Í minningu Páls
Ávarp Vilhjálms Árnasonar við útför Páls frá Hallgrímskirkju 4. maí 2015
„[Ég] bið ykkur að hugleiða … hvar við erum stödd, hvað það merkir að við erum hér saman komin og hvers vegna við erum hér?“ Þessum spurningum varpaði Páll Skúlason eitt sinn fram í hugvekju sem hann flutti fyrir mörgum árum í safnaðarheimili Akureyrarkirkju, fæðingarbæ sínum. En hvatningin sem felst í því að hugleiða hvers vegna við erum hér, hafði í huga hans og skrifum almennt mun víðari skírskotun. Í texta, sem hann var að vinna að á síðustu vikum lífs síns, lýsir Páll þrenns konar reynslu sem hafi orðið til þess að hann kaus að leggja stund á heimspeki.