Menning samtímans

Ræða við brautskráningu í Háskóla Íslands 23. október 1999

Ráðuneytisstjóri, kandídatar, góðir gestir.

Ég óska ykkur, ágætu kandídatar, fjölskyldum ykkar og aðstandendum innilega til hamingju með prófgráðuna. Hún er staðfesting þess að þið hafið hlotið menntun og kunnáttu til að takast á við fræðileg verkefni og sinna margvíslegum störfum í þjóðfélaginu. Þörfin fyrir háskólamenntað starfsfólk fer sívaxandi í hinum ýmsu greinum þjóðlífsins og ég er þess fullviss að við ykkur blasa margir kostir til að nýta menntun ykkar eða afla ykkur enn frekari lærdóms. Hver sem ákvörðun ykkar verður óskar Háskólinn ykkur allra heilla og væntir þess að þið vinnið vel úr þeirri þekkingu sem þið hafið aflað ykkur á hans vegum. Hann væntir þess líka að þið verðið réttsýn og sanngjörn í dómum um menn og málefni og hugið sífellt að því sem betur má fara í þjóðfélagi okkar.

Hvar stöndum við?

Hver manneskja staðsetur sig sjálf í heiminum og finnur sinn eigin lífsveg í átt til hins ókomna í framtíðinni. Þegar þið standið á þessum krossgötum í dag er því ærið tilefni til að staldra við og vega og meta hvaða leiðir þið kjósið að kanna og hvaða innihald þið viljið að líf ykkar fái. Ákvörðun ykkar hlýtur einnig að byggjast á því hvaða mynd þið gerið ykkur af þeim straumum og stefnum sem leika um heiminn og hver séu stóru málin í veröldinni á okkar dögum.

Mig langar til að ræða við ykkur um nokkur einkenni samtímans og mun ég nefna þrjú stef sem gera hvert fyrir sig kröfu til okkar um athygli og umhugsun. Þessi stef tengjast öll framtíðinni, þeirri menningu sem nú er að mótast og við sjálf erum að móta - vitandi vits eða óafvitandi - með hugsunum okkar og athöfnum.

Áður en ég nefni þessi stef skulum við leiða hugann að því sem orðið "menning" stendur fyrir. Skáldið T.S. Eliot orðar það svo: "Culture is that which makes life worth living." Menning er það sem gerir lífið þess virði að lifa því. Hún er allt það sem eykur gæði lífsins, gerir lífið bærilegra eða betra, dregur úr böli og þjáningu. Ómenning er þá allt það sem rýrir gæði lífsins, spillir lífsmöguleikum fólks. Kurteisi er menning, ruddaskapur ómenning, hófsemi er menning, bruðl er ómenning. Að hafa snyrtilegt í kringum sig er menning, að safna rusli er ómenning. Samkvæmt þessu felur menning í sér safn mælikvarða á hegðun okkar og hugsun. Menning er að vanda sig við hvaðeina sem maður gerir, segir eða hugsar, að reyna sífellt að bæta sig og auka gæði og gildi lífsins - á vinnustöðum, á heimilum, í umferðinni, í stjórnsýslunni, á sviði viðskipta og verslunar og framleiðslu ekki síður en í vísindum og listum. Samkvæmt þessu birtist menning eða ómenning í öllu því sem við mannfólkið gerum eða hugsum. Öll menntun hefur þann megintilgang að endurskapa, varðveita og miðla þeirri þekkingu sem býr í menningunni - og um leið að uppræta ómenningu eftir því sem kostur er.

Þjóðmenning og heimsmenning

Þau þrjú stef, sem ég ætla nú að nefna, lúta að þremur mikilvægum þáttum samtímamenningar. Fyrsta stefið er íslensk þjóðmenning andspænis þeirri heimsmenningu sem nú er að verða að veruleika í fyrsta sinn í sögunni. Það verkefni blasir við okkur öllum og ekki síst ykkur, kandídatar góðir, að taka afstöðu til þess hvernig þið ætlið í senn að taka þátt í sköpun íslenskrar menningar og vera fullgildir þátttakendur í þeirri fjölbreyttu heimsmenningu sem að okkur berst úr öllum áttum. Þetta er vandi sem flestir háskólakennarar og fræðimenn hafa löngum staðið frammi fyrir. Vísindi og fræði eru alþjóðleg, þau eru einn mikilvægasti þáttur þeirrar heimsmenningar sem breiðist óðum út meðal jarðarbúa. Það er hverju mannsbarni ljóst að þróun vísinda og tækni hefur djúpstæð og varanleg áhrif á menningu hverrar þjóðar. En það er jafn óljóst hvaða afleiðingar sú þróun hefur fyrir íslenska menningu. Munum við endurskapa hana, gefa henni nýtt líf og nýja framtíð með því að stunda alþjóðleg vísindi og fræði eða mun hún smám saman líða undir lok sem sjálfstæð, söguleg menning, þar sem fólk talar sína eigin tungu, varðveitir sína eigin sögu og ræktar náið, persónulegt samband við landið sjálft? Það eru ekki aðeins vísindin og tæknin út af fyrir sig sem hér skipta mestu, heldur allar þær nýjungar í framleiðslu og viðskiptum sem af þeim leiða. Íslendingar eru nú þegar orðnir fullgildir þátttakendur í heimsmenningu á sviði vísinda og tækni, viðskipta og framleiðslu sem er að umbylta íslensku þjóðfélagi á svo róttækan hátt að þjóðin öll kann að virðast rótlaus.

Landsbyggðin og höfuðborgin

Hér kem ég að öðru stefinu sem ég vildi nefna: Landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið. Að þessu sinni eruð þið 41 kandídatar af 244 sem lukuð stúdentsprófi frá menntaskólum á landsbyggðinni. Hversu mörg ykkar munuð hverfa aftur til heimabyggðar? Ekki þarf að fjölyrða um þá búferlaflutninga sem nú eiga sér stað svo mjög sem þeir hafa verið til umræðu. Þetta er vafalaust einn stærsti menningarvandi okkar um þessar mundir, ekki síst vegna þess ójafnræðis sem skapast meðal byggðarlaga við þessar aðstæður. Rótleysi, óróleiki og kvíði sem þessu umróti fylgir setja svip sinn á þjóðlífið allt. Efnahagslegt góðæri kyndir undir spennu og átökum, sem vissulega leysa úr læðingi skapandi krafta, en valda því jafnframt að fjöldi fólks á erfitt með að staðsetja sig í tilverunni og kunna fótum sínum forráð. Höfuðborgarsvæðið virkar í dag eins og segull einmitt vegna þess að þar er blómlegt og öflugt menningarlíf sem á ekki sinn líka neins staðar á landinu. Þess vegna verður sú þróun sem nú á sér stað ekki stöðvuð nema með því að skapa menningarlegt mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Til þess eru að mínum dómi tvær leiðir. Önnur er sú að mynda annað eða önnur svæði á landinu sem hefðu burði til að laða til sín fólk vegna fjölbreytts og skapandi menningar- og atvinnulífs. Hin leiðin er sú að berjast fyrir viðhorfsbreytingu með því að opna augu fólks fyrir margsvíslegum kostum þess að búa út á landi, ekki síst þeim að njóta friðsemdar og nábýlis við náttúruna sem ekki finnst í fjölmenninu "fyrir sunnan". Vera má að hvorug þessara leiða sé okkur fær um þessar mundir. Þróun menningar verður ekki stýrt með valdboði að ofan; fólk verður sjálft að finna hvar það getur best staðsett sig í tilverunni. En ég er sannfærður um að leiðirnar tvær sem ég nefndi verða von bráðar að veruleika. Og því fyrr því betra.

Heimilislíf og atvinnulíf

Næsta stef, sem ég ætla að nefna, tengist rótleysi og upplausn samtímamenningar sem búseturöskunin er skýrast dæmi um. Það er heimilislífið andspænis atvinnulífinu, fjölskyldan andspænis framleiðslukerfinu. Ég vænti þess, ágætu kandídatar, að ykkur sé umhugað um hvort tveggja: að eiga gott fjölskyldulíf og starfa á öflugum vinnustað. En hér gildir það sama og í hinum tveimur fyrri stefjum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni: íslensk þjóðmenning á í vök að verjast gagnvart heimsmenningu, landsbyggðin á í vök að verjast gagnvart höfuðborgarsvæðinu, fjölskyldan á í vök að verjast fyrir kröfum sem gerðar eru til fólks um virka þátttöku í atvinnulífinu. Skýrasta dæmið um þetta er staða kvenna í menningu okkar. Þótt margt hafi áunnist í jafnréttismálum kvenna á síðari árum, að minnsti kosti hvað formleg réttindi varðar, þá er það staðreynd að almennt taka karlar enn ekki jafn mikinn þátt í heimilishaldinu og umönnun barna og konur. Um leið og gerðar eru kröfur til kvenna um síaukna þátttöku í störfum utan heimilisins hafa þær gert sér æ ljósari grein fyrir nauðsyn þess að afla sér menntunar, bæði til þess að gegna skyldum sínum við þjóðfélagið og vegna sjálfra sín. Ég veit líka af reynslu að konur hafa iðulega mun víðtækari menntaáhuga en karlar sem eru gjarnan háðir því að ná árangri í tilteknu starfi eða ákveðinni grein í samræmi við þann keppnisanda sem fylgir gömlu hlutverki þeirra sem "fyrirvinna fjölskyldunnar". Hröð þróun atvinnu- og viðskiptalífs, nýjar starfsgreinar og umbylting eldri greina, mótun nýrra fyrirtækja og uppstokkun hinna eldri, allt þetta stuðlar að streitu og álagi sem torveldar foreldrum að takast á við þau verkefni í fjölskyldu- og heimilislífi sem margir þeirra kysu að geta axlað á fyllri og ábyrgari hátt en þeim tekst að gera. Þessi vandkvæði bæði kvenna og karla við að uppfylla þær kröfur sem til þeirra eru gerðar bitna á okkur öllum, en þó mest á hinum ungu og hinum öldnu. Þeir eiga allt sitt undir sínum nánustu og megna ekki, svo sem eðlilegt er, að verja sig fyrir þeim sviptivindum sem kunna að verða í fjölskyldulífinu vegna hins mikla umróts sem á sér stað í efnahags- og atvinnulífi.

Menntun og menning

Þau þrenns konar vandkvæði samtímans, sem ég hef nú fjallað um - að íslensk þjóðmenning eigi undir högg að sækja gagnvart heimsmenningu viðskipta og vísinda, landsbyggðin gagnvart höfuðborgarsvæðinu og fjölskyldan gagnvart framleiðslukerfinu - ber okkur að skoða sem mikilvæg úrlausnarefni sem gera kröfu til okkar allra um hugkvæmni og frumkvæði. Við tökum vissulega menningu í arf og hugsun okkar og líf mótast af aðstæðum og tíðaranda sem við höfum ekki sjálf mótað. Þess vegna hættir okkur líka til að líta svo á að heiminum sé stjórnað af framandi öflum, stefnum og straumum sem við sjálf fáum engu ráðið um. Voldug og víðtæk efnahags- og stjórnmálakerfi ráði lögum og lofum í veröldinni og við, einstaklingarnir, séum leiksoppar þeirra. Ég bið ykkur, kandídatar góðir, að forðast slíka örlagahyggju hversu sannfærandi sem hún kann að vera í ykkar huga. Hún lýsir uppgjöf okkar fyrir öflum ómenningar og er andstæð þeirri frelsistrú sem sönn mennta- og menningarviðleitni hvílir á. Menning okkar sprettur af endalausri baráttu gegn ómenningu í hvaða mynd sem hún birtist. Heimsmenning sem leggur þjóðmenningu í rúst er ómenning, höfuðborg sem skeytir ekki um landið sem hún þjónar er ómenning, framleiðslu- og markaðskerfi sem torveldar fólki að njóta einkalífs og sinna börnum sínum er ómenning. Ég neita að trúa því að þetta sé framtíðin. Framtíðin sem ég sé fyrir mér er þvert á móti heimsmenning sem lætur hverja þjóðmenningu blómstra, höfuðborg sem styður og eflir mannlíf á landinu öllu, atvinnu- og viðskiptalíf sem hlúir að öflugu og auðugu heimilis- og einkalífi fólks. Hvernig getur slík framtíð orðið að veruleika?

Lausnarorðið sem vafalaust kemur upp í hugum flestra er menntun og enn meiri menntun, þekking og enn meiri þekking. En hvers vegna menntun og þekking? Er það ekki einmitt menntunin sem vísar veginn til heimsmenningar, dregur fólk af landsbyggðinni, kallar fólk frá heimilum til starfa í atvinnulífinu? Er það ekki einmitt þekkingin, kunnáttan og tæknin með öllum sínum undrum sem veldur usla og upplausn í þjóðlífinu og ógnar þar með allri menningu? Hverju skal nú svara?

Svarið felst í því hvaða skilning við leggjum í orðin, "menntun" og "þekking". Ef við skiljum þau eingöngu sem heiti á þeim tækjum sem við höfum yfir að ráða til að ná meira valdi á ytri aðstæðum, framkvæma og breyta heiminum í þeim tilgangi einum að auka umsvif okkar og áhrif, án þess að skeyta um afleiðingar gerða okkar, þá eru þetta vissulega orð að sönnu: Menntunin og þekkingin vinna þá gegn þeirri menningu sem við viljum skapa. Ef við skiljum "menntun" og "þekkingu" sem heiti á möguleikum okkar til að endurskapa menninguna svo að hún stuðli að þroska hverrar manneskju, vexti hverrar þjóðmenningar, uppbyggingu hvers sveitarfélags, eflingu hverrar fjölskyldu, þá og einungis þá fá orðin "menntun" og "þekking" sína sönnu merkingu.

Háskóli Íslands vill vera mennta- og þekkingarsetur þar sem markvisst er unnið að því endurskapa og bæta menningu okkar og þjóðfélag í ljósi allra þeirra möguleika sem okkur eru tiltækir til að mynda skapandi þjóðmenningu, efla fjölbreytt menningar- og atvinnulíf á landinu öllu og stuðla að auðugu einkalífi þar sem enginn lendir utangarðs. Háskólinn hefur alla burði til þess að ná þessu stefnumarki svo fremi hann hafi stuðning þjóðarinnar til þess. Til þess að vilji almennings í landinu verði skýr þurfa tvær hugsjónir að setja mark sitt á stjórnmálalíf okkar: hugsjón lýðræðis og hugsjón jafnréttis. Ég vil því að endingu lýsa inntaki þeirra.

Lýðræði og jafnrétti

Hugsjón lýðræðisins felur í sér að það er lýðurinn, fólkið sjálft, sem tekur virkan þátt í ákvörðunum um sín sameiginlegu mál og kýs þá sem það treystir til að leiða umræðu, miðla málum og leiða þau til lykta á opinberum vettvangi. Ábyrg þátttaka almennings í stjórnmálum er forsenda þess að lýðræði nái að þroskast og sú þátttaka felur í sér að fólk hugleiði hvað er okkur sem heild fyrir bestu og hvað þurfi að gera til að bæta samskipti okkar bæði innbyrðis og við aðrar þjóðir. Þá er ekki síður mikilvægt að fólk fylgist með athöfnum valdahafa sem sækja umboð sitt og vald til fólksins sjálfs.

Hugsjón jafnréttisins felur á hinn bóginn í sér að fólki sé ekki mismunað með óeðlilegum hætti, heldur sé unnið að því gera öllum kleift að hafa aðgang að þeim gæðum sem þeir þarfnast. Jafnréttishugsjónin hvetur til þess að sífellt sé hugað að því að vinna gegn misrétti hvar sem þess gætir í samskiptum fólks, koma í veg fyrir að fólk sé útilokað, til dæmis frá því að taka þátt í stjórnmálum, komast í skóla eða eiga samneyti við aðra. Samkvæmt þessu er visst jafnrétti nauðsynlegt skilyrði fyrir eiginlegu lýðræði sem gerir ráð fyrir því að allir þjóðfélagsþegnar taki þátt í stjórnmálum lands síns. Um leið blasir við að án lýðræðis er tómt mál að tala um jafnrétti því án þátttöku alls þorra fólks í því að að vinna af heilindum og ábyrgð að því að gera heiminn að betri heimkynnum okkar allra verður jafnrétti aldrei að veruleika.

Ég bið ykkur, ágætu kandídatar, að hugleiða þennan boðskap og gagnrýna hann líka ef þið sjáið ástæðu til. Samfélag okkar allra, sem helgum líf okkar auknum skilningi á veruleikanum, er komið undir því að enginn láti sitt eftir liggja, heldur segi og geri það sem hugur hans eða hennar stendur til. Háskóli Íslands þakkar ykkur samfylgdina til þessa og væntir mikils af ykkur í framtíðinni.

Megi gæfa fylgja ykkar.

Páll Skúlason


Back to top