Minningarorð um Þorgeir Þorgeirson

í Dómkirkjunni 11. nóvember 2003

Við skulum hlýða á eftirfarandi orð Þorgeirs Þorgeirsonar sem við kveðjum hér í dag:

Hvað sem mælingameistarar segja kemst mannskepnan aldrei hjá þeirri staðreynd að heimurinn, sem svo er kallaður, er hvergi til nema í hugarmyndum okkar. Sannleikarnir eru jafnmargir íbúum heimsins. En sannleikurinn í eintölu með greini; þetta sem allir einstaklingssannleikarnir eiga sameiginlegt er dularfull stærð og óráðin. Sé það mál alveg þrautprófað má hæglega komast að svofeldri niðurstöðu: Vissan um dauðann er það eina sameiginlega með öllum þessum veröldum einstaklinganna. Og svomikið er þó víst að heimslitahugmyndir lúra einhversstaðar á bakvið alla mannlega hugsun, vísindi jafnt sem trúarbrögð og heimspeki.

En getur það verið að skáldskapurinn sé einmitt þrotlaus uppreisn gegn þessari dauðabundnu hugsun?

Við sitjum hér öll saman, hvert og eitt íbúi í sínum heimi, og minnumst Þorgeirs Þorgeirsonar. Hvað auðkenndi Þorgeir, hver var hann? Eitt svar gæti verið: Hann var skáld, skáld sem sýndi að sannur skáldskapur er þrotlaus uppreisn gegn dauðabundinni hugsun, að skáldskapurinn er raunveruleikinn, sá kraftur sem skapar veröldina. Ég held að þetta svar sé rétt en ekki fullnægjandi. Þorgeir var ekki aðeins skapandi skáld og hugsuður, heldur líka ógleymanlegur einstaklingur. Þess vegna lifir Þorgeir og mun lifa í hugarheimi okkar uns þau heimsslit verða, sem nú hafa orðið hjá honum.

En hvert okkar var líka íbúi í veröld Þorgeirs og þótt heimur hans hafi nú horfið líkamlegri sjón okkar þá höldum við áfram að búa í þeim heimi sem Þorgeir myndaði í kringum sig og bauð okkur að deila með sér. Ég nefni þá íbúa í veröld Þorgeirs sem næstir honum stóðu og eru hér á meðal okkar: kona hans Vilborg Dagbjartsdóttir, sonur hans Þorgeir Elís, fóstursonur hans Egill Arnaldur, tengdadæturnar Guðrún og Laufey, barnabörnin Bergur, Edda, Vilborg og Þórunn, alsystir hans Elísabet og hálfsystur hans Rósa, Sigríður og Kolbrún.

Heimur Þorgeirs gneistar af hugmyndum, sem veita manni nýja sýn á lífið og tilveruna, þessa dularfullu og óráðnu stærð þar sem veraldir okkar allra mætast. Ég er raunar sannfærður um að þeim eigi eftir að fjölga meir en okkur grunar sem vilja búa í þeim heimi sem hann skóp með lífi sínu og verkum í myndum og máli.

Ævintýraveröld Þorgeirs hófst í Hafnarfirði þegar verkakonan Guðrún Kristjánsdóttir og sjómaðurinn Þorgeir Elís Þorgeirson fögnuðu fæðingu hans 30. apríl 1933. Skyldi þau hafa órað fyrir því að hann yrði uppreisnarskáld gegn ranglæti og markleysi mannlegra athafna? Ég kann ekki að rekja æviferil Þorgeirs af þeim innri skilningi sem ég vildi geta gert. Ungur missti hann föður sinn og fór þá með móður sinni til Siglufjarðar þar sem hann ólst upp hjá afa sínum og ömmu og kynntist síldarævintýrinu, en níu ára að aldri flutti hann aftur suður með móður sinni. Skömmu síðar féllu þau frá, afi hans og amma á Siglufirði. Þá virðast hafa orðið nokkur tímamót í lífi Þorgeirs, ekki aðeins í veraldlegum efnum heldur líka í þeim andlegu. Í viðtali í Degi fyrir þremur árum er hann spurður hvort hann sé guðleysingi. Þorgeir svarar:

„Stundum hef ég haldið að ég væri það en málið er ekki svo einfalt. Ég var afskaplega trúað barn. Ég ólst upp hjá afa mínum og ömmu og amma mín sá um trúaruppeldi mitt. Hún var einlæglega trúuð alþýðukona, komin af prestaættum og afskaplega stolt af því. Hún sagði alltaf við mig: „Geiri minn, þegar þú verður orðinn prestur...“. Hún fór með mig í kirkju á hverjum sunnudegi og lét mig biðja bænir á kvöldin og hausinn á mér er ennþá fullur af allskonar miðaldasálmum og margt af þeim er merkilegur skáldskapur. Þegar ég var tíu ára dó hún. Þá kyssti ég á kalt ennið á henni þar sem hún lá á líkbörunum og trúin gufaði upp úr hausnum á mér. Eins og áþreifanlegur strókur. Ég fann þetta þarna á staðnum. Ég hef aldrei getað trúað eftir það. En ég hef síðan verið að öfunda fólk sem trúir. Með sama hætti og ég öfunda fólk sem hefur músíkgáfu. Þetta er tilfinning sem mig skortir, en ég þóttist þekkja hana þegar ég var barn.“

Án barnatrúar hélt Þorgeir ellefu ára að aldri út í heiminn, fyrst að Grund í Svínadal og svo aftur suður nokkru síðar. Á menntaskólaárunum bjó hann hjá móðurbróður sínum Steini Kristjánssyni og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1953. Þá hleypti hann heimdraganum alla leið til Mið-Evrópu, nam fyrst þýsku, bókmenntir og listasögu við Háskólann í Vín og þvínæst kvikmyndastjórn við Listaakademíuna í Prag og var þá meðal annars í starfsnámi hjá franska sjónvarpinu. Að því búnu kom hann heim og ferill hans sem listamanns og skálds, hugsuðar og þjóðfélagsgagnrýnanda hófst á Íslandi.

Margir munu verða til að fjalla um lífsferil Þorgeirs og ævistarf: Hann var kvikmyndagerðarmaður, rithöfundur, þýðandi, ljóðskáld, leiðsögumaður, einarður baráttumaður fyrir mannréttindum, málsvari lítilmagnans, andstæðingur valdsins, áhrifamikill ræðumaður og samræðusnillingur. Í öllum þessum mimunandi hlutverkum hrærðist Þorgeir í kviku íslensks þjóðlífs, en um leið eins og á skjön við þjóðfélagið – eins og hann væri sífellt að reyna að rétta það af – einn, ekki á móti, heldur andspænis heiminum. Þorgeir er eini einstaklingurinn sem ég hef kynnst sem minnt hefur mig hvaðeftir annað á Sókrates eins og hann kemur fram í samræðum Platons. Ég áttaði mig í fyrstu ekki á því af hverju hann gerði það og taldi þetta vera eins og hver önnur yfirborðsleg hughrif. Ég hef smám saman sannfærst um að svo sé ekki og að samlíkingin eigi við rök að styðjast.

Sókrates var á skjön við samfélag sitt, öðruvísi en allir aðrir, en hrærðist um leið í miðri menningariðu síns tíma, síögrandi samborgurum sínum með spurningum um réttlæti, sannleika og skilning. Iðulega misskilinn, oft dáður, stundum hataður – einstaklingur sem lét sig allt varða og aðrir létu sig varða vegna þess að hann hreyfði við heiminum, vildi rétta hann af, sjá réttlætið ríkja. Í grein sem Þorgeir skrifar um föðurömmu sína kemst hann svo að orði að „hún hafi átt alls kostar við heiminn“. Bæði Sókrates og Þorgeir áttu í miklum útistöðum við heiminn og báðir áttu alls kostar við hann. Þeir fylgdu sannfæringu sinni af heilindum og íróníu og kenndu öðrum það sama. Og yfirvöld ríkisins gerðu sitt til að þagga niður í þeim án þess að hafa erindi sem erfiði. Þorgeir var að því leyti betur settur en Sókrates að hann gat skotið máli sínu til mannréttindadómstóls og unnið þar sigur sem tekið var eftir um allan heim. Þau málaferli urðu ekki aðeins til að breyta réttarfari á Íslandi, heldur til að styðja baráttuna fyrir mannréttindum og tjáningarfrelsi almennt í veröldinni.

Hvað skýrir hina djúpstæðu og mér liggur við að segja ósveigjanlegu, jafnvel hörkulegu réttlætiskennd sem einkennir hugsun þeirra Þorgeirs og Sókratesar? Mér kemur í hug afstaða þeirra til valdsins og virðing þeirra fyrir manneskjunni. Þetta tvennt fer saman: Hin einstaka mannvera, ég og þú, erum í augum þeirra það sem öllu skiptir í veröldinni: veröldin er mín og þín og okkar saman. Ekkert vald, ekkert yfirvald, hefur rétt til að ráðskast með okkur eða heiminn. Staðreyndin er samt sú að heimi okkar er sífellt ógnað af mönnum sem misbeita valdi sínu. Þess vegna á heimurinn líka allt sitt undir því að eignast einstaklinga sem hafna ekki aðeins öllum valdastöðum og vegtyllum, heldur bókstaflega helga líf sitt baráttunni gegn öllum myndum ómenningar sem valdinu fylgja. Og stinga okkur með orðum sínum í hvert sinn sem við lendum inn á brautum undirgefni og hræsni og hættum að hugsa sem sjálfstæðar verur.

Sókrates fór sína leið í þeirri baráttu og hefur sennilega ekki haft minnsta grun um að lærisveinn hans, Platon, myndi semja verk sem héldu hugsun hans svo á lofti að öll vestræn menning biði þess ekki bætur.

Þorgeir fór líka eigin leið og skóp veröldina á forsendum og með aðferðum sem hann valdi að vandlega hugsuðu máli. Leiðum hugann að verklagi Þorgeirs við veraldarsmíð sína. Ég hef fáa eða engan þekkt sem yfirvegaði og þrauthugsaði verk sín til jafns við Þorgeir. Hann var ekki aðeins sókratískur í hugsun heldur líka spartverskur: Ekkert sem hann skildi eftir sig mátti vera ofhlaðið, allt átti að vera nákvæmlega í því einfalda formi sem hæfði innihaldinu hverju sinni. Ég þarf ekki að nefna ykkur dæmi um þetta, því þið þekki þau jafnvel eða betur en ég. Þessi minimalismi, þessi hreina viðleitni til að tjá hið rétta og sanna í einföldum, óbrjótanlegum myndum, er í einu orði sagt stórfenglegur í meðförum Þorgeirs. Maður stendur iðulega á öndinni yfir myndunum sem hann bregður upp í verkum sínum, í kvikmyndum sínum, skáldsögum, ljóðum, ritgerðum og þýðingum. Má ég lesa fyrir ykkur örstuttan kafla úr einni þýðingu hans úr bók eftir William Heinesen:

Víst er það, nú ertu staddur á reikistjörnunni Tellus; þar líða þín fáu útmældu ár í félagsskap annara furðu sleginna hlustandi mannanna barna. En æ   –   þetta er blaktandi týra, bara andblær frá óvissunnar heimi og það er sloknað á persónulega vitundarskarinu, án neinnar skýringar, án neinnar afsökunar, áðuren þú hefur neitt áttað þig að marki á hlutskipti þínu.

En tunglið má öld eftir öld halda áfram að gantast fyrir augum nýrra og nýrra jarðarbúa.

Ellegar þá (rétt eins glaðlegt og kankvíst) fyrir einskis manns augum.[1]

Þegar áreiti hversdagsins er í þann mund að drekkja hugsun minni kemur þessi kafli eins og af himnum ofan og flytur mig inn í veraldarvídd þar sem veruleikinn kemur sjálfur dansandi til mín og huggar mig við hlutskipti mitt. Töfrarnir við verklag Þorgeirs eru úr töfralampa sem hann vissi að honum var trúað fyrir og sem hann sinnti af stakri alúð og einlægni.

Hver er forsendan fyrir þessu vinnusiðferði? Hin siðferðilega hugsun er skýr – að skila engu verki frá sér nema það nálgist þá fullkomnun sem maður veit að er samboðin þeirri veröld, sem á að skapa, verður að skapa, eigi hið rétta, sanna og fagra að vilja dvelja þar um skeið.  Forsendan er raunverulegt samband við veruleikann sjálfan, að sjá og skynja hlutina eins og þeir eru í raun og veru. Hvernig í ósköpunum er það hægt?

Yfirleitt fetum við leiðina til veruleikans eftir brautum sem aðrir hafa þegar rutt fyrir okkur. En brotin sem eftir standa á þessum brautum byrgja okkur iðulega sýn á veruleikann sjálfan eða endurspegla hann á afbakaðan hátt. Við sitjum þá föst í viðjum hugmyndafræði í stað reynslu af breytileika og ringulreið sem einkennir hrátt og beint samband við heiminn. Vandi okkar er þá sá að finna leið út úr þeirri hugmyndafræði sem hefur þegar mótað skynjun okkar og reynslu af veruleikanum og þora að takast á við óskapnaðinn sem veruleikinn er þegar hann steðjar að okkur án þess að við höfum nokkrar hugmyndir til varnar.

Þorgeir virðist hafa fundið sína leið til þess. Kannski fann hann hana þegar hann kvaddi ömmu sína í hinsta sinn og barnatrúin fauk af honum eins og áþreifanlegur strókur. Leið Þorgeirs var sú að vera sífellt að takast á við eitthvað nýtt, að vera sífellt að byrja, að uppgötva og læra á veruleikann eftir nýjum leiðum. Af hverju hélt hann ekki áfram að skapa ný og og ný verk í anda kvikmyndarinnar „Maður og verksmiðja“ sem er, eins og hann vissi sjálfur og dómbærir menn sögðu honum, einstakt og stórkostlegt listaverk? Hvers vegna var hann sífellt að prófa eitthvað nýtt, gera sífellt nýja atlögu að veruleikanum og reynslu sinni af honum? Hvers vegna lagði hann ótrauður til atlögu við internetið, þetta tækniskrímsli sem veður yfir veröldina um þessar mundir, umturnar samskiptum og opnar nýjar gáttir?

Er skýringin ekki sú að hann vildi ekki að veraldarsmíð hans yrði hátimbruð hugmyndasmíð, heldur lifandi farvegur fyrir veruleikann svo hann geti gripið okkur og við, þessar næmu og auðsæranlegu verur, gætum numið hann og þroskast til móts við fullkomleika og fegurð sem við þráum?

Þorgeir myndi sussa á orðmælgi mína ef hann mætti. Hann væri jafnvel vís með að afhjúpa veikleika í rómantískri rökfærslu minni. Og með þá vissu í huga hverf ég nú inn í veröld hans, hreiðra þar um mig í heimi mynda, orða og minninga þar sem hvert okkar um sig á sinn sess og sitt sæti, og sem kemur svo vel fram í ljóði hans „Úr því ég hugsa“:

Úr því ég hugsa hlýt ég að vera til

í heimi sem er réttnefnd veröld mín

en verður aldrei söm og veröld þín.

Það veit ég náttúrlega bæði og skil.

 

Þó gátu heimur minn og heimur þinn

á hafi nætursortans altént mæst,

hugarins ósk um hendinguna ræst

og heimur þinnar veru orðið minn

 

í ljósadýrð sem líður hjá um nótt

með ljúfan gleðióm af söng um borð

sem bjartrar kenndar óljós vísuorð

anda mér gegnum vélarhljóðið rótt

uns glaðaljós og glaumur farar þinnar

gleymast út í rökkur sálar minnar.

 

Um leið og við kveðjum Þorgeir Þorgeirson, þökkum við honum það sem hann gaf okkur og gefur í veröld sinni: Óbilandi trú á réttlætið – og lífið.

Páll Skúlason[1]    Úr Töfralampanum eftir William Heinesen í þýðingu Þorgeirs Þorgeirssonar, Reykjavík 1987.

Back to top