Verkefni Háskólans

Ræða flutt í Háskólabíói, 10. apríl 1997

Ágæta samstarfsfólk

Ég vil lýsa því fyrir ykkur hver eru, að mínum dómi, helstu vandamál Háskólans og mikilvægustu viðfangsefnin sem rektor og stjórn skólans ber að sinna. Eitt brýnasta verkefni verðandi rektors er að móta skipulega áætlun um það hvernig beri að leysa úr þessum vandamálum og viðfangsefnum. Framkvæmd þeirrar áætlunar getur ekki verið - og á ekki að vera - í höndum rektors eins, heldur hlýtur hún að byggjast á samstilltu átaki allra háskólaþegna sem vilja vinna að sköpun Háskólans. Ég segi "sköpun Háskólans" því Háskólinn er fjarri því að vera fullskapaður. Til að gera hann að heilstæðu sköpunarverki þurfum að takast á við fræðileg, tæknileg og siðferðileg verkefni í senn.


Fræðilega verkefnið er þetta: Að gera íslensku þjóðinni ljóst að möguleikar hennar til að lifa áfram í þessu landi hvíla á agaðri, fræðilegri hugsun sem er fær um að skilja veruleikann og leysa lífsvandamál fólks í nútíð og framtíð. Þessi vandi snýr ekki aðeins að almenningi og yfirvöldum, heldur líka að háskólasamfélaginu sjálfu. Við, háskólaþegnarnir, erum iðulega of þröngsýnir, við einblínum á sérfræðigreinar okkar og gildi þeirra - en gleymum því að sama hugsjón þekkingar og skilnings er að verki í öllum fræðum, að það er hin sama fræðilega og frumlega hugsun sem við öll viljum rækta í rannsóknum okkar og kennslu.

Öll fræðileg starfsemi hefur gildi og merkingu vegna þess að hún er liður í því að skapa heim vísinda og fræða sem er miklu voldugri og stærri en nokkurt einstakt svið kenninga eða rannsókna. Um leið og hvert okkar þarf að sækja kraft og hvatningu til háskólasamfélagsins, sem er undirstaða og umgjörð rannsókna okkar, kennslu og náms, þá á allt sem við gerum að vera þáttur í því að skapa og bæta þetta sama samfélag vísinda og fræða. Kjarni þessa samfélags er hin frjálsa, fræðilega hugsun sem gengur á hólm við vandamálin - og uppgötvar veruleikann sífellt í nýjum myndum.

Verkefni rektors má - undir þessu sjónarhorni - skilgreina svo: Hann á að vera óþreytandi við að skýra gildi vísinda og fræða, hann á að sannfæra bæði æsku landsins og öldunga um að vísindaleg hugsun sé það afl sem mun ráða framtíðinni. Um leið á rektor að beita sér fyrir því að fram fari í landinu opinber, fræðileg rökræða um hagsmunamál þjóðarinnar og menningu í víðasta skilningi. Og hann á að vera talsmaður aukinnar og betri menntunar í landinu, grunnmenntunar, æðri menntunar og endurmenntunar sem verður æ meiri þörf.

Þetta vil ég segja um hina fræðilegu hlið verkefnisins sem við Háskólanum blasir: Háskólinn á að vera uppspretta að fræðilegu uppeldi íslensku þjóðarinnar svo að hún verði ætíð hæf til að móta framtíð sína skynsamlega og taka ákvarðanir sínar á traustum, vísindalegum forsendum.


Ég sný mér næst að hinni tæknilegu hlið vandans, að þeirri aðstöðu og þeim tækjum sem Háskólinn er búinn til að rækja hlutverk sitt í þágu þjóðarinnar og komandi kynslóða. Hér komum við að þeim málum sem brenna mest á okkur í daglegum störfum: Aðstöðu til rannsókna, kennslu, náms og stjórnunar. Hér horfir hvert okkar eðlilega til þess sem næst honum er og öll horfum við til stjórnar og stjórnsýslu Háskólans. Sviðin fimm - fjármálasvið, starfsmannasvið, kennslusvið, rannsóknasvið og samskiptasvið ásamt tilheyrandi nefndum - og til hliðar við þessi svið bygginganefnd háskólaráðs og Reiknistofnun - mynda hið sameiginlega stjórnkerfi, sem rektor á að stýra jafnhliða því sem hann stjórnar fundum háskólaráðs sem er æðsta stjórnvald innan skólans.

Hér er hvorki staður né ráðrúm til að fjalla ítarlega um þau fjölmörgu vandamál og verkefni sem þessu stjórnkerfi tengjast. Vandi þess er tvíþættur: Annars vegar megnar þetta kerfi ekki að greiða fljótt og vel úr fjölmörgum vandamálum. Úrræðaleysi, skortur á mannafla, tækjum og peningum ræður hér mestu. Hins vegar virðist mér þetta kerfi skorta markvissa stjórn og líka skýrar boðleiðir bæði á milli einstakra aðila innan kerfisins og á milli þessa sameiginlega stjórnkerfis og einstakra deilda og stofnana skólans.

Rökin fyrir þessari gagnrýni tengjast ekki því ágæta fólki sem við stjórnsýslu Háskólans. Sannleikurinn er sá að á örfáum árum hefur orðið gjörbreyting á rekstraraðstæðum skólans, mörg verkefni hafa verið flutt frá ráðuneytum til skólans og fjölmörg ný viðfangsefni sprottið upp innan skólans sjálfs.

Ekki verður undan því vikist að gera stjórnkerfi Háskólans skilvirkara og skjótara til viðbragða en verið hefur. Það þarf skýrari og ákveðnari verkstjórn en nú er í stjórnsýslunni, betri upplýsingu um það hvar og hvernig ákvarðanir eru teknar og þeim framfylgt. Einn veikleiki stjórnarinnar er sá að það liggja alltof margir þræðir í gegnum rektorsembættið sjálft. Við núverandi aðstæður fer tími rektors of mikið í að bregðast við aragrúa erinda af misjöfnum toga. Hann hefur því lítil tök á því að hugsa skipulega og úr vissri fjarlægð um meginviðfangsefni Háskólans, hvað þá að einbeita sér að baráttu fyrir stöðu hans og hagsmunum í þjóðfélaginu.

Rektor þarf sér til stuðnings framkvæmdastjóra sem annast daglega verkstjórn stjórnsýslunnar og undirbýr ákvarðanir um einstök framkvæmdamál. Þessi breyting myndi gera stjórnkerfið miklu skilvirkara en nú er og stuðlað að því rektor gæti - ásamt háskólaráði - helgað sig stefnumótun og baráttu fyrir málefnum Háskólans.

Þetta læt ég nægja um tæknilega hlið vandans sem við er að etja: Háskólinn þarf að taka stjórnsýslu sína miklu fastari og ákveðnari tökum og láta alla háskólaþegnana finna að sameiginleg stjórn skólans er öll af vilja gerð til að greiða úr þeim margvíslegum vandamálum sem óhjákvæmilega verða í þeirri flóknu starfsemi sem hér fer fram.


Ég sný mér nú að siðferðilegum verkefnum Háskólans. Til þess að okkur líði vel í Háskólanum og störf okkar beri árangur þarf að ríkja meðal okkar allra, kennara, stúdenta, sérfræðinga og alls starfsfólks, sterk samkennd, tilfinning fyrir því að við búum saman, þörfnumst hvers annars og höfum sömu grundvallarhagsmuni. Frumforsenda félagslegrar samkenndar er öryggistilfinning, að traust ríki á milli háskólaþegnanna - og að hvert okkar njóti viðurkenningar og virðingar fyrir störf sín og framlag til Háskólans og þjóðlífsins. Hér skiptir hugsjón réttlætisins öllu máli og það er framkvæmd hennar sem úrslitum ræður um það hvort okkur tekst að skapa það háskólasamfélag sem framtíðin þarfnast.

Sú réttlætisstefna, sem við verðum að sameinast um og rektor ber að framfylgja, á að vera sem hér segir: Hver háskólaþegn verður að hafa aðgang að þeim frumgæðum og skilyrðum sem hann þarf til að sinna starfi sínu. Hér þarf að tryggja bæði viðunandi grunnkaup og um leið skýr, sanngjörn og sjálfsögð réttindi starfsfólks og stúdenta. Með þessu á ég ekki við að það eigi að jafna allt út og láta alla fá jafnt, óháð þörfum og aðstæðum, en tryggja þarf visst grundvallarjafnrétti til þess að allir háskólaþegnar fái notið sín. Hér er brýnt að Háskólinn móti skýra og ákveðna jafnréttisstefnu í því skyni að rétta hlut kvenna í Háskólanum.

Til að öflug réttlætisstefna nái fram að ganga þarf að gera margt til að breyta aðstæðum okkar til betri vegar. Ég vil nefna tvennt: Annars vegar þarf að hefja skipulega sókn eftir auknu fé og finna nýjar leiðir til þess. Við þurfum að sækja á mið sveitarfélaga og fyrirtækja með markvissum hætti og það eigum við að gera með því kynna einstök rannsóknarverkefni og mikilvægi þeirra - hér þarf að vekja sérstaka athygli á rannsóknarnáminu - en ekki láta okkur nægja að benda á heildarþarfir Háskólans. Rektor á að hvetja til frumkvæðis og styðja frumkvæði einstakra kennara og sérfræðinga, ekki síður en stofnana og deilda skólans, í því skyni að fá fleiri til að leggja fé til starfsemi Háskólans.

Hins vegar þarf að vinna skipulega að því að auka og efla samvinnu og samneyti háskólaþegnanna. Einn mikilvægur liður í því er að það rísi miðsvæðis á háskólalóðinni almenn félagsmiðstöð með ýmis konar þjónustu, svo sem veitingastöðum og verslunum þar sem fjöldi háskólafólks hittist daglega. Háskólinn og Félagsstofnun stúdenta eiga sem fyrst að taka höndum saman um að reisa slíka miðstöð og sannfæra fjársterka aðila í þjóðfélaginu um að hér sé verk að vinna sem þeir geti einnig haft hag af.


Með skipulegri áætlun og einbeittum vilji til að takast á við þau fræðilegu, tæknilegu og siðferðilegu verkefni, sem ég hef gert hér að umtalsefni, getum við saman gera Háskólann að því heilstæða sköpunarverki sem þjóðin þarfnast. Rektor á að vera verkfæri háskólasamfélagsins til þess að stilla saman krafta sína og leggja þannig grundvöll að lífi komandi kynslóða á Íslandi.


Back to top