Réttlæti og rannsóknir

Brautskráningarræða 19. júní 2004

Ráðherrar, kandídatar, deildarforsetar, aðrir góðir gestir.

Í skapandi menntastarfi eru tvær meginhugsjónir ráðandi. Önnur er hugsjónin um sanna þekkingu á heiminum og sjálfum okkur, en hin er hugsjónin um að réttlæti ríki í veröldinni. Annars vegar er draumurinn um að vita hvernig og hvers vegna veruleikinn er eins og hann er, hins vegar draumurinn um að allir fái það sem þeim ber, gæðum lífsins sé skipt af sanngirni og ranglæti fái ekki þrifist. Hugsjónir þessar kynda sífellt undir umræðum um það hvernig við getum betur áttað okkur á veruleikanum og um það sem má betur fara í veröldinni, ekki síst í samskiptum manna. Önnur hugsjónin lýtur sem sagt að vísindum og fræðum, hin að siðferði og stjórnmálum. Báðar eiga sér ævafornar rætur í sögu mannkyns og báðar virðast órofa tengdar mannlegri skynsemi.

Ágætu kandídatar, um leið og ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar til hamingju með prófgráðuna, langar mig til að ræða við ykkur um þýðingu þessara tveggja hugsjóna fyrir líf okkar og starf. Hvernig yrði mannlífinu háttað, ef við hættum að leita þekkingar og skilnings og skeyttum ekki lengur um rétt og rangt í samskiptum okkar? Ég er hræddur um að það yrði á skammri stundu óbærilegt. Mannleg skynsemi yrði úr sögunni, því skynsemin er einmitt fólgin í viðleitni til að sjá hvað er satt og gera það sem er rétt. Og ef við hættum því, munu samskipti okkar einkennast af ofbeldi sem eyðileggur lífsskilyrði okkar og lífsmöguleika. Þess vegna hljótum við sífellt að reyna að hugsa og breyta af skynsemi þótt ekki takist það alltaf sem skyldi.

Hið sanna og hið rétta virðast iðulega hafa lag á að dyljast og stundum skjátlast okkur hrapallega, teljum hið ósanna satt og hið ranga rétt. Djúpstæðar efasemdir um að unnt sé að komast að hinu sanna eða vita hvað sé rétt að gera sækja því oft á okkur. En þrátt fyrir þetta fellum við sífellt dóma um allt milli himins og jarðar, náungann og sjálf okkur, náttúruna og mannfélagið – dóma sem miða að því að skera úr um satt og ósatt, rétt og rangt, fagurt og ljótt, gott og illt í veruleikanum.

Skynsemi, skap og tilfinningar
Nú spyr ég ykkur, kandídatar góðir, fellið þið dóma ykkar um menn og málefni heimsins yfirleitt af yfirveguðu ráði? Eða hendir það ykkur að hlaupa til og fella dóma sem ekki eru byggðir á áreiðanlegum rökum eða forsendum? Svarið liggur í augum uppi: Okkur verður öllum á að fella sleggjudóma. Skýringin á því er einföld: Dómgreindin verður sífellt fyrir áhrifum af innri og ytri öflum sem segja í sjálfu sér ekkert um sanngildi eða réttmæti dóma okkar. Í fyrsta lagi erum við mismunandi skapi farin og í öðru lagi bærast sífellt með okkur allskyns óræðar tilfinningar og hneigðir. Þess vegna er iðulega spenna og togstreita í hugum okkar á milli skynsemi annars vegar, skaps og tilfinninga hins vegar. Skapið getur hlaupið með okkur í gönur, tilfinningarnir geta hæglega leitt okkur í villu og svíma og skynsemin lendir þannig iðulega í mesta basli bæði með skap okkar og tilfinningar. Gömul og sígild kenning gríska heimspekingins Platons er sú að til þess að við séum réttlát í hugsun og hegðun þurfi þessir þrír þættir sálarinnar – skynsemi, skap og tilfinningar – að vinna saman og styrkja hver annan: tilfinningarnar upplýsa okkur þá um ástand okkar og líðan, vonir og þrár, skapið veitir okkur kraft og þor til að horfast í augu við heiminn, skynsemin segir okkur hvað sé satt og rétt. En það er ekki nóg að jafnvægi sé á milli þessara þriggja afla í sálarlífi okkar til þess að réttlæti ríki í heiminum. Það þarf líka að vera samræmi á milli þessara krafta eins og þeir endurspeglast í stofnunum og stéttum samfélagsins. Í efnahagslífinu endurspeglast ástand og líðan fólks eftir því hvernig lífsgæða er aflað og hvernig þeim er skipt meðal fólks, í stjórnmálalífinu endurspeglast skapferði og vilji fólks, í menningarlífinu endurspeglast hugmyndir og skoðanir fólks á öllu milli himins og jarðar.

Menning, stjórnmál og efnahagslíf órofa háð hvert öðru
Platon lét sig dreyma um samfélag þar sem fullkomið samræmi væri á milli þessara þriggja grundvallarþátta í sálarlífi okkar og mannfélagi. Kenning hans er sú að hið góða og fagra, sem við öll þráum, komi fram og eignist samastað í veröldinni þegar fullkominn samhljómur verði á milli hinna þriggja meginafla sem birtast jafnt í sálarlífi fólks sem þjóðlífi þess: Skynsemi, skaps og tilfinninga – eða menningar, stjórnmála og efnahagslífs. Kjarninn í þessari hugmynd er sá að hinir þrír þættir sálarinnar séu ekki óháðir hver öðrum, heldur byggist hver á öðrum – og sama gildi um þjóðlífið: menning, stjórnmál og efnahagsslíf séu órofa háð hvert öðru. Sjálfstæðishetja okkar Íslendinga, Jón Sigurðsson, gerði sér ljósa grein fyrir nauðsyn þess að stilla saman stjórnmálin, menninguna og efnahagslífið. Árið 1842 komst hann svo að orði í tímariti sínu Nýjum félagsritum:

“Það eru einkum þrjú efni, sem oss Íslendingum standa á mestu að útkljáð verði bæði fljótt og vel: það er alþingismálið, skólamálið og verzlunarmálið. ... Alþingi á að vekja og glæða þjóðlífið og þjóðarandann, skólinn á að tendra hin andlegu ljós og hið andlega afl og veita alla þá þekkingu, sem gjöra má menn hæfilega til framkvæmdar öllu góðu, sem auðið má verða, verzlunin á að styrkja þjóðaraflið líkamlega, færa velmegun í landið, auka og bæta atvinnuvegi og handiðnir og efla með því aftur hið andlega svo það verði á ný stofn annarra enn æðri og betri framfara og blómgunar eftir því, sem tímar líða fram.”

Barátta íslenskra kvenna fyrir stofnun Háskólans
Skólinn er hjarta menningarinnar rétt eins og Alþingi er miðja stjórnmálanna og verslunin driffjöður efnahagslífsins. Skólinn, sem Jón Sigurðsson sá fyrir sér, varð Háskóli Íslands sem frá stofnun sinni fyrir tæpum hundrað árum hefur sleitulaust unnið að því að “tendra hin andlegu ljós og hið andlega afl, sem gjöra menn hæfilega til framkvæmdar öllu góðu, sem auðið má verða” í menningu, stjórnmálum og efnahagslífi landsins.

Það er við hæfi á þessum degi, kvenréttindadeginum, að minnast þess að það voru íslenskar konur sem börðust hvað einarðlegast fyrir stofnun Háskólans. Ein þeirra var Ólafía Jóhannsdóttir sem starfaði ötullega með Hinu íslenska kvenfélagi, sem stofnað var árið 1894 í tengslum við fjáröflun til styrktar þess að stofnaður yrði íslenskur háskóli. Þótt konur hefðu takmarkaðan rétt til menntunar undir lok 19. aldar sáu þær hag í því að styðja við stofnun íslensks háskóla sonum, bræðrum og unnustum til hagsbóta. Ólafía Jóhannsdóttir var ein dyggasta talskona háskólamálsins og skrifaði árið 1895 að líklega væri ekkert mál „eins þýðingarmikið fyrir oss eins og háskólamálið. Það er grundvöllur andlegra og líkamlegra framfara hjer.“ Það voru ekki aðeins framfarir og heill karlmanna sem Ólafía og stallsystur hennar höfðu í huga því þær voru þess fullvissar að þess væri skammt að bíða að konur nytu í þessu efni sömu réttinda og karlar. Stuðningur kvenna við háskólamálið var þannig þeirra skerfur „til sjálfstæðis og menningar íslenskum konum.“ Féð sem safnaðist til styrktar háskóla var sett í sjóð, Háskólasjóð hins íslenska kvenfélags, sem fékk það hlutverk að styrkja konur til háskólanáms á Íslandi. Brjóstmynd Ólafíu stendur fyrir framan Hátíðasal Háskólans til minningar um baráttu hennar.

Um dygðir og lesti
Miklar sviptingar hafa orðið í efnahagslífi, stjórnmálum og menningu á Íslandi á síðustu árum. Og þeim fylgja átök og deilur sem snerta okkur öll og allir láta sig varða. Þessar aðstæður opinbera skýrar og betur en nokkru sinni fyrr í sögu okkar að við erum ein heild og myndum einstakt samfélag þar sem hver einstaklingur skiptir máli. Og þær sýna líka að við höfum, hvert fyrir sig og öll saman, djúpa vitund um sjálf okkur sem heild, sterkan vilja til að takast á um sameiginleg málefni okkar og ríkar tilfinningar fyrir gangi mála í þjóðfélaginu. Það reynir á okkur öll að vinna að því að jafnvægi náist á milli þeirra sundurleitu afla sem takast á í sálarlífi okkar og samfélagi.

Vandinn sem við er að etja er af siðferðilegum toga og snýst öðru fremur um dygðir og lesti. Dygð skynseminnar er viska, dygð skapferlisins er hugrekki, dygð tilfinninganna er hófsemi. Heilbrigt sálarlíf og heilsteypt samfélag verða ekki að veruleika nema þessar dygðir allar komi þar saman. Sannleikurinn er sá, kæru kandídatar, að það vantar oft mikið á þessar dygðir í hugsun okkar og hegðun. Því fer fjarri að við getum sagt um sjálf okkur að við séum vitur, hugrökk og hófsöm. Þvert á móti hljótum við iðulega að viðurkenna með sjálfum okkur að við höfum ekki hagað okkur skynsamlega, ekki sýnt nægilegt hugrekki né gætt hófs í orðum eða gerðum. Siðferðisbrestir eru hlutskipti okkar, en það sem skilgreinir okkur sem skynsemisverur er viðleitnin til að berja í þessa bresti og gera betur. Þess vegna felst höfuðverkefni okkar allra í því að reyna ávallt af fremsta megni að sjá það sem er satt og gera það sem er rétt.

Hér hefur Háskóli Íslands og allt háskólafólk sérstakt verk að vinna. Verkefnið er öflun, varðveisla og miðlun fræðilegrar þekkingar sem á að nýtast til að bæta samfélag okkar, stuðla að betri lausnum á lífsvandamálum sem upp kunna að koma bæði í einkalífi og þjóðlífi. Fræðileg þekking á að efla lífsvisku okkur, hún á að gera okkur réttsýnni á sjálf okkur og veröldina, fúsari til að leiðrétta mistök, fljótari til að skilja rök andstæðinga okkar og þar með hæfari til að leysa úr ágreiningi. Til að svo megi verða þarf fræðileg þekking að verða öllum aðgengileg og tengd réttlætinu órofa böndum.

Ein mikilvæg regla rökræðunnar
Þessu til skýringar nefni ég eina góða og gilda reglu í eiginlegum fræðilegum umræðum. Ég bið ykkur, ágætu kandídatar, að halda hana ávallt í heiðri, en hún er sú að ætla viðmælanda sínum ævinlega betri rök en hann hefur teflt fram og gera ráð fyrir að hann hafi betri málstað en honum hefur sjálfum tekist að skýra. Því miður hefur lítið farið fyrir þessari óskráðu reglu í opinberum umræðum á Íslandi til þessa. Þar ber miklu meira á tilraunum til að koma höggi á andstæðing en viðleitni til að skilja hvað fyrir honum vakir. Þetta verður að breytast, eigi að vera unnt að greiða úr ágreiningsefnum og deilum sem óhjákvæmilega rísa í samskiptum okkar. Gagnrýnin og málefnaleg, sanngjörn og heiðarleg umræða um það sem þjóðinni er fyrir bestu er það sem máli skiptir – opinber umræða þar sem þátttakendurnir leggja sig alla fram um að skilja málstað andstæðinga sinna og eru reiðubúnir að fallast á rök þeirra óháð því hverjir þeir eru og hvaða hagsmuni þeir eru hugsanlega að verja. Þetta er lögmál frjálsrar og skapandi vísindalegrar hugsunar: Að menn leiti hins sanna og rétta og virði það óháð öllum hagsmunum, löngunum eða ástríðum öðrum en þeim sem lúta valdi mannlegrar skynsemi.

Tengsl fræðilegrar þekkingar og réttlætis
Vilji íslensk þjóð vera frjáls og fullvalda í framtíðinni þá á hún núna að leggja allt í sölurnar fyrir hagsmuni, langanir og ástríður sem stefna að því marki einu að efla, auka og breiða út skilning og þekkingu á sjálfum okkur og heiminum, náttúrunni og samfélaginu. Hún á að kynda undir frjálsum, fræðilegum rannsóknum sem munu, eins og sagan sýnir, valda byltingu til batnaðar í menningu, stjórnmálum og efnahagslífi þegar fram líða stundir. Hún á að krefjast þess að allt mennta- og vísindastarf sem hún kostar sé í samræmi við það besta sem þekkist í heiminum. Hún á að gefa öllum, sem hafa undirbúið sig sem skyldi, tækifæri til að stunda háskólanám sem þeim hæfir og hentar. Hún á að skapa menntastofnunum sínum skilyrði til að veita nemendum sínum bestu aðstæður sem völ er á til að stunda nám sitt.

Ég veit að þetta vill íslensk þjóð gera. Ég veit að þetta vilja stjórnvöld gera. Ég veit að þetta viljum við öll að gerist. Við vitum þetta öll og viljum vegna þess að hér er um réttlætismál að ræða sem snýst um að bæta hag komandi kynslóða. Það þarf auknar rannsóknir á öllum sviðum og í öllum greinum eigi okkur að takast að skapa réttlátara samfélag. Það þarf ekki aðeins meira fé til rannsókna, heldur þarf andi frjálsrar og skapandi rannsóknarhugsunar að setja mark sitt á samfélag okkar og á allt okkar starf og viðleitni til að bæta heiminn.

Ágætu kandídatar! Aldrei fyrr hefur jafnfjölmennur og öflugur hópur skapandi og velmenntaðra nemenda verið brautskráður frá Háskóla Íslands og á þessum hátíðisdegi. Þið eruð stolt Háskólans, kyndilberar þeirrar þekkingar sem á að nýtast hvarvetna í þjóðlífinu svo að þar megi réttlæti ríkja, jafnvægi á milli allra þeirra afla sem saman skapa þá flóknu heild sem samfélag okkar er. Framundan eru mikilvæg og spennandi viðfangsefni sem gera miklar kröfur til ykkar og munu reyna á alla krafta ykkar. Og þið munuð þroskast og vaxa af því að takast á við þessi verkefni og virkja orkuna sem í ykkur býr til að leysa þau vel af hendi.

Þessi dagur, kandídatar góðir, er umfram allt hátíðisdagur ykkar, fjölskyldu ykkar og vina. Þið hafið gengið hér upp á sviðið til að taka við skjalfestum vitnisburði um árangurinn af námi ykkar og starfi í Háskóla Íslands á liðnum árum. Fyrir Háskólann er þetta stund réttlætingar á starfi hans: Þið eruð “hin andlegu ljós og hið andlega afl” sem á að skapa fegurri og réttlátari heim.

Háskóli Íslands þakkar ykkur samfylgdina og heitir ykkur liðsinnis í framtíðinni hvenær sem þið leitið eftir því.

Megi gæfa fylgja ykkur.


Back to top