Brautskráningarræða 23. október 2004
Forseti Íslands, menntamálaráðherra, kandídatar, deildarforsetar, aðrir góðir gestir.
Um þessar mundir gengur yfir veröldina menntabylting sem á sér engin fordæmi í mannkynssögunni og mun tæplega eiga sér hliðstæðu í framtíðinni. Bylting þessi fer ótrúlega hljótt sé haft í huga hve víðtæk, áhrifamikil og djúpstæð hún er. Hún er að gerast í öllum heimsálfum og snertir allar stéttir þjóðfélagsins, raunar hvert mannsbarn á jörðinni. Og hún á sér djúpar rætur í hugsun og menningu heimsins og hefur átt sér langan aðdraganda, ef ekki tvö þúsund ár, þá að minnsta kosti tvær síðustu aldirnar. Vísbendingar um að hún myndi bresta á voru mörgum ljósar fyrir löngu, en það er þó ekki fyrr en síðustu fimm til tíu árin sem hún hristir rækilega upp í þjóðfélögum heimsins, ekki síst hefðbundnu atvinnulífi og skólahaldi. – Hver er hún þessi menntabylting sem nú á sér stað um víða veröld og við öll erum vitni að?
Ágætu kandídatar! Um leið og ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar til hamingju með prófgráðuna vil ég biðja ykkur að hugleiða þessa spurningu með mér vegna þess að hún snýst ekki síst um ykkur og framtíðina. Þið eruð virkir þátttakendur í því sem nú á sér stað í heiminum og mótið með lífsstefnu ykkar og ákvörðunum þá veröld sem koma skal. Þess vegna skiptir líka svo miklu máli að þið yfirvegið stöðu mála í heiminum og gerið ykkur sem ljósasta grein fyrir hvað þið teljið máli skipta og betur mega fara. Yfirvegun og skýr hugsun eru skilyrði þess að unnið sé markvisst að því að bæta heiminn og berjast gegn því sem miður fer. Að sjálfsögðu dugar ekki hugsunin ein, heldur þarf einbeittan vilja og ásetning til þess að ná árangri og takast á við viðfangsefnin hver sem þau eru. Það þarf líka trú á lífið, sannfæringu um að lífið hafi gildi, á hverju sem gengur, að í lífinu eða á bak við lífið, eins og við kynnumst því, búi öfl sem haldi eilíflega áfram að starfa. Þetta þrennt – trú, vilji og hugsun – einkennir mannssálina og leggur grunninn að öllu mannlífi. Að lifa mennsku lífi felur í sér að trúa, að vilja og að hugsa um allt milli himins og jarðar.
Stöldrum aðeins við hugsunina vegna þess að háskólastarfið snýst öðru fremur um hana og gerir endalausar kröfur til hennar. Allt nám – og þetta á sérstaklega við um nám í háskóla – felst í að beina hugsuninni að tilteknu viðfangsefni í því skyni að brjóta það til mergjar – eða kannski réttara sagt: það felst í að læra að beita hugsuninni svo að hún nái utan um tiltekið viðfangsefni og greini alla þætti þess. Að sjálfsögðu erum við síhugsandi, líka í draumum okkar, en það er mikill munur á því hvort við látum hugann reika eða hvort við einsetjum okkur að beina honum skipulega og markvisst að ákveðnu fyrirbæri eða verkefni. Lærdómur er fólginn í ögun hugans og þjálfun við að taka eitthvert efni hugar-tökum, meðhöndla það í huganum, til að mynda með því að leysa það upp í frumþætti sína og setja fram tilgátur um hvernig megi hugsa sér tengsl þeirra í raunveruleikanum. Þetta er list hinnar fræðilegu hugsunar sem hvarvetna er kallað eftir í heiminum í dag til að leita lausna á öllum hugsanlegum úrlausnarefnum og lífsvandamálum – í öllum greinum og á öllum sviðum mannlífsins. Þetta er driffjöðrin – uppsprettan og aflvakinn – á bak við menntabyltinguna sem ég nefndi. Hún felst í því að allir – bókstaflega allir sem ætla sér að taka fullan og virkan þátt í heiminum – verða að læra að virða hina fræðilegu hugsun, taka mið af henni og meta hana að verðleikum. Helst þurfa þeir að skilja í megindráttum hvernig hún starfar og geta beitt henni að vissu marki í daglegu lífi og starfi.
Lítum nú á nokkrar staðreyndir sem varpa ljósi á það hvernig menntabyltingin fer yfir heiminn. Í fyrsta lagi er sú krafa gerð í æ ríkari mæli um heim allan og nánast í öllum greinum að fólk hafi aflað sér formlegra réttinda með tilteknu námi til þess að vinna störf sín. Lágmarkskrafan er mjög víða að verða fyrsta háskólagráða – það er BA eða BS- próf. Þessi gráða dugar að sjálfsögðu ekki alltaf, en hún er víða að verða nauðsynlegt lágmarksskilyrði sem felur í sér að það megi treysta því að viðkomandi hafi örugga kunnáttu – til að mynda í tungumálum, sögu eða stærðfræði. Krafan um fræðilega færni hefur þannig á örskömmum tíma orðið frumkrafa í fyrirtækjum og opinberum stofnunum út um allan heim – og að sjálfsögðu einnig hér á landi. Einn sérkennilegur vandi sem af þessu sprettur er sá að erfitt getur verið að fá fólk til að vinna verk sem ekki krefjast sérstakrar fræðilegrar kunnáttu. Annar vandi er sá að í sumum þjóðfélögum kunna aðstæður enn að vera svo frumstæðar að menntað fólk í ýmsum greinum finnur ekki atvinnu við hæfi. Þessi vandi er raunar hverfandi af þeirri einföldu ástæðu að fólk, sem hefur tileinkað sér fræðilega hugsun og verklag, vinnur umsvifalaust að því að breyta starfsháttum þjóðfélagins og skapar sér iðulega sjálft tækifæri til nýrra starfa. Þessu geta eðlilega fylgt umbrot og jafnvel átök í þjóðfélaginu þegar ný kunnátta og ný vinnubrögð halda innreið sína og kollvarpa því sem fyrir er. Fjölmörg dæmi um þetta getur hver og einn fundið með því að líta yfir þróun íslensks atvinnulífs að undanförnu þar sem hver umbyltingin á fætur annarri hefur átt sér stað.
Önnur staðreynd sem varpar ekki síður ljósi á menntabyltingu heimsins er sú að á örskömmum tíma er menntunarstig þjóða víða um heim að gjörbreytast. Fyrir fáeinum áratugum voru um 5% atvinnubærra manna með háskólamenntun, en nú er óhætt að fullyrða að þeir verði um að minnsta kosti 50% eftir nokkra áratugi. Þetta blasir við þegar tekið er mið af fjölgun þeirra sem sækja um háskólanám. Árleg aukning er að meðaltali um 10% í heiminum og ýmsar þjóðir miða nú við að um helmingur hvers árgangs ungmenna muni stunda nám í háskóla. Þessi þróun er vafalaust skýrasta vísbendingin um menntabyltinguna sem við tökum þátt í. Við Íslendingar erum hins vegar enn á eftir nágrannalöndum okkar, bæði austan hafs og vestan, í þessum efnum, þótt við höfum verulega sótt í okkur veðrið á síðustu árum.
Í sambandi við þennan gífurlega vöxt er rétt að benda á einn mikinn vanda sem steðjar að menntakerfum þar sem hann á sér stað, en það er skorturinn á menntuðu fólki til að standa undir sjálfri uppbyggingu menntakerfisins. Til að takast á við þennan vanda er aðeins ein leið fær og hún er sú sem Háskóli Íslands gerði að sínu aðalstefnumáli fyrir nokkrum árum, nefnilega markviss og öflug uppbygging meistara- og doktorsnáms. Í kjölfar þeirrar stefnumótunar hefur orðið ein mesta umbylting sem sögur fara af í íslensku menntakerfi. Í ræðu við brautskráningu fyrr á þessu ári lýsti ég þessu svo að þetta jafngilti því að innan vébanda Háskóla Íslands hafi orðið til nýr háskóli með yfir 1200 nemendur sem eru allir meira eða minna virkir í rannsóknum og starfa oft í nánum tengslum við fyrirtæki og stofnanir í þjóðfélaginu sem taka beinan þátt í þessari uppbyggingu. Þennan skóla gætum við kallað „Rannsókna-Háskóla Íslands“ og gefið honum formlega stöðu eins og víða er gert erlendis þar sem meistara- og doktorsnám fer fram í sérstakri stofnun sem kallast á ensku „graduate school“, það er skóli fyrir þá sem lokið hafa fyrstu háskólagráðu, BA- eða BS-prófi. Öflugt meistara- og doktorsnám er algjört frumskilyrði þess að fjölbreytt og víðtækt háskólanám til fyrstu háskólagráðu geti náð að vaxa og dafna á Íslandi.
Þriðja staðreyndin, sem varpar ljósi á menntabyltinguna, er ekki síður þýðingarmikil en hinar tvær sem ég hef þegar nefnt. Til skamms tíma var gengið að því sem vísu að háskólanemar væru fyrst og fremst ungt fólk sem kemur beint í háskóla að loknu stúdentsprófi. Á þessu er að verða róttæk breyting. Nú fjölgar þeim sífellt sem eldri eru og hafa þegar tekið virkan þátt í atvinnulífinu, en kjósa af ýmsum ástæðum að endurnýja og auka við menntun sína. Á næstu árum mun þessi hópur fara sístækkandi, bæði vegna þess að atvinnulífið krefst þess að starfsfólk sé sífellt að læra og tileinka sér nýja kunnáttu og færni og líka vegna þess að fólk leitar aukinnar menntunar til að þroskast og njóta lífsins. Hingað til hefur verið talað um endurmenntun í þessu sambandi, en í rauninni á orðið símenntun betur við, því málið snýst um það að fólk sé sífellt að menntast, stöðugt að læra og ávallt reiðubúið að hefja nám að nýju, jafnvel í greinum sem það hefur aldrei stundað áður. Þetta er stórmerkileg staðreynd sem stangast á við hefðir og reynslu allra fyrri kynslóða sem héldu sig við þau svið sem þær höfðu valið í upphafi og gert að ævistarfi sínu. Nú finnur fólk sig iðulega knúið af innri þörf og hvatt af atvinnulífi og þjóðfélagsaðstæðum ekki aðeins til að skipta um starf, heldur til að endurskipuleggja líf sitt allt í ljósi nýrrar menntunar.
Ágætu kandídatar, staðreyndir þær sem ég hef gert hér að umtalsefni vekja margar spurningar sem við Íslendingar hljótum að glíma við á næstunni. Ein þeirra lýtur beint að ykkur sjálfum, hvernig þið hyggist í senn nýta þá menntun sem þið hafið þegar aflað ykkur og hvernig þið áformið að halda áfram að mennta ykkur í framtíðinni. Önnur er sú hvernig þið sjáið fyrir ykkur menntun barna ykkar og hvernig best megi tryggja skilyrði þeirra til að þroskast og öðlast þá kunnáttu og færni sem þeim nýtist best til að takast á við lífið. Kennaraverkfallið sem enn stendur yfir er ótvírætt merki um alvarlega og djúpstæða deilu í samfélagi okkar um það hver starfsskilyrði og kjör kennara í grunnskólum landsins skulu vera. Og vera má að hliðstæð deila kraumi einnig undir hvað varðar kennara í framhaldsskólum og háskólum. Kjör kennara í Háskóla Íslands eru altént fjarri því að vera viðunandi, þótt þau hafi skánað hin síðari ár. Vandinn sem við stöndum hér frammi fyrir virðist mér stafa af röngu gildismati í samfélagi okkar á því sem mestu skiptir fyrir velferð okkar og komandi kynslóða. Við vanmetum einfaldlega gildi menntunar fyrir sjálf okkur og þjóðfélagið í heild og teljum ranglega að það sé hægt að halda uppi góðu menntakerfi með miklu minni tilkostnaði en mögulegt er í reynd. Þetta háskalega vanmat virðist mér stafa af því að við höfum ekki enn gert okkur ljósa grein fyrir menntabyltingunni sem gengur yfir heiminn og hvernig við hljótum að taka þátt í henni með því að setja menntamálin í öndvegi og leggja miklu meira til þeirra en við höfum gert til þessa.
Hér þarf skýra og þaulhugsaða stefnu sem byggist á vönduðum fræðilegum greiningum á aðstæðum okkar og möguleikum svo að við leggjum rétt mat á styrkleika okkar og veikleika og lærum að sníða okkur stakk eftir vexti. Þetta viðfangsefni liggur fyrir okkur á öllum skólastigum, en er hvað mest aðkallandi hvað varðar háskóla. Þar skiptir höfuðmáli að við náum samstöðu um það hver meginmarkmið opinberrar háskólastefnu eigi að vera. Ég nefni þrjú markmið sem ég tel að við ættum að geta sameinast um:
Fyrsta markmið á að vera að boðið sé upp á gott og fjölbreytt háskólanám hérlendis og að öllum sem hafi tilskilinn undirbúning sé tryggður aðgangur að slíku námi. – Um þetta markmið trúi ég að sé mikil samstaða, en ljóst er að yfirvöld menntamála eiga mikið verk óunnið til að tryggja gæðaeftirlit með allri háskólamenntun í landinu.
Annað markmið stefnunnar á að vera að tryggja hæfum fræðimönnum starfsöryggi og frelsi til að stunda kennslu og rannsóknir á Íslandi í gróskumiklu háskólaumhverfi sem er forsenda skapandi atvinnulífs. – Um þetta atriði óttast ég að sé ekki enn orðin samstaða vegna þess að menn hafi ekki enn lært að meta fræðilega starfsemi að verðleikum.
Þriðja markmiðið á að vera að efla tiltekin fræðasvið sem skipta sérstöku máli fyrir Ísland, íslenska menningu og þjóðlíf í efnahagslegu og stjórnmálalegu tilliti. – Um þetta atriði trúi ég að sé mikil samstaða en um leið greinir menn á um það hver þessi fræðasvið séu og hvernig eigi að afmarka þau.
Ef unnt er að ná sterkri samstöðu um þessi þrjú meginmarkmið opinberrar háskólastefnu – sem að sjálfsögðu þarf að ræða miklu nánar en hér er gert – vaknar spurningin hvernig þeim verði best náð og hvort við höfum mótað það skipulag háskólastofnana sem er líklegt til að skila þeim árangri sem við væntum – eða hvort nauðsynlegt sé að endurskipuleggja ríkjandi háskólakerfi og þá með hvaða hætti. Öll þessi mál kalla á málefnalega umræðu sem krefst þess að fólk kynni sér fjölmargar staðreyndir um starfshætti og uppbyggingu háskóla. Mun ég efna til málþings á næstunni í því skyni að hvetja til slíkrar umræðu.
Ákvarðanir í menntamálum geta haft mikil og ómetanleg áhrif samfélagið. Hvernig væri Íslandssagan ef ekki hefðu verið stofnaðir skólar í Skálholti og á Hólum? Hvernig hefði íslenskt þjóðfélag þróast á síðustu öld ef Háskóli Íslands hefði ekki verið stofnaður í upphafi aldarinnar? Hver væri staða Akureyrarbæjar nú ef Háskólinn á Akureyri hefði ekki verið stofnaður þar fyrir sautján árum? Er nokkur furða þótt Vestfirðinga dreymi um háskóla á Ísafirði? Þegar horft er til Ameríku – Bandaríkjanna og Kanada – blasir við að hvert fylki hefur lagt allan metnað sinn í að byggja upp háskóla sína sem undirstöðustofnanir samfélagsins. Og öll Evrópuríki leggja nú ofurkapp á að efla háskóla sína svo að blómlegt fræðastarf þeirra blási nýju lífi í samfélagið og efli þróun þess.
Góðir kandídatar! Hvarvetna í heiminum hafa háskólar verið uppsprettur umbóta, bjartsýni og framfara í efnahagslegu, pólitísku og menningarlegu tilliti. Trúin á mikilvægi háskóla hefur því farið sívaxandi – og jafnvel svo að hún jaðrar við oftrú. Háskólarnir leysa ekki lífsvanda okkar, heldur skapa okkur skilyrði til að takast á við lífsverkefni okkar á frjóan og skilvirkan hátt. Þess vegna þarf fólk að gera sér sem ljósasta grein fyrir því hvað háskólar gera og geta gert vel og hvernig starf þeirra er skipulagt svo það skili tilætluðum árangri. Þess vegna skiptir líka höfuðmáli að taka ákvarðanir að vandlega yfirlögðu ráði og í ljósi opinnar, málefnalegrar umræðu svo tryggt sé eftir föngum að háskólastarfið skili sem mestum ávinningi til þjóðfélagsins.
Hér hefur allt háskólafólk skyldum að gegna við að upplýsa og fræða um eðli og starfsemi háskóla og gera sem flestum kleift að kynnast fræðilegri starfsemi og skilja bæði forsendur hennar og takmarkanir. Um leið skulum við vera þess minnug, kandídatar góðir, að frjáls og skapandi fræðileg hugsun dafnar ekki af sjálfu sér, heldur verður sífellt að rækta hana af alúð og einbeittum vilja. Háskóli Íslands þakkar ykkur samfylgdina og býður ykkur velkomin til sín aftur hvenær sem er.
Megi gæfa fylgja ykkur.