Hvers konar stofnanir eru háskólar? Hvað einkennir þróun þeirra nú á dögum? Hver á að vera meginstefna þeirra? Hvernig á að stjórna þeim? Í bók þessari er tekist á við þessar mikilvægu spurningar. Í henni eru valdar greinar, erindi og ræður um stöðu og starf íslenskra og erlendra háskóla sem eiga erindi til allra sem láta sig varða þróun æðri menntunar. Færð eru rök fyrir nauðsyn róttækrar endurskoðunar á stefnu og starfsemi háskóla eigi þeir að gegna hlutverki sínu sem skyldi.
Úr inngangi bókarinnar:
„Meginefni þessarar bókar tengist stefnumótun háskóla. Í fyrsta hlutanum eru fimm greinar sem fjalla hver með sínum hætti um stefnu háskóla í fortíð og nútíð og hvað ég tel að skipti mestu við mótun slíkrar stefnu. Í öðrum hluta eru sexerindi, blaðagreinar og viðtal þar sem málefni háskóla eru skoðuð frá ýmsum sjónarhólum, en í þriðja hlutanum eru ræður sem flestar fjalla beinlínis um stefnu Háskóla Íslands og þá stefnumótun sem átti sér stað í rektorstíð minni (1997–2005). Í inngangi þessum mun ég skýra hvers konar stefnumótunar ég tel vera þörf á okkar tímum, hvað ég tel stefnu háskóla fela í sér almennt séð og hvaða stefna hefur verið ríkjandi að undanförnu.“