Hvað er góður háskóli?

Hugleiðing um þróun háskóla og ólík viðhorf til þeirra í samtímanum[1]

Inngangur

Háskólar hafa vaxið mjög á undanförnum áratugum og hlutverk þeirra í samfélaginu virðast í senn hafa orðið æ fjölbreyttari og mikilvægari. Í þessu sambandi má jafnvel ræða um ákveðinn velgengnisvanda sem sumir telja ógna eiginlegri háskólastarfsemi en aðrir hafa til marks um jákvæða þróun. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um þessa atburðarás og ber þar hæst kenningar sem miða að því að skýra hvernig háskólarnir séu að breytast úr hefðbundnum fræðasetrum í þekkingarfyrirtæki sem standi í harðri samkeppni á markaði. Í þessari grein mun ég fjalla um þessar kenningar og gagnrýna þær og leggja jafnframt eigið mat á stöðu háskóla í samtímanum.

Kenning mín er sú að starfsemi háskóla lúti ákveðnum reglum og vinnubrögðum sem tengjast öflun, varðveislu og miðlun þekkingar. Þessar reglur og vinnubrögð taki ekki róttækum breytingum þótt ytri aðstæður og álag, ný tækni og samskiptaform skapi háskólunum gjörbreytt skilyrði til að starfa. Ég hef í annarri grein leitast við að skýra megineinkenni háskólastarfs eins og það hefur mótast í aldanna rás þar sem ákveðin gildi eru í hávegum höfð og tilteknar siðferðilegar forsendur liggja starfinu öllu til grundvallar.[2] Þessi gildi og siðferðilegu forsendur eru skýrt sett fram í svonefndri Magna Charta-yfirlýsingu sem fjöldi háskólarektora undirritaði á 1000 ára afmæli Bolognaháskóla haustið 1988.[3] Þá þegar var ljóst að þróun þjóðfélagsins hafði skapað ákveðið kreppuástand í nútímaháskólum, ekki síst vegna þess að þeim var gert að sinna æ fleiri nemendum án þess að fjárveitingar væru auknar. Með yfirlýsingu sinni vildu rektorarnir minna á grundvallargildi háskólastarfs og forsendur þess að það beri frjóan ávöxt.

Á síðustu áratugum hefur þróunin hins vegar orðið mun örari en menn sáu fyrir, alls kyns nýir háskólar hafa litið dagsins ljós, samkeppni háskóla hefur harðnað svo að það ógnar samstarfi fræðimanna, efnahagslífið gerir sívaxandi kröfur um fræðilega færni til að reka fyrirtæki og framleiða og selja nýjar vörur, og unga fólkið vill kynnast nýjum fræðasviðum. Um leið hefur hið opinbera átt erfitt með að auka framlög til vísinda og mennta í takt við vaxandi  verkefni háskólanna, meðal annars vegna kostnaðar við aðra mikilvæga innviði samfélagsins, svo sem heilbrigðisþjónustuna.

Til að leggja megi ígrundað mat á stöðu háskóla nú á dögum þarf að gera margvíslegar rannsóknir og úttektir á starfsemi þeirra og umsvifum. Slíkar rannsóknir og úttektir þurfa að byggja á skýrum fræðilegum skilningi á því hvað háskóli er og hvaða þættir skipta mestu máli í starfi hans. Þess vegna komumst við ekki hjá því að takast á við spurninguna sem hér er varpað fram: Hvað er góður háskóli? Þessi spurning á að vera leiðarljósið í því mikilvæga umbótastarfi sem háskólafólk um allan heim þarf nú að takast á hendur.

 

1. Tvær meginkröfur

Hlutverk háskóla frá fornu fari hefur verið að mennta einstaklinga í vísindum og fræðum svo að þeir þroskist og geti nýtt þekkinguna til góðs fyrir samfélagið. Í samræmi við þetta hafa verið gerðar tvær meginkröfur til háskóla í aldanna rás. Annars vegar eiga þeir að leggja rækt við fræðileg gildi, sjá til þess að fræðileg þekking sé varðveitt frá einni kynslóð til annarrar og að stöðugt sé róið á ný þekkingarmið. Hins vegar eiga þeir að veita menntun sem nýtist í þjóðfélaginu á hverjum tíma og afla þekkingar sem komi að gagni við að byggja upp stofnanir og fyrirtæki sem halda uppi efnahags- og stjórnkerfum þjóðfélagsins. Fyrri krafan liggur í eðli verkefnisins sem ræðst af stöðu fræðanna á hverjum tíma (að afla þekkingar, varðveita hana og miðla henni). Síðari krafan sprettur af tilteknum þörfum samfélagsins fyrir þekkingu sem breytast að vissu marki frá einum tíma til annars. Sérhver háskóli verður að gera sér grein fyrir því hvernig hann mætir þessum kröfum á sem besta hátt.[4] Um leið liggur ákveðin menntahugsjón starfi skólanna til grundvallar: Hlutverk þeirra er að ala upp þroskaðar manneskjur sem leitast sífellt við að bæta skilning sinn á heiminum og sjálfum sér og eru hæfar til að takast á við lífsverkefni sín og leysa þau vel af hendi.

Ef veita ætti í skyndi svar við spurningunni „hvað er góður háskóli?“ mætti segja að góður sé sá háskóli sem rís fyllilega undir þessum kröfum báðum – uppfyllir skyldurnar við fræðin og þjóðfélagið og hefur þroska nemenda sinna í öndvegi. Góður er sá skóli þar sem börnin okkar menntast með því að tileinka sér flókin og mikilvæg fræði sem stuðla í senn að persónulegum þroska þeirra og hæfni til að takast á við mikilvæg störf og verkefni í þjóðfélaginu.

Þetta svar er í sjálfu sér gott og gilt svo langt sem það nær. Spurningin er sú hvort og þá hvernig háskólar okkar geti vitað að þeir séu á rknir eigi fyrst og fremst að na.fyrir  ljmikilvæga innvitið samflja ntil grundvallar. éttri leið og séu eins góðir skólar og þeim er unnt að vera, hvort þar sé fólk sannarlega að sinna skyldunum við fræðin og þekkinguna og jafnframt að svara kröfunni um hagnýtt nám og rannsóknir. Þegar ég sagði einum vini mínum að ég væri að semja grein um þróun háskóla sem ég kallaði „Hvað er góður háskóli?“ svaraði hann að bragði: „Er það ekki einmitt háskóli þar sem fólk spyr þessarar spurningar?“ Hann kann að hafa hitt naglann á höfuðið: Ég efast um að sá háskóli geti verið góður þar sem fólk veltir ekki skipulega fyrir sér hvort fræðunum sem þar eru stunduð sé sinnt sem skyldi og hvort kennslan og rannsóknirnar leiði til góðs fyrir nemendurna og þjóðfélagið.

Góður er sá skóli þar sem fólk leitast vitandi vits við að gera betur. Þetta á við alla skóla, því skólar snúast ekki um neitt annað en gildi menntunar og þekkingar og þess vegna er þar sífellt spurt um gildi þess sem þar er gert. Þetta á þó sérstaklega vel við háskóla vegna þess að enginn annar skóli er þeim æðri og þess umkominn að leggja mat á gildi þeirra. Þess vegna er háskóli stofnun sem er öðru fremur helguð leitinni að betri mælikvörðum á gildi þekkingar og menntunar og þar sem fólk getur sagt með góðri samvisku: „Þetta eru bestu eða skástu mælikvarðarnir eða rökin sem við höfum á þessari stundu til að fella dóma um gildi þess sem við hugsum, segjum og gerum.“

Okkur getur auðvitað skjátlast og það er að sjálfsögðu ekki einungis í háskólum sem finna má bestu mælikvarðana á gildi allra skapaðra hluta og þess sem við gerum. Þeir sem eru dómbærastir á gildi hluta og verka eru yfirleitt fagmenn á sínu sviði og þeir leynast víða í þjóðfélaginu. En kröfunni um að yfirvega og rannsaka fræðilega mælikvarða og rökin fyrir dómum okkar um gildi hlutanna er fyrst og fremst sinnt í háskólanum. Þetta er langmikilvægasta samfélagslega leiðin sem við höfum mótað til að sinna þekkingunni skipulega og gæta þess að hún glatist ekki, heldur sé sífellt að endurnýjast og lifna í hugum okkar. Og þetta kallar á stöðuga gagnrýni á það sem við höfum fyrir satt án þess að hafa kannað hvort við höfum gildar ástæður til þess. Þannig tefla fræðimennirnir fram nýstárlegum hugmyndum og skoðunum til að freista þess að finna nýjar leiðir að hinu sanna og rétta. Því verður iðulega árekstur á milli þess sem fræðimenn halda fram og þess sem er viðtekið og hefðbundið í þjóðfélaginu, til dæmis í ákveðinni starfsgrein.[5] Menn hafa alla tíð litið fræðilega þekkingu hornauga vegna þess að hún tekur til endurskoðunar viðtekna þekkingu en hefur sjálf ekki sannað gildi sitt í raun; en þegar hún gerir það verður hún hagnýt og hversdagsleg og hið fræðilega eðli hennar hættir að skipta máli.

Að þessu sögðu er rétt að minna á að fræðileg þekking hefur á undanförnum áratugum orðið æ mikilvægari á flestum sviðum þjóðfélagsins. Þar af leiðandi hafa verið gerðar síauknar kröfur til háskólanna um að veita meiri fræðilega menntun og útvega fleiri fræðilegar lausnir á verkefnum og vandamálum í þjóðfélaginu. Við þessu hafa háskólarnir brugðist með ákveðnum hætti sem hefur haft mikil áhrif á viðgang þeirra. Skoðum það nánar.

 

2. Fræðin og hagkerfið: Þekkingin sem lausnarorð

Fræðileg, vísindaleg og tæknileg þekking hefur smám saman orðið æ mikilvægari í allri skipulagningu og framkvæmdum manna. Nýjar uppgötvanir og aukin kunnátta fólks til alls kyns starfa skiptir því sífellt meira máli. Þekkingin hefur orðið að lausnarorði nútímans. Þess vegna horfa menn ósjálfrátt til háskólanna og ætlast til þess að þeir reiði fram með rannsóknum og kennslu lausnir á alls kyns úrlausnarefnum. Háskólarnir hafa því farið fram á auknar fjárveitingar til að standa undir auknum kröfum sem til þeirra eru gerðar, en þá hafa þeir sem kosta starfsemi þeirra viljað sjá það svart á hvítu að háskólarnir standist sannarlega væntingar þjóðfélagsins.

Tekjur háskólanna hafa að miklu leyti verið tengdar við nemendafjölda og þannig hefur skapast mikil samkeppni um nemendur, ekki aðeins milli skóla heldur milli deilda og námsbrauta innan sama skóla. Háskólarnir hafa því í æ ríkari mæli gripið til þess ráðs að líkja eftir fyrirtækjum sem framleiða og selja vörur í harðri samkeppni á markaði með viðeigandi auglýsingum og áróðri fyrir ágæti starfsemi sinnar. Með aukinni samkeppni og áherslu á rekstrarmál ættu háskólar þá einnig að taka sér til fyrirmyndar stjórnunarhætti sem hæfa framleiðslu- og sölufyrirtækjum. Í stað hefðbundinna lýðræðislegra stjórnkerfa háskóla hafa verið sett á laggirnar stjórnunarkerfi með öflugri miðstýrðri stjórnsýslu til að halda utan um starfsemina og stýra henni í samræmi við eftirspurnina eftir kennslu og rannsóknum sem háskólarnir telja sig greina í þjóðfélaginu. Þá hafa verið hönnuð kerfi til að hvetja starfsfólk til aukinna afkasta og einnig tæknilegar aðferðir til að mæla alla þætti háskólastarfseminnar í því skyni að varpa ljósi á umfang hennar og afköst og sýna fram á hve vel tiltekinn háskóli standi sig í samanburði við aðra skóla.[6]

Þótt margvísleg gagnrýni hafi dunið á háskólum bæði austan hafs og vestan á síðustu áratugum og þeir hafi verið ásakaðir um að vera þunglamalegar og gamaldags stofnanir sem hafi ekki sinnt breyttum þörfum þjóðfélagsins sem skyldi, þá virðast flestir háskólar njóta mikils velvilja í þjóðfélaginu og ganga sífellt betur, að því er virðist, að mæta væntingum og óskum „viðskiptavina“ sinna. Hættan er sú að þessi velgengni háskólanna stígi þeim til höfuðs og að þeir telji sig svo merkilega að héðan í frá eigi heimurinn að hlaupa á eftir þeirra þörfum: Þeir séu hjartað í þekkingarhagkerfi nútímans.

Sjálfur tel ég lítinn vafa leika á því að því að án háskólanna myndi hagkerfið hrynja. En það er ekki þar með sagt að þessi líking eða myndhverfing segi alla söguna um eðli og ágæti háskólastarfsins. Það er meira að segja hugsanlegt að þessi staðsetning háskólanna í hagkerfinu trufli starfsemi þeirra og valdi því að þeir taki upp vinnubrögð og viðmiðanir sem hæfi þeim ekki.

 

3. Áhyggjuefni

Satt að segja verð ég var við sívaxandi áhyggjur fólks vegna þess sem kalla má „velgengnisvanda háskólanna“ í veraldlegum efnum. Áhyggjurnar eru í fæstum orðum þær að háskólarnir sinni ekki lengur sínu eiginlega hlutverki, heldur séu þeir komnir á bólakaf í veraldarvafstur og rekstrarmál og hugsi fyrst og fremst um það að auka afköst sín og mælanlegan árangur án þess að skeyta um það hvort þeir séu raunverulega að gera góða hluti, veita góða menntun og stunda góðar rannsóknir. Sumir hafa jafnvel fjallað ítarlega um það hvernig náin fjárhagsleg hagsmunatengsl háskólanna við ýmiss konar framleiðsluiðnað ógni heilbrigðri háskólastarfsemi á sama hátt og kaupaukakerfi bankanna ógna heilbrigðri starfsemi þeirra.[7] Aðrir hafa beint spjótum sínum að mælistikunum sem háskólar almennt eru farnir að beita til að vega og meta afköst sín og árangur og benda gjarnan á að þessar stikur segi í rauninni lítið eða jafnvel ekkert um eiginlegt gildi þess sem gert er.[8] Hlutverk mælistikanna sé í sjálfu sér ekki að leggja rökstutt mat á gildi þess sem gert er í háskólunum, heldur að kynda undir afköstum og hraða við framleiðslu á prófgráðum og rannsóknaniðurstöðum. Þessi stefna sé líkleg til að skaða eiginlega háskólastarfsemi sem er ekki fólgin í því að gera sem mest á sem skemmstum tíma, heldur í því að einbeita sér að því að vanda það sem gert er og spyrja sig stöðugt um hvort bestu fræðilegu vinnubrögð séu viðhöfð. Hugsunin er þá sú að það sé hið ómælanlega og ómetanlega sem mestu skipti í háskólastarfinu en ekki það sem tölum verður komið yfir eins og þegar stefnt er að veraldlegum gróða.

Eru þessar áhyggjur ástæðulausar? Eru háskólarnir, sem allir sem einn hafa lagt sig eða verið lagðir undir mælistikur af veraldlegum toga á síðustu áratugum, á réttri braut eða hafa þeir lent á villigötum?[9] Þetta er spurning sem ég tel að háskólafólk megi ekki víkja sér undan að takast á við, þótt ég geri mér ljósa grein fyrir því að það er ekki auðvelt verk. Allavega er ljóst að hér er þörf á miklu ítarlegri rannsóknum og rökræðum en hingað til hafa átt sér stað í háskólunum sjálfum. En ég vil strax vara við tvenns konar viðbrögðum sem fólk kann ósjálfrátt að sýna andspænis þessu áhyggjuefni.

 

4. Tvenns konar viðbrögð

Fyrri viðbrögðin eru þau að gera lítið úr vandanum og segja hann runninn undan rótum þeirra sem neita að taka þátt í nútímanum þar sem hörð lögmál efnahagslífsins ríki hvarvetna, líka í menntaheiminum. Háskólarnir hafi aldrei verið annað en þekkingarfyrirtæki sem framleiði tilteknar vörur – prófgráður og rannsóknaniðurstöður – sem menn hljóti að mæla eftir tiltækum tæknilegum leiðum til að meta frammistöðu þeirra á mennta- og vísindamarkaðnum; og það séu menn nú loksins farnir að gera almennilega. Skilvirkni, samkeppnishæfni, aukin afköst og mælanlegur árangur séu dæmi um nútímaleg hugtök sem menn nota til að halda utan um hvaða rekstur sem vera skal. Og háskólastarf sé í rauninni eins og hver annar rekstur.

Hin viðbrögðin eru þau að líta svo á að hefðbundinn háskóli sé liðinn undir lok, þar sinni háskólakennararnir fræðunum ekki lengur til að gæta þekkingarinnar sem á að þroska mannsandann, heldur séu þeir eins og hverjir aðrir starfsmenn í uppmælingavinnu hjá „þekkingarverksmiðju“ sem notar vinnuframlag þeirra til að svara tiltekinni eftirspurn. Þetta séu sannarlega erfiðir tímar, háskólarnir hafi afsalað sér hefðbundnu menntahlutverki sínu og tekið að þóknast ríkjandi þjóðfélagsöflum og hugsi ekki um annað en að svara kröfum nemenda sem vilja umfram allt fá prófgráður með sem minnstum tilkostnaði og auka rannsóknir í þágu atvinnulífsins. Háskólinn hafi þegar farið út af sporinu.

Þessi tvenns konar viðbrögð endurspegla viðteknar hugmyndir ákveðinna hópa fólks um háskóla. Annars vegar þeirra sem horfa á háskólana sem stofnanir sem veita þjóðfélaginu tiltekna þjónustu, ekki síst þeim stóra hópi nemenda sem snýr sér til háskólanna eingöngu í leit að menntun sem nýtist þeim vel til að finna sér störf í þjóðfélaginu. Hins vegar þeirra sem líta eingöngu á háskólann sem fræðasetur þar sem fólk helgar sig leitinni að sannleikanum í hinum ýmsu greinum og er í sjálfu sér ekki í þjónustu neinna annarra hagsmuna en þeirra sem tengjast beint eflingu fræðilegrar þekkingar og skilnings á heiminum.

Þessi tvö andstæðu viðbrögð endurspegla líka kröfurnar tvær sem ég nefndi í upphafi;  kröfuna um að leggja rækt við fræðin sjálf og eflingu þeirra og kröfuna um að veita menntun og afla þekkingar sem kemur hratt og örugglega að notum í þjóðfélaginu. Góður er sá háskóli, sagði ég, sem sinnir vel þessum kröfum báðum. Og spurningin er hvort og þá hvernig háskólum nútímans tekst að gera það.

 

5. Háskólarnir sem viðskiptafyrirtæki og sundrung fræðaheimsins

Áhyggjurnar sem komið hafa fram, og sú gagnrýni á þróunina sem þeim tengjast, beinast fyrst og fremst að því hvort háskólinn fái dafnað sem eiginlegt fræðasetur við þær aðstæður sem honum eru búnar í nútíma þjóðfélagi, hvort hann muni halda akademísk gildi í heiðri og ekki láta veraldleg gildi villa um fyrir sér. Þessar áhyggjur beinast ekki síst að því að mælistikurnar sem hafi verið innleiddar í háskólana séu allar miðaðar við að hugsa og reka þá sem viðskiptafyrirtæki sem eigi að framleiða tilteknar vörur og þjóna þjóðfélaginu í æ ríkari mæli. Ekki sé lengur tekið nægilegt tillit til þess að háskólarnir eigi að búa fræðimönnum skilyrði til að helga sig fræðunum án þess að þurfa sífellt að réttlæta sig með vísun í afköst sín eða hagnýtt gildi þess sem þeir gera.

Ég efast ekki um að margir líta svo á að það sé ekkert annað en óraunhæf fortíðarþrá eða rómantísk óskhyggja að láta sig dreyma um háskóla þar sem fólk stundar frjálsar rannsóknir og rökræður við kollega í háskólasamfélaginu og þar sem frið er að finna frá veraldarvafstri. Og sumir myndu eflaust vilja bæta því við að sennilega hafi slíkur háskóli, þar sem prófessorarnir voru alfrjálsir til að einbeita sér með nemendum sínum að eflingu fræðanna, aldrei orðið fyllilega að veruleika.

Mér finnst suðurafríski rithöfundurinn og nóbelsverðlaunahafinn J. M. Coetzee komast býsna nærri kjarna vandans þegar hann skrifar:

Það var alltaf hálfgerð lygi að háskólar væru stofnanir sem stýrðu sér sjálfar. Samt sem áður var það sem lagt var á háskólana á árunum á milli níunda og tíunda áratugarins verulega smánarlegt, þegar þeir létu það viðgangast, vegna hótana um að annars yrðu fjárframlög til þeirra skorin niður, að þeim væri breytt í viðskiptafyrirtæki (e. business enterprise), þar sem kennurum, sem áður höfðu haft fullkomið frelsi til að stunda rannsóknir sínar, var breytt í starfsmenn sem reknir voru áfram af kröfunni um að uppfylla kvóta undir ströngu eftirliti sérfróðra framkvæmdastjóra. Það er mjög vafasamt að nokkurn tímann verði hægt að endurreisa hinn fyrri mátt prófessorsembættisins.[10]

 

Málið er að sjálfsögðu töluvert flóknara en hér er gefið í skyn. Það voru ekki aðeins ytri þvinganir sem háskólarnir urðu að beygja sig undir, heldur kallaði innri þróun þeirra sjálfra á endurskipulagningu þar sem ekki varð komist hjá því að auka skrifræði til að halda utan um þróun fræðanna sjálfra. Sagnfræðingurinn Walter Metzger gerir greinarmun á tvenns konar vexti háskólanna, annars vegar vegna ytri aðstæðna, einkum fjölgunar nemenda, sem hann kallar „viðbragðsvöxt“ (e. reactive growth) og hins vegar það sem hann nefnir „efnislegan vöxt“ (e. substantive growth) sem tengist vexti fræðanna sjálfra.[11]

Hinn „efnislegi vöxtur“ felur í sér vissa sundrungu fræðaheimsins, en í reynd eru ný fræðasvið eða nýjar greinar yfirleitt afsprengi eldri greina eða beinlínis undirgreinar þeirra. Þessi útvíkkun fræðaheimsins hefur margvísleg áhrif á starf háskólanna, til að mynda á skoðanir fræðimanna á því hvað sé mikilvægt að kenna, hvaða fræðigreinar liggi öðrum til grundvallar og hvernig hinar ólíku greinar tengjast innbyrðis. Fræðimennirnir hafa upp til hópa orðið sérfræðingar á afmörkuðum sviðum, oft með takmarkaða sýn á fræðaheiminn í heild sinni og sáralitla þekkingu á öðrum fræðigreinum. Hin fræðilega þekking hefur bókstaflega splundrast í ótal hluta sem erfitt er að henda hugmyndalega reiður á. Í stað heimspekilegrar yfirsýnar yfir heim vísinda og fræða er komið kerfisbundið skrifræði í háskólum sem heldur utan um hina fræðilegu framleiðslu og skráir og færir til bókar allt sem gert er án þess að skeyta nægilega um hvað í því felst. Bókhaldið skiptir öllu, innihaldið engu.

 

6. Hvernig má skýra þessa þróun? Frá lögmálum félagslegrar stofnunar yfir í lögmál iðnaðarfyrirtækis

Þessi þróun háskólanna er að sjálfsögðu ekki einangrað fyrirbæri. Samfélagið í heild sinni hefur orðið fyrir miklum áhrifum af uppgangi öflugra framleiðslu- og viðskiptafyrirtækja sem hafa kallað eftir vinnuafli sem kunni til verka í ýmsum greinum tækni og viðskipta. Ýmis félög og stofnanir sem áður voru rekin af áhugafólki og höfðu hagsmuni samfélagsins alls að leiðarljósi hafa breyst í fyrirtæki á markaði þar sem hugsun um fjárhagslegan hagnað og sífelldan vöxt ríkir.

Í grein sinni „Universities and Knowledge“ lýsir Patricia J. Gumport því hvernig háskólar hafa þróast í þessa veru á síðari tímum.[12] Hún tekur mið af hugtakinu „stofnanarökvísi“ (e. institutional logic) sem merkir „safn raunverulegra starfshátta og táknrænna útlegginga – sem mynda skipulagsreglur starfseminnar, en stofnanir og einstaklingar geta tekið mið af þeim og þróað þær frekar“. Tilgáta Gumport er sú að „stofnanarökvísi“ bandarískra rannsóknaháskóla hafi á undanförnum áratugum tekið róttækum breytingum. Þeir hafi smám saman yfirgefið þá stofnanarökvísi sem einkennir félagslegar stofnanir og tileinkað sér stofnanarökvísi sem hæfir iðnfyrirtækjum. Ástæðuna telur hún vera þá að markaðsöflin hafi smám saman aukið áhrif sín á starfsemi háskóla og þeir hafi því endurskipulagt sig í ljósi breyttra aðstæðna. Sumir hafi harmað þessa þróun og talið hana spilla eiginlegri háskólastarfsemi en aðrir hafi tekið henni fagnandi og talið hana löngu tímabæra. Háskólarnir verði að svara eftirspurn markaðarins eftir menntuðu vinnuafli og hagnýtri þekkingu í miklu ríkari mæli en þeir hafi gert í gegnum tíðina.

Gumport bendir á marga þætti sem ýtt hafi undir það að háskólar tileinki sér í ríkari mæli „stofnanarökvísi“ iðnfyrirtækja: stjórnvöld og almenningur hafi gert auknar kröfur um að háskólarnir sýni fram á beinan efnahagslegan ávinning af starfsemi sinni; þjónustuhlutverk háskóla hafi verið endurtúlkað í þá veru að þeir eigi að gera efnahagslega þróun og hagnýtt nám að forgangsverkefnum; rekstrarfræði hafi orðið ríkjandi hugmyndafræði; fallist hafi verið á að eignaréttur skipti meira máli en þekking; áhrif faglegra starfsgreina hafi farið minnkandi andspænis uppgangi markaðsafla með tilliti til þess á hverju ákvarðanir eru byggðar.[13]

Muninn á félagslegum stofnunum og iðnfyrirtækjum setur Gumport fram í töflu þar sem fram koma meðal annars eftirfarandi þættir:[14]

                                                                                                             

 

Félagsleg stofnun

Iðnfyrirtæki

Í víðu samhengi

Félagslegar væntingar

Markaðsöflin

Þjónusta við samfélagið

Margskonar: menntun, varðveisla og öflun þekkingar

Stuðla að efnahagsframförum með færniþjálfun og hagnýtingu rannsókna

Megingildi þekkingar

Sjálfstætt gildi hugmynda og frumlegrar fræðimennsku

Efnahagslegur ávinningur, möguleg verslunarvara

Tímamörk

Til langs tíma

Til skamms tíma

Meginrök þeirra sem kosta háskólana

Fjárfesting í hreinum og hagnýtum rannsóknum; efla komandi kynslóðir

Sjá fyrir hagnýtum rannsóknum eða hagnýta fræðslu og menntun

Þekkingaröflin

Fræðigreinar í deildum

Markaður, knúinn af eftirspurn

 

7. Frá hefðbundnum háskóla til framúrskarandi þekkingarfyrirtækis

Gumport greinir þróun háskólanna utan frá með hliðsjón af almennri þróun þjóðfélagsins þar sem lögmál efnahagslífsins hafi smám saman hafa orðið ráðandi á sviði stjórnmála, menningar og menntunar ekki síður en á sviði framleiðslu og viðskipta. En hvernig má hugsanlega lýsa þróuninni innan frá með hliðsjón af því sem hefur gerst í háskólunum sjálfum?

Í athyglisverðri greiningu á þróun háskólans gerir kanadíski prófessorinn Bill Readings grein fyrir því hvernig þær hugmyndir og viðmiðanir sem áður voru notaðar til að hugsa og réttlæta starf háskólanna hafi smám saman þokað fyrir hugmyndum sem hafi bókstaflega ekkert innihald.[15] Grunnurinn fyrir rökfærslu hans er sá að háskólarnir hafi síðustu þrjár aldirnar verið hugsaðir og starfræktir á grundvelli þeirra hugmynda sem liggja upplýsingaröldinni til grundvallar. Þannig hafi þýski heimspekingurinn Kant kennt okkur á 18. öld að skoða háskólana sem virki skynseminnar sem smám saman treystir sig í sessi í þjóðfélaginu með aukinni menntun og rannsóknum. Allar fræðigreinar séu liður í því að bæta menntun okkar og menningu, en þjóðríkinu á 19. öld er einmitt ætlað það hlutverk að efla menningu hverrar þjóðar. Háskólarnir urðu þannig mikilvægustu verkfæri þjóðríkisins til að efla menntun og menningu þegna sinna. Grundvallarréttlætingin á starfi háskólanna hefur  einmitt verið þessi þátttaka þeirra í að styrkja þjóðríkið og þjóðmenninguna. Háskóli Íslands er lifandi dæmi um þetta og má m.a. vísa í ótal ræður rektora hans því til stuðnings.

Kenning Readings er sú að umbyltingin í háskólum síðustu áratugi stafi af því að þjóðríkið og þjóðmenningin hafi veikst svo mjög að þau séu í reynd hætt að virka sem grundvallargildi.[16] Þar með hafi grunnforsendan fyrir starfi háskólanna brostið og þeir hafi orðið að finna sér annan samnefnara en þann að efla menninguna. Slíkan samnefnara fundu þeir í orðinu „excellence“ sem tók að gegna lykilhlutverki í orðræðu háskólastjórnenda snemma á 10. áratug síðustu aldar.[17] Fallegasta þýðingin á þessu orði er vafalaust „ágæti“, en í reynd er það lýsingarorðið „framúrskarandi“ sem í íslenskri orðræðu um háskóla hefur leikið nákvæmlega sama hlutverk og enska orðið „excellence“. Allar greinar háskólans, öll starfsemi hans, kennsla, rannsóknir og rekstur, allt á þetta að vera „framúrskarandi“. Háskólinn í Reykjavík beitti þessu hugtaki í stefnumótun sinni á árinu 1998 og orðið hefur síðan fengið sinn sess í stefnumótun annarra háskóla, þ.á m. Háskóla Íslands.

Readings telur að orðið „excellence“ þjóni því hlutverki að gefa allri starfsemi háskólans vissa einingu á yfirborðinu, það sé það sem hann kallar „þá meginreglu sem ljær háskóla samtímans heildarsvip sinn“. Sem slíkt hafi það „þann einstaka kost að vera öldungis merkingarlaust, eða réttara sagt, án tilvísunar“ (bls. 22). Að vera ágætur eða framúrskarandi er merkingarlaus lýsing – eða, réttara sagt, sú lýsing fær einungis merkingu með hliðsjón af tilteknum mælikvörðum eða viðmiðunum sem eru gerólíkar eftir því hvað um er að ræða hverju sinni. Sama gildir að sjálfsögðu um orðið „góður“. Góður bíll er ekki góður miðað við sömu mælikvarða og t.d. góður matur. Orðið „framúrskarandi“ er svolítið öðru vísi vegna þess að það kallar á beina viðmiðun með samanburði við aðra. Að vera framúrskarandi er að skara fram úr öðru sem er af sama tagi og þess vegna þarf að tiltaka hverju sinni hvað það er sem skarað er fram úr, og á grundvelli hvaða mælikvarða, til að lýsingin fái merkingu. En það er líka til önnur leið sem merkingarleysi orðsins býður upp á, og hún er sú að skilgreina alls kyns mælikvarða á frammistöðu sem „mæla“ ágætið eða framúrskörunina. Þetta er leiðin sem háskólarnir hafa farið og fylgt með því fordæmi ýmissa framleiðslu- og þjónustufyrirtækja sem hafa innleitt alls kyns „gæðakerfi“ til að geta sannað ágæti framleiðslu sinnar fyrir viðskiptavinum sínum. Opinberir samkeppnissjóðir, sem háskólarnir eru háðir í vaxandi mæli, beita skipulega slíkum „gæðastöðlum“. Þannig hafa verið búnir til ýmiss konar kvarðar til meta starfsemi háskóla og raða þeim síðan eftir „ágæti“ þeirra

Þetta er draumaaðferð þeirra sem vilja breyta háskólanum í fyrirtæki með það eina meginmarkmið að stækka og auka umsvif sín. Ég gef Readings orðið: „Framúrskörunin gerir háskólanum kleift að skilja sjálfan sig eingöngu með hugtökum sem eiga við stjórnsýslukerfi fyrirtækja“ (bls. 29). Þar með tekur allt að snúast um það að finna upp kerfi til að mæla umsvif og fjölbreytni þess sem háskólarnir gera til að geta sýnt og sannað heiminum hversu frábærir þeir eru og hversu góða og margvíslega þjónustu þeir veita hinum mörgu og ólíku geirum eða sviðum þjóðfélagsins. Samkvæmt kenningu Readings verður tilgangur háskólanna sá að eflast sem þekkingarfyrirtæki sem vinnur markvisst að því að styrkja og efla stöðu sína á „menntamarkaðnum“, í harðri samkeppni við önnur sambærileg fyrirtæki. Og hann telur að við þurfum að viðurkenna í eitt skipti fyrir öll að hinn hefðbundni háskóli sem heldur í heiðri gildi upplýsingar, skynsemi og menningar, heyri sögunni til. Í rauninni sé menningarhugtakið orðið nánast jafn merkingarlaust og „framúrskörunin“. Saga háskólans í hefðbundnum skilningi sé liðin, háskólinn í dag sé eftir-sögulegt fyrirbæri. Hinn „framúrskarandi háskóli“ opni nemendum sínum og starfsfólki í raun allar leiðir til að gera hvaðeina sem hugur þess stendur til svo fremi að sagt sé skilið við fortíðarþrána og reynt að loka engum dyrum.[18] Er þetta leiðin til að verða góður háskóli?

 

8. Velgengni ameríska háskólans

Margt bendir til þess að amerískir háskólar hafi þróast í þá veru sem hér er lýst á undan öðrum háskólum heimsins. David Labaree, bandarískur prófessor í menntarannsóknum, hefur varpað fram tilgátu til að skýra hvers vegna „ameríska háskólanum“ hafi vegnað svo vel að aðrir háskólar heimsins hafa tekið hann sér til fyrirmyndar.[19] Tilgátan er sú að amerískir háskólar hafi frá upphafi litið á sjálfa sig sem fyrirtæki á menntamarkaðnum sem verði sjálf að hafa fyrir því að afla sér tekna, bera ábyrgð á starfsemi sinni og sýna sig og sanna fyrir heiminum. Vissir háskólar hafi snemma náð yfirburðastöðu á markaðnum og hafi haldið henni, en hinir háskólarnir taki meira og minna mið af þeim og leitist við að vinna sig upp metorðastigann sem skapast hefur á menntamarkaðnum.

Labaree bendir á að í Evrópu hafi þróunin hins vegar verið talsvert önnur þar sem þjóðríkin hafi frá því í upphafi 19. aldar slegið eign sinni á háskólana og þar með gert þá háða sér í einu og öllu, ekki aðeins varðandi fjármögnun heldur líka allar reglur starfseminnar.

Í ljósi þessarar kenningar Labaree má spyrja að hve miklu leyti kenning Readings um að háskólarnir hafi fram til þessa réttlætt sig á grundvelli hlutverka sinna í þágu þjóðríkis og þjóðmenningar eigi við um norður-ameríska háskóla. Hún virðist aftur á móti eiga fyllilega við um evrópska háskólann eins og hann hefur þróast síðust tvær til þrjár aldir. Það má líka taka dýpra í árinni og spyrja hvort þróunin sem Readings rekur til síðustu áratuga 20. aldar hafi ekki í rauninni hafist löngu fyrr, og jafnvel má líta svo á að háskólarnir hafi frá upphafi sínu á miðöldum skilið sjálfa sig að vissu marki sem fyrirtæki á menntamarkaðnum eða allavega skynjað sig í samkeppni við aðra háskóla og þurft að ná hylli veraldlegra og geistlegra valdhafa og einnig stúdenta sinna. Skrifræðisleg stjórnsýsla virðist líka hafa fylgt háskólunum frá upphafi, rétt eins og kirkjunni og ríkinu, auk þess sem þeir koma snemma á laggirnar siða- og viðhafnarkerfum sem síst hefur dregið úr að undanförnu, einkum við brautskráningarathafnir og doktorsvarnir.

Labaree leggur áherslu á að hann sé ekki að halda því fram að ameríski háskólinn hafi menntað nemendur sína sérlega vel. Hann telur þvert á móti að markaðshugsun ameríska háskólans hafi dregið úr hæfni hans til að stuðla að mikilvægum markmiðum sem eiginlegur mennta-skóli eigi að hafa, svo sem að auka félagslegt jafnrétti. Ástæðan er sú að markaðshyggjan ýtir undir það að við hugsum ekki um menntun sem opinber gæði, þ.e.a.s. að menntun einstaklinga komi samfélaginu öllu til góða, heldur sem einkagæði er nýtast fyrst og fremst þeim sem afla hennar. Labaree heldur því m.ö.o. ekki fram að ameríski háskólinn sé betri en háskólar í öðrum heimshlutum, heldur bendir einfaldlega á að honum hafi vegnað miklu betur samkvæmt öllum viðteknum mælikvörðum á velgengni, svo sem um fjölda tilvitnana í virtum fræðiritum og fjölda Nóbelsverðlaunahafa, að ekki sé minnst á fjárhagslega velgengni.

Að vera góður háskóli og að vegna vel á menntamarkaðnum er því tvennt ólíkt samkvæmt kenningu Labaree. Veraldleg velgengni er, að hans dómi, í sjálfu sér ekki sérlega viðeigandi mælikvarði á gæði háskóla. En hvernig á þá að svara spurningunni „hvað er góður háskóli?“? Eru til ákveðnir mælikvarðar sem gera okkur kleift að meta hvað það er sem gerir skóla að góðri menntastofnun og aðrir mælikvarðar sem gera okkur kleift að meta hversu vel skóli stendur sig á menntamarkaðnum? Eða er niðurstaðan sú að þróun háskólanna að undanförnu hafi svo róttæka umbreytingu í för með sér að þeir séu að verða allt annars konar stofnanir en áður fyrr? Það hafi ekki sömu merkingu og áður að spyrja hvaða háskóli sé góður skóli – spurningin sé eingöngu hvort háskólinn nái þeim mælanlega árangri sem hann hefur sett sér sem þekkingarfyrirtæki?

 

9. Um greinarmun menntastofnunar og þekkingarfyrirtækis

Hér að framan tók ég kenningar Gumport og Readings sem dæmi um þá tilgátu að háskólinn sé að umbreytast á tiltekinn hátt vegna áhrifa frá markaðsöflum efnahagslífsins. Rauði þráðurinn er sá að háskólinn sé að þróast yfir í þekkingarfyrirtæki – jafnvel þekkingarverksmiðju – sem gerir tvennt: framleiðir nýja þekkingu og býður upp á þjálfun í meðhöndlun þekkingar í svo og svo mörgum greinum. Háskólinn sé ekki lengur fræðasetur þar sem kennivöld sitja og gæta þekkingarinnar: hugsa um að afla hennar, varðveita hana og miðla henni til allra sem áhuga hafi á að því að auka skilning sinn, þroska hugsun sína, bæta líf okkar og samfélagið í heild. Í fáum orðum sagt: Háskólinn hafi á skömmum tíma umskapast frá menningarstofnun yfir í þekkingarfyrirtæki í harðri samkeppni um að afla þekkingar, miðla henni og nýta með margvíslegum hætti í þjóðfélaginu, ekki síst í framleiðslu og viðskiptum.

Áður en ég geri tilraun til að útlista nánar hvernig ég tel að líta beri á þessi mál vil ég gera eina athugasemd við kenningu Gumport og aðra við kenningu Readings.

Það er ekki nýtt, eins og kenning Gumport virðist gera ráð fyrir, að háskólinn líti á sig sem fyrirtæki á markaði sem þarf að bregðast við þörfum þjóðfélagsins. Frá miðöldum hafa háskólarnir staðið í harðri samkeppni á markaði, þurft að afla sér tekna til að standa undir kostnaði við rekstur sinn, sannfæra aðra um ágæti starfsemi sinnar og keppa um nemendur og kennara. Á miðöldum skiptu háskólarnir miklu máli fyrir borgirnar sem hýstu þá og veraldleg og geistleg stjórnvöld nutu margvíslegrar þjónustu frá þeim. Nútímaháskólar í Evrópu hafa alla tíð þurft að sýna sig og sanna frammi fyrir stjórnvöldum, en einstakir skólar hafa líka þróað eigin leiðir til að afla fjár, svo sem Háskóli Íslands með happdrætti sínu. Í Bandaríkjunum voru háskólunum frá upphafi sköpuð betri efnahagsleg skilyrði en í Evrópu með myndun sjóða, innheimtu skólagjalda og stuðningi fyrrum nemenda. Frá 19. öld litu evrópsk þjóðríki á háskólann sem verkfæri til að efla sig sjálf (eins og þau gera enn) og gerðu þeim kleift að dafna á sínum eigin fjárhagslegu forsendum. Þess vegna er það ekki rétt að að háskólinn sé núna í fyrsta sinn í sögunni að verða „fyrirtæki“, „þekkingarverksmiðja“, eða hvað sem menn vilja kalla það. Háskólinn hefur alla tíð staðið í margskonar rekstri og samkeppni á „menntamarkaðnum“ sem að sjálfsögðu hefur tekið breytingum í tímans rás.  Á síðustu áratugum hefur mönnum orðið starsýnna en áður á þessa hlið háskólans vegna þess að samkeppnin um athygli, nemendur, fjármuni og þekkta fræðimenn hefur stóraukist um leið og prófgráður og afurðir fræðastarfsins hafa orðið æ mikilvægari í efnahagslífinu. En þetta felur ekki í sér eðlisbreytingu á starfsemi háskólanna.

Síðari athugasemd mín lýtur að kenningu Readings. Sú skoðun hans að menningarhugtakið sé orðið álíka inntakslaust og „excellence“-hugtakið er, að mínum dómi, ekki rétt.Vandinn við „framúrskörunina“ er að mælikvarðarnir sem notaðir eru til að mæla hana vísa ekki til staðreynda sem sýna að háskólinn sé góður staður til að læra, rannsaka og vera. Þeir sýna – að svo miklu leyti sem þeir sýna eitthvað sem máli skiptir – að skólinn er að ná vissum mælanlegum árangri þegar hann er skoðaður sem rekstrarleg eining. Þetta segir okkur hins vegar ekki mikið um gæði skólans sem menningar- eða menntastofnunar. Varðandi þetta atriði er það reyndar trú mín að háskólar nútímans blómstri margir hverjir sem menningar- og menntastofnanir þrátt fyrir erfið skilyrði til að axla þessa mikilvægu köllun sína.[20] En ekki virðist vera mikill áhugi á að fylgjast með þessari hlið þeirra og meta hana að verðleikum.

 

10. Þekking, eining og samfella háskólaheimsins. Mat á stöðunni

Nú er tímabært að skýra mína eigin afstöðu gagnvart þeim hugmyndum sem fram hafa komið um þróun háskólanna. Ég mun setja fram þrjár almennar ábendingar sem eiga allar að miða að því að auka skilning okkar á heimi vísinda og fræða sem háskólarnir fóstra.

Fyrsta ábendingin lýtur að þeim áhyggjum sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni og ég veit að margir hafa af þeirri þróun háskólanna að einbeita sér fyrst og fremst að því að tryggja veraldlega velgengni sína. Fjögur atriði, sem þegar hafa verið nefnd, skýra þessa þróun: (1) breytt þjóðfélagsgerð sem veldur ytri þrýstingi og sívaxandi álagi á háskólana, sem kemur m.a. fram í fjölgun nemenda, aukinni kröfu um skilvirkni og árangur, í alþjóðlegum samanburði og harðnandi samkeppni; (2) sundrung fræðanna sjálfra sem fylgir fjölgun viðfangsefna, aukinni sérhæfingu og tæknivæðingu; (3) hnignun þjóðríkis og þjóðmenningar; og síðast en ekki síst (4) markaðs- og einkavæðing í menntageiranum, sem endurspeglar þróun þjóðfélags þar sem lögmál efnahagslífsins og hörð samkeppni um fjármagn eru lögð allri starfsemi og samskiptum til grundvallar.

Helsta áhyggjuefnið er að háskólarnir skapi fræðimönnum sínum ekki lengur þau skilyrði sem þeir þurfa til að geta helgað sig fræðunum og einbeitt sér í friði fyrir skarkala heimsins; þeir þurfi endalaust að sýna og sanna að þeir séu að standa sig samkvæmt mælikvörðum um veraldlega velgengni, en ekki um eiginleg gæði fræðastarfsins. Tilvitnunin í Coetzee hér að framan er í þessum anda. Sem dæmi um áhyggjur hans má nefna uppmælingar- og launakerfin sem nú tíðkast í háskólum. Þau séu ekki sérlega vel til þess fallin að ýta undir frjóa og skapandi hugsun fræðimanna, þótt þau virki vel til að auka afköst þeirra og skilvirkni í starfi. Þetta bitni að sjálfsögðu á fræðunum og nemendunum; hvorugu sé sinnt sem skyldi, þótt bókhaldið sýni mikil umsvif og mikla framleiðslu.

Ég efast ekki um að það er ærið tilefni til að hafa áhyggjur, en minni á einfalda staðreynd um manneskjur, okkur sjálf: Við erum hugsandi verur og veraldleg gæði, peningar, völd og frægð, fullnægja okkur ekki ein og sér. Háskólarnir hafa til þessa verið staðir þar sem fólk er leitt inn í fræðaheim þar sem það verður sjálft að vega og meta hið sanna og rétta og þroska hugsun sína í átökum við flóknar fræðilegar greiningar og kenningar. Það er ekki hægt að stunda fræði af neinni alvöru, hvort heldur sem nemandi eða kennari, nema með því að yfirvega og gagnrýna stöðugt það sem sagt er eða gert í fræðunum. Þar er endalaust leitast við að leiðrétta sig, gera betur, finna nýjar lausnir og móta frumlegar hugsanir. Mælistikur um afköst og árangur breyta engu um eðli þess að nema, hugsa og læra, þótt þær kunni vissulega að hafa áhrif á hegðun fólks (t.d. hve duglegt það er), og þær fá að mínu mati alltof mikla athygli miðað við innihald námsins, þekkinguna og skilninginn sem fræðin snúast raunverulega um.[21]

Önnur ábendinginlýtur að sundrungu fræðaheimsins sem mörgum vex í augum og telja að sé til marks um það að mannsandinn hafi glatað einingu sinni. Hér á öldum áður hafi einn og sami einstaklingurinn getað búið yfir allri þekkingu heimsins. Leibniz er gjarnan nefndur sem einn hinna síðustu alfræðinga af þessari tegund. Smám saman hafi heimur fræðanna splundrast í ótal fræðigreinar og undirgreinar þeirra sem hver um sig telur sig vera að rannsaka það sem mestu skiptir í alheimi. En þessi staðhæfing breytir engu um það að starfsemi háskóla felst í því að fræðimenn og nemendur þeirra einbeita sér að því að uppgötva sannindi, skilja þau og styðja með viðeigandi rökum. Leitin að sannri þekkingu hefur ávallt verið kjarninn í fræðaheiminum og þar með í starfi háskólanna. Hugmyndin um háskólann sem samfélag þar sem fræðimenn, kennarar og nemendur deila þekkingu af öllum hugsanlegum fræðasviðum er í fullu gildi þótt háskólarnir þurfi að að einbeita sér í auknum mæli að rekstrarvandamálum sínum.

Hér er gengið að þrenns konar forsendum vísum um þetta kjarnastarf háskólanna: Í fyrsta lagi að til sé sönn þekking sem er sameiginleg öllum hugsandi verum (dæmi: 2+2 gera 4; það rignir (ekki) hér og nú; það er rangt að misþyrma dýrum).[22] Í öðru lagi að fræðileg hugsun sé í megindráttum sú sama hver sem fræðigreinin er og hversu margar og mismunandi aðferðirnar eru sem beitt er við hin ólíku viðfangsefni; þess vegna skilja fræðimennirnir hvern annan og eiga í margvíslegum samskiptum þótt þjóðtungurnar séu margar og ólíkar. Í þriðja lagi er hvarvetna í háskólaheiminum gengið að sömu grunngildunum vísum sem fólk veit að það verður að standa vörð um til þess að þekkingarstarfið blómstri og beri ávöxt.

Víkjum nánar að grunngildunum. Þau fela ævinlega í sér virðingu fyrir hinu sanna og rétta, leit að nýjum leiðum að viðfangsefninu og viðurkenningu á takmörkunum vísinda og fræða. Breski heimspekingurinn Christopher Norris lýsir þessu vel:

Hugmyndin um háskóla verður ekki aðgreind frá vissum öðrum leiðsagnarhugmyndum, það er „hugmyndum skynseminnar“ (í merkingu Kants) sem eru ekki fyllilega veruleiki í neinum raunverulegum háskóla – eða annarri stofnun – en hafa engu að síður gildi sem er hafið yfir allar sérstakar aðstæður í tíma og rúmi. Helstar meðal þeirra eru, hygg ég, hin samstæðu  gildi sannleika, gagnrýni og gagnkvæms skilnings (að svo miklu leyti sem hann er á mannlegu færi) og virðing fyrir ólíkum siðferðilegum og fræðilegum sjónarmiðum.[23]

 

Málið snýst ekki um það að háskólamenn deili vitandi vits og af ásetningi „leiðsagnarhugmyndum“ af því tagi sem ég nefni, heldur að það eru slíkar hugmyndir sem afmarka allt sem háskólamenn geta hugsað, sagt og gert af viti á sviði fræðanna innan háskólans. Þessar hugmyndir skapa þannig ákveðinn ramma utan um starfsemi háskólafólks sem gefur henni merkingu og gerir hana skiljanlega. Innan þessa ramma er að finna fræðilegar og siðferðilegar reglur sem háskólafólki ber stöðugt að taka mið af.[24] Stundum viðurkenna menn ekki þennan ramma og brjóta reglurnar sem þeim ber að fylgja. Í háskólasamfélaginu hendir það vissulega að menn fara út af sporinu, til dæmis með því að láta kenningar sínar eða niðurstöður ráðast af annarlegum hagsmunum, svo sem peningalegum ávinningi, eða þegar háskólamaður lætur öfund ráða gerðum sínum, hindrar framgang starfsfélaga eða svertir mannorð hans. Siðferðisbrestir af þessum toga eru alþekktir í öllum samfélögum og um þá má finna ótal dæmi frá upphafi mannkynssögunnar til þessa dags. Því miður þarf fólk hvarvetna að vera á varðbergi gagnvart margs konar löstum, svo sem öfund og græðgi, hroka og nísku.

Þriðja ábendinginlýtur að þeirri hugsun Readings að „upplýsingin“ sé liðin undir lok, skynsemin, menningin og öll þau gildi sem undir þær hafi verið felld heyri sögunni til, markaðurinn hafi gleypt þau með húð og hári og nú sé eftirleikurinn sá að spinna nýjar sögur og ævintýri. Ég hef miklar efasemdir um kenningar sem kveða á um algjör söguleg skil: á einum tíma hugsi fólk eftir tilteknum brautum en á næsta tímaskeiði hugsi fólk eftir allt öðrum leiðum. Fyrirmyndir um það hvernig á að leita hins sanna og rétta breytast vissulega, en það merkir ekki að hið sanna og rétta dansi í lausu lofti eftir duttlungum tíðarandans og að mælikvarðarnir séu breytilegir frá einum tíma til annars. Öðru nær, þótt heimsmynd hinna fornu Grikkja sé, að því er virðist, víðsfjarri heimsmynd nútímans, þá skiljum við skrif þeirra Platons og Aristótelesar og fylgjum í dag í meginatriðum fræðireglunum sem þeir beita og boða í ritum sínum. Hin fræðilega hugsun er ein og söm og breytist ekki frá einum tíma til annars. Og fræðigreinarnar eru í grundvallaratriðum þær sömu og í árdaga vísindanna meðal hinna fornu Grikkja: stærðfræði, rökfræði, eðlisfræði, stjörnufræði, sálarfræði, grasafræði, siðfræði o.s.frv. Þess vegna tel ég að útvíkkun fræðaheimsins og nýjar undirgreinar séu síður en svo áhyggjuefni, heldur sýni að fræðin, menntaheimurinn og  háskólarnir munu leggja undir sig heiminn allan fyrr eða síðar. Þess vegna er rík ástæða til að ætla að fólk muni í framtíðinni kappkosta að efla háskólana og fórna æ meiri veraldargæðum á altari hinna  andlegu gæða sem fólk þráir innst inni að tengjast í huganum: hinu sanna, fagra og góða.

 

Niðurstaða

Ofangreindar þrjár ábendingar miða að því að draga athyglina að einingu og samfellu háskólaheimsins og draga í efa að hann taki kollsteypum og gjörbreytist vegna ytri aðstæðna, hversu ógnandi sem þær kunna að vera. Þar með er auðvitað ekki sagt að hann standi í stað, öðru nær. Gífurleg fjölgun háskóla, þróun nýrrar tækni við rannsóknir og nám, stóraukin tengsl og samvinna háskólafólks um víða veröld – allt þetta hefur margvísleg áhrif á öflun, miðlun, varðveislu og beitingu þekkingar. Þessari þróun fylgir í senn viss fjölbreytni háskóla og öflug markaðsvæðing og sölumennska. Sumum kann að þykja fjölbreytnin sem nú er til komin meðal þeirra stofnana sem kalla sig háskóla vera svo mikil að hér sé ekki lengur um eina hugmynd að ræða heldur margar ólíkar stofnanir sem eigi ekkert sameiginlegt nema nafnið eitt. Öðrum finnst að markaðsvæðingin og sölumennskan hafi umbylt hefðbundnu háskólastarfi og háskólarnir séu orðnir að þekkingarfyrirtækjum sem lúti sömu rökvísi og önnur fyrirtæki í framleiðslu og dreifingu gæða.

Hvorugt fæst staðist nánari skoðun. Háskólahugmyndin lifir enn og tekur á sig ótal ólíkar myndir í raunverulegum háskólum. Markaðsvæðingin getur vissulega valdið miklum usla og skaða í háskólaheiminum ef og þegar kaupmennskan verður allsráðandi í hugsun háskólafólks: kennarinn telji sig vera að selja kunnáttu og nemandinn telji sig vera að kaupa menntagráðu. Spilling er þekkt í háskólum rétt eins og á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Hún er ævinlega fólgin í því að menn svíkjast um að beita þeim reglum og vinnubrögðum sem eru við hæfi í þeirri grein eða á því sviði sem um ræðir.

Svo tekið sé dæmi til samanburðar af allt öðru sviði þá liggja ákveðnar siðferðisreglur til grundvallar samskiptum okkar og tengslum í viðskiptalífinu. Þannig lýtur kaupmennska ákveðnum reglum sem ber að virða hvar sem menn eiga í viðskiptum með vörur og þjónustu. Það vita allir hvað við er átt þegar rætt er um óheiðarleika í viðskiptum. Sama gildir um framleiðslu á hvaða vöru sem vera skal. Sviksemi í framleiðslu og svindl í viðskiptum eru því miður vel þekkt og valda margvíslegum skaða.

Kennsla og rannsóknir lúta með hliðstæðum hætti og kaupmennska og vöruframleiðsla tilteknum reglum og vinnubrögðum sem eiga að tryggja gæði þeirra. Allt nám er sömuleiðis bundið tilteknum vinnubrögðum og reglum eigi það að bera ávöxt. En reglur og vinnubrögð duga ekki ein og sér. Til að skapa góðan háskóla þarf líka eldheitan áhuga á vísindum og fræðum, takmarkalausa trú á þroskagildi menntunar og þá sannfæringu að þekkingin skipti öllu máli til að bæta samfélag okkar og lífsskilyrði. Kennarar, nemendur og sérfræðingar eiga ekki aðeins að einbeita sér hver að sínu ætlunarverki, heldur þurfa að virða fræðastarf annarra og læra af því sem aðrir gera.

Um þetta snýst allt háskólastarf: Það snýst um að hópur fólks af ýmsum fræðasviðum vinni markvisst saman að öflun, varðveislu og miðlun þekkingar, skilnings, kunnáttu og færni sem á að nýtast okkur til að leysa hvaða lífsverkefni sem er á farsælan hátt. Sá háskóli einn getur talist góður sem helgar sig þessu starfi af fullum heilindum.

 

 

 



[1] Ég þakka Jóni Torfa Jónassyni, Magnúsi Diðrik Baldurssyni, Birni Þorsteinssyni og Skúla Skúlasyni fyrir góðar athugasemdir og ábendingar.

[2]Sjá „Kreppa háskóla og kjarni háskólastarfs“ í Skírni haust 2007. – Skýra og góða greinargerð fyrir sögu háskóla, þróun þeirra og framtíðarhorfum er að finna í riti Jóns Torfa Jónassonar, Inventing Tomorrow’s University, Bononia University Press 2008.

[3]Sigmundur Guðbjarnason, rektor Háskóla Íslands, undirritaði yfirlýsinguna, en fjölmargir háskólar víða um heim hafa undirritað hana á síðari árum.

[4]Á síðari tímum hefur oft myndast spenna á milli kröfunnar sem háskólar gera til sjálfra sín um að sinna þekkingunni sjálfri, skyldunni við fræðin í öllum þeirra margbreytileika, og kröfunnar sem þjóðfélagið gerir til háskólanna um að þeir gegni hlutverki sínu sem eiginlegar þekkingarsmiðjur í þágu þeirra sem kosta þá, mennti fólk til margs konar starfa og framleiði nýjar fræðilegar lausnir á vandamálum sem upp koma í mannlífinu. Stundum hefur hvarflað að mér að þessi spenna hafi leitt til þess að háskólarnir hafi ekki hugað nægilega vel að grundvallarhlutverki sínu, þroska og menntun nemendanna.

[5]Hér vaknar spurningin um það hvort og þá að hve miklu leyti það séu ekki mælikvarðarnir sem hafa verið margreyndir í störfum manna, t.d. í læknisfræði og lögfræði, sem eiga að vera til viðmiðunar fyrir kennslu í viðkomandi fagi, eða hvort nýjar rannsóknir eigi fyrst og fremst að ráða í kennslunni.

[6]Nærtækt dæmi um þetta er úttekt Ríkisendurskoðunar á Háskóla Íslands 2004 sem sýndi að skólinn stendur sig einstaklega vel miðað við fjárframlög hvað varðar afköst í kennslu og rannsóknum í samanburði við aðra hliðstæða skóla.

[7]Sjá t.d. Jennifer Washburn, University Inc.:The Corporate Corruption of American Higher Education, Basic Books, New York 2005.

[8]Gagnrýni af þessum toga kom fram þegar í riti Roberts Pauls Wolff, The Ideal of the University, Beacon Press 1969; eitt dæmi sem hann ræðir er sú skoðun að brottfall nemenda á fyrsta ári sé til marks um að eitthvað sé í ólagi hjá háskólanum. Svo þarf þó alls ekki að vera að mati Wolffs: nemendurnir séu að prófa hitt og þetta og læra margt á því; þetta sé hins vegar vissulega óhagkvæmt rekstrarlega séð, t.d. þegar háskóli fær fjármagn eftir því hve margir ljúka prófi.

[9]Dæmi um slíkar mælistikur eru bókfræðilegir mælikvarða (fjöldi birtinga í ritrýndum tímaritum og fjöldi tilvitnana í þessar birtingar) og röðun háskóla samkvæmt tilteknum árangursmælikvörðum.

[10]„It was always a bit of a lie that universities were self-governing institutions. Nevertheless, what universities suffered during the 80s and 1990s was pretty shameful, as under threat of having their funding cut they allowed themselves to be turned into business enterprises, in which professors who had previously carried on their enquiries in sovereign freedom were transformed into harried employees required to fulfil quotas under he scrutiny of professional managers. Whether the old powers of the professoriat will ever be restored is much to be doubted.“ J.M. Coetzee, in Diary of a Bad Year, p.35.

[11]Ég styðst hér við grein eftir Burton R. Clark, „University Transformation“, The Future of the City of Intellect: The Changing American University, ritstj. Steven Brint, Stanford, Stanford University Press, California 2002, bls. 323-324.

[12]Patricia J. Gumport, „Universities and Knowledge“, The Future of the City of Intellect, bls. 47-81.

[13]Sama rit bls. 53.

[14]Sama rit bls. 54.

[15]The University in Ruins, Harvard University Press, 1996.

[16]Hér vaknar sú spurning hvort beint samband sé á milli hnignunar þjóðríkisins á síðari tímum og aukinnar áherslu á ópersónulega, algilda og tölulega mælikvarða sem notaðir eru til að mæla „excellence“.

[17]Sjá kaflann „The Idea of excellence“ í The University in Ruins, bls. 21-43.

[18]Sjá sama rit, bls. 192.

[19]„Markets and American Higher Education: An Institutional Success Story“. Vice presidential address (Division F, History of Education) at annual meeting of the American Educational Research Association, San Francisco. Sjá einnig á netinu:

http://www.stanford.edu/~dlabaree/publications/Understanding_the_Rise_of_American_Higher_Education.pdf

 

[20]Spænski heimspekingurinn Ortega y Gasset færir sannfærandi rök fyrir því að meginköllun háskólans sé efling menningarinnar, sjá bók hans The Mission of the University, London 1944.

[21]Það má velta því fyrir sér hvort þessi ofuráhersla á árangursmat og gæðamælingar gefi ekki líka fræðimönnum ákveðið svigrúm eða „frelsi“ til að gera það sem þá langar til og það hvetji því óbeint til kraftmeiri þekkingarleitar (því í raun er lítið eða ekkert eftirlit með því hvað þeir eru að gera). En þá reynir á ábyrgð þeirra einstaklinga til að nýta „akademískt frelsi“ sitt til góðra verka því þeir fá yfirleitt enga aðstoð við það frá skólanum eða eftirlitsaðilum.

[22]  Það er margt fleira en þekkingin, fræðileg, tæknileg og siðferðileg, sem er sameiginlegt hugsandi verum, t.d. er skopskyn barna hvarvetna af sama toga.

[23]Christopher Norris, „‘The Idea of the University’: Some interdisciplary soundings“, Deconstruction and the ‘Unfinished Project of Modernity’, Routledge, New York, 2000, bls. 104.

[24]Ég minni aftur á Magna Charta yfirlýsingu háskólarektora á 900 ára afmæli Bologna háskóla 1988 sem er einföld og skýr framsetning á þeim ramma sem háskólamenn um heim allan viðurkenna að eigi að gilda fyrir háskólastarf.


Back to top