Ræða háskólarektors við brautskráningu í Háskólabíói 21. október 2000
Ég óska ykkur, ágætu kandídatar, fjölskyldum ykkar og aðstandendum til hamingju með prófgráðuna. Hún er staðfesting þess að þið hafið náð mikilvægum áfanga á lífsbraut ykkar og nú blasir næsti áfangi við ykkur. Hver skyldi hann vera? Mörg ykkar hafa vafalaust tekið ákvörðun um næstu skref í lífinu, önnur ykkar eru enn að skoða þá kosti sem bjóðast. Og öll eruð þið að velta heiminum fyrir ykkur. Það eru vissulega ærin tilefni til þess. Heimurinn hefur aldrei virst eins undarlegur og einmitt nú. Og aldrei hefur hann breyst eins ört og einmitt nú. En hvað er undarlegt og hvað er að breytast? Erum við sjálf - manneskjurnar - að verða öðruvísi í hugsun og hegðun? Eða eru breytingarnar og undarlegheitin öll á ytra borði, í hinu efnislega og veraldlega umhverfi?
Frá því mannfólkið tók að orða hugsanir sínar hafa spurningar af þessum toga leitað á það. Veröldin hefur ávallt verið undarleg og breytingum undirorpin. Og við veitum þessu ævinlega eftirtekt hér og nú - við þær tilteknu aðstæður sem við lifum á hverjum tíma.
Í þessu sambandi vil ég benda ykkur á einn greinarmun sem leikið hefur lykilhlutverk í sögu mannsandans. Þetta er greinarmunur sýndar og reyndar. Frumherjar vísinda á dögum Forn-Grikkja lögðu þennan greinarmun til grundvallar fræðastarfi sínu og vísindamenn á okkar dögum gera slíkt hið sama: Markmið vísinda er að komast að því hvernig hlutirnir eru í raun og veru, óháð því hvernig þeir sýnast vera. Þetta er fjarri því að vera einfalt mál. Sannleikurinn er sá að við lifum og hrærumst í heimi þar sem allt kann að sýnast okkur öðruvísi en það er, fyrirbæri náttúru og menningar og líka við sjálf. Stundum reynum við líka að sýnast meiri eða betri en við erum. Raunar efast ég um að nokkurt okkar sé alveg laust við sýndarmennsku. Hvenær komum við fram alveg eins og við erum? Vitum við sjálf hvernig við erum í raun? Veit það nokkur? Og ef ekki, er þá nokkur ástæða til að velta þessu fyrir sér? Og skiptir þá greinarmunurinn á sýnd og reynd nokkru máli?
Ef fólk hugsar þannig þá blasir við að sýndin hefur forgang í vitund þess fram yfir reyndina. Vera má að svo hafi ávallt verið. Að minnsta kosti voru forn-grískir fræðimenn með Platon í fylkingarbroddi ósparir á að gagnrýna samborgara sína fyrir að vera hugfangna af því hvernig hlutirnir sýnast vera í stað þess að reyna að komast að því hvernig þeir eru í raun. Í nútíma okkar er margt sem bendir til þess að sýndin hafi sterkari tök á hugum fólks en nokkru sinni fyrr. Hún hefur fengið til liðs við sig öflug fyrirtæki sem sérhæfa sig í auglýsingum, áróðri og ímyndarsköpun. Hún nýtur þess að fundin hefur verið upp ný tækni til að búa hana til og miðla henni til fólks; sú tækni er raunar í mjög örri þróun á okkar tímum og veitir æ víðtækari aðgang að svonefndum "sýndarveruleika" sem borinn er uppi af tölvunetum sem teygja sig yfir alla heimsbyggðina. Við heimilistölvu okkar getum við farið á netinu inn í "sýndarstofur" þar sem við kynnumst allt öðrum aðstæðum en þeim sem eru í okkar eigin raunverulegu stofum heima fyrir. Og kynni okkar af þessum "sýndarheimi" geta auðgað og víkkað reynslu okkar og veitt okkur margvíslegan fróðleik um raunveruleikann. En raunheimur okkar er engu að síður sá sami; og reynslan af þessum sýndarheimi kemur aldrei í stað reynslu okkar af tilteknum raunverulegum aðstæðum, heldur byggist á henni.
Styrkur sýndarinnar í nútíma okkar hvílir ekki eingöngu á hinni nýju tækni sem framleiðir hana og breytir henni að vild, heldur á vissum hugsunarhætti sem ég tel að okkur stafi hætta af. Hann felst í því að ofmeta nútíðina, hugsa sér að "nútíðin", tíminn sem við erum að lifa á þessari stundu, sé í rauninni "veruleikinn sjálfur", að þeir viðburðir sem nú eru að gerast séu það eina sem máli skiptir í heiminum. Samkvæmt þessum hugsunarmáta hefur nútíðin yfirstigið fortíðina, hirt frá henni allt nýtilegt og látið hana falla að öðru leyti í gleymsku og dá. Og þá nútíðin hefur líka, samkvæmt þessum hugsunarhætti, náð tökum á framtíðinni og þegar gert sér ljósa grein fyrir öllum þeim möguleikum sem hún hefur að bjóða.
Hættan sem leynist í slíkri nútíðardýrkun kann að vera meiri og alvarlegri en nokkur önnur sem að okkur steðjar: "Sá sem veit ekki hvaðan hann kemur, veit ekki heldur hvert hann stefnir; og sá sem veit ekki hvert hann stefnir, veit ekki heldur hvar hann er." Þessi viskuorð, sem ég hef eftir vini mínum, eiga sannarlega erindi til okkar nútímafólks. Og ekki síst ykkar, ágætu kandídatar, sem eigið lífið að mestu framundan og eruð að móta lífsstefnu ykkar. Ef við trúum því í alvöru að við höndlum veruleikann sjálfan í þeim sýndarmyndum og því sjónarspili sem nútíðin varpar til okkar á hverjum tíma, þá er veruleikaskyni okkar verulega áfátt og það jafnvel orðið alvarlega brenglað. Við slíkar aðstæður skapast sú hætta að við missum samband við þann veruleika sem heldur veröldinni saman og týnum þar með sjálfum okkur, týnum forfeðrum okkar, týnum börnum okkar og jafnvel framtíðinni sjálfri.
Leiðum hugann að því hvernig við nemum veruleikann. Við nemum hann í því sem fyrir okkur ber á hverju andartaki. Hann er viðburður - rétt eins og þessi athöfn sem við tökum þátt í á þessari stundu og hverfur fyrr en varir á vit fortíðar. Og við bíðum, mörg okkar óþreyjufull, eftir nýjum viðburðum, nýjum veruleika sem við væntum í framtíðinni, í kvöld, á morgun eða eftir nokkur ár. Hver einstök mannvera lifir á sinn hátt í eigin heimi þar sem hún tengir saman fortíð, nútíð og framtíð og finnur samhengi eða samhengisleysi síns eigin lífs og tilverunnar í heild. Hún gerir það með því að segja sögur af því sem hún hefur lifað og kynnst. Hvert samfélag fólks, sem deilir kjörum í tilverunni, semur líka sögur til að halda saman eigin veruleika í fortíð, nútíð og framtíð.
Án sögunnar - frásagnarinnar af því sem gerst hefur, er að gerast og getur gerst - væri enginn varanlegur eða merkingarbær veruleiki til fyrir okkur mannfólkið, heldur einungis einstakir samhengislausir atburðir sem hyrfu umsvifalaust inn í algleymi myrkurs og tóms. Tími mannkyns hér á jörðu er umvafinn slíku algleymi. Núna fyrst á síðustu áratugum hafa fornleifafræðingar uppgötvað heimildir úr forsögu okkar sem benda til þess að fyrsta mannveran hafi orðið til fyrir um þremur og hálfri milljón ára; sögulegar heimildir ná um 10 þúsund ár aftur í tímann; skipuleg þekkingarleit hófst fyrir um 2500 árum; vitneskja um sólkerfið og stöðu jarðar í því er um 500 ára; og á síðustu tveimur öldum hefur sprottið fram hver vísindagreinin af annarri sem hefur víkkað út svið vitneskju mannfólksins um veruleikann. Og þessar vísindagreinar hafa um leið margfaldað getu okkar til að framleiða hugtök og tæki til að hafa áhrif á og breyta aðstæðum okkar á jörðinni, nýta gæði hennar með allt öðrum hætti en tíðkaðist um árþúsundir. Þær hafa gert okkur kleift að búa til voldug félagsleg kerfi, stórfyrirtæki og stofnanir til að stýra sameiginlegum málum mannkyns og skrá og semja sögu þess og jarðlífsins eftir áður óþekktum leiðum.
Öll eiginleg menntun snýst um að efla vitund okkar um veruleikann í fortíð, nútíð og framtíð. Hún miðar að því að styrkja vilja okkar til að bæta heiminn, gera hann byggilegri og betri fyrir komandi kynslóðir og umfram allt felst sönn menntun í því að læra að virða, virkja og meta að verðleikum þau öfl sem búa í okkur sjálfum, í náttúrunni og öllu sem lifir. Sönn menntun, sú sem þroskar okkur og eflir, snýst aldrei um sýndina, heldur um reyndina, raunveruleikann sjálfan. Og þegar menntunin snýst um sýndina þá er það ekki vegna sýndarinnar sjálfrar, heldur til þess að hún láti reyndina sýna sig að svo miklu leyti sem það er yfirleitt hægt. Því reyndin er - í sannleika sagt - að langmestu leyti ósýnileg og sýnir sig aldrei nema að hluta, í brotum, í hverfulum myndum, einstökum atburðum og orðum. Hún dylst á bak við sýndina, felur sig í sálarfylgsnum okkar, í iðrum jarðar, í ómælisdjúpi himingeimsins. Hún felst líka í því afli sem skapar samfélög fólks og birtist í því sem kallast þjóðarvitund og þjóðarsál og enginn veit gjörla hvernig starfa. Og hún er líka að verki í stofnunum á borð við Háskóla Íslands sem er kallaður til að þjóna íslenskri þjóð með rannsóknum á raunveruleikanum svo hún geti sýnt og sannað tilverurétt sinn í samfélagi þjóðanna, verið sjálfstæð og trúað með réttu á eigin mátt og megin.
Hver er hún þessi reynd, þessi raunveruleiki sem við höfum enn ekki höndlað og munum aldrei höndla í nútíðinni nema að örlitlu leyti? Hún er fólgin og falin í þeim öflum og þeim krafti sem vísindi og listir eru sköpuð til að reyna að skilja og sýna: Aflinu sem stýrir "stjarna her", orkunni sem ræður veðri og vindum, kraftinum sem knýr okkur til að hugsa. Reyndin sjálf er ónefnanleg, ólýsanleg og fullkomlega óræð í sjálfri sér. Hún er veruleikinn sjálfur sem til okkar talar, ekki aðeins í því sem við getum séð, heldur í öllu sem skilningarvit okkar geta numið og hugurinn spannað með hugtökum sínum. Án þessa sambands við reyndina værum við ekki hér, kandídatar góðir, samankomin til að fagna prófgráðu ykkur eftir strangt nám í Háskóla Íslands. Hér hafa verið gerðar til ykkar miklar kröfur um einbeitingu og heilindi í hugsun til að komast að hinu sanna og rétta á fræðasviðum ykkar. Fræði ykkar eru engin sýndarfræði, námsgráða ykkar engin sýndargráða. Háskóla Íslands er ekki sýndarháskóli, heldur fræðasetur þar sem fólk vinnur hörðum höndum við að kynnast veruleikanum eins og hann er í raun.
Vafalaust erum við háskólafólk líka veikt fyrir sýndinni; við viljum vissulega að fólk sjái um hvað Háskólinn snýst og hvað hann gerir. Og Háskólinn vill að þið, nemendur hans, fáið tækifæri til að sýna hvað í ykkur býr og að kraftar ykkar nýtist til að skapa betri veröld fyrir börnin sem eiga að erfa Ísland og bera merki þess um ókomin ár. Þess vegna heitir hann á ykkur að taka ótrauð þátt í þeirri baráttu sem framundan er til að draga úr áhrifamætti sýndarinnar og auka hlut reyndarinnar í tilveru okkar.
Í þeirri baráttu skiptir höfuðmáli að leggja rækt við hugsun sína, þroska hana og efla með því að hugleiða fortíðina, hugsa fyrir því sem kann að gerast í framtíðinni og sýna öldnum og ungum alúð og umhyggjusemi í nútíðinni. Ég nefni sérstaklega aldna og unga vegna þess að þeir tengja okkur við fortíðina og framtíðina. Og það er einmitt þau bönd sem við verðum að hnýta fastar, ef við eigum ekki að týnast í nútíðinni og sogast inn í heim sýndarinnar.
Þess vegna hvet ég ykkur, kandídatar góðir, til að styrkja eftir föngum tengsl ykkar við forfeðurna, en þó umfram allt að einbeita ykkur að uppeldi barna, sinna vel ykkar eigin börnum og styðja við þá sem annast börn. Fátt er vænlegra til að efla veruleikaskynið en einmitt sambandið við barnið sem er að uppgötva heiminn og hefur ekki enn lært að sýnast. Þá höldum við líka lifandi tengslum við barnið í sjálfum okkur og upprunalega reynslu okkar af tilverunni. Uppeldisstarfið kostar líka blóð, svita og tár. Uppalandinn er manneskja af holdi og blóði sem verður að gefa mikið af sjálfri sér eigi hún að ná til barnsins og veita því þann stuðning sem það þarfnast. Og slíkt gerist ekki í neinum "sýndarveruleika".
Störf uppalenda og kennara eru óendanlega mikilvæg fyrir unga Íslendinga og komandi kynslóðir, en þau hafa því miður verið vanmetin á síðustu áratugum. Hér er því mikið verk óunnið í íslensku þjóðfélagi sem miklu skiptir fyrir framtíð þjóðarinnar. Eitt stærsta verkefni íslenskrar menningar á komandi árum er endurreisn viðurkenningar og virðingar fyrir starfi kennarans frá leikskóla til háskóla.
Háskóli Íslands vonar, ágætu kandídatar, að hann hafi verið ykkur góður skóli og að hér hafið þið kynnst, ekki aðeins heimi fræða og kenninga, heldur líka ykkur sjálfum og veruleikanum betur. Háskólinn þakkar ykkur samfylgdina og býður ykkur velkomin hvenær sem er til enn frekara náms og rannsókna.
Megi gæfan fylgja ykkur.
Páll Skúlason