Háskólaheimurinn

Brautskráningarræða 25. október 2003

Ég hef mál mitt á tilvitnun í ritgerð eftir Wilhelm von Humboldt sem var einn helsti frumkvöðull að uppbyggingu þýskra háskóla við upphaf nítjándu aldar og um skeið menntamálaráðherra þar í landi, hann segir:

"Það er höfuðeinkenni æðri menntastofnana að þær líta á viðfangsefni vísinda og fræða sem óþrjótandi verkefni. Í þessu felst að þær eru þátttakendur í óendanlegu rannsóknarferli. Lægri menntastig endurspegla lokað og takmarkað safn þekkingar. Sambandið milli kennara og nemanda á hinu æðra stigi menntunar er frábrugðið því sem gerist á lægri menntastigum. Á æðra stiginu starfar kennarinn ekki í þágu nemandans; tilvistarréttlæting kennara og nemanda er fólgin í sameiginlegri leit þeirra beggja að þekkingu. Frammistaða kennarans er háð ástundun og áhuga nemandans – án þessa fengju hvorki vísindi né fræðimennska þrifist. Ef nemendurnir, sem mynda áheyrendahóp kennarans, kæmu ekki til hans af fúsum og frjálsum vilja, myndi hann í þekkingarleit sinni þurfa að leita þá uppi."

Wilhelm von Humboldt fékk það hlutverk árið 1809 að leggja grundvöll að Háskólanum í Berlín, en sá háskóli varð fyrirmynd annarra þýskra háskóla, síðan háskóla á Norðurlöndum og jafnframt virtustu háskóla í Bandaríkjunum. Að margra dómi eru hugmyndir Humboldts um háskóla með því merkasta sem hugsað hefur verið um þessi mál. Meginhugmynd Humboldts er einföld og skýr: Þjóðfélagið þarfnast stofnana sem eru helgaðar því markmiði að leita sannleika og skilnings, fræðasetra þar sem hópur fólks vinnur saman við þekkingarleit svo ljós lærdómsins megi lýsa um veröldina alla. Þessi hópur samanstendur af fræðimönnum og nemendum þeirra. Eigi fræðimennirnir að ná árangri í störfum sínum þarfnast þeir nemenda sem kynda undir þeim með orku sinni og áhuga, kröfum sínum og spurningum.

Kæru kandídatar, um leið og ég óska ykkur og fjölskyldum ykkur til hamingju með prófgráðuna langar mig til að hugleiða með ykkur þrennt í boðskap Humboldts sem ég er sannfærður um að ráði úrslitum um uppbyggingu háskóla á 21. öldinni.

Akademískt frelsi
Hið fyrsta er hugmyndin um akademískt frelsi – frelsi kennara til að rannsaka og fræða og frelsi nemenda til að læra það sem hugur þeirra stendur til. Þetta frelsi þarf ekki aðeins að vera tryggt með lögum og reglum, heldur þarf að skapa aðstæður í þjóðfélaginu svo nemendur og kennarar nýti sér hið akademíska frelsi á skapandi og agaðan hátt. Hér hefur ríkisvaldið mikilvægu hlutverki að gegna, enda eru miklir hagsmunir í húfi fyrir ríkið að starf háskólanna beri ávöxt. Að dómi Humboldts falla æðstu markmið ríkisins og markmið háskólanna fullkomlega saman: Að vinna að velferð og þroska þjóðfélagsins og allra þegna þess. Í starfi háskólanna eru leyst úr læðingi öfl sem ríkið sjálft hefur engin tök á að stjórna en skipta öllu máli fyrir viðgang þess, öfl af andlegum toga sem einstaklingarnir verða sjálfir að virkja í viðleitni sinni til að fræðast og menntast. Viðleitninni til þekkingar og þroska verður ekki stýrt utanfrá, vegna þess að hún sprettur af innri þörf og hvöt einstaklinganna sjálfra til að leita hins sanna og rétta. 

Samneyti og samstarf
Annað atriðið kemur í beinu framhaldi af þessu. Samneyti og samstarf fólks á ólíkum fræðasviðum er forsenda fyrir skapandi fræðastarfi. Til að samfélag fræðimanna og nemenda megi dafna þurfa samskipti þeirra að byggjast á metnaði og áhuga á fræðastarfinu, námi og rannsóknum í mismunandi fræðigreinum. Heimur vísinda og fræða á sér sameiginleg markmið og þar skiptir mestu uppbyggilegt og hvetjandi andrúmsloft. Allar hugmyndir, kenningar, aðferðir og niðurstöður á hvaða fræðasviði sem er skulu rannsakaðar og ræddar, og öllum er velkomið til að taka þátt í rökræðum háskólamanna svo fremi þeir leggi sig eftir að skilja það sem um er rætt og færa rök fyrir máli sínu. Hér þurfa allir sem einn að leggja sitt af mörkum til að byggja upp háskólasamfélagið og leyfa ferskum vindum að leika um það. Í þessu efni á allt háskólafólk samleið.

Þroski
Þriðja atriðið sem einkennir hugmynd Humboldts um háskóla er áherslan á gildi fræðastarfsins fyrir þroska manneskjunnar. Fræðastarfið á að aga og móta huga okkar og skapgerð, það á að stuðla að því að við þekkjum betur sjálf okkur, lærum að takast á við brestina í fari okkar og reynum sífellt að bæta okkur. Í háskóla erum við sem sagt ekki komin til þess eins að afla okkur tiltekinnar kunnáttu eða þekkingar sem á að gera okkur hæfari til að leysa tiltekin vandamál eða vinna ákveðin störf í þjóðfélaginu. Háskólamenntuninni er einnig ætlað að gera okkur hæfari til að skynja og skilja lífið í heild sinni, hugsa skýrari og dýpri hugsanir, verða að þroskaðri manneskjum sem leggja hver á sinn hátt sitt af mörkum til að gera mannlífið fegurra og betra.

Háskóli Íslands
Spurningin sem mig langar nú til að varpa til ykkar, kandídatar góðir, er eftirfarandi: Er starf Háskóla Íslands í samræmi við þá hugsjón um háskóla sem ég hef eftir Humboldt um frjálst fræðasamfélag kennara og nemenda? Svör ykkar verða örugglega mismunandi því reynsla ykkar er ólík og deildir skólans eru fjarri því að vera allar eins. En ég hygg að ekkert ykkar myndi segja að Háskóli Íslands sé í fullu samræmi við þá hugsjón sem hér er lýst; sennilega nær enginn háskóli í víðri veröld því takmarki. En ég vona að þið hafið fundið að Háskóli Íslands reynir að vinna í anda þessarar hugsjónar og að ykkur finnist líka að þið hafið átt ykkar þátt í því að gera Háskóla Íslands að eiginlegum háskóla. Ég vona líka að þið deilið þeirri hugsun með mér að Háskóli Íslands þarf að vinna enn betur og markvissar að því að vera öflugt og blómlegt fræðasetur. Hvernig förum við að því? Hvað þarf að gera?

Fyrsta og mikilvægasta spurningin er sú hvort sú háskólahugsjónin sem hér hefur verið lýst sé sjálf nægilega inngreipt í huga okkar og hvort við leggjum okkur nægilega fram um að byggja Háskóla Íslands upp sem alhliða fræðasetur sem skapar kennurum, nemendum og öllu áhugafólki um vísindi og fræði skilyrði til að leita sannleikans, styðja hvert annað í daglegu starfi og vinna að persónulegum þroska sínum og annarra.
 
Fjárþörf
Ágætu kandídatar, okkur er öllum ljóst að framkvæmd hugsjóna kostar oft miklar fórnir. Háskóli Íslands á því láni að fagna að eiga og hafa átt fjölda starfsfólks, nemendur, kennara og embættismenn sem hafa lagt sig alla fram um að efla hag hans og getu til framfylgja hugsjón sinni. Sú fórnfýsi verður aldrei fullþökkuð. Hann hefur líka notið mikils skilnings og stuðnings hjá almenningi og ráðendum þjóðarinnar. Þakkarskuld sína við íslenska þjóð endurgeldur Háskólinn með síöflugra starfi í hennar þágu.

Það liggur í eðli kröftugrar háskólastarfsemi að hún þarf mikið fé til að kosta nýjar rannsóknir, kaupa fleiri bækur, bæta húsakost og vinnuaðstöðu nemenda og kennara, svo nokkuð sé nefnt. Starfið í Háskóla Íslands hefur aldrei verið eins og öflugt, fjölbreytt og skapandi og um þess mundir. Og það er einmitt af þeim ástæðum sem þörfin fyrir meira fé er svo raunveruleg og brýn. Tækifærin og möguleikarnir hrópa á aukinn fjárstuðning svo starfið megi skila enn meiri arði til þjóðfélagsins, auðga það og efla að öllu leyti.

Leið sem nefnd hefur verið til að afla Háskólanum aukinna tekna er að heimila honum að innheimta skólagjöld og hefur mikil umræða farið fram innan skólans um þetta mál. Bendi ég þeim sem vilja kynna sér þá umræðu á ítarlega fundargerð á heimasíðu Háskólans af háskólafundi 6. september sl. þar sem ólík sjónarmið og ýmis rök í þessu máli koma fram.

Ein spurning, kandídatar góðir, varðandi þetta mál er mér ofarlega í huga á þessari stund vegna þess að þið einir kunnið svarið við henni. Hefðuð þið verið Háskóla Íslands betri nemendur ef þið hefðuð greitt skólagjöld?

Frá mínum bæjardyrum séð er þetta mikilvæg spurning þegar skólagjöld ber á góma vegna þess að metnaður okkar allra er sá að gera Háskóla Íslands að enn betri mennta- og rannsóknarstofnun. Og ef skólagjöld eru ein leið til þess að bæta kennslu, nám og rannsóknir, þá hljótum við íhuga vandlega kosti hennar og galla.

Meginrökin sem oftast eru færð fyrir skólagjöldum eru af stjórnmálalegum og efnahagslegum toga og snerta í sjálfu sér ekki beint innra starf skólans. Þessi rök tengjast hugmyndum um jafnrétti til náms, hvað skuli greiða af almannafé og hverju einstaklingarnir skulu sjálfir kosta beint til menntunar sinnar. Rökin lúta að því hvernig við sem þjóðfélagsþegnar og Íslendingar metum ávinning menntunar fyrir einstaklingana og þjóðfélagið í heild. Um þessi rök fjalla stjórnmálamenn og Alþingi á hverjum tíma hlýtur að gera það upp við sig hver niðurstaðan á að vera.

Hin hliðin á málinu er sú hvaða áhrif skólagjöld kunna að hafa á innra starf Háskólans og á þá menningu sem þar ræður ríkjum. Það er spurningin sem ég varpaði hér fram því henni verðum við, sem störfum í Háskóla Íslands, að svara: Munu skólagjöld gera Háskólann að betri skóla eða ekki?

Ég veit, ágætu kandídatar, að það er ekki fyllilega sanngjarnt að ætlast til þess að þið fórnið löngum tíma á þessum hátíðisdegi til að glíma við þessa spurningu. Vegna nýrrar og ferskrar reynslu ykkar af háskólanámi eruð þið samt í betri stöðu en flestir aðrir til að takast á við hana. Um leið og þið hugleiðið hana bið ég ykkur að íhuga það sérstaka samband sem á að myndast í háskólum á milli kennara og nemenda og Humboldt lýsir svo vel í tilvitnuninni sem ég fór með í upphafi og hann gerir enn betur grein fyrir í framhaldinu; hann segir:

"Frammistaða kennarans er háð ástundun og áhuga nemandans – án þessa fengju hvorki vísindi né fræðimennska þrifist. Ef nemendurnir, sem mynda áheyrendahóp kennarans, kæmu ekki til hans af fúsum og frjálsum vilja, myndi hann í þekkingarleit sinni þurfa að leita þá uppi. Tilgangi vísinda og fræða er best þjónað þegar hæfileikar beggja renna saman. Hugur kennarans er mótaðri og yfirvegaðri, en hefur að sama skapi takmarkaðri þroskamöguleika; hugur nemandans hefur minni getu og er ekki eins bundinn viðfangsefninu, en hann er engu að síður opnari og móttækilegri fyrir hverju sem fyrir hann ber. Til samans mynda þeir frjóa einingu."

Þessi hugsun Humboldts sýnir okkur glöggt að tengsl kennara og nemenda eru í sjálfu sér ekki fjárhagslegs eðlis. Meðal annars af þessari ástæðu er umræðan um skólagjöld svo vandasöm, flókin og mikilvæg. Þess vegna skiptir líka svo miklu að allar hliðar málsins séu ræddar og skoðaðar vandlega áður en ákvarðanir eru teknar. Hver sem niðurstaðan verður hljóta líka allir að vera sammála um að mestu skiptir að tryggja að Háskóli Íslands haldi áfram að blómstra og veita kennurum sínum og nemendum æ betri aðstæður og skilyrði til að ná árangri í störfum sínum í þágu íslensks þjóðfélags.

Ágætu kandídatar! Um leið og ég endurtek hamingjuóskir mínar þakka ég ykkur framlag ykkar til Háskólans og vona að þið leggið ávallt rækt við þau gildi sem allt starf í háskólaheiminum á að snúast um – gildi frjálsrar hugsunar og þekkingarleitar, gildi rökræðu og félagslegrar samstöðu, og síðast en ekki síst, gildi fræðastarfs sem hvetur til frumkvæðis og þroska manneskjunnar.


Back to top