Hvers eru vísindin megnug?

Ræða fyrsta vetrardag, 24. október 1998

Kandídatar og aðrir góðir gestir. Ég óska ykkur, ágætu kandídatar, og fjölskyldum ykkar, hjartanlega til hamingju með prófgráðuna sem þið hafið nú fengið vottorð um. Þetta er stór stund í lífi ykkar og í starfi Háskóla Íslands. Mikilvægasti ávöxturinn af starfi Háskólans er menntun ykkar og lærdómur. Eftir þeim ávexti verður Háskólinn metinn. Þess vegna bindur Háskóli Íslands miklar vonir við ykkur og treystir því að sú menntun sem þið hafið hlotið á hans vegum nýtist ykkur vel í lífi og starfi. Hvert sem leiðir ykkar kunna að liggja mun reyna á þekkingu ykkar og þor til að takast á við margvísleg verkefni sem þið munuð standa frammi fyrir. Heimurinn mun gera til ykkar miklar kröfur og þið eigið eftir að kynnast óvæntum og ófyrirséðum aðstæðum, þar sem þið þurfið á allri ykkar orku og hugvitsemi að halda.

Hið óvænta og ófyrirséða eru orðin aðalkennimörk heimsins. Við vitum að öll vit-neskja okkar í dag um veröldina er harla smá andspænis þeirri miklu óvissu sem ríkir um þróunina jafnt í ríki náttúrunnar sem í málefnum mannkyns. Þetta tvennt verður raunar ekki skýrt sundurgreint. Í ríki náttúrunnar snýst óvissan um hugsanlegar breytingar á skilyrðum alls lífs á jörðinni, breytingar sem kunna að verða vegna aðgerða og lífshátta okkar sjálfra. Í ríki mannfélagsins snýst óvissan um hugsanlegar breytingar á efnahags- og stjórnkerfum, breytingar sem kunna að verða vegna margs konar nýrrar tækni við að skipuleggja mannlífið í smáu og stóru. Sú spurning verður sífellt áleitnari hvers vísindi mannanna eru megnug. Munu þau gera okkur kleift að skilja betur náttúrulegar og félagslegar aðstæður og finna ráð til að bregðast við því sem ógnar lífinu? Eða eru þau aðeins glíma við einstök, afmörkuð fræðileg vandamál án þess að megna að veita nokkurn heildarskilning á náttúrunni og mannfélaginu sem okkur megi að gagni koma?

Máttur og gildi vísinda

Um leið og ég bið ykkur, kandídatar góðir, að hugleiða þetta, langar mig til að segja ykkur svolítið frá viðhorfi mínu í þeirri von að hugrenningar mínar megi hjálpa ykkur til að komast að eigin niðurstöðum. Fyrst skulum við staldra við og spyrja: Hvaða máli skiptir það hverju við trúum um mátt og gildi vísinda og þar með vísindalegrar þekkingar og menntunar? Er þetta ekki fyrst og fremst fræði-leg spurning sem rétt er að láta heimspekingum eftir að glíma við? Vissulega er þetta heimspekilegt viðfangsefni. En ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt að láta heimspekinga eina um að fást við það. Ekki svo að skilja að ég vantreysti þeim til að rökræða málið, heldur vegna þess að þetta varðar okkur öll sem borgara og almenning. Eigum við að treysta á vísindi til að leysa lífsvanda okkar og tryggja framþróun mannkyns – eða er ástæða til að efast um mátt þeirra og reiða sig fremur á annars konar kenningar eða hugmyndir til að takast á við lífið? Og hvaða kenningar og hugmyndir um veröldina gætum við þá haft til leiðsagnar, ef ekki þær sem sækja má í smiðju vísinda- og fræðimanna? Nú hef ég bersýnilega gefið mér eina forsendu sem einhver ykkar kynnu að vilja efast um, nefnilega að til þess að lifa á þessum óvissu- og ævintýratímum þurf-um við á skýrum kenningum og hugmyndum að halda. Einu rök mín eru þau að við séum öll hugsandi verur sem notum óhjákvæmilega kenningar og hugmyndir til að taka afstöðu og ákvarðanir í lífinu. Þess vegna skipti öllu máli hverjar þær eru og hvernig við hugsum og ræðum um þær. Þess vegna höldum við málþing og ráðstefnur, sitjum á rökstólum á Alþingi, höldum endalausa fundi í fyrirtækjum og félögum, liggjum yfir bókum og skýrslum, hönnum upplýsingakerfi og tölvunet – eða sitjum bara saman og röbbum yfir kaffibolla. Mannlífið allt, veröldin öll, er gegnsýrt af hugmyndum sem við sköpum, varðveit-um og miðlum með orðum og táknrænum athöfnum á óendanlega margbrotinn hátt. Oft brestur okkur samt mátt til að tjá það sem í brjósti okkar býr, finnum engan stuðning í þekktum hugmyndum, lifum í orðlausri angist, kvíða eða sorg sem enginn mannlegur máttur sefar. Jafnvel orð Guðs, sem kristinni kenningu er ætlað að flytja, kann að hljóma sem marklaus hávaði á slíkum ögurstundum. Þetta minnir á það sem við öll vitum, að lífið er meira en hugmynd, tilveran annað en kenning. En þetta segir okkur líka að við lifum og erum til sem hugsandi verur í ríki kenninga og hugmynda. Hvað einkennir það ríki? Er stjórnarfar þess frjálst og lýðræðislegt? Eða er það ofurselt tilteknum öflum – og þá hverjum?

Miðlun hugmynda og opinber umræða

Svarið virðist augljóst: Fjölmiðlar samtímans stýra straumum hugmynda og ráða myndun skoðana meðal almennings. En hverjir ráða fjölmiðlunum? Hvaða öfl stýra því að hverju athygli þeirra beinist? Og hvernig tekst þeim að fanga hina dýrmætu athygli sem er svo eftirsótt á okkar dögum? – Fyrir skömmu voru öll dagblöð á Íslandi málsvarar tiltekinna stjórnmálaflokka en hljóðvarp og sjónvarp rekin af ríkinu. Smám saman hafa fyrirtæki með hagnað að leiðarljósi orðið virkir aðilar á þessu sviði og tölvuvæðingin færir stöðugt út svið fjölmiðlunar. Og þar með hefur verið hleypt af stað ófyrirsjáanlegri þróun og miðlun efnis til að hafa áhrif á hugmynda- og skoðanamyndun meðal almennings í heiminum. Þetta er einn mikilvægur þáttur þeirra ævintýratíma sem við lifum: Miðlun hug-mynda, kenninga og hvers kyns upplýsinga er orðin ófyrirsjáanleg – og enginn veit hvert athyglinni verður beint næst. Á hverjum tíma eru það samt ákveðin málefni sem hæst ber í opinberri umræðu í hverju þjóðfélagi. Auðlindamál, meðal annars um nýtingu hálendis, heilsufarsupplýsinga og fiskistofna, hafa verið og eru mikið rædd um þessar mundir í þjóðfélagi okkar. Það er ánægjulegt og má vera til eftirbreytni fyrir aðrar þjóðir að allur almenningur lætur sig þessi mál varða og tekur virkan þátt í umræðunni. Stjórnmálamenn, fræðimenn og hags-munaðilar hafa hér allir lagt sitt af mörkum. Það er í þessu samhengi sem við þurfum að skoða framlag vísindanna til að skýra mikilvæg hagsmunamál og gera okkur hæfari til að greiða úr þeim. Hvernig getur fræðileg orðræða orðið órofa hluti þeirrar þjóðfélagslegu umræðu sem fram fer um slík mál? Ég spyr vegna þess að ég tel það vera eitt brýnasta þjóð-þrifamál okkar Íslendinga að bæta opinbera, þjóðfélagslega og stjórnmálalega umræðu með því að efla þátt fræðilegrar rökræðu í henni. Slíkt getur einungis orðið með því að fólk sem lagt hefur stund á hin ýmsu fræði gerist virkari þátt-takendur í umræðunni – ekki til þess að segja öðrum hvað sé satt og rétt, heldur til þess skýra málin í ljósi fræða sinna og ekki síst til að fá aðra í lið með sér til að leita hins sanna og rétta og efla þannig sameiginlegan skilning á því sem máli skiptir. Þess vegna hvet ég ykkur, ágætu kandídatar, til að taka hiklaust þátt í opinberri umræðu á grundvelli þeirrar þekkingar og fræðimennsku sem þið hafið tileinkað ykkur. Ég hvet líka fjölmiðla og stjórnmálaöfl í landinu til að nýta sér í auknum mæli krafta þeirra fjölmörgu ungu fræðimanna, kvenna og karla, sem hafa aflað sér dýrmætrar fræðilegrar menntunar til að takast á við hvers kyns vandamál og verkefni í þjóðlífi okkar. Vegna sérstöðu íslenskrar menningar og fámennis okkar höfum við Íslendingar einstakt tækifæri til þess að rækta hér lýðræðislegt þjóðfélag þar sem fólk myndar sér skoðanir og tekur afstöðu á grundvelli þekk-ingar og skilnings og lætur ekki stjórnast af lýðskrumi, áróðri og óvönduðum málflutningi. Upplýsingaþjóðfélagið, sem oft er nefnt um þessar mundir, á að vera upplýst þjóðfélag þar sem allur almenningur kann að nýta sér hugmyndir úr smiðju vísinda og fræða í því skyni að hugsa af skynsamlegu viti um ástand mála og um hvað heiminum sé fyrir bestu.

Heimsmenningin og Háskóli Íslands

Hér vil ég nefna eina hugmynd sem ég tel að kunni að skipta sköpum fyrir fram-tíð íslenskrar menningar. Þessa hugmynd sæki ég til fornra fræðimanna sem sáu fyrir sér að vísindi og fræði gætu orðið grunnur alheimsmenningar vegna þess að heimur þeirra væri án allra landamæra og gæti sameinað fólk ofar öllu því sem greinir það sundur eftir litarhætti, þjóðerni, trú, tungu og siðum. Til þess að vera við sjálf og byggja áfram þetta tilkomumikla eyland með eigin tungu, eigin menn-ingu og sögu og okkar eigin sjálfstæða ríki, þá þurfum við sem þjóð að temja okkur að hugsa langt út fyrir afmarkaðan íslenskan veruleika. Við þurfum að hugsa okkur sjálf sem heimsborgara, íbúa í ríki allra jarðarbúa. Við erum og viljum vera Íslendingar af því að við erum sem ein heild þátttakendur í allsherjar-ríki allra þjóða sem byggja jörðina með okkur. Einungis með því að skoða sjálf okkur í samanburði við aðrar þjóðir getum við orðið sjálfstæðir þátttakendur í þróun og uppbyggingu mannfélagsins á jörðinni og öðlast skilning á sérstöðu okkar og möguleikum til að lifa af í þeirri holskeflu umbreytinga sem nú dynur yfir heiminn. Ég veit að þetta kann að virka sem óraunhæf krafa og fjarlæg draumsýn, fámenni okkar og menningarfátækt valdi því að smám saman muni heimurinn gleypa okkur, tungan hverfa og saga okkar sé senn á enda. En þá gleymist að menning heimsins á einmitt rætur sínar að rekja til staðbundinnar, rótgróinnar þjóðmenn-ingar á borð við okkar. Þess vegna eigum við hiklaust að spyrna við fótum og styrkja menningu okkar og auðga með öllum tiltækum ráðum svo að hún verði gjaldgeng á alþjóðavettvangi. Slíkt getur einungis orðið með því að við temjum okkur að hugsa og lifa sem borgarar í alheimsríki allra þjóða – líkt og mörg okkar fremstu skálda og fræðimanna hafa gert að fornu og nýju. Stephan G. Stephansson, Einar Benediktsson og Halldór Laxness eru alþekktir boðberar þessarar hugsunar. Og á þessari öld höfum við Íslendingar eignast fjölda vísinda-og fræðimanna sem hafa tamið sér alþjóðahyggju í hugsun og hegðun og auðgað með því íslenska menningu. Háskóli Íslands hefur eflt og styrkt sjálfstæði Íslands og íslenskrar menningar vegna þess að hann er alþjóðlegt fræðasetur sem kappkostar að rækta samskipti við fræðimenn um víða veröld og veita erlendum straumum hugmynda og kenn-inga inn í íslenskt samfélag. Samt eigum við enn langt í land með að nýta okkur framlag vísinda og fræða til að byggja upp íslenska menningu og íslenskt þjóð-félag. Við höfum að vísu verið ötul við að tileinka okkur nýja tækni við hvers kyns framkvæmdir en við höfum ekki að sama skapi lagt okkur eftir því að treysta innviði okkar eigin andlegu og félagslegu menningar. Einn þáttur þess verður sá að tileinka okkur vísindalega hugsun og siði fræðilegrar rökræðu við að undirbúa ákvarðanir um mikilvæg hagsmunamál sem til umræðu eru á opinberum vett-vangi. Þá skiptir höfuðmáli að við skoðum málin í víðu alþjóðlegu samhengi og hugsum jafnframt til hagsmuna komandi kynslóða en einblínum ekki á stundar-hagsmuni eða það eitt sem virðist geta bætt efnahagsástandið í augnablikinu. Barátta gegn skammsýni er aðalsmerki frjálsrar, gagnrýninnar hugsunar. Það er ósk mín til ykkar, kandídatar góðir, að þið reynist trú þeirri köllun fræða ykkar að reyna að skilja samhengi hlutanna á sem dýpstan og víðfeðmastan hátt. Gætið þess umfram allt að hreykja ykkur aldrei af fræðum ykkar. Þekkingin getur vissu-lega hafið okkur yfir stund og stað og gert okkur skyggn á hið ókomna en hún hefur okkur aldrei yfir meðbræður okkar og systur. Takist ykkur að nýta menntun ykkar og þekkingu til góðs fyrir sjálf ykkur og samfélagið, þá skuluð þið líta á slíkt sem laun í sjálfu sér fyrir erfiði ykkar og ástundun. Ég þakka ykkur fyrir það sem þið hafið gefið Háskóla Íslands með því að stunda hér nám af heilindum og áhuga. Háskóli Íslands er stoltur af ykkur og vonar að þið séuð líka stolt af því að bera merki hans og hróður hvert sem leiðir ykkar liggja.

Páll Skúlason


Back to top