Háskólinn er fjöregg þjóðarinnar

Ræða við brautskráningu 25. október 1997

Kandídatar, ráðuneytisstjóri, aðrir góðir gestir

Merkur lærifaðir, Þórarinn Björnsson, fyrrum skólameistari Menntaskólans á Akureyri, ávarpaði eitt sinn stúdenta með þessum orðum:

Það verður enginn mikill nema hann þjóni einhverju, sem er meira en hann sjálfur. Sú stofnun eða byggð, sem við þjónum, á að njóta góðs af getu okkar og kunnáttu. Ef stofnanir þjóðarinnar og byggðir blómgast, vex þjóðin. Og heimurinn vex, ef þjóðir heimsins vaxa, Þannig verðum við að byrja á því smærra til að ná til hins hærra. "Alþjóðrækni er hverjum manni of stór³, segir hinn vitri Stephan G., sem rækti hvort tveggja bóndastarfið og skáldskapinn. Við erum öll á leiðinni að verða alheimsborgarar. Við því verður ekki spornað. En til alþjóðrækninnar getum við aðeins vaxið gegnum auðmjúka þjónustu við það, sem við náum til og ráðum við, við það, sem er íslenskast og best í eðli okkar sjálfra. ( Rætur og vængir I, s. 245).

Þessi orð eiga erindi til okkar allra og ekki síst ykkar, góðir kandídatar, á þeim tímamótum sem nú eru í lífi ykkar. Námsárin hér í Háskólanum hafa vonandi verið ykkur heilladrjúg og ég fullvissa ykkur um að þau hafa verið Háskólanum til heilla. Þið hafið með námi ykkar gefið honum hluta af sjálfum ykkur og gert hann að auðugra lærdómssetri. Góðir nemendur er það besta sem Háskólanum er gefið og háskólakennarar eru í senn þakklátir og stoltir yfir lifandi áhuga, einbeitingu og krafti sem jafnan má finna í fari háskólanema. Með þessari hátíðarathöfn vill Háskóli Íslands votta ykkur, sem nú brautskráist frá skólanum, virðingu sína og þökk fyrir samfylgdina. Hann væntir þess jafnframt að þið hverfið aldrei alveg frá honum, heldur fylgist með starfi hans og haldið áfram að taka þátt í því eins og hugur ykkar stendur til. En umfram allt óskar Háskólinn ykkur þess að þið haldið áfram að vaxa að visku og krafti og starfa til góðs fyrir íslenska þjóð. Og hvert svo sem leiðir ykkar kunna að liggja væntum við þess að þið hugsið ætíð og starfið í anda þeirrar sannleiksleitar sem er kjarni háskólanáms og rannsókna.

Háskólahátíð hefur frá fyrstu tíð gefið rektorum skólans tækifæri til að ræða málefni hans og vekja eftirtekt þjóðarinnar á einstökum úrlausnarefnum.

Um þessar mundir eru nokkur sérstök tilefni til að huga að stöðu Háskólans og framtíðarhorfum. Á Alþingi var í þessari viku lagt fram frumvarp um háskóla sem miðar að því að samræma starfsemi ólíkra skóla sem veita menntun á háskólastigi. Háskóli Íslands hefur verið ósáttur við nokkur atriði frumvarpsins sem lúta að æðstu stjórn skólans. Á þessari stundu er ekki ástæða til að rekja þau ágreiningsefni frekar. Ég hef rætt við menntamálaráðherra um þessi mál og vænti þess að komist verði að niðurstöðu sem allir megi vel við una.

Launakjör kennara í landinu eru mjög til umræðu um þessar mundir. Félag háskólakennara hefur nýlega gert kjarasamning við fjármálaráðuneytið sem gefur Háskólanum visst svigrúm til að leiðrétta og bæta kjör starfsmanna sinna að nokkru leyti með hagræðingu og skipulagsbreytingum. Í fjárlagafrumvarpi því sem nú liggur fyrir Alþingi er á hinn bóginn ekki að finna nægilegt framlag til að mæta þeim kostnaði sem skapast hefur vegna aukins fjölda nemenda og Háskólanum verður ókleift að bæta kjör kennara nema með auknum fjárveitingum. Að undanförnu hefur verið unnið að gerð þjónustusamnings um kennslu og rannsóknir á milli Háskólans og ríkisvaldsins sem miðar að því að Háskólinn fái fjárveitingar í samræmi við þau verkefni sem honum eru falin lögum samkvæmt. Í fjárlagafrumvarpinu er þó ekki stigið nægilega stórt skref til að draga úr því ósamræmi sem hér hefur skapast milli lögbundinnar starfsemi og fjárveitinga til hennar. Þar er ekki heldur komið til móts við óumdeildar þarfir Háskólans fyrir meiri fjárveitingar vegna nýmæla, ekki síst í tengslum við framhaldsnámið sem er dýrmætasti vaxtarbroddur í starfsemi Háskólans um þessar mundir.

Allt þetta vekur spurningar um hvernig Alþingi Íslendinga sér fyrir sér framtíð Háskóla Íslands og hlutverk hans í íslensku þjóðlífi. Vera má að þingheimur hafi ekki skýra sýn til Háskólans eða til hvers þjóðin ætlast af honum. Það er líka hugsanlegt að okkur háskólamönnum hafi mistekist að gera alþingismönnum grein fyrir þörfum Háskólans og mikilvægi þeirra verkefna sem okkur hefur verið trúað fyrir. Einnig kann að vera að fulltrúar kjósenda telji að hlutverk Háskóla Íslands megi fela öðrum og íslenskir námsmenn eigi að sækja til erlendra háskóla fremur en til Háskóla Íslands. Það er líka hugsanlegt að stjórnvöld telji, þótt þau hafi ekki sagt það berum orðum, að Háskóla Íslands eigi að kosta í auknum mæli með skólagjöldum nemenda fremur en af almennu skattfé borgara. Svelti Háskólinn árum saman muni hann sjá sig knúinn til að óska eftir umtalsverðum gjöldum af þeim sem til hans sækja.

Ég nefni þetta svo öllum megi ljóst verða að ástandið í fjármálum Háskóla Íslands er orðið óviðunandi og ekki verður lengur undan því vikist að fá skýr svör við því hvernig þjóðin hyggst búa að Háskóla Íslands til framtíðar. Þótt undarlegt kunni að virðast snertir þetta ekki fyrst og fremst kjaramál háskólakennara, heldur djúpstæða hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Háskólakennarar geta í sjálfu sér haldið áfram að lifa af lágum launum, með því að sinna ýmsum óskyldum aukastörfum eða yfirvinnu og þeir geta látið sem ekkert sé, þótt þeir eigi þess engan kost að helga sig starfi sínu, kennslu og rannsóknum eins og þeir kysu að gera. En getur íslenska þjóðin þolað slíkt? Sættir hún sig við að Háskóli hennar fái ekki þann stuðning sem hann þarf frá kjörnum fulltrúum hennar til að vaxa og veita nemendum sínum trausta og góða menntun?

Hlutverk Alþingis er að standa vörð um grundvallarhagsmuni íslensku þjóðarinnar. Meðal slíkra hagsmuna er sú lífsnauðsyn Íslendinga að eiga öflugt fræðasetur sem aflar þekkingar, varðveitir hana og miðlar henni til þjóðarinnar. Háskóli Íslands er slíkt setur og hann hefur alla burði til þess að skila ríkulegum ávöxtum til íslensku þjóðarinnar, ávöxtum sem eru margfalt dýrmætari en nokkuð annað fyrir framtíðina. Meðal þessara ávaxta eruð þið, nemendur Háskólans, þekking ykkar og hæfileikar, þið sem munuð eftir andartak taka við skírteinum úr hendi deildarforseta til staðfestingar frammistöðu ykkar og framlagi til þekkingarleitar Háskólans.

Með þessum orðum vil ég minna á þá staðreynd að það er fólkið í landinu, þroski þess og velferð, sem ræður úrslitum um framtíð íslensku þjóðarinnar. Peningar eru fyrst og fremst tæki, öflugt tæki, til að hrinda verkum í framkvæmd, til að gera góða hluti eða slæma. Öflun þeirra hefur hins vegar ekki sjálfstæðan tilgang. Það sem mestu máli skiptir er og verður mannlífið sjálft í landinu, að gera það þroskavænlegra og betra fyrir komandi kynslóðir. Hér veltur allt á þekkingu og skilningi okkar sjálfra á veruleikanun og því sem gefur lífinu gildi, og Háskóli Íslands er helgaður því markmiði að gera nemendur sína eins hæfa og unnt er til að takast á við þau verkefni sem lífið leggur þeim á herðar. Íslenskri þjóð er ekkert nauðsynlegra en að eignast æ fleiri einstaklinga sem hafa kunnáttu og þrek til að skapa betra mannlíf í landinu. Nú sækja fleiri Íslendingar til Háskólans en nokkru sinni fyrr í þekkingar- og þroskaleit. Hefur Ísland efni á því að sinna ekki óskum þeirra og þörfum?

Spurningin er þessi: Eru Íslendingar reiðubúnir að styðja og styrkja Háskólann svo hér fái dafnað öflugt samfélag kennara og stúdenta sem skilar ávöxtum þekkingar og skilnings út í þjóðlífið?

Sjálfur er ég ekki í minnsta vafa um svarið: Íslensk þjóð vill eiga sjálfstæðan og skapandi háskóla sem stendur sig í samkeppni og samanburði við erlend fræðasetur. Þetta er vilji hennar vegna þess að hún veit að án menntunar og þekkingar yrðu henni allar bjargar bannaðar og sjálfstæði hennar í menningu, stjórnmálum og efnahag stefnt í voða.

Störf okkar háskólamanna, stúdenta jafnt sem kennara og fræðimanna, byggjast á þessum vilja þjóðarinnar. Við erum kölluð til að leita þekkingar og skilnings, ekki aðeins fyrir sjálf okkur sem einstaklinga, heldur fyrir það sem er meira en við sjálf: Íslenskt þjóðfélag og framtíð þess í samfélagi þjóðanna. Sérhvert okkar bregst við þessari köllun og svarar henni með sínum hætti. Um leið er hún sameiginleg öllum háskólaþegnum: Hún hvatti til stofnunar Háskóla Íslands í upphafi og það er í krafti hennar sem við komum hér saman í dag til að kveðja nýja kandídata og árna þeim heilla með þennan mikilvæga áfanga í lífi þeirra.

Háskóli Íslands er fjöregg íslensku þjóðarinnar, en þið, kæru kandídatar, eruð fjöregg Háskólans. Framtíð hans og staða í íslensku þjóðfélagi er komin undir því hvernig ykkur farnast. Þið eruð ávextirnir sem þjóðin mun meta. Þess vegna mun framlag þjóðarinnar og stuðningur við Háskólann að endingu ráðast af viðhorfum ykkar og gjörðum. Þið hafið reynst Háskólanum góðir nemendur og nú treystir Háskólinn á vináttu ykkar og hvatningu um alla framtíð.

Megi gæfan fylgja ykkur.

Páll Skúlason


Back to top