í Dómkirkjunni 11. nóvember 2003
Við skulum hlýða á eftirfarandi orð Þorgeirs Þorgeirsonar sem við kveðjum hér í dag:
Hvað sem mælingameistarar segja kemst mannskepnan aldrei hjá þeirri staðreynd að heimurinn, sem svo er kallaður, er hvergi til nema í hugarmyndum okkar. Sannleikarnir eru jafnmargir íbúum heimsins. En sannleikurinn í eintölu með greini; þetta sem allir einstaklingssannleikarnir eiga sameiginlegt er dularfull stærð og óráðin. Sé það mál alveg þrautprófað má hæglega komast að svofeldri niðurstöðu: Vissan um dauðann er það eina sameiginlega með öllum þessum veröldum einstaklinganna. Og svomikið er þó víst að heimslitahugmyndir lúra einhversstaðar á bakvið alla mannlega hugsun, vísindi jafnt sem trúarbrögð og heimspeki.
En getur það verið að skáldskapurinn sé einmitt þrotlaus uppreisn gegn þessari dauðabundnu hugsun?