Vitið og aflið

Örstuttur inngangur að siðfræði stjórnmálannal*

Áhrif heimspeki á stjórnmál sjást skýrast annars vegar í stjórnarskrám og stjórnskipun ríkja, hins vegar í tilteknum stjórnmálastefnum og stefnuskrám stjórnmálaflokka. Í stjórnar­skrá íslenska ríkisins eru meðal annars mikilvæg ákvæði um þrískiptingu ríkisvaldsins, um náttúruleg réttindi einstaklingsins og um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Þessi ákvæði eru sótt beint í heimspekileg fræði og kenningar. Hin beinu tengsl stjórnskipunar okkar og heimspekikenninga eru samt sjaldan rædd eða rakin í opinberri umræðu um stjórnmál, þó að þar sé að finna siðferðilegan grunn stjórnmálanna.

Heimspekilegur og siðferðilegur grunnur stjórnskipunar okkar og þeirrar stjórnmálastarfsemi, sem hún rúmar og kveður á um, kemur að sjálfsögðu ekki fram í daglegri stjórnmála­umræðu, vegna þess að hann er undirstaða hennar en ekki viðfangsefni. Ef þegnarnir draga þessa undirstöðu alvarlega í efa, hriktir í stjórnkerfinu öllu. Þetta stafar af því að innviðir stjórnkerfisins eru hugmyndalegs eðlis og standa eða falla með því hvort fólk viðurkennir þá eða ekki. Fólk, sem neitar að hlýða réttmætum fyrirmælum stjórnvalda, heggur að stoðum tiltekinnar stjórnskipunar, hvort sem því er það ljóst eða ekki. Sjálfstæðisbarátta þjóða eða þjóðarbrota innan eins og sama ríkis sýnir glögglega hið hugmyndalega eðli stjórnmála. Á­stæður baráttunnar geta verið af ýmsum toga, svo og baráttu­tækin, en sjálf baráttan snýst um að fá viðurkenningu á sjálfs­ákvörðunarrétti um eigin málefni.

Frá fornu fari hafa menn deilt um hvort þær rætur réttmætis og viðurkenningar, sem öll stjórnskipun er háð og gerir kröfu til, liggi fremur í skynsamlegri afstöðu þegnanna eða aflsmuni þeirra, hvort það sé aflið eða vitið sem sé grunnur réttmætis og viðurkenningar í stjórnmálum. Það má hugsa sér tengsl stjórn­mála og heimspeki á ólíka vegu eftir því hvort lagt er meira upp úr aflinu eða vitinu.

Ef áherslan hvílir öll á aflinu, skoða menn stjórnmálin sem valdabaráttu og hrossakaup eingöngu. Innan heimspekinnar eru mál rædd og valdi ekki beitt. Verður hún því með tilliti til stjórnmála óraunsæ viðleitni til að skýra eða réttlæta ákvarðanir eða aðgerðir sem í reynd ráðast af afli eða aflsmun þeirra sem í hlut eiga. Heimspekin verður tæki til yfirbreiðslu og áróðurs („hugmyndafræði“), því að það sem skiptir sköpum er ekki vitið, ekki skynsamleg réttlæting, heldur aflið, mátturinn til að ná fram vilja sínum og efla eigin hag.

Ef áherslan hvílir öll á vitinu, skoða menn stjórnmálin sem viðleitni til að taka ákvarðanir um það sem mönnum er fyrir bestu og réttlátt er fyrir alla sem í hlut eiga. Frá þessum sjónar­hóli er heimspekin í senn gagnrýni á stjórnskipun og stjórnarfar (að svo miklu leyti sem þau samrýmast ekki réttlætinu eða þjóna ekki almannaheill) og tilraun til að hugsa réttláta stjórnskipun og gott stjórnarfar.

Þessi einföldu frumatriði er nauðsynlegt að hafa í huga, ef ræða skal um siðferði stjórnmálanna. Siðir eða ósiðir í stjórn­málum ráðast fyrst og fremst af því hvort lagt er meira upp úr vitinu eða aflinu, hvort það er valdið eða skynsemin sem á að hafa forgang.

Birtist í Dagblaðinu Vísi  25. júlí 1986.


Back to top