Heim að Hólum

Ræðan fjallar um mikilvægi Hóla og sérstöðu í sögu, náttúru og hugarheimi Íslendinga.

Höldum heim að Hólum

Ræða á Hólahátíð 17. ágúst 2008

Á 900 ára afmæli Hólaskóla og Hólastóls fyrir tveimur árum gáfu háskólar landsins Hólaskóla stein sem lagður var í biskupsgarðinn til hliðar við skólabygginguna. Listamaðurinn, Kristinn E. Hrafnsson, hafði letrað á hann eftirfarandi orð: „Hér og þar og þá og nú – staðurinn.“ Og nú erum við stödd á Hólum hér og nú. Flest vorum við stödd annars staðar fyrir stundu og förum af staðnum innan tíðar. Hólar eru staðurinn. Hvað merkir þetta? Hvaða þýðingu hafa Hólar fyrir okkur?

Leiðum fyrst hugann að því hvar Hólar eru. Staðurinn er í dal sem kenndur er við Hjalta landnámsmann, sem bjó á Hofi hér rétt framan við Hóla. Ég ímynda mér að Hjalti hafi kunnað að meta þá mögnuðu sýn sem birtist þegar komið er inn í dalinn og Hólar og Hof blasa við. Við deilum þessari skynjun með Hjalta í hvert sinn sem við ökum inn dalinn, sem liggur á miðju Norðurlandi þaðan sem stutt er til allra annarra höfuðbóla. Þá leið mætti stytta enn frekar, eins og oft hefur verið bent á, með göngum undir Hjaltadalsheiði yfir í Hörgárdal, en þá yrði Hólastaður í þeirri alfaraleið sem honum ber.

Með þeirri samgöngubót myndu Norðurland vestra og Norðurland eystra tengjast miklu nánar, öll byggð Norðanlands stóreflast og styrkjast og Hólar gætu rækt mikilvægt menningarhlutverk sitt enn betur.

Þýðing Hóla bæði í táknrænni og bókstaflegri merkingu er í hugum okkar Íslendinga tær og skýr. Hólar hafa verið staðurinn þar sem fólk hefur endurheimt trúna á lífið og sjálft sig frá því Jón Ögmundarson, fyrsti biskupinn, kallaði fólk reglubundið heim að Hólum til að rækta trú sína og öðlast andlegan styrk. Síðan þá hefur hver trúarsigurinn á fætur öðrum verið unnin á Hólum, þrátt fyrir hörmungar og viðburði sem ala á vonleysi og vantrausti í samskiptum fólks, eins og þegar Hólar þurftu að horfa upp á lík Jóns Arasonar borið fram dalinn og kirkjuklukkan sjálf sprakk af trega. Og mikil var niðurlægingin í upphafi 19. aldar þegar Auðunarstofa var rifin og seldir úr henni viðirnir til að sefa sárasta hungrið um stund. En Hólar hafa alltaf risið upp á ný. Styrkur Hólamanna felst í að sigrast á hverri raun og hefja kyndil trúarinnar svo að hann lýsi með nýjum og frumlegum hætti. Prentun hinnar fyrstu íslensku biblíu ber hér vafalaust hæst, en Guðbrandur Þorláksson, einn merkasti biskup Hóla eftir siðbreytinguna, stóð fyrir henni, eins og alkunnugt er.

Á Hólum hefur orka trúarinnar verið virkjuð gegnum aldirnar á svo öflugan hátt að Íslandssagan væri ekki svipur hjá sjón án þeirra menningarverka sem hér hafa verið unnin. Aðeins einn annar staður á Íslandi hefur sambærilega merkingu en það er Skálholt. Hólar norðanlands, Skálholt sunnanlands. Þetta voru tvær merkustu menntastofnanir landsins um níu alda skeið. Þær mynduðu frá upphafi náin tengsl við erlend fræðasetur og fluttu heim þekkingu, hugmyndir, kenningar, tækni og margvíslega kunnáttu sem síðan var miðlað um landið allt.

Grunnur þekkingar og skilnings, lærdóms og visku er trúin, trúin á hið sanna og rétta – á mátt mannsandans til að glíma við allar gátur og takast á við allar þrautir. Sá máttur byggist á lotningu fyrir leyndardómum tilverunnar og trausti á enn æðri mátt sem sjái til þess að Sannleikurinn og Réttlætið sigri að endingu, þrátt fyrir allt hið illa í heiminn. Og trúin þarfnast staða sem eru helgaðir ræktun hennar og ástundun æðri verðmæta, virkjun andlegra krafta fólks til að hugsa saman, vinna saman, treysta á guð og gæfuna og umfram allt að treysta hvert öðru.

Hólar eru slíkur staður. Þeir eru staðurinn sem sigrast á vonleysi og vantrausti, staður þar sem kynnt er undir heilbrigðri hugsun og heilsteyptum áformum, staðurinn þar sem menn verða aftur heilir. Þannig urðu Hólar til fyrir rúmum 900 hundruð árum í vitund og huga þess fólks sem þá hafði í tæpar tvær aldir byggt þetta harðbýla land og átti enn í miklu basli með að mynda eina heild, verða heilsteypt samfélag. Hólar sameinuðu tvístraða þjóð um og uppúr aldamótunum ellefu hundruð. Að sjálfsögðu voru það kröftugir einstaklingar á borð við Jón Ögmundarson, sem gerðu staðinn að því sem hann varð. En staðurinn sjálfur frá náttúrunnar hendi gerir meira en að hjálpa til: Hann laðar fólk til sín í krafti magnaðra hlutfalla milli fjalla og dals og fegurðarinnar sem skapast þegar birta himinsins leikur um þau með öllum sínum tilbrigðum.

Sú ákvörðun að gera Hóla að menningarlegum höfuðstað Íslands norðanlands hefur byggst á háþroskaðri náttúruskynjun um leið og tekið var mið af því að staðurinn var í næsta nágrenni við höfnina á Kolkuósi og í alfaraleið þegar fólk ferðaðist fótgangandi eða á hestum yfir heiðarnar. Þá þurfti ekki að leggja lykkju á leið sína til að halda heim að Hólum eins og nú er, heldur lágu allar leiðir til Hóla. Og þannig á það að vera, og ég er sannfærður um að þannig mun það aftur verða. Hér er í húfi annað og meira en það að Skagfirðingar og Eyfirðingar aki Hólahringinn á sunnudögum sem vafalaust verður mjög vinsælt. Með Hjaltadalsgöngunum verða Skagafjörður og Eyjafjörður að einu mannlífssvæði sem öðlast margfalda möguleika á að laða til sín fólk og fyrirtæki og hlúa að blómlegri byggð.

Hólar hafa leikið lykilhlutverk í Íslandssögunni og ég er sannfærður um að staðurinn eigi eftir að skipta sköpum fyrir tilvist Íslendinga í framtíðinni. Ég er ekki einn um þessa sannfæringu. Á Hólahátíð 15. ágúst 1965 flutti Þórarinn Björnsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, ræðu undir fyrirsögninni, „Heim að Hólum“, og hóf mál sitt svo:

„Enn sækja menn „heim að Hólum“, og er það vel. Ef til vill hefir þess ekki oft verið meiri þörf en einmitt nú, þegar allt er á hverfanda hveli. Einn djúptækasti og erfiðasti vandi nútímans er sennilega sá, að við erum of margir, sem vitum ekki, hvar við eigum heima. Þó að efinn geti verið frjór og góður til varnar gegn stöðnun og ofstæki, og þó að hann hafi sinn þátt í þeim framförum vísinda og tækni, sem nú ber hæst, er hjartanu ekki hollt að eiga sér hvergi samastað.“[1]

Þórarinn sá viss einkenni á samtíma sínum sem hann óttaðist að stæðu okkur fyrir þrifum og yrðu til þess að við flosnuðum upp í andlegu tilliti og misstum tengslin við sjálf okkur og veruleikann, yrðum tómhyggjunni að bráð, þeim hugsunarhætti að ekkert skipti í sjálfu sér máli, hver og einn skeyti ekki um annað en að skara eld að eigin köku.

Og af hverju skyldi þetta stafa? Ég gef Þórarni aftur orðið:

„Sá tómleikabragur, sem oft er á allsnægtalífi nútímans, stafar af því, að minni hyggju, að öll orkan er ekki með í leiknum. Menn lifa ekki fullu lífi. Trúarorkan hefur orðið útundan. Það er ekki lifað fyrir neitt, sem hefur okkur yfir eigingirni og stundarhag. Og maðurinn verður haldinn vöntunarkennd, ófullnægjutilfinningu, sem ýmist verður að lamandi þreytu eða ertandi óróleika. Þetta þekkjum við eflaust mörg, ýmist á sjálfum okkur eða þeim, sem eru í kringum okkur“.[2]

Hér er á það minnt á skýran hátt að við erum hugsandi verur sem þurfum að fá að vaxa og dafna eftir okkar eigin andlega eðli, þar sem trúin, lífsviðhorfið, skiptir öllu máli. Allsnægtir nútímans, allir þeir veraldlegu hlutir, tæki og tól, sem við kunnum að sækjast eftir, munu aldrei geta fullnægt okkar andlega eðli. Satt að segja getur ekkert fullnægt okkur nema hið sanna, fagra og góða. Að þessu leyti höfum við ekki breyst frá örófi alda. Trúin og listin, vísindin og viskan, heimspekin og hugmyndirnar, þetta eru þær lindir sem einar geta svalað andanum og gert honum kleift að skynja veruleikann og takast á við hann af heilindum með hugsunum sínum og verkum.  Þórarinn varpaði fram þeirri hugmynd að á Hólum yrði andleg aflstöð, „óháð öllu nema guði og samviskunni“.[3] Þar fengju þessar uppsprettulindir andans að njóta sín.

Síðan Þórarinn setti þessa hugmynd fram hafa Hólar vissulega eflst að öllu leyti og þeir eru sannarlega orðnir að „andlegri aflstöð“ sem sést best á öflugu menningarstarfi og því að Hólaskóli er orðinn fullgildur háskóli með sterk alþjóðleg tengsl á ýmsum fræðasviðum og með forystuhlutverk í vissum greinum, svo sem vatnalíffræði, hestafræðum og ferðamálafræði. Hér er skapandi menntasetur sem æ fleiri hvaðanæva úr heiminum vilja sækja heim til að leita sér andlegs þroska, svala þekkingarþrá sinni og virkja orku sína til trúar- og sannleiksleitar.

En verkefnið framundan er sannarlega viðamikið og Hólar þurfa að eflast enn frekar til að leggja grunn að heimi framtíðar.

Til að reyna að átta okkur ofurlítið á þeirri flóknu veröld sem við lifum í og hvers vegna Hólar skipta höfuðmáli við að móta heim framtíðar, skulum við ímynda okkur að við búum í raun ekki í einum heimi, heldur þremur ólíkum heimum sem lúta hver um sig ólíkum lögmálum. Fyrsta heiminn skulum við kalla náttúruheim, annan heiminn hugarheim, en þriðja heiminn skulum við kalla merkingarheim.

Við fæðumst inn í náttúruheiminn, þetta er heimur í tíma og rúmi fullur af skringilegum verum og þeirra á meðal eru þessi mannkríli, sem við sjálf erum. Svo uppgötvum við smám saman hugarheiminn sem hvert okkar ber með sér, heimur þar sem lögmál ímyndunar,  drauma og tilfinninga ráða ríkjum. Sjálf erum við íbúar í eigin hugarheimi og annarra; hér gerum við okkur hugmyndir um allt milli himins og jarðar og mótum álit okkar á sjálfum okkur og öðrum. Þriðji heimurinn er heimur tákna og merkingar sem hefur sjálfstæða stöðu gagnvart huga hvers okkar og við uppgötvum þennan heim þegar við öðlumst vald á máli. Tungumálið og alls kyns táknmál veita okkur aðgang að merkingarheiminum en hann er í rauninni ósýnilegur og á vissan hátt yfir rúm og tíma hafinn. Bókin geymir þennan heim sérstaklega vel, en í raun eru lög og reglur þjóðfélagsins, lögmál og kenningar vísinda, hugtök og heiti hversdagsmálsins, íbúar í þessum heimi. Sagan er fyrst og fremst varðveitt í þessum heimi, þótt hún sé líka geymd í náttúrunni eins og fornleifarannsóknirnar hér á Hólum hafa rækilega sýnt.

Ef þið, áheyrendur góðir, mættuð velja einn af þessum heimum sem ykkar aðalheim, hvern mynduð þið velja? Myndið þið kjósa að dvelja sem mest í eigin hugarheimi eða ferðast um heim náttúrunnar eða leita sem oftast inn í merkingarheiminn sem táknmálin standa undir og miðla til okkar?  Valið er fjarri því að vera auðvelt vegna þess að til þess að vera við sjálf, þroskast og menntast, þurfum við kynnast náið þessum heimum öllum og umfram allt að kunna að fara á milli þeirra og stilla þá saman í daglegum raunveruleika okkar. Þetta er ekki einfalt mál. Hér reynir stöðugt á dómgreind okkar og hæfni til að sjá og skilja hvað máli skiptir. Vera má að listirnar gegni hér lykilhlutverki í lífi okkar með því að virkja saman öfl náttúru, huga og merkingar. Tónlist og myndlist eru skýr dæmi um þetta og líka ljóðlistin þegar skáldið nemur sjálft mál náttúrunnar, eins og Jónas Hallgrímsson kunni að gera að sögn Gríms Thomsen sem kvað um Jónas: „Náttúrunnar numdir mál/ numdir tungur fjalla/ svo að gastu stein og stál/ í stuðla látið falla.“

Við sem ekki erum skáld þurfum engu síður en skáldið að láta heima náttúru, huga og merkingar ríma saman í okkar daglega lífi. Það er ekki auðvelt vegna þess að náttúruheimurinn er óendanlega margbrotinn, hugarheimarnir eru margir og merkingarheimurinn samsettur úr ótal undirheimum, ef svo má komast að orði. Hvernig í ósköpunum eigum við að fara að því að stilla alla þessa heima saman í raunveruleikanum svo að þeir styðji hver við annan? Vandinn lýsir sér meðal annars í því að heimarnir eru aðgengilegir á ólíka vegu: Merkingarheimurinn kallar á málakunnáttu, náttúruheimurinn kallar á hæfileika skilningarvita og líkamlega færni og hugarheimurinn kallar á gáfur tilfinninga og ímyndunarafls.

Nú hef ég enga lausn á þeim samstillingarvanda sem hér blasir við og varpa fram þeirri tilgátu að villuráf okkar og misheppnuð viðleitni til að leysa lífsvandamálin stafi ekki síst af því hve erfitt getur reynst að samræma hina ólíku  heima og eyða þeirri togstreitu sem sífellt kann að skapast á milli þeirra. Samstillingin þarf að fara fram hið innra með hverju okkar og hún þarf að tryggja frjó tengsl og tjáskipti við hugarheima annarra og við hina heimana tvo, heim náttúru og heim merkingar. Slíkt gerist fyrst og fremst þegar við tölum saman og deilum tilfinningum og hugsunum. Slíkt á sér á hinn bóginn ekki stað þegar við verslum vegna þess að þá erum við að skiptast á hlutum sem ekki eru partur af hugarheimi okkar, heldur af heimi náttúru eða merkingar. Peningar eru einmitt tæki sem við notum til að skiptast á slíkum hlutum sem hægt er að versla með. Með tilfinningar og hugsanir er einfaldlega ekki hægt að versla, þótt hægt sé að versla með alls konar upplýsingar. Þess vegna trufla peningar öll andleg samskipti fólks. Og við þetta bætist að oft teljum við ranglega að hægt sé að nota peninga til að stýra  öllum samskiptum okkar og leysa allan vanda. Í raun eru peningar verkfæri, sem eru hluti af merkingarheimi okkar eins og lög og umferðareglur, verkfæri sem við notum fyrst og fremst til að greiða fyrir ópersónulegum viðskiptum okkar.

Af þessu leiðir að ef og þegar fólk leggur peninga eða sambærileg ytri tæki til grundvallar mannlegum samskiptum, þá leiðir það fyrr eða síðar til vandamála sem engin leið er að leysa af skynsemi. Saga mannkyns er full af dæmum um hörmungar sem af þessu spretta. Þess vegna er peninga- og neysluhyggja nútímans alvarlegt áhyggjuefni því hún skaðar fjölda fólks og stendur í veginum fyrir heilbrigðri viðleitni til að menntast og þroskast. Þess vegna þarf að skera upp herör gegn þessum válega sjúkdómi sem herjar á heilbrigða skynsemi fólks.

Ekki er auðvelt að benda á einfalda lækningu, en sjálfur er ég sannfærður um að ein forsenda hennar sé  stóraukið lýðræði. Það getur enginn haft vit fyrir fólki, það verður að ráða sér sjálft og verkefnið er að finna út hvernig það verður best gert á hverjum tíma. Eiginlegt lýðræði felst í því að hver borgari er skyldugur til að axla þá ábyrgð að hugsa um almannaheill og vera reiðubúinn, ef svo ber undir, að taka að sér að stjórna sveitarfélaginu, borginni eða ríkinu. Til að efla lýðræðið skiptir mestu að almenningur, lýðurinn, hugsi um það sem horfir til heilla fyrir hópinn allan, ekki fyrir tiltekna sérhagsmuni. Um það snúast stjórnmál og ekkert annað: Að skilja hvað er til góðs fyrir hagsmuni okkar sem heild hugsandi vera sem deila lífinu og verða að læra að virða hver aðra. Verkefnið hefst í hugarheimi hvers okkar, þar eigum við í stöðugri glímu við sjálf okkur og aðra og þar ræðst að endingu hvernig til tekst.

Og þessu verkefni sinnum við sennilega hvergi með áhrifameiri hætti en þegar við leggjum stund á lýðræðisleg stjórnmál og einbeitum okkur að því að taka ákvarðanir í ljósi hugmynda sem horfa til góðs fyrir heildina.

Ein hugmynd sem brýnt er að skýra og skerpa er hugmyndin um „þekkingarsamfélagið“ sem leitar æ meira á eftir því sem iðkun vísinda og fræða hefur orðið mikilvægari. Menntun í þágu þekkingar og skilnings sem við deilum og miðlum á milli okkar er hugsanlega mikilvægasta leiðin til að losa sig úr viðjum neyslu- og peningahyggju um leið og hún leggur grunninn að skynsamlegri öflun og nýtingu veraldargæða í þágu mannlífs þar sem reisn og tign manneskjunnar, menningarinnar og náttúrunnar eru virt. Þess vegna hafa skólar landsins með háskólana í broddi fylkingar orðið svo þýðingarmiklir í þeirri þjóðfélagsbaráttu sem nú á sér stað. Þeirra hlutverk á að vera að tryggja að við öðlumst í senn þá þekkingu sem leggur grundvöll skilnings á veruleikanum, þá kunnáttu sem þarf til að skapa gróskumikla verkmenningu og þá visku sem segir okkur hvað máli skipti í veröldinni. Hér snýst allt um það að efla hugann svo að hann fyllist af þeirri andlegu orku sem ein getur gert okkur kleift að stilla saman heimana þrjá sem mynda raunveruleika okkar daglega lífs.

Ef við lítum til baka og leggjum mat á ákvarðanir og framkvæmdir forfeðra okkar og formæðra á miðöldum og fram yfir siðaskipti, þá blasir við hvernig þeim tókst að skapa sjálfstæða og frjóa menningu með því að rækta huga sinn, hæfni til að nema náttúruna og greina merkingu hlutanna. Þau sýndu með því fyrirhyggju og trúmennsku við okkur sem vorum þeirra komandi kynslóðir. Þau lögðu auðævi sín í rándýr handrit, þýðingar, prentverk og bækur, sem þau vonuðust til að yrðu niðjum þeirra veganesti um ókomna tíð.

Þetta veganesti kunnu forfeður okkar og formæður að 19. öld að nýta sér til fullnustu í sjálfstæðisbaráttunni um leið og þau lögð grunn að því samfélagi sem þróaðist á síðustu öld.

Nú er eftir okkar hlutur að ákveða hvað við getum lært af gengnum kynslóðum og gert skynsamlegast til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Verkefnið er það sama, þótt ytri aðstæður og umhverfi virðist allt með öðrum hætti en áður var. Vissir hlutir standa þó óhaggaðir.

Góðir hátíðargestir, Hólar hafa frá öndverðu íslenskrar vitundar sameinað heimana þrjá, náttúruheiminn, hugarheiminn og merkingarheiminn, sem við þurfum að kynnast og læra að stilla saman. Um leið hafa Hólar átt ríkan þátt í að skapa þann raunveruleika sem við Íslendingar eigum sameiginlega og deilum með þeim sem sækja okkur heim. Hlutverk Hóla á liðnum öldum, þýðing þeirra í nútímanum og gildi þeirra fyrir framtíðan hvílir á þessum einstaka samstillingarkrafti sem ég held að allir skynja sem til Hólastaðar koma. Þess vegna eigum við Íslendingar að leggja höfuðkapp á að styðja við það mikla uppbyggingarstarf sem fram fer á Hólum.

Þegar við höldum „heim til Hóla“ vitum við að við stefnum til staðarins þar sem „hér og þar, og þá og nú“ sameinast og heimurinn birtist í heild sinni sem sannur, fagur og góður. Á hverju sem dynur.

 

Páll Skúlason



[1] Rætur og vængir II, bls. 250.

[2] Sama rit, bls. 254.

[3] Sama rit, bls. 255.

 

 

Heim að Hólum

 


Back to top