Í minningu Páls

Ávarp Vilhjálms Árnasonar við útför Páls frá Hallgrímskirkju 4. maí 2015

„[Ég] bið ykkur að hugleiða … hvar við erum stödd, hvað það merkir að við erum hér saman komin og hvers vegna við erum hér?“ Þessum spurningum varpaði Páll Skúlason eitt sinn fram í hugvekju sem hann flutti fyrir mörgum árum í safnaðarheimili Akureyrarkirkju, fæðingarbæ sínum. En hvatningin sem felst í því að hugleiða hvers vegna við erum hér, hafði í huga hans og skrifum almennt mun víðari skírskotun. Í texta, sem hann var að vinna að á síðustu vikum lífs síns, lýsir Páll þrenns konar reynslu sem hafi orðið til þess að hann kaus að leggja stund á heimspeki.

Meira...

Páll Skúlason er látinn

Páll Skúlason, heimspekingur, lést á síðasta vetrardegi, miðvikudaginn 22. apríl 2015 á Landspítala við Hringbraut. Páll greindist með hvítblæði haustið 2012 og tókst á við erfiðan sjúkdóm af miklu æðruleysi, með stuðningi fjölskyldu og vina.

Páll einsetti sér strax haustið 2012 að nýta allan þann tíma sem gæfist til að koma verkum sínum á framfæri. Á þessum tæpu þremur árum tókst honum, með dyggri aðstoð samstarfsmanna sinna, að gefa út sex bækur. Auk þess gekk hann frá tveimur verkum sem munu koma út á næstu mánuðum. Hann hugsaði, skrifaði og naut lífsins af fremsta megni til hinstu stundar.

Heimasíðu þessari verður viðhaldið af fjölskyldu Páls í hans minningu. Honum var umhugað að ná til fólks og hvetja okkur öll til að rýna í eigin fordóma og finna leiðir til að gera heiminn að betri stað. Hér verður því áfram hægt að nálgast ýmsar hugleiðingar Páls og boðskap hans um mátt hugsunarinnar.

Minningarorð um Þorgeir Þorgeirson

í Dómkirkjunni 11. nóvember 2003

Við skulum hlýða á eftirfarandi orð Þorgeirs Þorgeirsonar sem við kveðjum hér í dag:

Hvað sem mælingameistarar segja kemst mannskepnan aldrei hjá þeirri staðreynd að heimurinn, sem svo er kallaður, er hvergi til nema í hugarmyndum okkar. Sannleikarnir eru jafnmargir íbúum heimsins. En sannleikurinn í eintölu með greini; þetta sem allir einstaklingssannleikarnir eiga sameiginlegt er dularfull stærð og óráðin. Sé það mál alveg þrautprófað má hæglega komast að svofeldri niðurstöðu: Vissan um dauðann er það eina sameiginlega með öllum þessum veröldum einstaklinganna. Og svomikið er þó víst að heimslitahugmyndir lúra einhversstaðar á bakvið alla mannlega hugsun, vísindi jafnt sem trúarbrögð og heimspeki.

En getur það verið að skáldskapurinn sé einmitt þrotlaus uppreisn gegn þessari dauðabundnu hugsun?

Meira...
Back to top