina sem þið hafið öðlast, sjálfum ykkur, fjölskyldum ykkar og þjóðfélaginu til heilla? Vafalítið hafið þið þegar viss áform um næstu skref í lífinu og sjáið fyrir ykkur framtíðina hvert á sinn hátt. Háskóli Íslands er stoltur af ykkur og ber til ykkar traust. Hann veit að þið munuð nýta heimanmundinn og leggja ykkar af mörkum hvert sem leiðir ykkar kunna að liggja til að skapa blómlegt mannlíf hér á landi.

Stundargaman eða framtíðarsýn

Á nýbyrjuðu aldamótaári verður framtíðin enn áleitnara umhugsunarefni en hún er ella. En hvernig eigum við að hugsa um framtíðina? Hvaða spurninga þarf að spyrja? Og hver er staða okkar sjálfra? Hver er vandinn sem að okkur steðjar í nútíðinni? Eitt svar við síðustu spurningunni er að finna hjá Þórarni Björnssyni, fyrrum skólameistara Menntaskólans á Akureyri:

„Áður var vandi Íslendinga sá, „að láta ekki baslið smækka sig", eins og Stephan kvað. Nú er vandinn hinn, að láta ekki velsældina gera okkur litla. Fyrri raunina stóðst þjóðin. Það hefur hún sýnt með bjartsýni og framtaki síðustu áratuga. Síðari raunina óttast ég meira. Hættur allsnægtanna eru viðsjálli en hættur vöntunarinnar. Þær læðast að okkur. En vöntunin skapar drauminn, og draumurinn er efniviður allra framtíðardáða. Þar sem draumurinn hverfur, og eltingarleikur við stundargaman og stundarþægindi kemur í staðinn, er framtíðin í hættu." (Rætur og vængir I, s. 273-274.)

Þannig mæltist Þórarni í skólaslitaræðu vorið 1966 og síðan þá hefur óseðjandi eltingarleikur okkar Íslendinga við stundargaman og stundarþægindi síst minnkað. Kannski má segja að boðorð okkar Íslendinga á síðustu áratugum aldarinnar hafi verið þetta: Njótum stundarinnar, við erum óskabörn andartaksins og viljum sá og uppskera nánast samstundis. Við slíkar aðstæður ríkir framkvæmda- og neyslugleði, en fyrirhyggjuna skortir. Hvernig getur framtíðarsýn okkar verið við slíkar aðstæður? Veltum við yfirleitt fyrir okkur þjóðfélagi framtíðarinnar? Eigum við einhvern draum komandi kynslóðum til handa? Hver gæti hann verið?

Leiðum fyrst hugann að þeim spurningum sem framtíðin beinir til okkar. Sú fyrsta er þessi: Framtíð hvers eða hverra erum við að hugsa um? Hin næsta er: Hvaða öfl ráða öðru fremur mótun framtíðarinnar? Þriðja spurningin er svo: Hverjir eru möguleikar okkar á að hafa áhrif á gang mála í heiminum?

Hver þessara þriggja spurninga um sig spannar feikivítt svið og er það einmitt markmiðið með þeim. Til að átta okkur á framtíðinni þurfum við að temja okkur að reyna að sjá heildarsamhengi hlutanna. Sé það ekki gert er hætt við að sundrung og sundurlyndi setji mark sitt á hugsun okkar og athafnir og þá yrði líka öll samstaða úr sögunni.

Framtíð hverra?

Lítum nú nánar á hverja spurningu fyrir sig. Framtíð hvers eða hverra skiptir máli að hugleiða? Við getum haft í huga framtíð okkar sjálfra sem einstaklinga, sem hóps eða þjóðar og líka framtíð alls mannkyns og jafnvel alls lífs á jörðinni. Allt er þetta órofa heild. Framtíð okkar sjálfra verður að hugsa í tengslum við þau skilyrði sem öllu öðru lífi eru búin á jörðinni. Þótt sérstaða okkar sem hugsandi vera sé mikil meðal annarra lífvera þá deilum við lífinu með þeim og hljótum þar af leiðandi að hugsa um hag alls sem lifir um leið og við hugsum um eigin hag. Það sem skýrast greinir okkur frá öðrum lifandi verum er hæfileikinn til að hugsa um lífið í heildarsamhengi og gera okkur grein fyrir hvað er til góðs og hvað er til ills fyrir lífríki jarðar. Þess vegna hljótum við að velta fyrir okkur framtíð mannlegrar hugsunar um lífið og okkur sjálf. Vera má að framtíð lífsins á jörðinni verði öðru fremur undir því komin hvernig við temjum okkur að hugsa um heiminn og hag lífveranna sem byggja hann með okkur. Og þá kann að skipta miklu að við gerum okkur ljósa grein fyrir því hvað það merkir að hugsa um eitthvað, hvaða kröfur hugsunin sjálf gerir til okkar.

Hvað öfl ráða mótun framtíðar?

Næsta spurning var þessi: Hvaða öfl ráða öðru fremur mótun framtíðarinnar? Við svo stórri spurningu eru ekki til nein einhlít svör. Við höfum sjálf áhrif á hvernig framtíðin mótast, ekki aðeins okkar eigin, heldur alls lífs á jörðinni. Núorðið vitum við heilmikið um þau öfl sem eru að verki í náttúrunni, þótt mikið skorti á að við getum séð fyrir hverju náttúran kann að taka upp á. Ekki er útilokað að breytingar verði á lofthjúpi jarðar sem hafi áhrif á hitastig eða á hafstrauma og gerbreyti framtíð lífs á jörðunni. Breytingarnar kynnu að eiga sér stað af okkar völdum, þótt ekki hafi það verið það ætlunin. Ákveðnar félagslegar aðstæður kynnu líka að skapast hjá mannkyninu, til að mynda vegna fólksfjölgunar, sem hefðu ófyrirsjáanleg áhrif á hagkerfi heimsins og ógnuðu öllum samskiptum manna á meðal. Að margra dómi gæti hið síbreikkandi bil milli ríkra þjóða og fátækra skapað fyrr eða síðar torleyst vandamál. Þess vegna sé fátt ef nokkuð brýnna en að hefja skipulega viðleitni í þá veru að skipta gæðum heimsins á réttlátari hátt meðal þjóða heimsins. En til að svo megi verða þurfa hinar ríku þjóðir að temja sér annan hugsunarhátt en þann sem ríkt hefur til þessa í samskiptum þeirra við fátækari þjóðir. Og einnig þarf að líta sér nær og leiða hugann að því hvað má betur fara í okkar samfélagi, okkar eigin garði og hvernig við viljum vinna að því á ábyrgan hátt að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Hvað getum við gert?

Þriðja spurningin var: Hverjir eru möguleikar okkar á að hafa áhrif á gang mála í heiminum? Af því sem þegar hefur verið sagt er augljóst í hverju möguleikar okkar felast: Í þekkingu - þekkingu á lögmálum náttúrunnar, á þjóðfélaginu sem við sjálf mótum og þekkingu á sjálfum okkur, getu okkar og takmörkunum. Þess vegna verður að gera sér sem ljósasta grein fyrir hvað þekking er, í hverju hún er fólgin og einnig hvernig við nýtum hana til að skipuleggja athafnir okkar og taka ákvarðanir. Hér er hvorki staður né stund til að halda fræðilegan fyrirlestur um þekkingu, en mér hefur stundum fundist að Háskólinn ætti að leggja meiri rækt við að fræða nemendur sína og þá einnig ykkur, ágætu kandídatar, um einkenni fræðilegrar þekkingar, þýðingu hennar, merkingu og takmarkanir. Sérhæfingin, sem ríkir í heim vísinda og fræða, á vissulega sinn þátt í því að nýjar niðurstöður komi fram og árangur náist. Hjá henni verður ekki komist. En sérhæfingin á ekki að hindra það að fólk taki til yfirvegunar hina fræðilegu þekkingu almennt. Sú hagnýta notkun, sem nú á sér stað í þjóðfélaginu, á niðurstöðum, kenningum og aðferðum vísinda kallar á slíka yfirvegun. Störf þeirra sem vinna að öflun, varðveislu og miðlun þekkingar verða æ ábyrgðarmeiri og þess vegna þarf sífellt að vega og meta þýðingu þekkingarinnar í mannlífinu og fyrir mannlífið og þar með hvað það er í veruleikanum sem kallar á kunnáttu fólks til að afla vitneskju og skilnings og miðla hvorutveggja til annarra.

Hvað er þekking?

Þess vegna langar mig til að reifa örlítið þekkingarhugtakið sjálft. Í daglegu tali er þekking oft lögð að jöfnu við það sem við teljum okkur vita af reynslu eða af því sem okkur hefur verið sagt. Slík þekking er þá safn upplýsinga eða vitneskju um eitt og annað sem býr í mannfólkinu sjálfu eða hefur verið gert fólki tiltækt með einhverjum hætti, í handbókum, á tölvuneti o.s.frv. Í daglegu lífi og störfum okkar erum við háð því að geta aflað allskyns upplýsinga; vægi þeirra er raunar orðið slíkt að oft er talað um nútímasamfélag sem "upplýsingaþjóðfélag", þjóðfélag sem einkennist öðru fremur af öflun og dreifingu upplýsinga af öllu tagi.

Fræðileg þekking, sú þekking sem háskólar leitast við að afla, varðveita og miðla, er ekki fólgin í upplýsingasöfnum. Fræðileg þekking er fyrst og fremst fólgin í skilningi á tengslum eða samhengi tiltekinna fyrirbæra eða hluta og miðar að því að sýna fram á hvernig og hvers vegna heimurinn eða tiltekið svið hans er eins og það er. Vísinda- og fræðastarf snýst allt um þetta. Og það einkennist af aðferðum sem fræðimennirnar hafa mótað annars vegar til að nálgast fyrirbærin eða hlutina sem þeir vilja skilja og hins vegar til að setja fram tilgátur sínar, hugmyndir og kenningar um tengsl viðkomandi fyrirbæra. Fræðastarfið felst ekki síst í því að grandskoða sífellt aðferðirnar sem beitt er og reyna að finna eða skapa aðrar enn betri. Hin fræðilega þekking upp-lýsir, varpar ljósi á tiltekið svið eða hluta heimsins og gera okkur kleift að sjá þá óreiðu eða reglu sem þar ríkir, til að mynda á hreyfingu himintungla, skýjum himinsins, eðilegum þörfum fólks eða vafasömum neysluvenjum fólks, svo ólík dæmi séu nefnd.

Opinn háskóli

Fyrir viku var opnaður á heimasíðu Háskólans "Vísindavefur" í tengslum við verkefnið Reykjavík, menningarborg Evrópu árið 2000. Skólanemar, og hver sem er, geta þar lagt spurningar fyrir vísinda- og fræðimenn Háskólans. Nú þegar hafa borist margar spurningar sem langflestar lýsa áhuga spyrjandans á að átta sig á tengslum eða ástæðum tiltekinna fyrirbæra, svo sem "af hverju breytast egg við suðu?", "hvers vegna eru svo fáar tegundir ferskvatnsfiska á Íslandi, samanborið við Norðurlöndin?" Þá er einnig spurt um merkingu ýmissa hugtaka (hvað er "sjálfsofnæmi", "umframbyrði skatta", "yfirborðsspenna"?), en eitt einkenni fræðilegrar þekkingarleitar er stöðug smíð nýrra hugtaka sem eiga að gera okkur kleift að ná betur tökum á huglægum eða hlutlægum viðfangsefnum og fyrirbærum.

Forseti Íslands lét þau orð falla þegar Vísindavefurinn var opnaður að sú stund markaði ef til vill meiri tímamót en við gerðum okkur grein fyrir, því með honum væri öllum almenningi opnaður beinn aðgangur að fræðilegri þekkingu Háskólans. Þátttaka Háskóla Íslands í menningarárinu er einmitt undir kjörorðinu "Opinn háskóli" þar sem meðal annars verður haldin í vor stór fræða- og menningarhátíð um lífið í borginni og einnig fjöldi námskeiða sem verða öllum opin endurgjaldslaust.

Í mínum huga leikur ekki minnsti vafi á að allur þorri almennings og þjóðfélagið í heild mun í framtíðinni leitast æ meira við að afla sér fræðilegrar þekkingar og nýta hana í lífi og starfi. Hin fræðilega menning, háskólamenningin, hefur þegar sett svip sinn á samfélagið allt og mjög ánægjuleg og spennandi þróun á sér stað í atvinnulífinu þar sem öflug þekkingarfyrirtæki, fyrirtæki, sem setja sér það markmið að skapa nýja þekkingu með aðferðum vísindanna, hafa verið að hasla sér völl.

Vonandi verða til æ fleiri fyrirtæki af slíkum toga og vafalaust munu fyrirtæki í hefðbundnari framleiðslu og rekstri líka færa sér í nyt vísindalegar aðferðir og taka virkari þátt í leitinni að þekkingu og skilningi en þau hafa gert til þessa. Þá er ljóst að stjórnvöld hljóta að leitast stöðugt meira við að gera áætlanir og taka ákvarðanir byggðar á skilningi og fræðilegu mati á þeim kostum sem fyrir hendi eru. Sjálft lýðræðið kallar einnig eftir fræðilegri og gagnrýninni hugsun og rökræðu um alla þá hagsmuni sem í húfi eru á vettvangi stjórnmálanna.

Upplýsingaþjóðfélag eða þekkingarþjóðfélag

Þannig mun fræðasamfélagið smám saman víkka út uns tala má með réttu ekki aðeins um "upplýsingaþjóðfélagið", heldur "þekkingarþjóðfélagið", en á þessu tvennu ber að gera skýran greinarmun. "Upplýsingaþjóðfélagið" einkennist af öflun og dreifingu hvers kyns upplýsinga. "Þekkingarþjóðfélagið" einkennist á hinn bóginn af því að fólk leitar skilnings með aðferðum vísinda og beitir gagnrýninni hugsun til að vega og meta hið sanna gildi hlutanna.

Ósk mín til ykkar, ágætu kandídatar, er sú að þið látið aldrei stundargaman eða stundarþægindi byrgja ykkur sýn til framtíðar, heldur leggið ykkur alla fram um að gera drauminn um íslenskt þekkingarþjóðfélag að veruleika.

Megi gæfan fylgja ykkur.

Páll Skúlason


Back to top