Hugsjón Háskólans - Stefnuræða

Stefnuræða Páls Skúlasonar rektors 5. september 1997

Forseti Íslands, forsetafrú, forsætisráðherra, forseti Hæstaréttar, biskup Íslands, fráfarandi rektor Sveinbjörn Björnsson, starfsfólk, stúdentar og hollvinir Háskóla Íslands, góðir gestir og vinir.

Um leið og ég tek við því embætti, sem mér hefur nú verið falið, vil ég þakka Sveinbirni Björnssyni fyrir störf hans sem rektor í þágu Háskóla Íslands. Sveinbjörn hefur veitt Háskóla Íslands trausta forystu og verið óþreytandi við að leysa úr hverjum vanda af einstakri þolinmæði og þrautseigju sem enginn leikur eftir honum. Ég þakka honum innilega fyrir hönd okkar allra.

Á þessari stundu er mér efst í huga leiðarljós allra háskóla og menntastofnana um víða veröld: Hugsjón vísinda og fræða, mennta og menningar. Háskóli Íslands var stofnaður til að gera þessa hugsjón að veruleika í lífi og starfi þjóðarinnar. Og hún hefur vissulega náð að festa rætur: Háskóli Íslands er virt vísinda- og menntasetur sem skiptir sköpum fyrir þróun íslenskrar menningar og uppbyggingu hins íslenska þjóðfélags. Þekking sú, sem hér er aflað og miðlað, kemur Íslendingum öllum til góða jafnt í andlegu sem veraldlegu tilliti. Þetta er óumdeilanleg staðreynd: Skipuleg og skapandi þekkingar- og skilningsleit er grundvöllur nútímaþjóðfélags. Hún mun ráða úrslitum um viðgang og þróun mannlífs á komandi tímum.

Ég vek athygli á þessum staðreyndum vegna þess að Háskóli Íslands er öflugasta tæki okkar til að tileinka okkur vísindi og fræði og verða fullgildir þátttakendur í samfélagi þjóðanna. Hann hefur gegnt þessu hlutverki sínu af fremsta megni í þágu þjóðarinnar, svo landsmenn mega vera stoltir af, því Háskóli Íslands er skóli landsmanna allra og landsmenn allir hafa hagsmuna að gæta um hvernig hann þróast og vinnur í þágu lands og þjóðar. Þess vegna er brýnt að við Íslendingar hugleiðum hvernig Háskólinn geti sem best gegnt hlutverki sínu á því mikla breytingaskeiði í menningu, efnahagslífi og stjórnmálum sem nú stendur yfir og mun enn færast í aukana.

Til að hugleiða þetta þurfum við að skerpa vitund okkar sjálfra um þá hugsjón sem háskóli verður að byggjast á. Við þurfum að jarðtengja hugsjónina, sjá hvar og hvernig hún getur orðið að veruleika og gera okkur grein fyrir skilyrðum þess að hún geti í reynd náð fram að ganga og breytt heiminum til hins betra.

Hugsjón Háskólans hefur tvær hliðar. Önnur hliðin snýr að skilningi á veruleikanum. Við viljum vita hvernig hann er og hvers vegna hann er eins og hann er. Þetta er markmið allra vísinda. Vísindi eru skipuleg viðleitni til að öðlast skilning á tilverunni, innsýn í lögmál heimsins, þekkingu á gerð allra skapaðra hluta. Vísindin gera okkur læs á rökvísi veruleikans eins og hann birtist í reynslu okkar. Þar með breyta þau okkur sjálfum, gera okkur að þekkingar- og skilningsverum sem uppgötva í sífellu ný sannindi um heiminn og sjálfar sig.

Hin hliðin á hugsjón vísindanna lýtur að sameiningu mannkyns í þekkingu og skilningi á heiminum og lífinu. Vísindaleg hugsun og rannsókn gefa mönnum sameiginlegar forsendur til að skoða veruleikann og ræða kenningar og niðurstöður. Þannig hefur orðið til alþjóðlegt samfélag vísinda- og fræðimanna sem sameinar mannkynið ofar öllu sem skilur að menn og þjóðir, samfélag sem er ein styrkasta stoðin undir alþjóðasamstarfi, viðskiptum og samskiptum af öllu tagi. Að þessu leyti hvílir framtíð mannkyns á framþróun vísindanna og beitingu þeirra. Hin vísindalega hugsun kennir okkur að horfa út fyrir þröngar skorður aðstæðna okkar í tíma og rúmi. Hún boðar okkur að líta til lengri tíma, skoða hvernig veruleikinn var og hvernig hann er og hvernig hann verður eða getur orðið. Hún kennir okkur að efast og spyrja, ræða saman með rökum og bera virðingu fyrir því sem sannara reynist.

Hefur þessi tvíhliða hugsjón náð að gagntaka okkur Íslendinga? Því er til að svara að enda þótt ávaxtanna af störfum háskólamanna - rannsóknum þeirra, kennslu og fræðastarfi - sjái hvarvetna stað í íslensku þjóðlífi, fer því fjarri að sjálf hugsjónin, hugsjón þekkingar og skilnings, hafi enn náð að blómstra í íslenskri menning. Við höfum verið svo upptekin við að hagnýta okkur nýja tækni og vísindi við uppbyggingu þjóðfélagsins að við höfum ekki haft tíma til að rækta sem skyldi undirstöðu þeirra, hina leitandi og skapandi hugsun vísinda og fræða.

Hvers vegna skyldi fólk þrá að öðlast þekkingu og skilning? Hvaða hagsmunir eru hér í húfi? Einfaldasta svarið við því er að þekkingar- og skilningsleit gerir mannfólkinu kleift að takast á við líf sitt. Án þekkingar erum við blind á staðreyndir og lögmál veruleikans og verðum líkt og leiksoppar óræðra örlaga. Þekkingarleitin er viðleitni til að verða æ betur sjáandi og heyrandi, hæfari til að nema mál náttúru og menningar, skynja og skilja það sem á sér stað í iðrum jarðar, í djúpum hafsins, í víddum himingeimsins, í fylgsnum sálarlífsins. Þekkingarleitin er þroskabraut mannshugans til móts við leyndardóma tilverunnar.

Hér ber að nefna annað einkenni þekkingar sem mörgum er hugstæðara en þroskinn. Þekkingin veitir vald. Sumir ganga raunar lengra og segja: Þekkingin er vald. Hvers eðlis eru völd þekkingar? Fornir spekingar töldu að þessi völd fælust í mætti mannshugans yfir sjálfum sér, hæfni hans til að ráða hugsunum sínum og taka á móti hverju sem að höndum bæri af yfirvegun og rósemi. Þessi skoðun er enn í fullu gildi. En á síðari tímum hafa menn orðið æ uppteknari af því valdi sem þekkingin veitir yfir hinum ytri veruleika, öflum náttúru og mannfélags. Þetta hefur jafnvel verið talin höfuðréttlæting þess að kosta miklu fé til rannsókna og fræðslu - til að afla þekkingar í því skyni að nýta hana í baráttu við náttúruöflin og ytri aðstæður. Hér hafa vísindin gengið til liðs við tækni og verklegar framkvæmdir og bókstaflega gjörbylt öllum ytri lífsskilyrðum mannfólksins.

Þetta tvennt - þekking sem veitir manneskjunni vald yfir sjálfri sér og þekking sem veitir mönnum vald yfir ytri aðstæðum - hefur því miður ekki alltaf átt samleið: Gildi vísinda til að ná valdi á ytri öflum og aðstæðum hefur verið hampað, en litið hefur verið á þroskagildi vísindanna sem aukaatriði, ef ekki úrelta speki. En gætum að því, að þekking, sem þroskar manneskjuna, eflir henni jafnframt vit til að nýta sér þekkingu á ytri aðstæðum svo til heilla megi horfa. Vald mannsins yfir sjálfum sér er forsenda þess að hann neyti máttar síns af skynsemi í heiminum. Eitt mikilvægasta atriðið í allri starfsemi Háskóla Íslands er að sjá til þess að þetta tvennt fari saman: Þekking sem þroskar og eflir mannshugann og þekking sem veitir vald yfir ytri aðstæðum.

Nú hef ég lýst þeirri hugsjón sem ég tel að Háskóli Íslands eigi að hafa að leiðarljósi. Áður en ég vík máli mínu að því sem ég tel brýnt að sinna í uppbyggingu og þróun skólans á næstunni, vil ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Háskóli Íslands er skóli landsmanna allra, hann er þjóðskóli. Þetta skapar honum sérstakar skyldur, skyldur gagnvart allri íslensku þjóðinni. En þetta hefur líka sérstaka þýðingu fyrir stöðu Háskólans og möguleika hans á að gegna hlutverki sínu: Háskóli Íslands á allt sitt undir stuðningi þjóðarinnar og hvatningu. Þjóðin þarf að koma til Háskólans ekki síður en hann til hennar. Hann er brot af hennar bergi, blik af hennar draumi - svo ég leyfi mér að nota orðfæri skáldsins - og trúnaðarband þeirra má aldrei bresta. Ég treysti því að Hollvinasamtök Háskólans, sem nú eru að stíga sín fyrstu skref, eigi eftir að vefa styrkan þráð í þetta trúnaðarband á milli skólans og landsmanna.

Verkefnin sem Háskóli Íslands stendur frammi fyrir eru fleiri og flóknari en svo að unnt sé að rekja þau í stuttu ávarpi. Mestu skiptir að hafa skýra heildarsýn yfir viðfangsefnin, vita að hverju skal stefna og hvaða mál skuli hafa forgang hverju sinni. Í stefnuræðum til rektorskjörs lýsti ég þremur meginviðfangsefnum sem nú blasa við rektor og stjórn Háskólans. Ég ætla að fara fáeinum orðum um þessi meginatriði og ræða síðan nokkur mál sem ég hyggst beita mér fyrir á næstunni. Á þessari stundu heiti ég því einu að vera trúr þeim vilja sem hefur kallað okkur saman til þessa fundar: að Háskóli Íslands fái að þroskast og dafna sem sjálfstætt vísinda- og fræðasetur óháð duttlungum og sérhagsmunum tíðarandans.

Meginviðfangsefnin eru þessi:

  • Í fyrsta lagi að gera íslensku þjóðinni ljóst að möguleikar hennar til að lifa áfram í þessu landi eru nátengdir þeirri rækt sem lögð er við agaða, fræðilega hugsun sem er fær um að skilja veruleikann og leysa lífsvandamál fólks í nútíð og framtíð.
  • Í öðru lagi að gera stjórnkerfi Háskólans skilvirkara og skjótara til viðbragða en verið hefur og um leið öflugra til að leysa úr þeim margvíslegu málum sem sinna verður í þróun og starfi skólans.
  • Í þriðja lagi að vinna skipulega að því að efla samvinnu og samneyti háskólaþegnanna og tryggja að hver háskólaþegn búi við þau skilyrði sem hann þarf til að sinna starfi sínu.

Þá er ónefnt eitt mikilvægt verkefni, en það er að vinna markvisst í samstarfi við aðra skóla og yfirstjórn menntamála í landinu að uppbyggingu háskólastigsins í heild.

Mörgum sérstökum verkefnum þarf að sinna hið bráðasta í Háskóla Íslands. Ég kýs að gera þrjú þeirra að umtalsefni: Framhaldsnámið, málefni starfsfólks og kynningu Háskólans.

Fyrst vil ég nefna framhaldsnámið, meistara- og doktorsnám. Þetta nám er einn dýrmætasti vaxtarbroddurinn í starfi Háskólans og þar eru feikilegir möguleikar á að efla þekkingarleitina og láta hana skila ávöxtum sínum út í þjóðlífið. Mörg sérstök rök hníga að því að styrkja framhaldsnámið, sem stundum er líka kallað "rannsóknartengt nám" eða einfaldlega "rannsóknarnám":

Nauðsynlegt er að gefa hæfu námsfólki kost á að stunda sjálfstæðar rannsóknir og verða fullveðja fræðimenn í hinum ýmsu greinum. Vinna með framhaldsnemum er kennurum mikil örvun í starfi. Þá gefur rannsóknarnámið iðulega góð tækifæri til að mynda tengsl við fyrirtæki og stofnanir í þjóðfélaginu. Og slíkt nám gefur líka tilefni til aukinna samskipti við erlenda háskóla sem eru afar þýðingarmikil og vaxandi í starfi Háskólans.

Þessum sérstöku rökum til viðbótar vil ég benda á að hér er í húfi sjálf uppbygging Háskólans sem rannsóknaseturs. Kennsla í háskóla á að hvíla á vísindastarfi kennara sem gera nemendur sína að virkum þátttakendum í fræðunum og miðar að því að þeir tileinki sér skapandi hugsunarhátt og vinnubrögð í anda vísindanna sjálfra, hvort sem ævistarf þeirra verður helgað þeim eða þeir starfa á öðrum sviðum þjóðlífsins. Gagnrýninnar, vísindalegrar hugsunar er ekki aðeins þörf við skipulega þekkingarleit í háskólum: Hennar er þörf í öllum greinum og á öllum sviðum þjóðfélagsins, jafnt í viðskiptum og stjórnmálum sem innan veggja heimilanna. Hvarvetna er kallað eftir vísindalegri þekkingu og hæfu starfsfólki sem kann að nýta sér hana í verki. Eitt helsta einkenni nútímans er einmitt hin rökvísa, fræðilega hugsun sem fólk þarf að tileinka sér og beita í öllu lífi sínu og starfi. Þess vegna slær hjarta nútímans í háskólum - í öflugu og lifandi samstarfi kennara og nemenda.

Það verður því forgangsverkefni á næstu misserum og árum að efla og bæta rannsóknarnámið. Háskólinn verður að hafa sérstaka sjóði til að styrkja nemendur og kennara í þessu skyni og hér þarfnast hann stuðnings sem allra flestra í þjóðfélaginu.

Næst vík ég að málefnum starfsfólks. Um víða veröld telja háskólamenn akademískt frelsi - það er frelsi til að rannsaka, kenna og ræða málefni fræðanna án afskipta nokkurs yfirvalds - vera forsendu fyrir árangursríku háskólastarfi. Ekkert utanaðkomandi vald getur sagt háskólamönnum fyrir verkum, hvað þeir eigi að rannsaka og hvernig; þeir einir bera ábyrgð á störfum sínum og verða sjálfir að ráða hver markmiðin eiga að vera og hvaða aðferðum er beitt til að ná þeim. Sannleikans verður ekki leitað nema í samfélagi þar sem frelsið ræður ríkjum.

En til þess að rannsóknar- og kennslufrelsi sé tryggt þarf Háskólinn að búa vel að starfsfólki sínu og gera því kleift að einbeita sér að störfum sínum. Um leið verður Háskólinn að hafa heilsteypta stefnu í málefnum alls starfsfólks þar sem skyldur þess og starfsskilyrði eru skýrt skilgreind og opinber hverjum starfsmanni. Deildir skólans hafa allar slíka stefnu gagnvart nemendum sínum eins og fram kemur í námsskrám og námsvísum, en deildir skólans og skólinn í heild hafa ekki með skipulegum hætti sett fram slíka stefnu gagnvart starfsfólki sínu.

Hér verður að gera bragarbót: Á næstunni skulum við móta heilsteypta stefnu í málefnum starfsfólks þar sem ljóst er annars vegar til hvers Háskólinn ætlast af starfsfólki sínu og hins vegar hvaða tilkall starfsfólk getur gert um starfsskilyrði og aðstöðu til starfa.

Þessa stefnumótun verður að vinna á tveimur vígstöðvum. Í fyrsta lagi á vegum háskólaráðs í tengslum við frágang og framkvæmd hins nýja kjarasamnings Félags háskólakennara og fjármálaráðuneytisins og væntanlegan úrskurð kjaranefndar um laun prófessora. Í öðru lagi í deildum og stofnunum þar sem störfin eru skipulögð og unnin og aðstæður eru breytilegar frá
einum stað til annars.

Mikilvægur þáttur þessarar stefnumótunar felst í því að endurskoða kerfið sem notað hefur verið til að skipuleggja verkaskiptingu og tilhögun við kennslu og stjórnun. Þetta kerfi, sem við höfum búið við síðustu tvo áratugi og felst í nákvæmri uppmælingu á öllum einstökum liðum í starfi háskólakennara, gefur ekki það svigrúm, sem nú er þörf, fyrir endurnýjun starfshátta. Við verðum að móta nýtt kerfi, miklu sveigjanlegra og opnara svo að deildir, námsbrautir og skorir geti virkjað betur starfskrafta kennara og stúdenta.

Sú stefnumótun, sem hér er boðuð, kallar á frumkvæði okkar og eindreginn ásetning að skapa betra og öflugra háskólasamfélag þar sem frelsi og jafnrétti eru höfð að leiðarljósi. Háskólinn á allt sitt undir því að við háskólafólk - kennarar, stúdentar og annað starfsfólk - stillum saman strengi okkar og krafta til að mæta kröfum þeirra tíma sem í vændum eru.

Loks vil ég fara nokkrum orðum um það sem framundan er í kynningarmálum Háskólans. Mikið og gott kynningarstarf hefur þegar verið unnið, en samt er enn mikið ógert til þess að Háskóli Íslands verði sýnilegri og nákomnari landsmönnum. Hér þarf Háskólinn að nýta sér nútímatækni og fjölmiðlun betur en gert hefur verið til þess að opna sem flestum innsýn í þá fjölbreyttu starfsemi og áhugaverðu rannsóknir sem unnar eru í Háskólanum. Ég mun á næstunni beita mér fyrir skipulegum áætlunum í þessa veru.

Enn er einn mikilvægur þáttur í starfi háskólafólks sem oft er ekki gefinn nægur gaumur, en það er framlag þess til málefnalegrar og faglegrar umræðu um ýmis þjóðþrifamál. Háskólar hafa frá fornu fari verið vettvangur frjálsrar, málefnalegrar umræðu um alla skapaða hluti sem kunna að skipta fólk máli. Þeir hafa verið vígi gagnrýninnar hugsunar sem gengur á hólm við hleypidóma og sleggjudóma og gerir kröfu til þess að allar skoðanir og öll rök fái að heyrast og vera brotin til mergjar. Skiptir þá engu hversu viðkvæmt málið kann að vera af trúarlegum eða stjórnmálalegum ástæðum. Í háskóla leyfist hverjum sem er að halda fram hvaða skoðun eða sannfæringu sem hann kýs - svo fremi að hann sé reiðubúinn að færa rök fyrir henni og hlýða á rök annarra með henni eða á móti.

Mörg mikilvæg mál, sem varða þjóðarhagsmuni Íslendinga, kalla á frjálsa, fræðilega rökræðu svo þau megi leiða til lykta eftir skynsamlegum leiðum. Ég nefni örfá mál sem eru ofarlega á baugi og sem enn hafa ekki hlotið þá málefnalegu umræðu sem nauðsynleg er: Skólagjöld, veiðigjald, aðild að Evrópusambandinu, veiðar Íslendinga á úthöfum, virkjanamál, uppblástur og landeyðing. Í öllum þessum málum skipta greiningar og kenningar fræðimanna miklu og þess vegna þarf að vera til óháður vettvangur til þess að ræða þau og kynna svo almenningur og stjórnvöld geti mótað afstöðu sína og tekið ákvarðanir á traustum forsendum og málefnalegum rökum. Slíka umræðu er Háskóli Íslands kjörinn til að leiða og kynna fyrir þjóðinni.

Ég vil brýna fyrir öllum háskólaþegnum, stúdentum jafnt sem kennurum og sérfræðingum í hinum ýmsu greinum vísinda, að þeir yfirvegi ábyrgð sína gagnvart íslenskum almenningi ekki síður en hver gagnvart öðrum. Skyldur okkar fræðimanna eru vissulega við fræðin sjálf öllu öðru fremur: Okkur ber að leita sannleika og skilnings á hverju sem dynur og megum aldrei láta annarleg sjónarmið, sérhagsmuni eða fordóma ráða gerðum okkar. En fræðin mega heldur ekki blinda okkur á þá staðreynd að rannsóknir okkar og kenningar eru í þágu lífsins, skapaðar til þess að gera mannfólkinu betur kleift að fóta sig í tilverunni.

Með þessum orðum er ég ekki að boða byltingu í starfi Háskólans, heldur vakningu Háskólans og allra háskólaþegna, stúdenta jafnt sem kennara og annars starfsfólks. Háskólinn og háskólafólk verður að gera sér fulla grein fyrir því að við stöndum andspænis breyttum aðstæðum, nýjum veruleika sem krefst endurskoðunar allra hefða og gilda og kallar á alla okkar krafta og einbeitingu. Tilgangur Háskólans, köllun og hlutverk allra, sem við hann starfa, er að láta vísindi og fræði, menntir og menningu, lýsa okkur Íslendingum fram á veginn og gera okkur hæfari til takast á við þau verkefni sem lífið leggur okkur á herðar.

Sjálf háskólahugsjónin, sem ég lýsti í upphafi máls míns, kallar á nýja túlkun og útfærslu svo að hún megi ná fram að ganga í lífi okkar og starfi í háskólasamfélaginu. Sú hugsjón á ekki aðeins að lýsa stúdentum og starfsfólki Háskólans, heldur á hún líka að bregða birtu þekkingar og skilnings á þjóðlífið allt og þá veröld sem bíður okkar í framtíðinni.

Ég þakka það traust sem mér hefur verið sýnt og heiti á stuðning ykkar allra í starfi mínu sem rektor Háskóla Íslands. Megi gæfan fylgja okkur.

Páll Skúlason


Back to top