Jafnréttisstefna. Konur og rektorskjör

Jafnréttisstefna

Fundur 3. apríl 1997 -- "Konur og rektorskjör"

Ég vil orða efnið sem mér er hér falið að ræða með eftirfarandi spurningu: "Hvernig myndir þú sem rektor beita þér fyrir því að háskólasamfélagið verði þjóðfélaginu til fyrirmyndar í jafnréttismálum?" Ég gef mér eina grundvallarforsendu sem er sú að það sé raunverulegur vilji þessa litla samfélags okkar að verða öðrum til fyrirmyndar í því að tryggjan jafnan rétt kvenna og karla - og ég gef mér það líka sem óumdeilanlega staðreynd að konur njóti hér ekki jafnréttis á borð við karla fremur en annars staðar í þjóðfélaginu.

Vafalaust munu einhverjir í samfélagi okkar vilja draga í efa þetta tvennt sem ég sló hér föstu, neita því að hér ríki misrétti og neita því þá líka að nokkur ástæða sé til að boða jafnréttisstefnu. Gegn þessum andmælum nægir að vísa til þeirrar staðreyndar, sem blasir við þegar við horfum á hlutfall karla og kvenna í prófessorsstöðum: 11 konur, en 139 karlar (7% á móti 93%). Hlutfallið gjörbreytist ef við lítum á hlutfall stúdentahópsins: 57% konur, 43% karlar. Samanburðurinn sýnir að möguleikar kvenna á að vera prófessorar hafa verið sáralitlir - og um leið sýna þær að konur sækja æ meir í háskólanám, sem bendir til þess, að merkileg þróun í jafnréttisátt sé að eiga sér stað. Samkvæmt þessu ætti konum í ábyrgðarstöðum að fjölga mjög hratt á næstunni. Og ég tel að háskólayfirvöld eigi að kappkosta að styrkja konur og styðja til hinna æðri starfa í Háskólanum.

En slík þróun gerist ekki sjálfkrafa. Háskólasamfélagið hefur verið og er enn karlasamfélag, þar sem sjónarmið og viðhorf kvenna eiga erfitt uppdráttar. Og sú staðreynd að konur gera nú þá réttmætu kröfu að karlar taki fullt tillit til sjónarmiða þeirra og virði stöðu þeirra til jafns við stöðu karla veldur togstreitu og spennu sem kann að taka á sig ótal myndir. Markmið jafnréttisbaráttu á að vera að eyða þessari spennu og skapa andrúmsloft gagnkvæmrar viðurkenningar og virðingar á milli kynjanna, sem útrýmir því öryggisleysi og þeim ótta sem einkenna slíka togstreitu og spillir samskiptum okkar. Jafnréttisbaráttan - gleymum því ekki - er ekki síður í þágu karla en kvenna.

Hvaða aðferðum skal beita til að stefna að raunverulegu jafnrétti - ekki aðeins í orði, heldur einnig á borði? Áætlunin sem ég sé fyrir mér er í tveimur liðum og má lýsa sem tangarsókn. Fyrri liðurinn felst í að setja jafnréttisreglur. Síðari liðurinn í jafnréttisfræðslu.

Ég nefni fyrst jafnréttisreglurnar: Við eigum að setja okkur skýrar og opinberar reglur til að rétta hlut kvenna. Reglur þessar gegna tvíþættu hlutverki, í fyrsta lagi að draga fram í dagsljósið vandamál og árekstra sem iðulega er afneitað, og í öðru lagi að taka á þessum samskiptavandamálum með formlegum, skipulegum hætti. Ég nefni þrjú dæmi um slíkar reglur:

  • reglu til að jafna hlutföll kvenna og karla í stjórnum, nefndum og ráðum Háskólans.
  • reglu um að velja fremur konu til starfa, ef umsækjendur eru jafnhæfir til starfsins og konur í minnihluta í greininni.
  • reglu um sveigjanlegan vinnutíma kvenna og karla vegna fjölskylduaðstæðna.

Til að framfylgja þessum lið þeirrar jafnréttisáætlunar, sem ég er að lýsa, þarf að setja á laggirnar jafnréttisnefnd og starf jafnréttisfulltrúa sem hefði umsjón og eftirlit með því hvernig reglunum yrði framfylgt og sjái til þess að þær séu endurskoðaðar í ljósi reynslunnar.

Síðari liður áætlunarinnar felst í jafnréttisfræðslu. Jafnréttisfræðsla felst í því að fræða skipulega um mismun kynjanna og þá einnig það ójafnræði sem ríkt hefur í samskiptum þeirra og þann órétt sem konur hafa verið beittar.

Jafnréttisfræðsla er löngu hafin og nægir að benda á bókmenntarannsóknir Helgu Kress í því sambandi. Rit hennar Máttugar meyjar ætti að vera sjálfsögð lesning í öllum framhaldsskólum landsins þar sem bókmenntaarfi okkar er miðlað. Eitt af því sem það rit sýnir er hvernig raddir kvenna eru skipulega kveðnar niður í fornritum okkar - og um leið opnast auga lesenda fyrir því hvernig körlum enn í dag hættir til að loka hlustunum, heyra ekki, þegar konur tala.

Með kennslu í kvennafræðum, sem er sameiginlega á vegum heimspekideildar og félagsvísindadeildar, er ekki aðeins verið að viðurkenna kvennafræði sem sjálfstæða fræðigrein, heldur er hér líka mikilvægum áfanga náð í jafnréttisfræðslu. Þessi kennsla skapar forsendur til koma sjónarmiðum kvenna miklu betur fram í öðrum fræðum. Næsti áfangi á því að vera sá að sjónarhorn kvenna verði skipulega kynnt og rædd innan allra fræðigreina. Þá hef ég einkum í huga viðhorf kvenna til þess hvernig staðið er að rannsóknum og kennslu. En þetta kann líka að skipta máli um inntak og efnistök í hinum ýmsu fræðum. Hér er örugglega mikill munur á fræðigreinum. Í sumum fræðigreinum kann inntak greinanna, rannsóknarstefna og efnisval, að ráðast af ólíkum sjónarmiðum karla og kvenna. Þetta á við í öllum mannlegum fræðum, svo sem sagnfræði, heimspeki, guðfræði og bókmenntum. Og vafalaust einnig í ýmsum öðrum greinum, svo sem líffræði og landafræði, hjúkrunarfræði og læknisfræði. Í sumum greinum, svo sem eðlisfræði og stærðfræði, er það fremur í ytri nálgun en í efninu, kenningunum sjálfum, sem mismunur á afstöðu kvenna og karla kann að birtast.

Allt þetta þarf að skoða og ræða, ef fólk vill taka á jafnréttismálum í háskólanum af fullri alvöru. Verkefnið sem við okkur blasir, körlum og konum, sem viljum sinna þessum málum er ef til vill einmitt þetta: Að taka á jafnréttismálunum af fullri alvöru í því skyni að breyta heiminum, ekki bara í hugum okkar, heldur líka í veruleikanum.

Markmið okkar á að vera að skapa háskólasamfélag sem verður til fyrirmyndar í jafnréttismálum.


Back to top