Allir þurfa að læra siðfræði

„Góðir háskólar eru gróðrarstöðvar mentalífs hjá hverri þjóð sem er, sannkallaðar uppeldisstofnanir þjóðarinnar í besta skilningi. Út frá góðum háskólum ganga hollir andlegir straumar til hinna ungu mentamanna og frá þeim út í allar æðar þjóðarlíkamans.“

Þannig mælti Björn M. Ólsen, fyrsti rektor Háskóla Íslands, í ræðu þegar skólinn var formlega settur á stofn 17. júní 1911. Rektorar Háskólans hafa allar götur síðan hamrað á þessu hlutverki skólans: Köllun hans sé að vinna í þágu þjóðarinnar og gera henni kleift að skapa samfélag sem sé að öllu leyti gott. Hér sé heilsteypt og réttlátt stjórnkerfi, hér dafni skapandi menningarlíf og hér sé búið í haginn fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi og blómleg viðskipti. Og þessari köllun hefur Háskóli Íslands lagt sig eftir að svara í hundrað ár: Hann hefur alið upp alla helstu embættis- og stjórnmálamenn landsins, hann hefur veitt erlendri tækni og þekkingu skipulega inn í landið og stuðlað markvisst að uppbyggingu íslensks þjóðfélags á nánast öllum sviðum. Þannig hefur hann umfram flestar stofnanir samfélagsins átt þátt í því að móta íslenskan veruleika og getu þjóðarinnar til að bregðast við nýjum aðstæðum og hafa tök á eigin málefnum.

Hrun bankanna fyrir ári síðan afhjúpaði djúpstæða veikleika í uppbyggingu þeirra tveggja kerfa sem mestu skipta fyrir búskap þjóðarinnar. Hagkerfið hrundi, stjórnkerfið brást. Og mennirnir sem mótuðu þessi kerfi og stýrðu þeim voru flestir aldir upp af Háskóla Íslands einmitt til þess að annast þessi kerfi. Hvað fór úrskeiðis í uppeldi Háskóla Íslands?

Nú kann einhverjum að þykja úrelt speki og íhaldsraus að tala um Háskólann sem uppeldisstofnun, nær væri að kalla hann hjartað í hagkerfi nútímans og tala um hann sem þekkingarfyrirtæki. Þá verður spurningin: Hvernig stendur á því að Háskólinn sá ekki til þess að nemendur hans öðluðust þá þekkingu sem hefði þurft til að byggja upp hagkerfið og stjórnkerfið með viðunandi hætti. Og næsta spurning blasir við: Ber ekki Háskólanum að kalla þessa nemendur aftur til sín rétt eins og fyrirtækjum er skylt að kalla inn gallaða vöru sem þau hafa sent á markaðinn?

Nú er auðvitað ekki við fyrrum nemendur Háskólans eina að sakast um ófarir íslensks samfélags. En ábyrgð þeirra og þar með Háskólans sjálfs er óneitanlega mikil. Ekki fyrst og fremst á hruni bankana, heldur á þeim stofnunum og fyrirtækjum sem hefðu átt að fyrirbyggja að svona lagað gæti gerst.

Tvær spurningar vakna: Hverju er ábótavant í menntastarfi Háskólans? Og hvernig hyggst Háskólinn bæta ráð sitt? Tilgáta mín er sú að Háskólinn hafi skilið uppeldishlutverk sitt alltof þröngum skilningi gegnum tíðina. Hann hafi litið svo á að hann ætti fyrst og fremst að útskrifa sérfræðinga sem kynnu til verka tæknilega og fræðilega. Hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því hvort þeir lærðu að nýta sér skynsamlega þá kunnáttu sem þeir öðluðust í námi sínu. Háskólinn hafi treyst því að fræðslan sem hann veitti tryggði að sérfræðingarnir yrðu af sjálfum sér sannir menntamenn sem þekkja takmarkanir fræða sinna og nýta fræðin til góðs fyrir þjóðfélagið að öllu leyti.

Þessu gat Háskólinn vafalaust treyst á meðan samfélagið var tiltölulega einfalt og auðskiljanlegt. Það er löngu liðin tíð. Háskólinn hefði fyrir löngu átt að leggja sérstaka rækt við að þjálfa nemendur sína í að rannsaka og rökræða hvernig fræðileg og tæknileg þekking nýtist samfélaginu best. Þetta verkefni hefur orðið æ mikilvægara eftir því sem sérfræðileg kunnátta hefur gegnt sífellt stærra hlutverki í samfélaginu. Um leið hefur sú hætta vaxið að þessi kunnátta sé misnotuð eða henni misbeitt til að efla tiltekna sérhagsmuni á kostnað almannaheillar. Þar með hafa líka sérfræðingar með háskólapróf fengið æ meiri völd og vægi í samfélaginu og prófgráðan verið talin staðfesting þess að þeim sé treystandi til verka. Þess vegna hefur líka ásóknin í háskólanám aukist og um leið álagið á háskólana. Hið aukna álag er, að mínum dómi, eina afsökunin sem Háskóli Íslands og aðrir háskólar kunna að hafa fyrir því að hafa vanrækt eiginlegt uppeldishlutverk sitt.

Hvernig á Háskólinn að bæta ráð sitt? Með því að tryggja að nemendur hans fái allir kennslu í siðfræði og þjálfun í að ræða á gagnrýninn hátt um málefni samfélagsins; og sú kennsla verði samtvinnuð hinum ýmsu og ólíku sérgreinum eftir því sem við á. Um leið á hann að hvetja kennara sína til að fylgist náið með því hvernig fræðin nýtast samfélaginu og taka virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni á grundvelli fræða sinna.

Hér má með réttu ræða um „siðfræði þekkingar“ sem snýst um að fólk tileinki sér þær dygðir sem þarf að rækta í allri umgengni við þekkinguna, öflun hennar, varðveislu og miðlun í mannlegu samfélagi. Þekkingin mótar þjóðfélagið og þess vegna er hér almannaheill í húfi.

Nám í siðfræði er ekki trygging fyrir því að fólk breyti siðferðilega rétt. En það skapar forsendur þess að fólk geti skilið og rætt réttlætismál sem brenna á samfélaginu. Lestir okkar og brenglað gildismat eiga oft þátt í að skapa ranglæti sem er óþolandi í mannlegu samfélagi. Samviska okkar og siðferðiskennd duga oft ekki til að greina kerfisbundna spillingu sem kann að leika samfélag okkar grátt án þess að við fáum rönd við reist. Gegn siðferðisböli af því tagi er ekkert ráð nema siðvit og gagnrýnin hugsun. Markmið siðfræðinnar er að efla dómgreind hvers og eins svo að við getum, hvert fyrir sig og öll saman, unnið að því að bæta samskipti okkar og samfélag.

Grein af Heimspekivefnum. Birtist upphaflega í Stúdentablaðinu, 3. tbl 2009.


Back to top