Svör við spurningum stúdenta í tilefni rektorskjörs

Svör við spurningum stúdenta í tilefni rektorskjörs

Beitir Háskóli Íslands réttum baráttuaðferðum í samkeppninni um aukið fjármagn? Þarf að leita nýrra fjármögnunarleiða?

Aðferðirnar hafa í sjálfu sér ekki verið rangar, heldur of takmarkaðar og tæknilegar. Baráttan snýst um viðurkenningu og virðingu fyrir því starfi sem unnið er í háskólanum af kennurum, nemendum, sérfræðingum og öðru starfsfólki. Háskólinn verður að sannfæra stjórnvöld um að þetta starf nái ekki viðunandi árangri nema starfsfólkinu séu búnar sæmandi aðstæður og því séu tryggð næg grunnlaun til að það þurfi ekki að sinna alls kyns aukastörfum til að afla sér lífsviðurværis. Það er líka bráðnauðsynlegt að fá sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga til að leggja meira fé til háskólans.

Hafa stúdentar nægileg áhrif á stjórnun Háskólans í dag eða á að auka áhrif þeirra eða draga úr þeim?

Stúdentar hafa haft mikil og góð áhrif á stjórn skólans, og ég tel brýnt að efla þessi áhrif á tvo vegu. Í fyrsta lagi með því að stúdentar taki virkari þátt í því að móta nýja kennsluhætti og samvinnu ólíkra deilda og námsgreina. Í öðru lagi með því að vinna skipulega með stjórn skólans að því að auka skilning þjóðarinnar á því starfi sem unnið er í háskólanum. Háskólaráð og Stúdentaráð eiga að taka höndum saman og móta sameiginlega áætlun um hvernig bæta megi háskólasamfélagið í heild sinni og sýna þjóðinni fram á gildi þess sem þar fer fram.

Hvað er brýnast að gera til að bæta aðstöðu til náms í Háskólanum?

Víða þarf að stórbæta vinnuaðstöðu (einkum húsnæðis- og tölvukost). Einnig þarf að kanna þau félagslegu og andlegu skilyrði sem stúdentum eru búin. Til að bæta þau er nauðsynlegt að huga að möguleikum stúdenta á auknu samneyti sín á milli, við kennara og annað starfsfólk. Ég vil að Háskólinn og Félagsstofnun stúdenta skapi saman aðstöðu sem næst miðju háskólasvæðisins sem verði miðstöð félagslegra samskipta þar sem allir eigi daglegt erindi. Þá myndi fólk öðlast miklu ríkari samkennd en nú er í háskólasamfélaginu.


Back to top