Markmið náms er mannleg skynsemi

Ræða háskólarektors við brautskráningu í Háskólabíói 3. febrúar 2001

Hvers vegna stundar fólk nám?

Ég óska ykkur, ágætu kandídatar, fjölskyldum ykkar og aðstandendum til hamingju með prófgráðuna og það nám sem þið eigið nú að baki. Á þessum tímamótum í lífi ykkar langar mig til að hugleiða með ykkur tilgang háskólanáms og markmiðin sem þið eða aðrir nemendur kunna að hafa með námi sínu. Þau markmið hafa iðulega verið greind í þrennt. Sumir nemendur eru að sækjast eftir tiltekinni kunnáttu sem getur nýst þeim til að vinna ákveðin verk eða gegna ákveðnum störfum í þjóðfélaginu. Aðrir stunda námið fyrst og fremst af áhuga á því að skilja ákveðin viðfangsefni óháð því hvort eða hvernig sá skilningur muni að öðru leyti nýtast þeim sjálfum eða þjóðfélaginu. Loks eru þeir sem með námi sínu hafa einkum í huga að afla sér reynslu og þekkingar, sem auðgar líf þeirra og kemur þeim til aukins þroska.

Þessi greining felur að sjálfsögðu ekki í sér að það megi draga ykkur, kandídatar góðir, í þrjá dilka, þá sem hafa kosið að afla sér starfsmenntunar, þá sem hafa stefnt að fræðilegri þekkingu og þá sem skoða nám sitt sem þroskabraut. Vera má að sum ykkar hafi þroskann að leiðarljósi, önnur skilninginn og enn önnur starfskunnáttuna. En mörg ykkar hafa vafalaust haft þetta allt í huga, þótt þið hafið gefið hverju markmiði fyrir sig mismikið vægi.

Nú er ekki víst að þið hafið lagt málin niður fyrir ykkur með þessum hætti eða hvort þið hafið hugsað út í það hvað vakti raunverulega fyrir ykkur með náminu. Og vel má vera að markmið ykkar með náminu sé ekkert þeirra sem ég hef nefnt, heldur eitthvað allt annað eins og það að ganga í augun á elskunni ykkar eða sýna heiminum og sjálfum ykkur að þið getið sigrast á hinum flóknustu þrautum fræðanna. Ef þið hafið ekki yfirvegað þetta skipulega þá hvet ég ykkur til að gera það og reyna þar með að átta ykkur betur á þeim öflum sem knýja ykkur áfram í lífinu. Það getur verið skemmtilegt að kynnast nýjum hliðum á þeim leyndardómi sem maður sjálfur er.

Ég vil einnig benda ykkur á að á bak við þessi þrjú ólíku markmið, sem ég skýrði áðan - fræðilega þekkingu, starfskunnáttu eða þroska -, kann að leynast enn annað markmið sem tengir þau öll saman og gefur náminu sinn eiginlega tilgang. Sú var kenning franska fræðimannsins René Descartes, sem hann orðar svo: "Markmið alls náms á að vera að leiðbeina huganum svo að hann felli áreiðanlega og sanna dóma um hvaðeina sem birtist honum." [1]

Að aga hugann

Við skulum staldra aðeins við þessa kenningu. Mannshugurinn hefur hæfileika til að nema það sem fyrir hann ber, skynja veruleikann. Hann er einnig gæddur ýmsu öðru, meðal annars minni og ímyndun. En veruleikaskynið, hæfnin til að nema eða skynja heiminn og gera sér ljóst hvað þar á sér stað, er það sem mestu skiptir; og kenning Descartes er sú að allt nám eigi að aga hugann og þjálfa hæfni hans til að gera sér ljósa grein fyrir veruleikanum. Þessi hæfni hugans hefur frá fornu fari verið talin greina mennina frá dýrunum. Maðurinn er skyni gædd skepna. Að þessu leyti eru allar manneskjur jafnar að dómi Descartes. Þær eru allar gæddar sams konar skyni til að nema veruleikann og fella um hann dóma. En það þarf að aga og þjálfa þetta veruleikaskyn og dómgreindina sem því er órofa tengd.

Snemma á ævinni setti Descartes sér nokkrar reglur til að aga skynsemi sína. "Fyrsta reglan var að hafa ekkert fyrir satt, nema mér lægi alveg í augum uppi, að svo væri, með öðrum orðum að forðast umfram allt hvatvísi og hleypidóma og kveða ekki á um neitt nema það, sem stæði mér svo skýrt og greinilega fyrir hugskotssjónum, að ég gæti með engu móti borið brigður á það."[2] Þessi regla er augljóslega í samræmi við markmiðið, sem Descartes taldi eiga við allt nám, nefnilega að læra "að stjórna huganum svo að hann felli áreiðanlega og sanna dóma um hvaðeina sem fyrir hann ber." Og þessi regla virðist sannarlega vera í fullu gildi hvort sem við stefnum með náminu að fræðilegum skilningi, starfskunnáttu eða auknum þroska. Í öllum tilfellunum skiptir höfuðmáli að forðast hvatvísi og hleypidóma.

Hvers vegna er þetta svona mikilvægt? Vegna þess að hvatvísi og hleypidómar valda misskilningi, vankunnáttu og ruglingi í hugum okkar, samskiptum og störfum. Og líf okkar allra er óneitanlega þessu marki brennt að einhverju leyti. Ótal margt, sem við höldum að sé satt, er sprottið af hvatvísi okkar sjálfra - tilhneigingu til að fallast á hugmyndir og skoðanir fyrirvaralaust - eða af hleypidómum - dómum sem við fellum að óathuguðu máli eða tökum umhugsunarlaust upp eftir öðrum. Reynsla okkar af veröldinni, öðru fólki og sjálfum okkur er gegnsýrð af hugmyndum og skoðunum sem þannig eru fengnar og eru ekki reistar á skynsamlegri hugsun okkar sjálfra. Og þetta gildir einnig um þjóðfélög heimsins, þar sem framkoma manna og framkvæmdir jafnt í efnahagslífi sem stjórnmálum kunna að ráðast af vanhugsuðum ákvörðunum sem rekja má til hvatvísi og hleypidóma.

Hleypidómur um hamingju

Ég mun nú nefna ykkur til umhugsunar, ágætu kandídatar, nokkrar hugmyndir og skoðanir sem við höfum tilhneigingu til að trúa að séu sannar, en eru í reynd vafasamar og geta jafnvel verið skaðlegar lífi okkar og velferð. Ég mun fyrst nefna tvo hleypidóma sem tengjast beint reynslu okkar og svo aðra tvo sem tengjast siðum og samskiptum í þjóðfélaginu.

Fyrst er það sú skoðun að því meir sem við eignumst eða öðlumst af veraldargæðum þeim mun sælli verðum við. Til allrar hamingju fer því fjarri að allir trúi þessu, en engu að síður virðumst við hafa sterka tilhneigingu til að halda að þetta sé satt: Eftir því sem við eignumst meiri peninga, öðlumst meiri völd eða njótum meiri frægðar þeim mun ánægðari og hamingjusamari verðum við

Rökin sem ég vil tefla fram fyrir ykkur gegn þessari skoðun eru eftirfarandi: Það getur enginn fengið sig fullsaddan af peningum, völdum eða frægð. Við manneskjurnar erum - að minnsta kosti á meðan við erum við sæmilega heilsu og með réttu ráði - bókstaflega óseðjandi í þessum efnum. Ég verð aldrei nógu ríkur, völd mín eru aldrei nægilega trygg eða frægð mín svo föst í sessi að ég geti sagt: Nú er ég sæll og hamingjusamur. Ástæðan er sú - eins og ótal spekingar hafa bent okkur á frá örófi alda - að hamingjan er ofin úr gæðum sem spretta af góðmennsku, andlegri og siðferðilegri auðlegð sem fátækir, valdasnauðir og óþekktir kunna að eiga ekki síður en þeir sem veraldargæða njóta í ríkari mæli.

Hleypidómur um eigin þekkingu

Nú vil ég nefna allt annars konar dæmi um hleypidóm sem tengist reynslu okkar. Sá hleypidómur stendur háskólafólki nær en sá sem ég var að rekja. Satt að segja hefur háskólafólk sjaldnast hugsað mikið um veraldargæði nema til þess eins að fá að stunda störf sín við viðunandi veraldleg skilyrði, viðunandi húsnæði, tækjabúnað og laun til að lifa. Þeir eru veikari fyrir þeirri tilhneigingu sem nú skal getið, en hún felst í því að halda að ef við kunnum eitthvað fyrir okkur á einu sviði, þá séum við sjálfkrafa fær í ýmsum öðrum efnum. Tilhneigingin er sem sé sú að telja að reynsla manns og kunnátta í einni grein geri mann hæfan og dómbæran um allt milli himins og jarðar. Óskólagengið fólk, sem byggir á brjóstviti sínu og reynslu, hefur oft skopast að langskólagengnum sérfræðingum sem þykjast hafa vit á öllum sköpuðum hlutum. Einkenni góðs fagmanns í hvaða grein sem er - í iðnaði sem bóklegum fræðum - er að þekkja takmarkanir sínar. Hitt er staðreynd - og af henni sprettur hleypidómurinn sem við er að etja - að öll kunnátta og reynsla getur veitt mönnum þvílíkt sjálfstraust að þeir telja sig færa og dómbæra í efnum sem í reynd eru ofvaxin skilningi þeirra og getu. Þessi hleypidómur er algengur meðal allra þeirra sem finnst að þeirra eigin reynsla og kynni af heiminum gefi þeim forsendur til að fella örugga dóma og mynda sér réttar skoðanir á hlutunum. Forsvarsmenn í stjórnmálum og frumkvöðlar í atvinnulífi eiga vafalaust í mestum vanda með að hemja hleypidómaáráttu sína í þessu tilliti. Þeir eru settir í þá stöðu að þurfa að mynda sér skoðun og taka afstöðu til alls kyns málefna sem þeir hafa í reynd takmarkaðar forsendur til að fjalla um af skynsemi.

Sú óskynsemi, sem oft einkennir umræður og ákvarðanir á opinberum vettvangi, stafar án efa af því að þjóðfélagið þrýstir fast á ráðamenn að taka ákvarðanir - og þá er freistandi að taka afstöðu án þess að yfirvega málin og efna til skynsamlegrar umræðu um þau meðal kunnáttumanna og almennings. Þá er ekki síður áhyggjuefni fyrir mannlega skynsemi að í þjóðfélaginu á hverjum tíma eru ævinlega ákveðnar hugmyndir ráðandi um það hvernig fólki er best að haga sér til að ná árangri í lífinu og hvers konar samskipti varði mestu máli fyrir uppbyggingu þjóðfélagsins. Þessar ríkjandi hugmyndir eru iðulega vafasamar og óskýrar, en samt eru þær oft taldar svo sjálfsagðar og eðlilegar að það gangi guðlasti næst að gagnrýna þær.

Samkeppni og sjálfsbjargarhvöt

Tvær samofnar hugmyndir drottna í þjóðfélaginu á okkar dögum. Önnur er sú að sjálfsbjargarhvöt einstaklingsins sé driffjöður framfara og framkvæmda. Hin er sú að samkeppni sé það samskiptaform sem efli menn mest til dáða og afreksverka. Önnur vísar á sjálfsbjargarviðleitni sem frumhvöt hverrar lífveru. Hin vísar á hina hörðu lífsbaráttu sem lífverur heyja sín á milli til að tryggja stöðu sína í heimi takmarkaðra lífsgæða. Báðar eiga þessar hugmyndir sér stoð í flóknum fræðikenningum um lífið almennt og mannlífið sérstaklega. Og báðar hafa þær margsannað gildi sitt í verki, ef litið er til þess sem einstaklingar hafa fengið áorkað þegar þeir hafa unnið að því að bæta eigin hag og til þess hversu mjög aukin samkeppni hefur orðið til bæta þjónustu, viðskipti og framleiðslu í efnahagslífi heimsins. Þegar framtak einstaklinga hefur verið bælt niður og þegar einokun hefur ríkt í efnahagslífi hefur þjóðfélagið verið á villigötum og mannfólkið hneppt í fjötra fávísra og forstokkaðra valdhafa og valdastéttar.

En þar með er ekki sagt að óheft sjálfsbjargarhvöt og frjáls samkeppni séu lausnarorð mannkyns til að leysa öll lífsvandamál sín. Verkefni hvers siðaðs samfélags er að sjá til þess að sjálfsbjargarhvöt hvers einstaklings verði ekki til að skaða aðra og að samkeppni einstaklinga og félagshópa verði ekki til að útiloka aðra þjóðfélagsþegna frá þeim gæðum sem þeir þurfa til að lifa. Forsenda siðaðs samfélags er vilji og viðleitni fólks til að vinna saman að því að efla og styrkja hvert annað til að takast á við lífið.

Það blasir því við að báðar hafa þessar hugmyndir sín takmörk sem ekki mega gleymast. Framkoma manna og framkvæmdir ráðast síður en svo allar af sjálfsbjargarviðleitni eða von um að bæta eigin hag. Margt sem fólk tekur sér fyrir hendur er fyrst og fremst hugsað til að koma öðrum til góða, ekki því sjálfu. Því fer einnig fjarri að samkeppni sé nauðsynleg til að hvetja menn til dáða og að hún leiði sjálfkrafa til góðs fyrir þjóðfélagið. Mörg afreksverk hafa verið unnin án samkeppni og samkeppni getur kynt undir illdeildum sem spilla þeim vináttuanda og þeim samstarfsvilja sem hverju samfélagi eru nauðsynlegir. Þess vegna skiptir miklu að fólk geri sér ljóst hvenær samkeppni á við og hvaða skilyrðum hún er háð eigi hún að hafa merkingu og vera af hinu góða.

Ég bendi á þetta, ágætu kandídatar, vegna þess að til ykkar eru gerðar og verða gerðar miklar kröfur um að þið standið ykkur í störfum ykkar og takið ótrauð þátt í þeim samkeppnisdansi sem nú er stiginn hvarvetna í þjóðfélaginu. Gætið vel að því hvar og með hvaða hætti þið gangið inn í þann dans sem ekki er bara leikur heldur dauðans alvara.

Takmarkanir samkeppninnar

Ég vil nefna tvennt sem hafa ber í huga þegar hvetja skal til samkeppni. Hið fyrra er að samkeppni getur einungis verið um takmörkuð og hverful gæði á borð við peninga, völd eða frægð. En það eru líka til gæði sem eyðast ekki þótt af þeim sé tekið, heldur blómstra því meir sem fleiri njóta þeirra. Þetta á við um þau gæði sem fólk finnur og skapar í listum og vísindum. Að þessu leyti er það annarleg hugsun eða jafnvel marklaus að fella listina og vísindin undir lögmál samkeppninnar.

Hið síðara sem ég vil hvetja ykkur til að gefa gaum er að samkeppni er marklaus og jafnvel háskaleg nema hún lúti reglum sem eru í senn skýrar, opinberar og kunnar öllum sem taka þátt í henni og fylgjast með henni. Upphaflega hefur "keppni" fyrst átt sér stað í íþróttum á borð við íslenska glímu þar sem aðeins einn gat að endingu orðið "glímukóngur" og orðið frægur sem slíkur. Í íþróttum fylgjast dómarar með því að leikmenn fari að settum reglum sem öllum eru ljósar og kunnar. Síðan virðist þessi hugsun um samkeppni í íþróttum færast yfir á önnur svið þjóðfélagsins þar sem menn leitast við að verða öðrum fremri eða ná meiru en aðrir af einhverjum afmörkuðum gæðum. Hér fer samkeppnin yfir á svið efnahagsins, þar sem fólk getur sóst eftir auði, og yfir á svið stjórnmála þar sem fólk getur sóst eftir völdum. Á þessum sviðum eru leikreglurnar ekki settar eða afmarkaðar með sama hætti og á vettvangi íþrótta. Og hér fylgjast dómarar ekki heldur með öllum gjörðum manna með sama hætti og gert er í íþróttum. Úr þessu er reynt að bæta með lagasetningu og eftirlitsstofnunum til að draga sem mest úr hættunni á því að menn beiti óheiðarlegum vinnubrögðum í samkeppnisbaráttunni.

En vandinn snertir ekki aðeins efnahagsmál og stjórnmál. Ef baráttuandi samkeppninnar verður allsráðandi í samfélaginu, þá er hætt við því að sú samstaða og það traust sem þörf er á jafnt í einkalífi sem á opinberum vettvangi fari veg allrar veraldar. Þá fær hvatvísi manna byr undir báða vængi og hleypidómarnir leika lausum hala í áróðri og auglýsingum þar sem reynt er að hafa áhrif á veruleikaskyn fólks.

Lokaorð

Við lifum sannarlega á tímum þar sem mikið reynir á skyn mannfólksins og hæfni til að nema veruleikann. Oft kann óskynsemi að virðast tröllríða svo heiminum að fokið sé í flest skjól og engum vörnum verði við komið. En sú afstaða eða skoðun er fjarri því að vera í anda mannlegrar skynsemi. Það er vissulega rétt að við mennirnir högum okkur oft ekki skynsamlega og hneppum okkur jafnvel í fjötra óskynsamlegra þjóðfélagskerfa. En ef við getum gert okkur þetta ljóst, þá er það vegna þess að við erum að reyna að hugsa eftir skynsamlegum leiðum, að skynsemin er markmiðið, ljósið sem við tökum mið af og eigum að láta lýsa okkur eins og kostur er.

Hér er komið að eiginlegum tilgangi alls náms. Hann er sá að gera okkur að meiri og betri manneskjum, meiri og betri skynsemisverum. Nánar sagt: Tilgangurinn er sá að gera okkur kleift að takast á við þá óskynsemi sem er að verki bæði í okkar eigin reynsluheimi og þjóðfélaginu sem við tilheyrum.

Um leið og ég þakka ykkur, ágætu kandídatar, fyrir dvölina í Háskóla Íslands er það ósk mín til ykkar, að þið látið ljós ykkar eigin skynsemi lýsa ykkur um ókomin ár.

Megi gæfan fylgja ykkur.

Páll Skúlason

 

[1] Regulae ad directionem ingenii, fyrsta regla.

[2] Orðræða um aðferð, Reykjavík 1991, bls. 79.


Back to top