Frelsi og fullveldi á 21. öldinni

Ávarp 1. desember 2002

Forseti Íslands, góðir hátíðargestir.

Stúdentar Háskóla Íslands hafa frá fyrstu tíð lagt mikla áherslu á umræðu um uppbyggingu og eflingu íslensks þjóðfélags. Hér hafa þeir fylgt þeirri hefð sem Hafnarstúdentar – íslenskir stúdentar við Kaupmannahafnarháskóla á 19. öld – lögðu grundvöll að með baráttu sinni fyrir endurreisn íslenskrar menningar og sjálfstæðis íslensku þjóðarinnar. Sá baráttuandi sem birtist í verkum og starfi Hafnarstúdentanna hefur hvað eftir annað verið endurvakinn í starfi stúdenta við Háskóla Íslands, enda hafa margir forystumanna í íslensku þjóðlífið numið við Háskóla Íslands og hlotið þar þjálfun ekki aðeins í fræðilegri iðkun heldur einnig í pólitískri umræðu um landsins gagn og nauðsynjar. Þannig hefur Háskóli Íslands ekki aðeins verið arftaki Kaupmannahafnarháskóla í því að gefa íslenskum námsfólki kost á góðri alhliða menntun á fjölmörgum fræðasviðum, heldur hefur hann einnig verið uppeldismiðstöð þeirrar sjálfstæðishugsunar sem hefur verið driffjöðurin í uppbyggingu íslensks þjóðfélags í stjórnmálum, atvinnulífi og menningarstarfi. Hvarvetna í rekstri fyrirtækja, í þjónustu opinberra stofnana og í skólum og menntastofnunum um land allt eru nemendur Háskóla Íslands ötulir að verki við að byggja upp íslenskt þjóðfélag og skapa komandi kynslóðum skilyrði til farsældar og framfara og tryggja þar með að hér á Íslandi búi um ókomna tíð frjáls og fullvalda þjóð, þjóð sem veit hver hún er og er reiðubúin að takast á hvern þann vanda sem veröldin kann að leggja á hana. Sjálft efni þessarar hátíðarsamkomu – frelsi og fullveldi á 21. öldinni – er talandi tákn um þann hug og sjálfstæðisvilja sem er og hefur ávallt verið aðalsmerki stúdenta við Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands er stoltur af stúdentum sínum. Þeir hafa margsannað tilverurétt hans, styrk hans og áhrifamátt. hafa borið hróður hans út í hið alþjóðlega samfélag vísinda og fræða. Þeir hafa komið aftur heim frá námi og starfi við heimsþekktar stofnanir austan hafs og vestan og byggt upp nýjar námsgreinar við skólann eða unnið að uppbyggingu annarra háskólastofnana á landinu auk fjölmargra rannsókna- og fræðasetra. Þeir hafa átt frumkvæði að stofnun ótal nýrra fyrirtækja í framleiðslu, verslun og iðnaði. Þeir hafa endurskipulagt stjórnkerfi ríkis og sveitarfélaga og unnið að því að gera Íslands að einu öflugasta velferðarríki veraldar. Í fæstum orðum sagt: Það eru þeir sem hafa lagt grundvöll að frelsi og fullveldi Íslands á 21. öldinni. Fyrir þetta vil ég, fyrir hönd Háskóla Íslands, færa nemendum hans fyrr og síðar dýpstu þakkir – um leið og ég þakka núverandi nemendum skólans fyrir frumkvæði þeirra og dugnað við að taka virkan þátt í þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað hvarvetna innan veggja Háskólans – í öllum deildum, stofnunum og félögum sem skólanum tengjast. Bæklingurinn sem hér liggur frammi – “Uppbygging Háskóla Íslands, markmið og aðgerðir 2002 – 2005” – er ekki nema örlítil vísbending um það mikla og skapandi starf sem starfsfólk Háskólans, kennnarar, sérfræðingar, nemendur, skrifstofufólk, iðnaðarmenn og margir hollvinir vinna á degi hverjum í Háskólanum. Þetta starf er svo mikið og margþætt og spannar svo mörg svið tilverunnar – frá heilsu ungbarna til stærstu orkuvera – að því verður ekki lýst með neinum einföldum hætti, um leið og það varðar augljóslega líf og hagsmuni landsmanna allra á ótal vegu. Þess vegna skiptir máli að öllum Íslendingum sé ljóst hversu gífurlegum árangri Háskóli Íslands hefur náð og er að ná á fjölmörgum sviðum fræða og vísinda og hvaða þýðingu það hefur fyrir þróun og mótun mannlífs á Íslandi, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu, heldur út um landið allt.

Leiðin til framtíðar – leiðin til frelsis og fullveldis á 21. öldinni – liggur í gegnum síaukna háskólamenntun, auknar alþjóðlegar rannsóknir, vísinda- og fræðastarf sem smitar út frá sér útí alla aðra starfsemi þjóðfélagsins og æðar íslenskrar menningar.

Megi íslensk þjóð bera gæfu til þess að standa saman um að byggja upp þá menntabraut sem börnin hennar þarfnast til að þroskast sem sjálfstæðar, hugsandi verur og mynda eina sterka, íslenska þjóðarheild í framtíðinni.

Gleðileg fullveldishátíð!


Back to top