Háskólaumræðan

Brautskráningarræða 28. febrúar 2004

Forseti Íslands, kandídatar, deildarforsetar, aðrir góðir gestir.

Umræða um málefni háskóla hefur verið áberandi í íslenskum fjölmiðlum að undanförnu og er það vel. Umræðan sprettur af þeirri öru þróun og uppbyggingu sem orðið hefur í háskólastarfi í landinu á síðustu árum. Nýjar háskólastofnanir hafa litið dagsins ljós og Háskóli Íslands hefur á fáeinum árum byggt upp meistara- og doktorsnám í mörgum greinum og jafnframt stóraukið starfsemi sína í rannsóknum, fræðslu og margvíslegri þjónustu. Þróun þessi er mikilvægur þáttur í róttækum breytingum sem eru að verða á íslensku þjóðfélagi. Þessar breytingar verða vegna viðleitni okkar sjálfra til innleiða nýja tækni í framleiðslu og viðskiptum, móta nýja siði og lífshætti og umbylta skipulagi við stjórn og rekstur samfélagsins. Í sem fæstum orðum er orsök breytinganna sú að við erum sífellt að prófa nýjar hugmyndir og hikum ekki við að hafna þeim sem fyrir eru. Tíðarandinn virðist hafa óseðjandi þörf fyrir nýjungar sem geta verið bæði til góðs eða ills. Og engar stofnanir heimsins hafa átt eins mikinn þátt í því að takast á við tíðarandann og einmitt háskólarnir sem leitast í senn við að greina, gagnrýna og móta samtíma sinn.

Ef litið er yfir sögu heimsins tvær síðustu aldirnar blasir við að starfsemi háskólanna hefur skipt sköpum fyrir mótun og miðlun hugmynda sem fólk hefur nýtt sér til að umbreyta og bylta lífsaðstæðum sínum. Háskólar austan hafs og vestan og raunar um heim allan hafa keppt að því sleitulaust – oft í mikilli samkeppni – að afla nýrrar þekkingar á heiminum, uppgötva áður óþekkt sannindi um sjálf okkur, þjóðfélagið og náttúruna – og miðla niðurstöðum sínum til almennings og stjórnvalda. Og árangurinn er augljós: Heimurinn allur er að verða eins og vísindaleg tilraunastofa þar sem ekkert er gefið og allt þarf að skoða og rannsaka og sífellt þarf að leita nýrra leiða til að glíma við viðfangsefnin. Hið fræðilega, rannsakandi viðhorf til heimsins er orðið allsráðandi. Því er ekki að undra að háskólarnir sjálfir verði að umræðuefni og kallað sé eftir rannsóknum á þeim og þeim mikilvægu stofnunum sem þeir hafa alið af sér, svo sem nútímalegum hátæknispítölum þar sem mótaðar hafa verið öflugar aðferðir við að lækna hin erfiðustu sjúkdómsmein.

Ágætu kandídatar, um leið og ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar til hamingju með prófgráðuna vil ég biðja ykkur að leiða hugann að þessari staðreynd: Þið eruð þátttakendur í þjóðfélagsbyltingu þekkingarinnar sem felst í stöðugri endursköpun þjóðfélagsins fyrir tilstilli nýrra hugmynda. Allt sem þið segið og gerið er óhjákvæmilega liður í því að axla ábyrgð ykkar á þessari endursköpun. Þessi staðreynd kallar á að þið takist hiklaust á við eftirfarandi spurningu: Hvernig getum við, háskólafólk – kennarar, sérfræðingar og þið, kandídatar, sem kusuð að menntast í Háskóla Íslands og eruð nú fulltrúar hans hvert sem leiðir ykkar liggja – hvernig getum við sannarlega lagt okkur enn meira fram við að bæta heiminn og gera íslenskt þjóðfélag betra? Ég spyr vegna þess að háskólaumræðan á Íslandi í dag snýst um þetta. Hún snýst um það hvernig Háskóli Íslands hefur staðið sig síðustu hundrað árin og hvernig hann stendur sig nú, hvort hann hafi sinnt þeim verkefnum sem þurfti að sinna og hvort hann geri það sem þjóðin þarfnast hér og nú og í framtíðinni. Greinir hann, gagnrýnir hann og mótar samtíma okkar og tíðarandann á svo jákvæðan og skapandi hátt að á Íslandi muni á komandi árum og áratugum blómstra þjóðleg og alþjóðleg menning þar sem fólk leysir lífsvandamál sín til heilla fyrir samfélagið allt? Spurningin er þessi: Mun okkur Íslendingum takast að byggja upp Háskóla Íslands svo að hann verði sú miðstöð náttúruvísinda og félagsvísinda, verkvísinda og raunvísinda, heilbrigðisvísinda og hugvísinda sem íslenska þjóðin þarfnast til að lifa af, vaxa og dafna í holskeflu umbyltinga og erlendra áhrifa sem nú ganga yfir? Um þetta snýst háskólaumræðan í dag. Eða réttara sagt: Um þetta á hún að snúast. Því umræðan er rétt að hefjast. Og þið, ágætu kandídatar, verðið að axla ykkar ábyrgð á henni vegna þess að þið hafið lifandi reynslu af háskólastarfi og vitið hvaða hagsmunir eru í húfi.

Menntun skapar skyldur og ábyrgð. Meginmarkmið Háskólans hefur ávallt verið að veita nemendum sínum sem mesta og besta menntun í fjölmörgum greinum vísinda og fræða og til margvíslegra starfa í þjóðfélaginu. Þessi menntahugsjón miðar að því að nemendur verði ábyrgir og hugsandi þjóðfélagsþegnar sem láta sig varða heill og hagsmuni lands og þjóðar. Í þeim skilningi hefur Háskóli Íslands frá upphafi stefnt að því að vera sannkallaður þjóðskóli sem vinnur að því að efla efnahagslegt, stjórnmálalegt og menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar. Þess vegna hefur Háskólinn ávallt kynt undir öflugu menningar- og félagslífi stúdenta ásamt fjölbreyttu ráðstefnuhaldi fyrir fag- og áhugafólk um hin ýmsu fræði og hagnýtingu þeirra í samfélaginu. Þessi fjölþætta fræðilega og menningarlega starfsemi hefur aldrei staðið með öðrum eins blóma og einmitt um þessar mundir. Og hún stendur í nánum tengslum við helstu nýmælin í háskólastarfi á Íslandi á síðari árum, en það er uppbygging meistara- og doktorsnáms við Háskóla Íslands á grunni fjölmargra fræðigreina sem kenndar eru til fyrsta háskólaprófs. Hér hefur þróunin orðið örari og öflugri en nokkurn óraði fyrir þegar hafist var handa við mótun þessara nýju námsleiða fyrir nokkrum árum. Ég nefni fáeinar tölur og staðreyndir: Í þessum töluðum orðum leggja 1240 nemendur stund á meistara- og doktorsnám við Háskóla Íslands og fjöldi námsleiða sem þeim standa til boða nemur um 80. Af þessum 1240 framhaldsnemum eru um 1130 meistaranemar og hvorki meira né minna en 110 doktorsnemar. Á aðeins fimm árum eða frá 1999 hefur framhaldsnemum fjölgað um tæplega 150% [146%] og brautskráðum meistara- og doktorsnemum um tæplega 100% [96%]. Námsaðstaða þeirra er einnig að taka stakkaskiptum til hins betra. Tvennt skiptir þar mestu máli, annars vegar tilkoma hins nýja náttúrufræðahúss Háskólans í Vatnsmýrinni þar sem eru vinnustöðvar og skrifstofuaðstaða fyrir um 80 framhaldsnema, og hins vegar Háskólatorgið sem Háskólinn hyggst reisa á allranæstu árum, en þar er gert ráð fyrir fjölmörgum les- og vinnustofum fyrir háskólanema. Þótt tölur sem þessar beri gróskumiklu starfi glöggt vitni skiptir auðvitað mestu að tryggja og auka gæði alls náms í skólanum. Hér hefur Háskóli Íslands heldur ekki setið aðgerðalaus. Í öllu starfi skólans er lögð mikil og vaxandi áhersla á að setja skýr viðmið og kröfur um gæði kennslu og rannsókna sem byggjast á alþjóðlega viðurkenndum forsendum.

Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að vöxtur meistara- og doktorsnáms er meiri en flest okkar gera sér í hugarlund. Vöxturinn jafngildir því að innan vébanda Háskóla Íslands hafi orðið til nýr háskóli með yfir 1200 nemendur sem eru allir meira eða minna virkir í rannsóknastarfi. Að auki eru þeir iðulega í nánum tengslum við fyrirtæki og stofnanir í þjóðfélaginu sem oft taka beinan þátt í þessari uppbyggingu með styrkjum og fjárframlögum. Við gætum kallað þennan skóla „Rannsóknar-Háskóla Íslands“ og gefið honum formlega stöðu eins og víða er gert erlendis þar sem meistara- og doktorsnám fer fram í sérstakri stofnun sem kallast á ensku „graduate school“, það er skóli fyrir þá sem lokið hafa fyrstu háskólagráðu, BA- eða BS-prófi. Hvað sem slíkum nafngiftum eða skipulagsatriðum líður er ljóst að helsta tilefni háskólaumræðunnar um þessar mundir er einmitt þessi nýi „Rannsóknar-Háskóli Íslands“. Hann er ein meginskýringin á mikilli fjölgun háskólanema og á aukinni fjárþörf Háskólans til kennslu, rannsókna og margvíslegra þjónustuverkefna sem honum er lögum samkvæmt skylt að sinna.

Efling meistara- og doktorsnámsins hefur smitað út frá sér á ótal vegu og orðið mörgum fyrrverandi nemendum Háskólans hvatning til að setjast aftur á skólabekk. Um leið hefur hún opnað nýja möguleika fyrir nemendur í grunnnámi, aukið áhuga þeirra á náminu og orðið til að auka gæði alls náms í skólanum. Nám til BA- og BS-prófs hefur þannig einnig verið að styrkjast. Þessi þróun öll er vafalaust eitt mesta heillaspor í sögu Háskóla Íslands og æðri menntunar á Íslandi vegna þess að hún stuðlar markvisst að því að stórhækka menntunarstig þjóðarinnar og gera hana hæfari til að takast á við lífsvandamál sín. Hér skiptir höfuðmáli að allur almenningur og stjórnvöld geri sér grein fyrir einni mikilvægri staðreynd: „Rannsóknar-Háskóli Íslands“ er ekki að verða til vegna duttlunga eða löngunar Háskóla Íslands til að þenja sig út og gína yfir rannsóknum og háskólamenntun í landinu. Hann er að verða að veruleika vegna brennandi áhuga fjölda Íslendinga á eflingu vísinda og fræða og þar með á æðri menntun í þágu íslensks þjóðfélags – og vegna þess að allt starf Háskóla Íslands hefur frá öndverðu verið fólgið í því að svara af fullum krafti þörf þjóðfélagsins fyrir fræðilega menntun og rannsóknir. Allt skipulag Háskólans, kröfur hans um hæfni kennara sinna og sérfræðinga, þátttaka hans í alþjóðlegu samstarfi, náin tengsl hans við fjölda starfsgreina í þjóðfélaginu, stofnanir þess og fyrirtæki – allt hefur þetta stuðlað að því að gera hann að kraftmikilli og lifandi menntamiðstöð sem leikur lykilhlutverk í efnahags- og menningarlífi þjóðarinnar.

Mig langar, ágætu kandídatar, til að vekja athygli ykkar á einu atriði sem hugsanlega skýrir betur en flest annað árangurinn af starfi Háskólans og þann sess sem hann hefur í íslensku þjóðfélagi. Háskólinn hefur alla tíð búið við frjálslegt og sveigjanlegt stjórnskipulag sem byggist á þátttöku og frumkvæði allra starfsmanna og stúdenta skólans. Hver einasti starfsmaður og stúdent verður að skipuleggja störf sín í nánu samstarfi við aðra og vera fyllilega ábyrgur fyrir því sem hann gerir í samræmi við almennar reglur sem eru ræddar og samþykktar í grunneiningum skólans. Miðstýring er í reynd afar lítil á starfseminni sem fram fer í deildum, skorum, einstökum greinum og stofnunum þar sem árangurinn er allur kominn undir hugkvæmni, dugnaði, áhuga og ástundun kennara og nemenda. Um leið beitir Háskólinn alþjóðlega viðurkenndum viðmiðunum til að meta frammistöðu nemenda og kennara og umbuna þeim eftir því hvernig þeir standa sig í störfum sínum. Þetta stjórnskipulag Háskólans og það hvata- og gæðakerfi sem það felur í sér veldur eðli sínu samkvæmt nokkurri togstreitu, spennu og samkeppni sem stundum getur leitt til átaka og deilna. En mestu skiptir að það skapar hvetjandi andrúmsloft sem verður til þess að fólk leggur sig fram af alefli í námi, kennslu og rannsóknum.

Væntingarnar, þarfirnar, kröfurnar – sem aðrir beina til okkar og við beinum til okkar sjálfra – eru til þess að takast á við þær og bregðast við þeim af allri þeirri orku og dug sem okkur eru gefin. Lífið er áhætta og ævintýri og efling vísinda og fræða, efling þekkingar og skilnings, er meira virði en flest annað vegna þess að hún skerpir sjálfa tilfinningu okkar fyrir lífinu og tilverunni – auðgar andartakið hér og nú og opnar hug okkar fyrir hinu óvænta og óvissa, framtíðinni sjálfri. Því veruleikinn, kandídatar góðir, er fjarri því að vera fullskapaður. Hann bíður þess að við sköpum hann með hugsunum okkar, ákvörðunum og athöfnum. Og sköpun hans byggist á því að við fórnum honum lífsorku okkar og andagift og nýtum til fulls tækifærin og möguleikana sem við sjáum hér og nú, þar sem við erum stödd hverju sinni.

Möguleikarnir sem felast í þeirri staðreynd að við Íslendingar erum að eignast „Rannsóknar-Háskóla Íslands“ eru í einu orði sagt stórkostlegir. Háskóli Íslands hefur á að skipa framúrskarandi hæfum fræðimönnum í mörgum greinum sem hafa menntast í bestu háskólum austan hafs og vestan og hafa þau sambönd sem þarf við mikilvægustu fræðasetur heimsins. Styrkurinn felst ekki síst í því að við erum staðsett á milli Evrópu og Norður-Ameríku og að hér mætast menntastraumar þessara tveggja heimsálfa. Rúmur helmingur fræðimanna við Háskólans sem lokið hefur doktorsprófi hefur stundað nám í Evrópu, en tæpur helmingur þeirra í Norður-Ameríku. Enginn háskóli í heiminum getur mér vitanlega státað af slíkri háskólamenningu. Og til Háskóla Íslands sækja úrvalsnemendur sem kynnast því sem er efst á baugi í rannsóknarstarfi í heiminum og hafa alla burði til að ná góðum árangri í öllum helstu greinum vísinda og fræða. Okkur skortir satt að segja aðeins herslumun til að skapa hér ákjósanlegustu skilyrði í húsakosti, tækjabúnaði og launum og tryggja þar með að „Rannsóknar-Háskóli Íslands“ verði sú gróskumikla uppspretta nýrra hugmynda í vísindum, fræðum og tækni sem Ísland þarf öllu öðru fremur á að halda til að efla sjálfstæði sitt í framtíðinni.

Við þurfum vissulega þjóðarátak. Við þurfum vakningu um valkostina sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir. Annaðhvort er að duga og takast á við þann alþjóðlega veruleika sem að okkur steðjar, menntast af alefli og stórauka rannsóknir – eða gefast upp fyrir ofurflæði alls kyns áreitis og tísku sem fer yfir heiminn um þessar mundir og gerir engar kröfur um þekkingu, sköpun og hugsun, heldur leggur alla hluti að jöfnu.

„Skammvinna ævi, þú verst í vök,
þitt verðmæti gegnum lífið er fórnin“,

kvað Einar Benediktsson.

Ágætu kandídatar, valið er ykkar og okkar allra. Veruleikinn er ekki óumflýjanleg örlög heldur frjálst val um það sem er fórnar virði. Háskóli Íslands heitir á ykkur að taka þátt í þeirri umræðu og baráttu sem framundan er um mótun háskólastarfs og framtíð íslenskrar menningar í vísindum og fræðum.

Megi gæfa fylgja ykkur.

 

 


Back to top