Stjórnmál, viðskipti, menning

Ræða háskólarektors við brautskráningu í Laugardalshöll 23. júní 2001 

Menntamálaráðherra, kandídatar, deildarforsetar, aðrir góðir gestir

Nú er hátíð í hugum okkar. Tilefni hennar eruð þið, kandídatar góðir, sem í dag eruð að uppskera laun erfiðis ykkar við nám í Háskóla Íslands. Háskóli Íslands er stoltur af ykkur. Þið eruð ávöxturinn sem réttlætir tilvist hans. Hann er ykkur þakklátur fyrir elju ykkar og alúð við ástundun námsins. Hann er líka þakklátur fjölskyldum ykkar og aðstandendum fyrir þá hvatningu og þann stuðning sem þau hafa veitt ykkur á námstímanum. Ég óska ykkur til hamingju með prófgráðuna og ég óska einnig fjölskyldum ykkar, vinum og velunnurum til hamingju með ykkur.

Háskóli Íslands fagnar 90 ára afmæli sínu á þessu ári. Hann var stofnaður þann 17. júní 1911, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, sjálfstæðishetju okkar Íslendinga. Jón taldi þrjú efni vera mikilvægust fyrir eflingu íslensku þjóðarinnar. Hann nefndi þau alþingismálið, skólamálið og verslunarmálið. Alþingismálið snerist um endurreisn Alþingis og mótun skipulegra stjórnmála á Íslandi. Skólamálið snerist um nauðsyn þess að efla æðri menntun í landinu og talaði Jón um að stofna þjóðskóla sem ynni að menntun allra þjóðfélagshópa. Verslunarmálið snerist um að auka frelsi í viðskiptum og að byggja upp öflugt atvinnulíf í landinu.

Þessi þrjú úrlausnarefni sem Jón Sigurðsson taldi mestu skipta fyrir velferð okkar eru enn í fullu gildi. Ástæðan er sú að þau eru órofa tengd því hvernig við mannfólkið skipuleggjum í megindráttum samlíf okkar og samskipti. Samkvæmt hugmynd Jóns skipuleggjum við samfélag okkar eftir þremur ólíkum leiðum og setjum á fót þrjár gerðir stofnana sem allar skipta höfuðmáli fyrir samlíf okkar og þar með fyrir viðgang og uppbyggingu þjóðfélagsins. Stofnanir þessar eru í fyrsta lagi menningar- og menntastofnanir sem tengjast þroska okkar sem hugsandi vera, í öðru lagi stjórnarstofnanir eins og Alþingi, hæstiréttur og ríkisstjórn þar sem sameiginleg mál eru leidd til lykta, í þriðja lagi fyrirtæki í verslun, viðskiptum og framleiðslu sem sjá um að afla veraldarauðs og dreifa honum.

Þessar þrjár gerðir stofnana lúta ólíkri rökvísi: Þær hafa ólík markmið, starfsemi þeirra lýtur ólíkum reglum og þær gera ólíkar kröfur til hæfileika okkar og kunnáttu. Og þar af leiðandi ræðst hugsunarháttur okkar af því hver þeirra er ráðandi í lífi okkar hverju sinni. Eitt er að hugsa um heiminn undir sjónarhorni menningar, til dæmis vísinda, bókmennta eða listsköpunar, annað er að hugsa um veröldina frá sjónarhóli stjórnmála, og enn annað að nálgast heiminn undir sjónarhorni viðskipta og framleiðslu. Miklu skiptir að við getum hugsað um heiminn og fellt dóma um það sem þar á sér stað frá þessum þremur ólíku sjónarhólum. Að lifa mennsku lífi felur í sér að deila hugsunum sínum með öðrum, taka sameiginlegar ákvarðanir og eiga í alls kyns viðskiptum. Þess vegna tökum við öll – hvert með sínum hætti – þátt í menningu, stjórnmálum og efnahagslífi samfélagsins sem við tilheyrum, hvort sem okkur er það alltaf fyllilega ljóst eða ekki.

Á bak við þessa þrískiptingu helstu stofnana og sviða þjóðfélagsins býr ákveðin hugmynd um að samskipti okkar sem hugsandi vera séu einnig af þrennu tagi. Í fyrsta lagi felist þau í því að deila hugsunum okkar, ræða saman, læra hvert af öðru. Í öðru lagi felist samskipti okkar í því að taka ákvarðanir og leysa úr ágreiningi um sameiginleg hagsmunamál eftir opinberum leiðum. Í þriðja lagi felist samskipti okkar í alls kyns viðskiptum og framleiðslu þar sem hvert okkar leitast við að ná árangri og tryggja hagsmuni sína.

Samkvæmt þessari mynd af þremur gerðum samskipta okkar blasir við að það væri reginskissa að leggja aðeins eina þeirra til grundvallar afstöðu okkar til heimsins. Heimurinn er ekki bara heimur stjórnmála, heimur viðskipta eða heimur menningar og frjálsrar samræðu. Heimur mannlífsins spannar þessa þrjá heima og einkennist af því hvernig þeir tvinnast saman á ótal vegu í tilveru okkar. Þjóðlífið er í senn stjórnmálalíf, efnahagslíf og menningarlíf og það skiptir sköpum fyrir velferð fólks og einkalíf að samskipti þess á þessum sviðum lífsins gangi sem best fyrir sig bæði á hverju sviði fyrir sig og á milli þeirra.

Ég bendi ykkur á þetta, ágætu kandídatar, vegna þess að ég hef áhyggjur af vissri þróun sem á sér stað á okkar tímum og kann að ógna hamingju ykkar og einnig komandi kynslóða. Þróun þessi felst í því að gera sífellt meira og meira úr mikilvægi þeirra samskipta sem felast í viðskiptum á kostnað þeirra samskipta sem eru grunnur stjórnmála og menningar.

Á síðustu tíu árum hafa Íslendingar upplifað meira góðæri í efnahagsmálum en dæmi eru um í þjóðarsögunni, ef undan er skilið stutt skeið í síðari heimsstyrjöld þegar erlent fé flæddi skyndilega inn í landið. Hugsun okkar Íslendinga og gildismat hefur fyrst og fremst beinst að þeim lífsgæðum sem veraldarauðurinn færir. Þau gæði skyldi enginn vanmeta. Veraldarauður og öflugt viðskipta- og framleiðslulíf eru sannarlega forsenda velmegunar okkar sem einstaklinga og þjóðfélagsþegna. En þau eru ekki eina forsendan, því að fleira þarf til að tryggja hamingju okkar. Takist okkur ekki að skapa einnig uppbyggileg samskipti í stjórnmálum og menningu getur svo farið að hin efnahagslega velsæld leiði íslenskt þjóðlíf í ógöngur. Ógöngurnar yrðu fólgnar í því að líta svo á og starfa í þeim anda að öll okkar samskipti eigi að vera af viðskiptalegum toga og að stjórnmálalíf og menningarlíf lúti í reynd lögmálum viðskiptalífsins.

Sú kenning að efnahagsleg viðskipti liggi til grundvallar bæði stjórnmálalífi og menningarlífi þjóðfélagsins er fjarri því að vera ný af nálinni. Kenning þessi er sameiginleg forkólfum kommúnisma og kapítalisma á 19. öld og fyrrihluta 20. aldar og mér virðist hún enn hafa sterk ítök í hugsunarhætti bæði þeirra sem aðhyllast sem allra mest frelsi markaðsafla og hinna sem vilja tryggja sem mesta forsjá og umsvif ríkisvaldsins í þágu þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Þessi hugsunarháttur hefur líka náð að breiðast út meðal okkar allra, almennings í landinu, óháð því hvaða stjórnmálaskoðanir við höfum, vegna þess að við erum öll, hvert á sinn hátt, neytendur og framleiðendur þeirra gæða sem borin eru fram á markaðstorgi viðskiptanna. Og ef þetta torg þenur sig yfir þjóðlífið allt og kallar okkur til sín með endalausum auglýsingum og áróðri er hætt við því að við förum ósjálfrátt að líta á öll okkur samskipti sem viðskipti á markaði. Jafnvel samskipti við maka okkar, börn og foreldra. Hvað græði ég á því sem maki minn gerir, – sem börnin mín læra eða foreldrar mínir skilja eftir sig?

Hér blasir við meginmunur sem ég bið ykkur að íhuga, kandídatar góðir, á samskiptum fólks í menningu, stjórnmálum og viðskiptum.

Viðskiptasamskipti byggjast á því sem við þörfnumst hér og nú og getum öðlast með samningum þar sem við veitum hvert öðru aðgang að þeim gæðum sem við ráðum yfir á þessu hverfula andartaki sem eilífðin hefur úthlutað okkur. Hér gildir það að framkvæma umsvifalaust það sem viðskiptavit okkar býður okkur að gera til að fullnægja löngunum okkar og hagsmunum á þessari stundu.

Stjórnmálasamskipti byggjast á því að leggja á ráðin um það sem við viljum gera í okkar sameiginlegu málum, ná samstöðu um leiðir til að byggja upp þjóðfélagið, gera uppreisn gegn óréttlæti og berjast fyrir betri heimi. Hér skiptir mestu að taka sífellt mið af stjórnvisku sem mótast þegar fólk leggur sig eftir að skilja og ræða sameiginlega hagsmuni sína og komandi kynslóða.

Menningarsamskipti byggjast á því að við deilum tilverunni með þeim sem lifað hafa á undan okkur, með samtímafólki og líka komandi kynslóðum sem við getum látið okkur dreyma um. Við sem nú lifum vorum eitt sinn efniviður í draumum bráðlifandi forfeðra. Skyldur okkar við lífið eru líka skuld sem við eigum þeim að gjalda. Forfeður okkar og verk þeirra eru einnig efniviður í draumum okkar, áformum og kenningum sem kunna að skipta sköpum fyrir líf komandi kynslóða.

Stöldrum andartak við menninguna og þá kröfu sem hún gerir til okkar. Menningin er, eins og lífið sjálft, í endalausri sköpun. Að lifa er að skynja sig skapaðan og finna sjálfan sig skapandi. Þess vegna eru listir og vísindi oft talin kjarni hverrar menningar og það eru þau vissulega. En sköpunarkraftur eiginlegs menningarlífs getur birst og birtist í öllu sem fólk hugsar, ákveður og gerir. Mannsandinn þekkir engin mörk. Hann ræðir endalaust við sjálfan sig um veruleikann, talar við almættið í bænum sínum og leggur aftur og aftur til atlögu við hinstu rök tilverunnar. Þess vegna reynir stöðugt á mannvit okkar allra að meta raunsætt aðstæður okkar og möguleika – að leyfa andanum að fljúga um leið og við fótum okkur á jörðunni.

Lífsverkefni ykkar, ágætu kandítatar, felst í því að ákveða hvernig þið viljið skipuleggja líf ykkar við tilteknar aðstæður og í ljósi þeirra möguleika sem við ykkur blasa. Hamingja ykkar mun ráðast af því hvernig þið nýtið orku ykkar og sérhvert andartak til að vega og meta gildi hlutanna og taka afstöðu til heimsins í heild sinni. Þið getið valið að móta líf ykkar í ljósi viðskiptatækifæra sem veröldin býður uppá hér og nú. Þið getið valið að móta líf ykkar í ljósi þeirra stjórnmálamöguleika sem veröldin væntir að þið nýtið ykkur í framtíðinni. Og þið getið valið að móta tilveru ykkar í ljósi menningarlífsins sem sífellt verður að skapa og endurskapa eftir nýjum leiðum.

Ég tel að hamingja ykkar og velferð komandi kynslóða velti á því að þið veljið ekki á milli þessara þriggja kosta, heldur takið mið af þeim öllum í lífi ykkar og starfi og látið þá styðja og styrkja hvern annan eftir því sem við á.

Við mótum samskipti okkar eftir mismunandi leiðum í stjórnmálum, viðskiptum og menningarlífi og við þurfum því að geta beitt ólíkum aðferðum við leysa ágreining eða deilur sem kunna að verða á þessum þremur ólíku sviðum.

Í lýðræðisþjóðfélagi mótum við stjórnmálin með opinberum umræðum, kosningum, lagsetningu og dreifingu valds á milli ýmissa stofnana. Hér er leyst úr ágreiningi eftir opinberum leiðum þar sem niðurstaða er fengin í samræmi við gildandi lög og reglur.

Í þjóðfélagi þar sem frelsi ríkir til viðskipta og reksturs fyrirtækja í verslun og framleiðslu mótum við efnahagslífið með samningum. Hér er leyst úr ágreiningi eftir leikreglum sem gilda um frjálsa samninga.

Í mannfélagi þar sem fjölbreytt menning nær að blómstra í menntun, í iðkun vísinda og lista og í alls kyns félagslífi fólks um hin aðskiljanlegustu málefni, svo sem íþróttir og trúarbrögð, mótast mannlífið af því hvernig fólk finnur eða skapar nýjar og nýjar hugmyndir um þau efni sem áhuga þeirra vekja. Hér leysir fólk úr ágreiningi með rökræðum um tilefni deilunnar og um hvað hún snýst eða einfaldlega hættir að tala saman og fer hvert sína leið.

Til að útlista þetta getum við tekið dæmi af ungu pari sem er að stíga sín fyrstu skref í sambúð eða hjónabandi. Ungu hjónin lenda óvænt í alvarlegum samskiptavanda. Hvert sem tilefnið er þá eiga þau þriggja kosta völ til að glíma við vandann. Sá fyrsti er að fara leið stjórnmálanna og takast á um það hvort þeirra á að ráða. Þá geta þau hugsanlega sett sér reglur eða eins konar lög um það hvort þeirra skuli ráða þegar ágreiningur verður, til dæmis að hann ráði því hvað þau geri á laugardögum, en hún á sunnudögum, ef deilan snýst um helgarlíf þeirra. Annar kostur er sá að þau ákveði að semja hverju sinni um það hvað hvor aðili skuli gera eftir því sem þeim kemur best hvoru fyrir sig, til dæmis í ljósi þess hvert álagið er í vinnu þeirra. Þriðji kosturinn er sá að þau setjist niður, hugleiði tilgang tilveru sinnar og ræði til hlítar hvort þau eigi skap saman og vilji raunverulega deila lífinu – eða hvort það sé annað en þeirra eigið samband sem skipti meira máli í lífi þeirra.

Ég vona, ágætu kandídatar, að ég þurfi ekki að rökstyðja fyrir ykkur að þriðji kosturinn er sá eini sem vit er í, ef um djúpstæðan ágreining er að ræða. Hinir kostirnir, að semja og setja reglur, skipta samt svo sannarlega máli. En hjónaband er hvorki stjórnmálasamband né viðskiptasamningur. Ef til þess er stofnað með vænlegum hætti hvílir það á því undarlega og óræða fyrirbæri sem við köllum í daglegu tali "ást" og vitum öll hvað merkir og felur í sér, þótt það geti vafist fyrir okkur að útskýra það.

Vinur minn, sem hefur fengist við að rannsaka allt sem sagt hefur verið um ástina gegnum aldirnar og er ennþá að leita að sannindum um hana, taldi sig eitt sinn hafa komist að einni mikilvægri niðurstöðu sem hann setti fram í tveimur staðhæfingum: "Ástin er leyndardómur" og "Allir vita allt um ástina." Þetta er að sjálfsögðu þversögn: Ef allir vita allt um ástina er hún ekki leyndardómur. Og samt er hún leyndardómur.

Leyndardómur ástarinnar býr í hugum og hjörtum okkar allra. Og við skynjum hann, þótt við getum ekki skilgreint hann í fræðilegri orðræðu eða vísindalegum kenningum. Að minnsta kosti voga ég mér ekki að segja eitt orð um hann frekar. Ég gæti að sjálfsögðu, eins og við öll, gripið til ástarkvæða á borð við þau sem Jónas Hallgrímsson eða önnur stórskáld hafa ort. En veruleiki þeirrar ástar sem hvert okkar ber í brjósti verður eftir sem áður ósagður. Ástina verðum við að opinbera og tjá gagnvart þeim einum sem við elskum. Og hér verður hvert okkar að finna sína leið.

Háskóli Íslands óskar ykkur, kæru kandídatar, alls hins besta við að finna og skapa leið ykkar gegnum lífið.

Megi gæfan fylgja ykkur.


Back to top