Málefni Háskóla

Ræða háskólarektors við brautskráningu í Háskólabíói 22. febrúar 2003

Málefni háskóla eru ofarlega á baugi í opinberri umræðu um víða veröld. Sú umræða fer þó ekki hátt miðað við þá miklu umfjöllun sem málefni fyrirtækja hljóta í fjölmiðlum, að ekki sé minnst á þjóðríkin, bæði stór og smá, sem leika aðalhlutverkin í valdatafli heimsins. Athygli almennings beinist stöðugt að atburðum sem eiga sér stað í efnahagslífi og stjórnmálum. Viðburðir á sviði vísinda, lista og mennta vekja vissulega einnig athygli, en með öðrum hætti því margir ganga að því vísu að þeir skipti ekki sköpum fyrir daglegt líf okkar og lífsafkomu. Fátt hefur þó eins mikla þýðingu fyrir lífshagsmuni fólks og einmitt menntun, vísindi og listir. Menningarviðburðir vekja spurningar um hvað skipti máli í lífinu, hvernig bregðast skuli við nýjum aðstæðum og hver við sjálf erum.

Ágætu kandídatar, um leið og ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar til hamingju með daginn – með þann viðburð sem hér á sér stað – langar mig til að ræða svolítið við ykkur um málefni sem ég tel miklu skipta fyrir okkur öll og þó hugsanlega enn meira máli fyrir börn okkar og komandi kynslóðir. Þetta eru málefni háskóla, þróun þeirra um þessar mundir og þýðing þeirra fyrir framtíðina. Háskólar hafa frá miðöldum gegnt lykilhlutverki í menningu vestrænna þjóða og aðrar þjóðir heimsins hafa á síðari tímum kappkostað að móta háskóla að þeirra fyrirmynd. Umræðan um háskóla nú um stundir bendir öll til þess að háskólum sé ætlað æ víðtækara hlutverk í þjóðfélagi framtíðarinnar. Þess vegna er mikilvægt að vel og vandlega sé hugað að málefnum þeirra.

Umræðan um framtíð háskóla tekur mið af ákveðinni þróun sem lýst hefur verið í þremur eftirfarandi staðhæfingum.
1. Sífellt fleiri leita eftir námi í háskólum eða við æðri menntastofnanir.
2. Stjórnendur skólanna hljóta að axla aukna ábyrgð í því skyni að gera rekstur háskólana eins árangursríkan og hagkvæman og kostur er.
3. Opinberir aðilar hafa ekki aukið framlög sín til háskólanna í réttu hlutfalli við vöxt þeirra og fjölgun nemenda.

Staðhæfingar þessar eiga allar við Háskóla Íslands: Aðsókn að Háskólanum eykst stöðugt  – aukningin frá 1997 er hvorki meira né minna en um 40% – og þetta gerist á sama tíma og fimm aðrir skólar á háskólastigi líta dagsins ljós! Fjárveitingar til skólans frá opinberum aðilum hafa ekki hækkað í samræmi við þessa miklu fjölgun. Og með nýjum lögum um Háskóla Íslands hefur stjórnendum hans verið falin margvísleg aukin ábyrgð á öllum rekstri hans og skipulagi.

Sú þróun sem hér er lýst vekur margar spurningar. Ég nefni nokkrar þeirra: Hvers vegna sækja sífellt fleiri nemendur í háskóla? Hvað geta háskólar gert við núverandi aðstæður til að styrkja stöðu sína og bæta rekstur sinn? Hvernig má renna traustari fjárhagsstoðum undir háskólastarfið?

Svarið við fyrstu spurningunni – um ástæður þess að æ fleiri kjósa að leggja stund á háskólanám – kann að virðast svo augljóst að þarflaust sé að ræða það: Æ fleirum sé ljóst að með háskólanámi gefist þeim fremur kostur á vel launuðum störfum og fólk tryggi með því móti betur stöðu sína og möguleika í þjóðfélaginu. Frá sjónarhóli hins opinbera sé aukin menntun þegnanna mikilvægur liður í því að skapa skilyrði fyrir meiri hagsæld og öflugri uppbyggingu þjóðfélagsins. Samhliða þessu gerir þjóðfélagið sífellt meiri kröfur um háskólamenntun á æ fleiri sviðum. Í mínum huga leikur ekki vafi á því að fjöldi fólks streymir líka til háskólanna vegna þess að það veit eða telur sig vita að ekkert sé líklegra til að veita því lífsfyllingu en einmitt góð menntun sem eykur víðsýni þess, skilning á heiminum og kunnáttu til ýmissa verka.

Háskólar hafa frá því á miðöldum kynt undir alheimsmenningu vísinda og fræða þar sem fólk lærir að skynja sig sem þátttakendur í samfélagi sem þekkir engin önnur landamæri en þau sem þekkingin á veruleikanum setur okkur. Þessi hugsunarháttur hefur smám saman náð að festa rætur víða um heim og á vafalaust sinn þátt í aukinni sókn í háskólanám. Orðið “hnattvæðing” hefur í hugum margra orðið tákn fyrir það sem á sér stað í heiminum á okkar tíma. Hvað merkir þetta orð? Ein merking þess er sú að fólk hvarvetna á jarðarkringlunni er farið að skynja jörðina – hnöttinn – sem heimkynni sín, ekki bara landið, borgina eða sveitina þar sem það býr á hverjum tíma. Með öðrum orðum, við lifum á tímum þar sem fólk um víða veröld er að öðlast vitund um sjálft sig sem “heimsborgara”, en ekki aðeins sem borgara tiltekins lands eða ríkis. Því fer fjarri að þessi “heimsborgaravitund”, ef ég má orða það svo, sé orðin útbreidd um heiminn, en hún er búin að skjóta rótum alls staðar á jörðinni og ég er sannfærður um að hún á eftir að styrkjast og breiðast út örar en okkur grunar á þessari stundu. Ég er einnig sannfærður um að efling háskóla er mikilvægur þáttur í þessari þróun sem stefnir í átt til sameiginlegrar menningar fyrir mannkynið allt.

Nú finnst mér freistandi, kandídatar góðir, að leggja lykkju á leið mína og fræða ykkur rækilega um sögu hugmyndarinnar um “heimsborgarann”, en í stuttri hátíðarræðu leyfist mér ekki slíkt. Ég nefni aðeins tvær rætur hennar. Önnur er hjá fornum Stóuspekingum sem lögðu höfuðáherslu á að hver manneskja væri hugsandi vera sem ætti ekki aðeins heima í samfélaginu þar sem hún væri fædd, heldur væri íbúi í alheimi sem hún næmi með huga sínum. Hin er hjá þýska heimspekingnum Immanuel Kant sem lagði áherslu á að manneskjurnar hefðu ekki aðeins rétt sem íbúar í tilteknu landi eða ríki, heldur sem “heimsborgarar”, borgarar í ríki alls mannkyns sem hann sá fyrir sér sem forsendu friðar og samninga á milli allra þjóða heimsins. – Hugmyndir Kants hafa sett svip sinn á umræður um mannréttindi og alþjóðalöggjöf allar götur síðan hann hélt þeim fram fyrir rúmlega tvö hundruð árum.

Sú “heimsborgaravitund” sem nú er í mótun sækir ekki kraft sinn einvörðungu í þennan hugmyndaarf, heldur í þau félagslegu samskiptakerfi sem breiðst hafa út um heiminn á síðustu áratugum. Samgöngur og boðskipti hafa á örskömmum tíma breytt forsendum fjölda fólks um heim allan til þess að gera sér grein fyrir veröldinni eftir áður óþekktum leiðum. Veraldarvefurinn – internetið – er eitt þessara nýju undratækja sem tengja saman einstaklinga og hópa hvaðanæva úr veröldinni og gera fólki kleift að átta sig á heiminum langt útyfir þann ramma sem þjóðlöndin hafa sett því fram til þessa. Engar stofnanir hafa nýtt sér hina nýju möguleika eins mikið og einmitt háskólarnir sem eru – eins og Björn M. Ólsen, fyrsti rektor Háskóla Íslands, orðaði það – “kosmopolitiskar stofnanir, um leið og þeir eru þjóðlegar stofnanir”. Vísindi og fræði eru í eðli sínu alþjóðleg og háskólar heimsins mynda þannig vísi að þeirri alheimsmenningu sem koma skal: Háskólaborgarinn getur af sér hinn nýja heimsborgara!

Af þessu leiðir eðlilega að gerðar eru meiri kröfur til háskólanna, ábyrgð þeirra vex og þeir huga sífellt að nýjum leiðum til að gera starfsemi sína árangursríkari. Bæklingurinn um uppbyggingu Háskóla Íslands er dæmi um þetta. Þar eru sett fram þrjú skýr markmið um uppbyggingu Háskólans fram til ársins 2005 og lýst tilteknum aðgerðum til að ná þeim. Fyrsta meginmarkmiðið er að gera Háskóla Íslands að enn öflugri rannsóknaháskóla, annað er að auka fjölbreyttni námsins og auka alþjóðleg samskipti, hið þriðja er að bæta starfsskilyrði allra í háskólasamfélaginu. Uppbygging þessi stefnir öll að því að gera Háskóla Íslands kleift að axla fyllilega ábyrgð sína í íslensku þjóðfélagi og uppfylla enn betur þær kröfur sem til hans eru gerðar – frá nemendum hans, frá íslensku atvinnu- og menntalífi og frá íslenska ríkinu sjálfu. Þessi uppbygging kostar stórfé og það þarf að auka enn verulega til að Háskóli Íslands geti sinnt með sóma þörfum þjóðfélagsins fyrir menntun og vísindalegar rannsóknir.

Síðustu tvær aldir hafa þjóðríkin átt langdrýgstan þátt í því að kosta uppbyggingu háskóla og unnið þannig markvisst að því að tryggja sína eigin stöðu, auka þekkingu og færni sem kæmi þeim sjálfum að bestum notum, til að mynda með því að mennta vísindamenn sem nýttu kunnáttu sína í þágu þeirra markmiða sem ríkið setti sér. Sem dæmi má nefna gífurlega uppbyggingu í vissum bandarískum háskólum eftir seinni heimstyrjöld í því skyni að tryggja hernaðarmátt Vesturvelda. Þessi nánu tengsl háskólastarfsins og hagsmuna ríkisins hafa haldið áfram að styrkjast vegna þess að þjóðríkin eiga allt sitt undir því að verða sem virkust í mótun hinnar nýju heimsmenningar. Það gera þau ekki síst með því að skapa það menntakerfi sem henni hæfir um leið og það samræmist best óskum fólks og þörfum sem einstaklinga. Þess vegna er svo brýnt að stjórnvöld og allur almenningur geri sér sem ljósasta grein fyrir starfsemi háskólanna og þýðingu þeirra fyrir þjóðfélagið.

Mikilvægasti þátturinn í samskiptum Háskóla Íslands og íslenska ríkisins á síðustu árum eru formlegir samningar með gagnkvæmum skuldbindingum sem gera ljóst fyrir hvað ríkið greiðir, hvað Háskólanum er skylt að gera og hvað honum er í sjálfsvald sett; greiðslur til Háskólans eru jafnframt í ríkum mæli tengdar kröfum um árangur og gæði. Sjálfsaflafé Háskólans hefur smám saman aukist og er nú um einn þriðji af tekjum hans.

Með samningum af þessu tagi skapast ný skilyrði fyrir samskipti háskóla og ríkis þar sem sjálfræði háskóla er aukið um leið og ljóst er hvað háskólunum er skylt að gera og hverjar skuldbindingar ríkisins við þá eru. Það segir sig sjálft að forsendan fyrir árangursríku samstarfi ríkis og háskóla er sú að staðið sé við gerða samninga og hægt sé að gera áætlanir að minnsta kosti nokkur ár fram í tímann.

Krafan sem nútíminn gerir til Háskóla Íslands er ekki aðeins sú að kenna æ fleiri nemendum, heldur einnig að stórauka vísindalegar rannsóknir. Til þess að Háskólinn geti haft frumkvæði og þróast í takt við þær þarfir þjóðfélagsins sem honum er falið að sinna, þá verður hann að hafa trygga fjármögnun á starfsemi sinni með samningsbundnum greiðslum frá ríkinu. Þannig uppfyllir ríkið skyldu sína gagnvart Háskólanum og skapar honum skilyrði til að axla ábyrgð sína; sé það ekki gert er alvarlegur brestur í starfi ríkisins. Samningarnir lúta annars vegar að kennslu, hins vegar að rannsóknum.

Í samningum Háskóla Íslands og ríkisins um kennslu skiptir tvennt meginmáli: Annars vegar fjöldi nemenda sem ríkið er tilbúið að greiða fyrir, hins vegar framlag ríkisins fyrir hvern nemanda á hinum mismunandi fræðasviðum. Háskóli Íslands hefur talið að framlag ríkisins á hvern nemenda sé alltof lágt reiknað miðað við þann kostnað sem Háskólinn hefur af kennslunni. Framlagið til kennslunnar hefur ekki hækkað frá árinu 2000 í takt við kostnaðarhækkanir og fjárveiting til rannsókna er nú aðeins 60% af fjárveitingu til kennslu en var tæp 67% á árinu 2000. Af þessum sökum hefur Háskóli Íslands mátt sætta sig við að draga úr þjónustu við nemendur í ýmsum greinum, til að mynda með því að fækka kennslustundum og stækka nemendahópa umfram það sem æskilegt er. Hvorki Háskólinn né stúdentar geta unað slíku til lengdar. Þetta mál verður því að taka föstum tökum og leiða til lykta á næstunni með ráðstöfunum sem tryggja þá hagsmuni sem hér eru í húfi – fyrir háskólana og nemendur þeirra, fyrir ríkið og þjóðfélagið í heild.

Samningaviðræður hafa staðið yfir síðustu mánuði milli Háskólans og menntamálaráðuneytisins um auknar fjárveitingar bæði til kennslu og rannsókna. Mér er ljúft að geta sagt frá því að nú er í burðarliðnum nýr kennslusamningur sem felur í sér aukin framlög vegna fjölgunar nemenda og endurskoðun á greiðslu fyrir hvern nemanda á hinum mismunandi fræðasviðum.  Menntamálaráðherra hefur lagt sig fram í þessu máli og þakka ég honum fyrir það. Eftir er að ljúka samningi um rannsóknir, en hér er metnaður Háskólans sá að framlög til rannsókna verði jafnhá framlögum til kennslu eins og tíðkast í rannsóknaháskólum á Norðurlöndum. Ég heiti á ráðherrann að beita sér af krafti fyrir farsælli niðurstöðu í þeim samningaviðræðum. 

Ágætu kandídatar og góðir hátíðargestir!

Ég hef nú þreytt ykkur um stund með því að ræða um fjármál. Afsökun mín er sú að hér er um mikilvæg hagsmunamál að ræða sem varða ekki aðeins nemendur, kennara og sérfræðinga Háskóla Íslands og annarra háskóla, heldur brennur á þjóðfélaginu öllu og skiptir sköpum fyrir framtíð þess. Komandi kynslóðir munu vega okkur og meta eftir því hve vel eða illa við stöndum okkur við að skapa skilyrði fyrir blómlegu menningarlífi á Íslandi og efnahagslegri hagsæld.

Um leið og Háskóli Íslands þakkar ykkur, kandídatar góðir, fyrir samfylgdina til þessa, þá er ósk hans og von sú að þið verðið alla tíð sannir háskólaborgarar og vinnið ötullega að því að gera Ísland að fullgildum þátttakanda í mótun nýrrar heimsmenningar.

Megi gæfa fylgja ykkur.


Back to top