Til hvers höfum við heimspeki?

Ávarp í Hannesarholti 16. september 2014 í tilefni af útgáfu tveggja bóka: Ríkið og rökvísi stjórnmála og Hugsunin stjórnar heiminum.

Ofurlítil hugvekja um skynsemishyggju og merkingarhyggju

Upptaka af erindinu var flutt í Víðsjá 17. sept. 2014: Til hvers höfum við heimspeki?

Hér er lengri upptaka frá þessum viðburð í Hannesarholti

Ég vil byrja á að þakka Hannesarholti, Ragnheiði og Arnóri, fyrir þessa kynningu á bókum mínum tveimur sem er u nýkomnar út og Henry Alexander Henrysson fyrir að skipuleggja hana. Henry hefur á síðustu árum unnið með mér að eflingu kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði og við höfum notið rausnarlegs stuðnings Hannesarholts við þetta verkefni og skipulagt viðburði í þeim anda eins og þeim sem hér fer fram. Einn afrakstur af samvinnu okkar Henrys er kver sem ber heitið Hugleiðingar um gagnrýna hugsun, en eintak af því er hér til sýnis.

Það er reyndar von á nokkrum fleiri bókum á næstunni – þeirra á meðal NáttúrupælingarHáskólapælingar og greinasafn á ensku sem ég kalla Critique of Universities, sem verða í þessari sömu seríu ásamt riti með ræðum sem ég fluttu við brautskráningar háskólans á árunum 1997 til 2005 og kalla Lifandi þekkingu. (Og kannski eru fleiri rit í farvatninu.)

Ég hef verið svo ljónheppinn að fá öndvegis fagfólk til að aðstoða við að ganga frá þessum bókum: Björn Þorsteinsson hefur haft vissa yfirumsjón með útgáfunni og veitt mér ómetanleg aðstoð af ýmsu tagi og meðal annars séð um umbrot bókanna. Björn og Steinar Örn Atlason sáu um Ríkið og rökvísi stjórnmálanna, en Marteinn Sindri Jónsson ritstýrði Hugsunin stjórnar heiminum. Marteinn Sindri gat ekki verið hér núna en faðir hans, Jón Karl Helgason, sem er ábyrgur fyrir titli bókarinnar, tekur sæti hans í kvöld. Ingrid Markan las prófarkir og gerði góðar athugasemdir við orðalag. Þá hannaði Ragnar Helgi Ólafsson myndlistamaður kápur fyrir bækurnar og valdi með okkur myndir eftir Paul Klee sem þær skreyta. Auður Birgisdóttir hefur lesið yfir alla textana og gert ótal  tillögur um efnisatriði.

Henry lagði til að ég flytti hér stutt ávarp um eðli og hlutverk heimspekinnar því hann veit að ég nota hvert tækifæri sem ég get til að hvetja fólk til að stunda heimspeki. Í mínum huga felur eiginleg heimspeki ævinlega í sér sannfæringu eða kenningu sem lýtur að heiminum, lífinu, samfélaginu eða tilverunni í heild. Þess vegna er til margskonar  heimspeki sem kann að vera misvel framsett eða rökstudd. Kannski ættum við öll að staldra við annað slagið og velta skipulega fyrir okkur okkar eigin heimspeki og hverju við trúum, ef einhverju, um lífið og tilveruna.  Allavega hef ég verið að yfirvega að undanförnu hvað skipti mestu í þeirri heimspeki sem ég hef leitast við að móta og langar mig til að segja ykkur ofurlítið frá því.

Fyrst svolítil játning: Mig hefur alltaf dreymt um að móta heimspekikerfi. Ég sagði Brynjólfi Bjarnasyni frá þessu þegar við vorum að ljúka samræðum okkar um heimspeki ásamt vini okkar Halldóri Guðjónssyni. Brynjólfur þrýsti fast á mig að setja fram þó ekki væri nema frumdrög að slíku kerfi eins og ég sæi það fyrir mér. Ég gerði tilraun til þess árið 1989 en keyrði í strand og sló þessu frest. En nú er ég sem sagt að manna mig upp í að takast á við þetta að nýju.

Hér ætla ég að skýra ofurlítið meginhugmyndina því hún tengist beint bókunum tveimur sem hér verður fjallað um.

Meginhugmyndin er sú að leggja ákveðnar spurningar til grundvallar í kerfisdrögunum sem ég er að vinna að:

(1) Er unnt að hugsa skynsamlega um hvað sem vera skal og vega og meta réttilega hugsanir fólks og, eða er þetta vonlaus viðleitni?

(2) Er unnt að gera sér grein fyrir því hvernig fólk hugsar um allt sem á huga þess leitar, eða er hugsun fólks öll á iði og ókleift að að lýsa því hvernig hún vinnur?

(3) Er unnt að gera sér grein fyrir því í heild sinni sem leitar á hugi fólks, eða eru umhugsunarefnin algerlega sundurleit?

Ég ætla að segja örfá orð um hverja þessara spurningu. Svar mitt við fyrstu spurningunni er JÁ – við getum eða að minnsta kosti eigum að geta hugsað skynsamlega um hvað sem vera skal og vegið og metið réttilega hugsanir fólks. Ég er sem sagt óforbetranlegur skynsemishyggjumaður. Ég trúi því að í þessari veru sem við erum búi skynsemi sem eigi að gera okkur kleift að átta okkur á veruleikanum, skilja sjálf okkur og breyta heiminum til hins betra. Hæfnin, gáfan, getan til að hugsa og hegða sér skynsamlega býr sem sagt í manneðlinu, en það er ekki þar með sagt að þessi möguleiki nái alltaf að verða að veruleika. Hér er það menntunin, gæði hennar og fjölmörg félagsleg og náttúruleg skilyrði sem úrslitum ráða. Við þroskumst ekki sem skynsemisverur nema við ætlum okkur það. Og því miður hefur mannkynið sem heild ekki enn sett sér þetta markmið. Einn af mínum uppáhaldsheimspekingum, Eric Weil, orðar þetta á skarpan, mótsagnakenndan hátt: „Maðurinn er skynsemisvera, en mennirnir ekki.“ Skynsemin er sem sagt eða á að vera hugsjón okkar og markmið, hvernig svo sem okkur tekst til. Af þessu leiðir að sjálfsögðu viðleitni til að móta ákveðinn lífsmáta og hugsunarhátt sem okkur ber að rækta með okkur. – Þessi skynsemishyggja liggur til grundvallar flestu því sem ég hef að segja um stjórnmálin og samfélagið í Ríkið og rökvísi stjórnmála, þar sem ég geri meðal annars tilraun til að skýra réttlætishugtakið með íslensku orðunum jafnrétti, jafnræði og jöfnuður.

Annarri spurningunni svara ég einnig hiklaust játandi: Það er unnt, að mínum dómi, að gera sér grein fyrir því hvernig fólk hugsar um allt sem á huga þess leitar. En hér hljótum við að viðurkenna með sjálfum okkur að það eru iðulega aðrir þættir en skynsemin sem ráða því hvernig við hugsum. Frá dögum Sókratesar hafa heimspekingar bent á að okkur hættir til að gera sömu hugsunarvillur aftur og aftur og láta glepjast af hugmyndum sem leiða okkur af braut heimspekinnar. Kreddutrú, róttæk efahyggja, afstæðishyggja og ríkjandi sjálfdæmishyggja eru meðal þess sem hér þarf að takast á við eins og ég kem víða að í bókinni Hugsunin stjórnar heiminum. Heimspekingar hafa ávallt viljað hafa áhrif á fólk og fá það til að hugsa öðruvísi en það geri jafnan í daglegu lífi. Um leið og þetta er sagt vil ég minna á að heimspekileg og vísindaleg gagnrýni tekur á sig margar myndir og við þurfum sífellt að sýna aðgát gagnvart eigin hugsunum og annarra. Hér er ein túlkunarfræðileg regla sem ég tel sérstaklega mikilvægt að temja sér en hún er sú að setja sig í spor annarra og leitast við að skilja hvað fyrir þeim vakir.

Þriðja spurningin hljóðaði svo: Er unnt að gera sér grein fyrir því í heild sinni sem leitar á hugi fólks, eða eru umhugsunarefnin algerlega sundurleit? Tilgáta mín er sú að við getum réttilega flokkað allt sem á hugann leitar í þrennt: náttúruna, samfélagið og alheiminn eða hugsanlegan handanveruleika (handan skynreynslunnar). Svo tvinnast þetta þrennt að sjálfsögðu saman á ótal vegu samkvæmt ólíkum viðhorfum fólks. 

Frumspekilega séð er áhugaverða spurningin sú hver sé staða þessara sviða – náttúrunnar, samfélagsins og hugsanlegs handanveruleika – í veruleikanum sjálfum. Liggur t.d. hin efnislega náttúra til grundvallar samfélagi okkar og hugmyndum um alheim eða handanveruleika? Eða eigum við að gera ráð fyrir sjálfstæðum handanheimi sem sé aðgreindur frá náttúrunni og liggi henni og lífinu til grundvallar? Þessir tveir kostir – efnishyggja og handanhyggja – virðast nú á dögum ríkjandi í hugmyndaheimi okkar, og þar virðist efnishyggjan hafa verulega styrkt stöðu sína á síðustu öld, þótt hugmyndin um annan heim og trúin á framhaldslíf lifi líka góðu lífi. En það eru fleiri kostir í stöðunni og og ég ætla að ljúka máli mínu með því að reifa þann kost sem mér finnst sjálfum skynsamlegastur.

Ég kalla þennan kost merkingarhyggju – og set hann upp á móti bæði efnishyggju og handanhyggju. Hugmyndin er sú að veruleikinn sé hlaðinn merkingu sem við getum skilið að vissu marki – rétt eins og við getum skilið frummyndir Platons en aðeins að vissu marki. Til að útlista hugmyndina er nærtækt að horfa til samfélagsins og sjá að það er óendanlega flókið en skiljanlegt merkingarkerfi. Ég er sannfærður um að í veruleikanum sjálfum óháð tungumáli okkar og táknmálum búi merkingarkerfi sem öll önnur merkingarkerfi hvíli á – og sem geri þekkingu og skilning möguleg, líka hjá dýrum og ef til vill öllum lifandi verum.

Hver eru rök mín fyrir þessari kenningu? Þau eru af tvennu tagi. Fyrri rökin eru þau að það sé óhugsandi að efnið geti af sér andann, en hið gagnstæða er skiljanlegt: Andinn þarf á efninu að halda til að verða sýnilegur og hann nýtir sér það til að birtast og breiða úr sér. Seinni rök mín beinast gegn handanhyggju sem gerir ráð fyrir sjálfstæðum öðrum heimi sem hafi skapað náttúruna og sjái til þess að hún virki. En ég sé ekki að slíkur annar heimur skýri nokkurn skapaðan hlut því hann kallar líka á skýringu. Mér finnst miklu sennilegra að hugmyndir okkar um annan og sjálfstæðan heim spretti af óskhyggju sem er fullkomlega skiljanleg: Við viljum vera eilíf eða getum jafnvel ekki hugsað okkur dauða okkar sjálfra sem einstakrar vitandi veru.

Um leið og ég hafna þar með bæði efnishyggju og handanhyggju, þá tel ég báðar þessar frumspekikenningar eiga sér ýmis rök sem þurfi að rökræða eftir leiðum skynseminnar. Sjálfur tel ég skynsamlegast að gera ráð fyrir því að heimurinn sé okkur skiljanlegur vegna þess að honum er haldið saman sem einni heild af andlegum krafti sem við getum hugsað og skilið – þótt við höfum eðli málsins samkvæmt engar leiðir til að höndla hann með einhverjum mælitækjum. Ekki fremur en ástina sem er vafalaust voldugasta aflið í veruleikanum.

Verkefni mitt á næstunni er því að útfæra nánar þær þrjár spurningar sem liggja kerfisdrögunum til grundvallar og þá merkingarhyggju í platonskum anda sem á að vera burðarásinn í þessu kerfi.

16. september 2014

Páll Skúlason


Back to top