Brautskráningarræða 08.08.2003
Við lifum á tímum mikilla umsvifa í efnahagslífi heimsins. Verslun og viðskipti dafna sem aldrei fyrr og margir líta á heiminn sem eitt markaðshagkerfi þar sem vörur og vinnuafl, fjármagn og fyrirtæki flæða á milli landa og heimsálfa. Meginskýringin á þessari efnahagslegu hnattvæðingu er þróun nýrrar tækni í framleiðslu og viðskiptum, samskiptum og miðlun upplýsinga. Þróun tækninnar hefur raunar verið svo ör og margbrotin að við höfum engan veginn haft undan við að tileinka okkur hana. Um leið hafa nýir siðir og samskiptaform rutt sér til rúms sem valda því að reynsla og ráð eldri kynslóða kunna að virðast haldlítil til leysa úr vandamálum sem að steðja.
Góðir kandídatar, um leið og ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar hjartanlega til hamingju með prófgráðuna langar mig til að ræða við ykkur um hina nýju veröld, ógnir hennar og ævintýri.
Háskólavorið
Ég nefni strax eitt ævintýri sem við erum að upplifa á Íslandi í dag, en það er hin mikla sókn í meistara- og doktorsnám við Háskóla Íslands og ótal spennandi viðburðir í fræðastarfi og rannsóknum sem einkenna þessa þróun. Á hverjum degi berast fréttir af fræðastarfi nemenda og kennara Háskólans og sagt er frá málþingum og fyrirlestrum þar sem nýjar rannsóknir, tilgátur og niðurstöður eru kynntar og ræddar. Heimsóknir erlendra fræðimanna eru daglegt brauð og íslenskir fræðimenn eru á faraldsfæti að kynna fræði sín og niðurstöður úti í heimi, þótt sjaldnast sé sagt frá því í innlendum fjölmiðlum. Í þeim blasa hins vegar við auglýsingar um alls kyns nám á háskólastigi sem nú er boðið upp á hér á landi. Auk Háskóla Íslands veita nú einir níu skólar nám til fyrstu háskólagráðu og nokkrir þeirra bjóða einnig upp á nám til meistaraprófs. Þetta sýnir feikilega grósku – sannkallað háskólavor – í íslensku menntalífi. Og þetta vekur að sjálfsögðu margar spurningar um framtíð æðri menntunar á Íslandi og hvernig best verði staðið að því að virkja þann eldheita áhuga á aukinni fræðslu og rannsóknum sem brennur á þjóðinni. Möguleikarnir er miklir, tækifærin óteljandi. Ævintýrið um endursköpun menningar okkar og þjóðlífs í anda sannra vísinda og þekkingarleitar er vissulega þegar hafið, en það er enn á byrjunarstigi – framundan bíður okkar nýr veruleiki, hlaðinn óvæntum uppfinningum og uppgötvunum sem eiga eftir að breyta heiminum og okkur sjálfum.
Þetta vitið þið, kandídatar góðir, eins vel og ég vegna þess að líf ykkar síðustu misserin og árin hefur einmitt snúist um þetta. Allt nám – en einkum þó háskólanám – felst í lærdómslífi, lífi sem einkennist af þeim ásetningi að virkja möguleika lífsins, lífi sem felst í að læra að skilja, að kunna og að vita hluti sem gefa því aukið gildi að lifa og vera til. Um þetta á líf okkar að snúast – að auka gildi þess að lifa mennsku lífi og gera mannlífið betra. Lærdómur er virðisauki lífsins.
Ógn efnahagshyggjunnar
En stundum snýst lífið gegn sjálfu sér. Lífsbaráttan verður barátta gegn böli sem á rætur sínar í brengluðu mati á gæðum lífsins, öfgafullum skoðunum eða hugsunarhætti sem hindrar að við nýtum þá möguleika sem lífið hefur upp á að bjóða. Ég ætla ekki, ágætu kandídatar, að þreyta ykkur lengi á kenningum um það sem ógnar okkur, þau öfl og þær hvatir sem iðulega verða til að spilla mannlífinu, samskiptum fólks og möguleikum á að lifa góðu og skapandi lífi. En ég vil vekja eftirtekt ykkar á ævafornum sannindum sem ég tel að okkur nútímafólki sé lífsnauðsyn að taka mið af í lífi okkar og starfi: Það sem mestu skiptir í lífinu verður ekki vegið og metið á efnahagslegum mælikvarða. Fenni yfir sannindi þessi er hætt við að hin nýja veröld, sem við eigum öll að taka þátt í að skapa, verði ekki sú veröld ævintýra sem við þráum að börn okkar og barnabörn njóti, heldur veröld þar sem illska nær yfirráðum.
Til að skilja gildi þessara sanninda skulum við fyrst leiða hugann að því sem ógnar mest heilbrigðri hugsun og samstöðu meðal fólks og meðal þjóða heimsins. Það er í fæstum orðum sagt hörkuleg barátta um efnahagsleg gæði og um leið vanmat á menningarlegum og pólitískum gæðum. Ég skal skýra hvað fyrir mér vakir í eins stuttu máli og mér er unnt. Á okkar dögum er sú hugmyndafræði áhrifaríkust að efnahagsleg gæði, sem vegin eru í peningum og fjármagni, hljóti að ráða úrslitum um gang mála í mannlegu samfélagi. Öll mannleg samskipti séu að endingu ekkert annað en viðskipti þar sem hver og einn hugsar um að skara eld að eigin köku. Og þar af leiði að besta og eðlilegasta fyrirkomulag mannfélagsins sé óheft markaðshagkerfi þar sem einstaklingarnir geti keppt um að bera sem mest úr býtum í hvaða grein og á hvaða sviðum sem vera skal.
Hugmyndafræði þessi hvílir á einum einföldum greinarmun og einni skýrri kenningu. Greinarmunurinn er þessi: Starfsemi fólks má skipta í tvo flokka – annars vegar starfsemi sem miðar að framleiðslu og dreifingu efnahagslegra gæða, hins vegar starfsemi sem hefur ekki slík markmið og þjónar engum efnahagslegum tilgangi. Kenningin er eftirfarandi: Starfsemi sem snýst um framleiðslu og dreifingu efnahagslegra gæða liggur þjóðfélaginu til grundvallar, öll önnur starfsemi er háð henni og er að endingu annað hvort þjónusta við hana eða munaður sem menn láta eftir sér.
Grundvallargildi
Nú skal ég fúslega viðurkenna, kandídatar góðar, að sú mynd sem ég hef dregið upp af ríkjandi hugmyndafræði kunni að vera ofureinfölduð. En hún dugar til að vekja eftirtekt á þeirri hættu sem blasir við, ef við leggjum efnahagsleg gildi til grundvallar öllu því sem við gerum. Hættan er sú að við horfum framhjá öðrum gildum sem liggja lífi okkar til grundvallar ekki síður en hin efnahagslegu. Hver skyldu þau gildi vera?
Ég nefni tvenns konar gildi. Annars vegar gildi af stjórnmálalegum toga: lýðræði, réttlæti, frið, öryggi og velferð. Þetta eru þau gildi sem nútíma þjóðríki snúast um öðru fremur. Hins vegar eru gildi af menningarlegum toga: vísindi, trú og listir, menntun og lærdómur, leikir og heilsurækt. Þetta eru þau gildi sem ótal félög og stofnanir þjóðfélagsins snúast um og vilja efla.
Samkvæmt efnahagshyggjunni, sem ég var að lýsa, eiga hin pólitísku og menningarlegu gildi að þjóna þeirri starfsemi sem snýst um framleiðslu og dreifingu efnahagslegra gæða; endanleg réttlæting þeirra væri framlag til efnahagslífsins. Þjóðríkið á samkvæmt þessu að tryggja öryggi og velferð að svo miklu leyti sem það skapar þegnunum skilyrði til að afla sér tekna og taka þátt í atvinnulífinu. Vísinda- og menntastofnanir eiga að sama skapi að vinna að því að niðurstöður rannsókna og aukin kunnátta fólks til verka nýtist sem mest og best til að byggja upp öflugt atvinnulíf.
Þetta virðist allt segja sig sjálft. Ég segi “virðist” vegna þess að málin eru í reynd miklu flóknari og erfiðari viðfangs en hér er gefið í skyn. Ástæðan er sú að iðulega geta orðið djúpstæðir árekstrar á milli hinna ólíku gilda sem hér eru í húfi. Og það er ekki aðeins rangt heldur háskalegt að halda að það hljóti að endingu að vera efnahagslegu gildin sem mestu skipti og allt velti á. Í reynd standa gildi af menningarlegum og stjórnmálalegum toga okkur enn nær af því að þau leggja grunn að sjálfsvitund okkar og samskiptum – einnig hinum efnahagslegu eða viðskiptalegu. Auðvitað skipta efnahagsgildin miklu máli, en ekki fyrst og fremst vegna þeirra sjálfra heldur vegna annarra gilda sem þau eiga þátt í að skapa. Það kostar þjóðfélagið mikið fé að halda uppi góðu réttarkerfi í þjóðfélaginu og það er raunar ekki víst að slíkt þjóni beinlínis efnahagslegum markmiðum þegar öll kurl eru komin til grafar. Eitt markmið réttarkerfisins er einmitt að hindra að fyrirtæki og einstaklingar hafi efnahagslegan ávinning af athæfi sem stangast á við menningarleg eða stjórnmálaleg verðmæti.
Annað og miklu flóknara mál er þegar efnahagsþróunin, atvinnustarfsemin, vinnur gegn þeim lífsháttum og menningu sem fólk vill umfram allt leggja rækt við, en borgar sig engan veginn fjárhagslega. Byggðaþróun á Íslandi og víðar er sláandi dæmi um þetta þar sem fjöldi fólks, sem vill búa í sveitum og sjávarþorpum, er knúið til að flytja í þéttbýlið af efnahagslegum ástæðum.
Þriðja dæmið gæti verið öflugt vísinda- og menntastarf. Engum blandast hugur um að sú starfsemi hefur margvíslega efnahagslega þýðingu, en það er einnig augljóst að ávinningur hennar er ekki aðeins efnahagslegur, heldur í mörgum tilfellum framar öllu menningarlegur og einnig af stjórnmálalegum toga. Í bæklingnum, sem hér liggur frammi, um uppbyggingu Háskólans næstu árin, er getið fjölmargra verkefni sem lúta öll að því að gera Háskóla Íslands að enn kraftmeiri menningarstofnun. Ég nefni aðeins eitt þeirra, Náttúrufræðahúsið í Vatnsmýrinni sem verður tekið í notkun síðar á þessu ári. Með hinu nýja og glæsilega húsi gjörbreytist aðstaða til kennslu og rannsókna í jarð- og lífvísindum og um leið gefst einstakt tækifæri til að efla þessi fræðasvið. Sú efling skiptir ekki aðeins sköpum fyrir margvíslega atvinnustarfsemi í landinu, heldur fyrir íslenska menningu, þekkingu okkar á Íslandi, lífríki þess og stórkostlegri náttúru. Þekkingin, vakandi og skapandi vitund um undur og fegurð íslenskrar náttúru, er ásamt tungunni undirstaða íslenskrar menningar og þjóðarvitundar. Það er ekki tilviljun að frumherji íslenskra náttúruvísinda, Jónas Hallgrímsson, varð þjóðskáld Íslendinga og vakti með þjóðinni vilja til sjálfstæðis og endurreisnar í anda kjörorðanna sem Háskóla Íslands sótti til hans: “Vísindin efla alla dáð.”
Markmið háskóla er lærdómsiðkun
Náttúruvísindasetrið í Vatnsmýrinni er reist í þessum anda, rétt eins og Háskóli Íslands var stofnaður fyrir rúmum níutíu árum til að tryggja menningarlegt og pólitískt sjálfstæði þjóðarinnar, stuðla að sjálfsvitund okkar sem fullvalda þjóðar sem skildi stöðu sína í heiminum og hefði burði til að byggja upp heilsteypt þjóðskipulag. Frá efnahagslegu sjónarmiði hefði ef til vill verið skynsamlegra að senda íslenska stúdenta áfram til náms við erlenda háskóla en leggja í allan þann kostnað sem fylgir því að reka eigin alhliða háskóla sem stenst samjöfnuð við það besta sem gerist í menntun og rannsóknum við erlendar menntastofnanir. Að ekki sé minnst á kostnaðinn við að tala og skrifa á íslensku “um allt, sem er hugsað á jörðu”. Það var og er menningarlegur og pólitískur stórhugur Íslendinga sem skapað hefur Háskóla Íslands og það mikla og fjölþætta fræðslu- og vísindastarf sem hann hefur lagt grundvöll að í þjóðfélaginu. Þess vegna má sú umræða sem nú er hafin í þjóðfélagi okkar um Háskóla Íslands og aðra skóla á háskólastigi aldrei einskorðast við rekstrarleg málefni, fjármögnun, kostnað og ytra fyrirkomulag. Þessi umræða á að beinast umfram allt að þeim gildum og gæðum vísinda, lærdóms og menntunar sem allt háskólastarf á að snúast um að efla og breiða út meðal landsmanna. Þess vegna skiptir líka höfuðmáli að sem allra flestir geri sér ljósa grein fyrir því um hvað háskólar snúast og hvert markmið þeirra er. Merkur breskur fræðimaður, Michael Oakeshott að nafni, lýsir þessu prýðilega á eftirfarandi hátt:
Háskóli er hópur fólks sem fæst við ákveðna tegund starfsemi: Á miðöldum var hún kölluð Studium, en við getum kallað hana “lærdómsiðkun”. Þessi starfsemi er meðal þess sem einkennir og prýðir siðmenntaða lífshætti. ... Háskólarnir hafa þó ekki einkarétt á þessari starfsemi. Hún er einnig iðkuð af grúskaranum í skrifstofukytru sinni, skólanum sem hefur getið sér orð á einhverju sviði lærdóms og í barnaskólanum. Þessir iðkendur lærdóms eru allir aðdáunarverðir, en þeir eru ekki háskólar. Háskóli einkennist af því að þar er lærdómur iðkaður á alveg sérstakan hátt. Háskólinn er samfélag fræðimanna, þar sem hver helgar sig sinni eigin fræðigrein, en sem einkennist þó af því að lærdómurinn er iðkaður undir formerkjum samvinnu. ... Háskóli er staður þar sem lærdómur er til húsa, þar sem lærdómshefð er varðveitt og viðhaldið og þar sem nauðsynlegum tækjum til lærdómsiðkunar er haldið til haga.
Hér lýsir Oakeshott því markmiði sem háskóli er helgaður. Markmiðið er ákveðin starfsemi – lærdómsiðkun. Þetta verða menn ávallt að hafa í huga þegar fjallað er um málefni háskóla, skipulag þeirra, stjórnun, rekstur og innri gæðamál. Að öðrum kosti missa menn sjónar á því sem málið snýst um og líta jafnvel á tilganginn, markmiðin sjálf, sem tæki eða þátt í verslun og viðskiptum. Háskólar eru ekki fyrirtæki sem framleiða og selja vörur sem bera heitin “fræðileg þekking”, “rannsóknir”, “vísindi”, “nám” eða “menntun”. Prófskírteini ykkar, kandídatar góðir, eru ekki staðfesting þess að þið hafið “keypt” ykkur fræðilega þekkingu í stórmarkaðinum eða verksmiðjunni “Háskóli Íslands”. Prófgráðan er staðfesting þess að þið hafið stundað alvöruháskólanám af heilindum og dugnaði og hlotið opinberan vitnisburð um námsferil ykkar og lærdóm. Sannur lærdómur er þeirrar náttúru að efla lífið og auðga af ómetanlegum gæðum mannlegs skilnings, samstillingu andlegra krafta og innsæis í flóknar og síbreytilegar aðstæður lífsins í heiminum.
Ævintýraland þekkingar og réttsýni
Ágætu kandídatar! Leyfið lærdómnum að vinna verk sitt í lífi ykkar og starfi, leitið ávallt hins sanna og rétta og fórnið aldrei sálarheill ykkar og samvisku á altari Mammons, guðs peninga og ágirndar. Gætið því þess að láta ekki blinda efnahagshyggju stýra skoðunum ykkar og mati á gildi hlutanna. Lítið aldrei svo á að úrlausnarefni ykkar séu eingöngu efnahagsleg rekstrarmál, heldur hafið ávallt í huga hin menningarlegu og pólitísku gildi sem eru í húfi í lífi ykkar og starfi.
Háskóli Íslands er stoltur af þeim stóra og kraftmikla hópi sem brautskráist hér í dag. Hann veit að þið, kandídatar góðir, munuð leggja ykkar af mörkum til að gera Ísland að því ævintýralandi þekkingar og réttsýni sem við öll þráum.
Megi gæfa fylgja ykkur.