Sameinaður Háskóli –­ hlutverk rektors

Ræða Páls Skúlasonar 12. mars 1997

Ég hef einu sinni áður gefið kost á mér í rektorskjöri. Það var árið 1985 þegar Sigmundur Guðbjarnason var kjörinn rektor. Hvers vegna skyldi ég gefa kost á mér aftur í þetta kjör núna tólf árum síðar? Svarið er í fæstum orðum að ég hef síðustu tólf árin einbeitt mér að því að boða almenningi í landinu gildi gagnrýninnar hugsunar og mikilvægi vísinda og fræða fyrir þjóðina og landið í heild. Ég hef gert þetta sem prófessor í heimspeki, sem stjórnarformaður Siðfræðistofnunar í tengslum við margvísleg verkefni, sem stjórnarformaður Framtíðarstofnunar sem tók til starfa á síðasta ári og starfar óháð Háskólanum, og núna síðasta hef ég tekið að mér, að beiðni Reykjavíkurborgar, að stýra því verkefni að gera Reykjavík að menningarborg Evrópu árið 2000 í samvinnu við átta aðrar háskólaborgir í Evrópu. Ég verð raunar að víkja af þessum fundi rétt á eftir til þess að fara til fundar í Bologna, elstu háskólaborg Evrópu, til þess að semja við fulltrúa hinna borganna um þau verkefni sem við munum vinna saman á næstu þremur árum, en þessar borgir allar leggja höfuðáherslu á að eflast sem háskólaborgir. Það er löngu tímabært að Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands taki höndum saman til að efla háskólalífið í höfuðborginni. Og hér þurfa líka önnur sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar að leggja sitt af mörkum til að efla háskólastarf í landinu.

En til þess að þetta megi ganga eftir þarf róttæka breytingu á stöðu Háskólans í þjóðfélaginu, breytingu sem felst því að Háskólinn og háskólasamfélagið í heild sinni njóti miklu meiri viðurkenningar og virðingar meðal þjóðarinnar en verið hefur til þessa.

Hér hefur rektor sínu mikilvægasta hlutverki að gegna. Hann á að vera í fylkingarbrjósti þeirrar baráttu að opna augu almennings í landinu - og þá einnig stjórnvalda - fyrir þeirri staðreynd að framtíð hins íslenska þjóðfélagsins er komin undir störfum háskólamanna, ekki síður en fiskveiðum og öðrum atvinnugreinum. Með viðurkenningu og virðingu á ég við að það þarf að verða opinber, viðurkennd staðreynd - sem virt er í reynd - að forsenda þess að við höldum menningarlegu, pólitísku og efnahagslegu sjálfstæði sé sú, að þjóðin eigi sér voldugt vísinda- og fræðasetur þar sem skapandi hugsun fær að blómstra og smita út frá sér til þjóðfélagsins alls. Á öllum sviðum þjóðfélagsins eru framfarir og úrbætur komnar undir því að við eigum kraftmikið, hugsandi ungt fólk sem kann að beita gagnrýninni, vísindalegri og tæknilegri hugsun og skapa þau lífsskilyrði sem tryggja atvinnu og uppbyggingu á landinu öllu. Rektor er leiðtogi háskólasamfélagsins og sem slíkur á hann að vinna markvisst að því að gjörbreyta viðhorfum þjóðarinnar til þekkingar og vísinda. Þess vegna má orka rektors ekki fara öll það í að leysa alls kyns innri vandamál sem óhjákvæmlega verða innan háskólans. Að sjálfsögðu á rektor að vera áfram sá sem við treystum og leitum til þegar í nauðir rekur. En við eigum fyrst og fremst að ætla honum að hugsa um heildarhagsmuni stofnunarinnar andspænis stjórnvöldum og með fulltingi almennings í landinu. Þau innri vandamál, sem nú herja á háskólann, tengjast öll þeim ytri skilyrðum sem honum er sett, þeim þrengingum sem hann er látinn sæta.

Ég þarf ekki að fjölyrða um rætur þessara þrenginga. Með því að ætla háskólanum eina upphæð til skiptanna á milli deilda og stofnana - fjárhæð sem dugar ekki til að halda upp lögbundinni starfsemi - hefur ríkisvaldið á vissan hátt þvegið hendur sínar af háskólanum og um leið beint honum inn á þá braut að afla sér peninga eftir öðrum leiðum en með framlögum ríkisins. Og nú ráðgera menn lagabreytingar sem eiga að tryggja háskólanum möguleika á að reka fleiri fyrirtæki, taka skólagjöld o.s.frv. - auk þess sem háskólamenn þurfa að eyða æ meiri tíma í að afla fjár til rannsókna. Um leið hefur þetta ýtt undir deilur og sérhagsmunabaráttu innan háskólans þar sem hver deild, námsbraut og stofnun er knúin til að hugsa umfram allt um eigin hag fremur en hag Háskólans sem einnar heildar. Hættan sem við blasir er sú að Háskólinn liðist í sundur í sjálfstæða skóla sem eiga í baráttu innbyrðis um takmarkað fé. Ef við ætlum ekki að sundrast gjörsamlega og ganga á hönd Hákoni gamla, þá megum við ekki gera ágreining okkar að óvinafagnaði, heldur beina spjótunum - viti okkar - að rótum vandans og uppræta hann. Og það getum við gert.

Þetta er það eina sem nú skiptir máli. Við verðum að ýta til hliðar öllum innri ágreiningsefnum svo sem kostur er og hugsa um það eitt að tryggja grundvöll þessa litla samfélags sem okkur hefur verið trúað fyrir.

Það getum við einungis gert með því að standa saman í baráttu fyrir bættum kjörum Háskólans alls. Vandinn snýst vissulega um peninga. Þeir eru tæki til að ná ákveðnum markmiðum sem fólk setur sér. Og spurningin er sú hvort íslenska þjóðin vill setja sér það markmið að eiga öflugan og skapandi háskóla - eða líta á Ísland fyrst og fremst sem verstöð eða raforkuver. Hér veltur allt á viðhorfum og gildismati. Það eru til nægir peningar í þessu landi. Þeir eru ekki allir í ríkiskassanum, þeir eru líka hjá sveitarfélögum, í fyrirtækjum, í alls kyns sjóðum og hjá einstaklingum. Spurningin er einfaldlega sú hvernig allir þessir aðilar og íslenska þjóðin í heild sinni vill ráðstafa fjármunum sínum. Meginverkefni rektors á að vera að sannfæra þjóðina og þá sem með fjármuni hennar fara að það sé lífsspursmál að við Íslendingar eigum sterkan og skapandi háskóla sem sannar og sýnir tilverurétt okkar í samfélagi þjóðanna. Þetta á skilyrðislaust að verða meginhlutverk rektors. Hann á að berjast af alefli fyrir því að við sjálf, háskólaborgarar, stúdentar, kennarar og allt starfslið háskólans, sameinumst um það eitt að skapa æ auðugra og áhrifameira vísinda- og fræðasetur sem nýtur viðurkenningar og virðingar meðal landsmanna og út um víða veröld.

Páll Skúlason


Back to top