Hnattvæðingin og Háskóli Íslands

Ræða rektors á Háskólahátíð 26. október 2002

Um síðustu helgi var haldin alþjóðleg ráðstefna í Háskóla Íslands um hnattvæðingu, þar sem fimmtíu fræðimenn frá sjö löndum fluttu erindi og rökræddu málefni heimsins. Hvers vegna stendur Háskóli Íslands fyrir ráðstefnu af þessu tagi? Svarið blasir við þegar þið lesið, góðir hátíðargestir, bæklinginn sem þið hafið í höndunum, "Uppbygging Háskóla Íslands – Markmið og aðgerðir 2002 til 2005". Þar er því lýst hvernig Háskóli Íslands vinnur markvisst að því að mæta þeim kröfum sem gerðar eru til hans og hann gerir sjálfur til sín. Meginkrafan er einföld og skýr: Íslensk þjóð ætlar sér að vera fullgildur og skapandi þátttakandi í þeirri hnattvæðingu þekkingar og tækni sem gengur yfir heiminn um þessar mundir. Háskóli Íslands er eitt öflugasta verkfæri þjóðarinnar til þess að svo megi verða. Þess vegna ber honum að gera sjálfum sér og öllum öðrum skýra grein fyrir því hvernig hann ætlar að standa að því verki. Í bæklingnum er lýst ákveðnum markmiðum í þessu skyni og nákvæmum aðgerðum til að ná þeim.

Hér er hvorki staður né stund til að ræða einstök atriði þessarar áætlunar. En eigi hún að verða að veruleika þarf Háskólinn á liðveislu margra að halda, og ekki síst ykkar, ágætu kandídatar. Um leið og ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar hjartanlega til hamingju með prófgráðuna vil ég biðja ykkur að leiða hugann að því hvernig þið getið lagt Háskólanum lið til að gegna hlutverki sínu í þágu íslensku þjóðarinnar. Í fyrstu ræðu sinni sem forseti Bandaríkjanna bað John F. Kennedy þegna bandarísku þjóðarinnar að spyrja ekki hvað bandarískt samfélag gæti gert fyrir þá heldur hvað þeir gætu gert fyrir bandarískt samfélag. Ég ber upp hliðstæða ósk við ykkur, kandídatar góðir. Háskóli Íslands hefur lagt ykkur til það sem hann getur og þið hafið nýtt ykkur eftir efnum og ástæðum. Nú leitar hann liðsinnis ykkar við að halda áfram því uppbyggingarstarfi sem hann stendur fyrir með síauknum rannsóknum, kennslu, þjónustu og fræðslu. Hann biður ykkur að hugsa um málefni Háskólans og leggja þeim lið. Og umfram allt biður hann ykkur að leggja rækt við þá fræðilegu hugsun sem þið hafið tamið ykkur í náminu og að beita henni af ábyrgð og festu við þau verkefni sem þið takist á hendur.

Að skilja hnattvæðinguna

Eitt sameiginlegt verkefni okkar allra er að takast á við þær margbrotnu breytingar og umbyltingar sem eru að verða í heiminum í dag í efnahagslífi, stjórnmálum og menningu undir merkjum hnattvæðingar. Þess vegna er einmitt svo nauðsynlegt fyrir okkur að leita skilnings á hnattvæðingunni sjálfri, eðli hennar og rótum, afli hennar og áhrifamætti. Einungis með þeim hætti getum við vænst þess að verða skapandi þátttakendur í að móta hana og laga að okkar eigin þörfum og óskum, en ekki vera aðeins þolendur hennar eða leiksoppar. Þess vegna efndi Háskólinn til ráðstefnunnar um síðustu helgi og hann mun fylgja þeirri umræðu eftir með margvíslegum hætti. Og þetta er líka ástæðan fyrir því, ágætu kandídatar, að ég vil ræða þetta efni við ykkur og tengja það Háskólanum og framtíðinni.

Fyrst vil ég benda á eitt mikilvægt atriði sem er svo augljóst að okkur hættir til að sjást yfir það. Allar þjóðir jarðar og við öll sem einstaklingar erum á vissan hátt þolendur hnattvæðingar, ekki gerendur. Hnattvæðingin á sér stað hvort sem okkur er það ljúft eða leitt og án þess að við eða forfeður okkar hafi beinlínis átt frumkvæði að því eða séð fyrir hvaða afleiðingar hún hefði fyrir mannkynið. Aðaleinkenni hennar er að hún flæðir yfir hnöttinn, brýtur niður gömul kerfi, byltir hefðbundnum stofnunum, rífur upp með rótum alls kyns hugmyndir og siði – og leysir þar með úr læðingi ný öfl sem þeysast fram á sviðið og vilja skapa ný kerfi, nýjar stofnanir, gróðursetja nýjar hugmyndir og siði í stað hinna fornu. Margir munu segja að þetta sé ekkert annað en nútíminn sjálfur sem kallar okkur til sín, krefst þess að við "nútímavæðumst", tileinkum okkur nýja sýn á sjálf okkur og veröldina, ný vinnubrögð, nýja siði og gildi til að lifa eftir. Nútíminn sjálfur verður nýr og framandi og ógnvekjandi fyrir okkur mannanna börn sem finnum að hann steðjar að okkur utanfrá, áreitir okkur stöðugt og gerir endalaust til okkar nýjar og nýjar kröfur.

Hnattvæðing öryggisleysis

Við þessar aðstæður skapast kjörin skilyrði fyrir hvers kyns boðbera nýrra sanninda og hálfsanninda um það hvernig við eigum að stjórna lífi okkar og reka stofnanir og fyrirtæki, prédikara sem vilja vísa okkur veginn og segja okkur hvað máli skipti í lífinu. Ástæðan er ofureinföld: Í veröld þar sem fólk þarf að þola sífelldar umbyltingar sem raska hefðbundinni menningu þess og tilveru fær ein tilfinning sterkari stöðu en allar aðrar, sú tilfinning að það sé ekkert öruggt í heiminum, að allt sé á hverfanda hveli. Á ráðstefnunni um helgina kynnti þýski prófessorinn Elmar Altvater viðamikla greiningu sína á því sem hann kallaði "hnattvæðingu öryggisleysis" og sprettur ekki síst af því að allar fastar viðmiðanir og reglur sem gilt hafa á sviðum atvinnulífs, fjármála og stjórnmála eru að glata gildi sínu um leið og opinberar stofnanir sem eiga að tryggja sameiginleg gæði eiga í vök að verjast eða eru beinlínis að leysast upp. Hér hefur Altvater einkum í huga þjóðríkið og mikilvægar stofnanir þess sem ætlað er að tryggja öryggi þegnanna á sviði heilsugæslu, menntunar og fjármála. Altvater viðurkennir fúslega að mannkynið hafi alltaf búið við margvíslegt öryggisleysi, en nú á dögum sé það að aukast vegna þess að hnattvæðingin ógni öllum lífsvenjum fólks og skapi ekki nein ný öryggisnet fyrir þau sem verða úr sögunni. Öryggisleysið sé að breiðast yfir hnöttinn, sums staðar mjög hratt eins og í mörgum löndum þriðja heimsins, annars staðar mun hægar líkt og á Vesturlöndum. En tilhneigingin, stefnan, sé skýr alls staðar.

Spurningin sem hér vaknar er að sjálfsögðu sú hvort öryggisleysið sem af hnattvæðingunni leiðir sé óhjákvæmilegt og muni smám saman skilja eftir sig menningarlegar auðnir eða eyðimerkur í mannlegu samfélagi, eða hvort mannfólkið muni finna leiðir til að skapa ný form menningar sem takist á við það ævintýralega verkefni að leggja grundvöll heimsmenningar sem tryggi mannkyni öllu frið og öryggi.

Altvater horfir á vandann sem hlutlægur fræðimaður sem vill greina ástandið eins og það er og kemur ekki með neinar einfaldar lausnir: Hann bendir á að öryggi einnar þjóðar eða eins hóps á ekki að tryggja á kostnað annarra hópa eða annarra þjóða, að það þurfi að tryggja öryggi í daglegu lífi og hugsa fyrst um þá sem verst eru settir, að það þurfi að stórefla viðurkenningu og skilning á gildi mannréttinda og að margfalda þurfi völd alþjóðasamtaka á borð við Sameinuðu þjóðirnar sem hafa að leiðarljósi hag alls mannkyns og alls lífs á jarðarkringlunni.

Nú kann að vera, ágætu kandídatar, að ykkur finnist greining þýska prófessorsins of svartsýn og þar að auki í órafjarlægð frá veruleika okkar Íslendinga. Vafalaust búum við Íslendingar við meira öryggi en flestar aðrar þjóðir heimsins, en andi hnattvæðingarinnar svífur sannarlega einnig yfir íslensku þjóðfélagi sem er að breytast örar og á fleiri sviðum en nokkru sinni fyrr.

Upplausn og einstaklingshyggja

Leiðum hugann nánar að því hvernig hnattvæðingin getur kynt undir öryggisleysi. Mér virðist tvennt skipta hér mestu. Hið fyrra er að hún leysir smám saman upp þær viðmiðanir, reglur og stofnanir sem fólk hefur reitt sig á og hafa verið því til halds og trausts. Sjálf grunneining mannfélagsins, fjölskyldan, hefur til dæmis breyst og smám saman hætt að vera öldruðum og börnum það skjól sem hún áður var. Forsvarsmenn heimilanna, sem eiga að halda fjölskyldunni saman, eru einfaldlega dregnir inn í önnur verkefni, til starfa í fyrirtækjum sem eru í óða önn að feta sig inn í heim alþjóðlegrar samkeppni og viðskipta. Hér eru það hinar nýju kröfur um kunnáttu, einbeitingu og árangur sem ógna hefðbundnum lífsmáta.

Síðara atriðið tengist hina fyrra: Hnattvæðingin höfðar til okkar og fangar okkur sem einstaklinga, ekki sem fjölskyldur, félagsverur eða þjóðir. Með öðrum orðum, hnattvæðingin virðist leiða til róttækrar einstaklingshyggju þar sem hver og einn hugsar öllu öðru fremur um sjálfan sig og sína eigin færni og kunnáttu. Þetta liggur í eðli hnattvæðingarinnar, ef ég má orða það svo, vegna þess að hún vill afmá allt sem aðgreinir fólk í þjóðir eða félagshópa sem sameinast á allt öðrum forsendum en þeim sem hnattvæðingin leggur til grundvallar. Þess vegna eiga þjóðríki og öll þjóðmenning í vök að verjast andspænis afli hennar og áhrifamætti. Um leið og hnattvæðingin gengur yfir öll landamæri og sópar burtu öllu sem hindrar framgang hennar þá leggur hún ofurkapp á færni og frammistöðu einstaklinganna og elur á samkeppni á milli þeirra til að tryggja sem mestan árangur og afköst.

Hvers vegna er þetta svona? Vegna þess að undirrót hnattvæðingarinnar og aflið sem knýr hana áfram er af meiði tækni og tæknilegra kerfa þar sem viðmiðanirnar eru áreiðanleiki, hagkvæmni og áhrifamáttur. Þess vegna er óseðjandi þörf í heiminum fyrir kunnáttufólk og sérfræðinga af öllu tagi sem eiga að sjá til þess að hin tæknilegu viðskipta- og samskiptakerfi, sem eru að breiðast yfir hnöttinn, virki á sem allra áhrifaríkastan hátt. Og þetta ýtir undir þá hugsun að við eigum sífellt að vera að læra eitthvað nýtt svo við getum staðið okkur betur og náð meiri árangri í störfum okkar. Svo dæmi sé tekið þá líður varla sá dagur að mér sé ekki boðið á námskeið eða fyrirlestur þar sem einhver kraftaverkakennari vill fá mér nýja lykla að leyndardómum stjórnlistarinnar. Tilboðunum er beint til mín persónulega og þau byrja yfirleitt á þessum orðum: "Kæri Páll, við viljum bjóða þér o.s.frv."!

Andsvar Háskóla Íslands

Hvert er svar Háskóli Íslands við öryggisleysinu sem hnattvæðingin virðist iðulega hafa í för með sér og þeirri miklu áherslu á einstaklinginn, færni hans og persónu sem henni virðist um leið samfara?

Lítum fyrst á það hvernig Háskóli Íslands gengur til móts við hnattvæðinguna með skipulegri áætlun um uppbyggingu sína næstu árin sem gerð er grein fyrir í fyrrnefndum bæklingi – "Markmið og aðgerðir 2002 til 2005". Með sívaxandi alþjóðlegum samskiptum er Háskóli Íslands að stórefla rannsóknir sínar, innleiða alþjóðlegt gæðamat á öllum sviðum, byggja upp meistara- og doktorsnám í samvinnu við virta erlenda háskóla, fjölga fræðasetrum bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti um land, auka samstarf við aðrar innlendar og erlendar rannsókna- og menntastofnanir, taka á móti miklu fleiri erlendum nemendum og gistikennurum og gera nemendum sínum kleift að sækja hluta af námi sínu til erlendra háskóla. Um leið undirbýr Háskólinn að reisa Vísindagarða í Vatnsmýrinni sem opna nýsköpunarfyrirtækjum í íslensku atvinnulífi tækifæri til að vaxa og eflast í lifandi tengslum við starfsemi Háskólans. Einn draumur Háskólans er sá að reisa á næstunni nútímalegt Háskólatorg sem verði miðstöð þjónustu og vaxandi samskipta allra sem vilja eflingu vísinda og fræða sem mesta og besta í íslensku þjóðfélagi. Háskólatorgið á að vera lifandi tákn þess hvernig Háskóli Íslands vill mæta hnattvæðingunni með því að skapa sameiginlega samskipta- og þjónustumiðstöð fyrir þann mikla fjölda nemenda, kennara og gesta sem til skólans koma. Með Háskólatorginu og Vísindagörðunum vill Háskóli Íslands treysta grundvallarskilyrði þess að í skjóli hans fái dafnað vísinda- og fræðastarfsemi sem er forsenda þess að Íslendingar séu virkir og skapandi þátttakendur í hnattvæðingunni, ekki aðeins þolendur hennar eða þiggjendur. Þannig vill Háskóli Íslands leggja sitt af mörkum til að skapa það öryggi sem við þurfum á að halda andspænis því öryggisleysi sem hnattvæðingin kann að sá í huga fólks.

Lítum nú á það hvernig Háskóli Íslands bregst við hinni róttæku einstaklingshyggju sem hnattvæðingunni fylgir. Keppikefli Háskólans er sannarlega að gefa nemendum sínum kost á að menntast á sem fjölbreyttastan hátt, öðlast kunnáttu og færni í þeim námsgreinum sem hugur þeirra stendur til, verða kunnáttufólk og sérfræðingar sem geta tekist á við ótal flókin verkefni. Og hann veit að þið, ágætu kandídatar, hafið nýtt ykkur vel það sem hann hefur haft fram að færa og standið vel að vígi til að mæta þeim kröfum sem til ykkar verða gerðar.

Um leið og þetta er sagt vil ég minna á að menntahugsjón Háskóla Íslands er ekki takmörkuð við það eitt að tryggja tæknilega færni nemenda sinna. Hugsjón Háskóla Íslands er sú að fólk menntist svo það verði sjálfstæðir og hugsandi einstaklingar sem taka þátt í samfélaginu af ábyrgð og heilindum í krafti þekkingar sinnar og skilnings á því sem máli skiptir í heiminum. Þetta hefur verið svo sjálfsagður þáttur í menntastarfi Háskólans að það hefur ekki þótt ástæða til að hamra á þessu í daglegu starfi. Við ríkjandi aðstæður er samt óhjákvæmlegt annað en að kennarar, sérfræðingar, nemendur og allt starfslið Háskólans leiði hugann skipulega og markvisst að því hvernig menntahugsjón okkar er framkvæmd í reynd í deildum og námsgreinum Háskólans. Um leið og við reynum að gera okkur skýra mynd af því hvernig manneskjur við viljum vera og hvernig fólk við viljum ala upp og mennta, þá eigum við í daglegu starfi að styðja af fremsta megni viðleitni hvers og eins til að þroskast sem manneskja.

Góðir hátíðargestir, vera má að þetta sé stærsti ávinningurinn af allri þeirri hnattvæðingu sem nú gengur yfir menn og þjóðir: Að knýja okkur til að sinna miklu betur og með skipulögðum, markvissum hætti hinum siðferðilega þætti allrar sannrar menntunar í stað þess að gera ráð fyrir að hann dafni einungis af sjálfu sér. Þetta er sá boðskapur sem hnattvæðingin flytur okkur öllum og Háskóli Íslands á að leggja kapp á að breiða út og gera að veruleika í öllu starfi sínu. Hnattvæðing sem ekki eykur vitund okkar hvers um sig um samábyrgð okkar allra sker á rætur menningarinnar og sundrar mannlegu samfélagi.

Í upphafi máls míns hét ég á liðsinni ykkar, ágætu kandídatar, við að byggja upp Háskólann. Um leið og ég óska ykkur aftur til hamingju með prófgráðuna vil ég einnig heita ykkur stuðningi Háskólans hvert sem leiðir ykkar liggja. Háskóli Íslands er stoltur af því að vera ykkar skóli.

Megi gæfa fylgja ykkur.

Páll Skúlason


Back to top